21.11.1978
Sameinað þing: 25. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

35. mál, bundið slitlag á vegum

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. lengi. Ég vil þakka ýmsum hv. þm., sem hafa tekið til máls, fyrir stuðning við þessa till. Hins vegar hefur margt komið fram í þessum umr. sem ástæða væri til að ræða örlítið nánar. Ég vil undirstrika það sem hv. þm., sem síðast talaði hér, sagði, að það, sem þarf að gera, er auðvitað að einbeita sér að því að gera sér grein fyrir hvernig sé hægt að auka hraða á vegaframkvæmdunum og fjármagna með lánsfé þau verk sem tvímælalaust eru arðgæf að allra manna yfirsýn. Það er mergurinn málsins.

Hv. þm. sagði að þessi mál bæri nokkuð undarlega að, nefndi t.d. till. þeirra sjálfstæðismanna, og einnig geri ég ráð fyrir að hann hafi haft í huga þennan tillöguflutning minn og okkar sem flytjum þessa till. En ég get sagt það í hreinskilni fyrir mitt leyti, að ég hef til skamms tíma verið í vafa um hvort menn ættu að gera sérstakt átak í þessu efni á þennan hátt. Ég hef hins vegar, svo lengi sem ég hef unnið að afgreiðslu þessara mála frá því að ég kom fyrst á þing, gert mér ljóst að þetta er brennandi mál fyrir alla þm. og ekki síst þá sem eru utan af landi þar sem samgönguskilyrði eru verst. Það hefur alltaf brunnið á okkur, hve lítið er til skiptanna í hvert sinn, og svo sú hugsun — ekki síst í seinni tíð þegar bílafjöldinn vex meira en vegagerðin er í raun fær um að mæta — hvernig væri helst hugsanlegt að fá meiri peninga til vegagerðarinnar. Og það hefur borið að þessum brunni fyrir mér, að mér hefur sýnst að þetta væri helsti möguleikinn: að taka úr afmarkað verkefni, sem tiltölulega auðvelt er að sýna fram á að sé arðgæft. Hugsun mín hefur staðnæmst við þetta að lokum. Og verður svo til þess, að ég á þátt í því að flytja þessa till. núna.

Stefán Valgeirsson og fleiri hafa lagt áherslu á að það verði ekki síður að líta á þá vegarkafla sem nú séu fjölfarnari en hringvegurinn er að hluta. Þetta er allt saman skiljanlegt, og ég kom inn á þetta í framsöguræðu minni, eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson minntist á. Við tillögugerðina varð þó ofan á að miða tillgr. við eitt meginverkefnið, þ.e.a.s. hringveginn og lengstu vegina út frá honum, sem þarf til þess að tengja stóra landshluta eins og Vestfirði og Snæfellsnesið. Um það má alltaf deila, hvernig till. á að orða. Mér finnst mjög eðlilegt að þingnefndin gaumgæfi það, ef hún á annað borð vill leggja þessu máli lið hvort ástæða sé til þess að orða þetta öðruvísi. En ég lít á það sem mikið atriði, að vegur umhverfis landið sé góður, líka fáfarnari kaflarnir, vegna þess að hringvegurinn tengir saman byggðir landshlutanna.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson var í dálitlum vafa um að það væri skynsamlegt að gera áætlun um vegaframkvæmdir til margra ára vegna þeirra mörgu óvissuþátta sem þar verða. Menn getur náttúrlega greint á um þetta. Hins vegar held ég, eins og ég kom að í frumræðu, að það gæti verið mikilvægt vegna framkvæmda og vegna hagkvæmni í lagningu slitlagsins að gera áætlanir langt fram í tímann. Ég held líka að það sé auðveldara að gera slíka áætlun til langs tíma einmitt um afmarkað verk eins og lagningu slitlags, því að það er ekki mjög flókið mál. Að vísu er það rétt, sem fram kom hjá hv. þm. og ég vék líka að og lagði áherslu á, að nú er verið að kanna og þreifa sig áfram með mismunandi gerðir af slitlagi, og það getur haft sín áhrif, en ekki í þeirri veru að það torveldi að gera sér framkvæmdaáætlun til langs tíma. Auðvitað yrði það svo um slíka langtímaáætlun eins og allar langtímaáætlanir, að það þarf að endurskoða þær alltaf öðru hverju. En það er skoðun mín að það væri hagkvæmt að gera sér slíka áætlun nú.

Hv. þm. hefur farið eins og mér, þegar ég kom til Færeyja í fyrsta og eina skiptið nú fyrir stuttu, að undrast vegagerð þeirra nokkuð. Þó er það svo, að vegirnir þeirra, sem þeir eru búnir að leggja á slitlagið, eru ekki lengri en ca. 1/4 af vegunum í stærri kjördæmunum á Íslandi. Ég held að þeir séu ekki lengri. Þetta skýrir málið nokkuð og eins hitt, að ég hygg að þeir hafi stuðning frá danska ríkinu til vegagerðar. Ekki þekki ég þetta, en það hygg ég þó að sé.

Hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni leist ekki á þessa till. á aðhaldstímum. Út af fyrir sig get ég vel skilið það. Ég er hins vegar ekki á sama máli. Ég held að þó við stöndum nú í því að reyna að hægja á verðbólguhjólinu og beita aðhaldi á ýmsum sviðum, þá þurfum við samt sem áður, eins og ég vék að í frumræðu, að hugsa fram í tímann, gera okkar áætlanir og undirbúa verk. Við megum ekki sökkva okkur svo niður í viðureignina við verðbólguna, að við horfum ekki neitt lengra fram í tímann og reynum að gera okkur grein fyrir því, hvað fram undan sé, einnig á framkvæmdasviðinu. Allt þarf þetta sinn tíma.

Ég hef ekki trú á því, sem fram kom hjá hv. þm. Sverri Hermannssyni, að þeir félagar hafi lokið slíkri áætlunargerð að þar þurfi ekki framar á að líta. Það væri óvenjulegt miðað við vinnubrögð okkar hér í lýðfrjálsu landi og hér á hv. Alþ., ef við hefðum tilhneigingu til að skoða drög þessi eitthvað nánar. Ég held því, að það þurfi í þetta nokkurn tíma. Og ég legg enn og aftur áherslu á þetta atriði, einmitt út af ummælum hv, þm. Gunnlaugs Stefánssonar, að við megum ekki varpa frá okkur og leggja alveg til hliðar verkefni sem tvímælalaust spara útgjöld, en alveg sérstaklega gjaldeyri.

Ég hafði dálítið gaman af því, — þetta er ungur þm., — að honum sýnist að þunginn í vegaframkvæmdum hefði fylgt ráðh. nokkuð. Mig minnir að Ingólfur Jónsson væri lengi samgrh. En hvort sem hann var það lengur eða skemur, þá var þannig komið á þeim árum að slitlagsframkvæmdir hérna í kringum Reykjavík voru orðnar alveg óhjákvæmilegar. Það var búið að draga svo lengi að leggja slitlag á þessa umferðarþyngstu vegi, að það náði engri átt og er kannske eitt það vitlausasta, sem við höfum gert, að draga það svo lengi sem gert var. Ég er eldri en þessi hv. þm. og man eftir færðinni á þessum vegum, t.d. á Keflavíkurveginum eða veginum austur fyrir fjall, svo að þetta kom af sjálfu sér. En vissulega var það rétt hjá honum, að Ingólfur Jónsson var samgrh. þegar byrjað var á þessum framkvæmdum að marki.

Það er auðvitað alveg eins með Borgarfjarðarbrúna, sem menn kalla, en ég vil kalla brú yfir Hvítá að það var búið að ræða hana margsinnis við undirbúning vegáætlunar áður en Halldór E. Sigurðsson varð samgrh. Það þarf hvorki spekinga eða verkfræðinga til þess að sjá að þá brú, sem byggð er fyrir 50 árum hér á Íslandi, við þau efni sem þá voru og með hliðsjón af þeim ökutækjum sem þá voru í gangi, tveggja og mest fjögurra tonna bílar, búin að endast í 50 ár, er mál til komið að endurbyggja. Það þýðir ekkert að fimbulfamba um það, hvort sem það er nú í gamni eða alvöru, að þetta verkefni hefði mátt bíða. Slíkt tal nær engri átt. Mér er alveg nóg að horfa á vagnalestirnar fara yfir brúna. En svo hef ég frétt um aðra menn sem hafa verið þar neðan undir að kíkja á hvernig brúin ber sig til, og þeir lýsa því ekki fallega. Ég veit ekki hvernig þessi kenning hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar fellur saman við vegagerðina á Skeiðarársandi. Mig minnir að Hannibal Valdimarsson væri samgrh. þegar á því verki var byrjað, svo að þetta er nú svona og svona, enda sagði hv. þm. að þetta væru gamanmál öðrum þræði.

Hv. þm. Friðjón Þórðarson ræddi nokkuð um þetta mál í fyrsta þætti þessara umr. Hann nefndi tvö atriði, sem mér finnst rétt að víkja að. Hann minnti á það og hnykkti á því, að hlutar hringvegarins væru svo fáfarnir að það væri fráleitt að leggja slitlag á þá áður en slitlag kæmi á umferðarþyngri vegi. Það hafa fleiri komið inn á þetta. Þetta er kannske rétt út af fyrir sig. En hins vegar er það fleira en umferðarþunginn sem kemur til greina þegar um er að ræða ákvörðun um hvort leggja skuli bundið slitlag eða ekki. Það er m.a. það, hvaða efni er fyrir hendi í malarslitlagið sem notað er á vegina, og eins hitt líka, hversu dýrt slitlag yrði notað á þessa fáfarnari kafla. Nú er vitað að á Möðrudalsöræfum og söndunum syðra er það efni, sem hefur verið notað í fína slitlagið, ákaflega endingarlítið og fýkur og veðrast burt fyrr en varir. Veðráttan kemur líka inn í þetta. Á Suðausturlandi er t.d. ákaflega rigningasamt. Þetta þarf að meta.

Nú er ég ekki að slá neinu föstu. Ég er bara að benda á að þessir þættir koma til skoðunar þegar metið er hvað gera skuli. Þetta er ekki svo einfalt að þarna sé eingöngu um umferðarþungann að ræða. T.d. gerðist sú ömurlega saga á Skeiðarársandi að fína slitlagið, sem sett var á þann veg þegar hann var opnaður, eyddist ákaflega fljótt svo að með ólíkindum var. Auðvitað er það ekki nema sýnishorn af því, sem alls staðar er að gerast og við allir þekkjum, að það eru byggðir vegir, vandaðir að undirbyggingu og allt upp að efsta slitlagi, en það tollir ekki stundinni lengur, og það veldur því, að menn velta nú fyrir sér þessum málum sérstaklega. En það er einnig mjög mikill verðmunur á því slitlagi sem nú er notað, og því, sem verið er að reyna. Það, sem er í reynslu núna, er af fleiri en einni gerð og sú ódýrasta, sem e.t.v., — ég segi e.t.v., því að auðvitað veit maður ekki um það fyrr en búið er að skoða þetta og reyna betur, — sem e.t.v. kæmi til greina á fáfarnari hluta hringvegarins, kostar e.t.v. ekki nema helming af því sem það sem algengast er að nota í dag kostar.

Hv. þm. Friðjón Þórðarson minntist líka á tvær skoðanir: að okkur bæri að leggja alla áherslu á að byggja vegina upp úr snjó, og hins vegar svo aftur hin hugsunin, að hraða sér með slitlagið vegna þess hve það væri arðgæft. En ég vil leggja áherslu á það, og ég skal þá láta það verða mín síðustu orð að þessu sinni, að einmitt með þessum tillöguflutningi vakir það fyrir okkur flm. að sameina þessi sjónarmið að taka út úr slitlagsframkvæmdirnar dýru og arðgæfu og afla til þeirra fjár sérstaklega og létta á almennu áætluninni, þannig að meira fé fáist til þess að sinna uppbyggingunni sem er lífsnauðsynleg, ekki síst fyrir snjóþyngstu byggðarlögin.