21.11.1978
Sameinað þing: 25. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

35. mál, bundið slitlag á vegum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru ekki nema örfá orð. — Það er enginn ágreiningur á milli okkar hv. þm. Vilhjálms Hjálmarssonar nema bara um áhersluatriði. Ég er t.d. þannig settur, að ég horfi á það að vegur, sem var byggður fyrir örfáum árum, er að fjúka burt. Veðurfar hjá okkur er dálítið öðruvísi en á Suðurlandi t.d. Eins og kom fram í máli hv. þm. Vilhjálms Hjálmarssonar er mismunandi hvernig möl er í hinum ýmsu héruðum, hve langt þarf að flytja hana o.s.frv.

Eins og tillgr. er, þá er verið að slá því föstu á hvað á að leggja fyrst og fremst áherslu í þessu efni. Það á að leggja áherslu fyrst og fremst á hringveginn, á veginn um Snæfellsnes og Vestfirði, þegar um bundið slitlag er að ræða. Ég er ekki sammála þessu. Ég vil láta meta þetta, því að í mínum huga eru þessir vegir alls ekki heilagri en aðrir, langt frá því. Og því vil ég ítreka það sem ég sagði áðan, að ég vænti þess, að fjvn. athugi að breyta orðalagi á þessari till. í þá veru sem ég nefndi.

Ég er alveg sannfærður um að ef væri gerð t.d. þriggja eða fimm ára áætlun um að leggja slitlag á 800 eða 1000 km veg, þá mundu a.m.k. margir bifreiðaeigendur vera fúsir til þess að greiða meira í vegaskatt en þeir gera. Ég er a.m.k. einn af þeim sem eru fúsir til þess, og ég hef rætt við marga kjósendur mína, t.d. í kringum Eyjafjörð, sem mundu vera fúsir til að borga verulega hærri skatt en núna ef þeir byggju við vegi eins og hér á Reykjanesi og í kringum Reykjavík. Það mundu þeir gera að vissu leyti, ef væri búið að tengja þéttbýlisstaðina við Eyjafjörð við Akureyri, að ég tel.

Hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson gat um að lengsti hringvegurinn væri um Snæfellsnes. Ég er ekki tilbúinn að samþykkja það. Það eru auðvitað langir hringvegir annars staðar. Það er langur hringvegur t.d. til Sauðárkróks um Fljót, Ólafsfjörð að Dalvík. Það er líka langur hringvegur og miklu lengri um Húsavík, Kópasker, Raufarhöfn, Þórshöfn, Bakkafjörð, Vopnafjörð. Því getur náttúrlega verið álitamál, ef menn fara að skoða þetta og hvaða vegir eru lengstir. Ég held að við, sem erum engir sérfræðingar í þessu, eigum ekki að slá neinu föstu um það, hvað eigi að ganga þarna fyrir, heldur verði það að sýna sig, hvað hinir tæknimenntuðu menn leggja til. Ég vil ekki binda mig við það, að þessir vegir eigi að ganga fyrir öðrum.