22.11.1978
Efri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

49. mál, félagsmálaskóli alþýðu

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Hér er vissulega hreyft merku máli, — máli sem ekki er ókunnugt hv. alþm. Bæði hefur frv., sem gengur í líka stefnu, legið fyrir Alþ. og eins fullorðinsfræðslumálin í heild. En þetta mál er vitanlega angi af miklu stærra verkefni sem við höfum kallað fræðslu fullorðinna og við höfum orðið höndum seinni að skipuleggja, — máli sem mikill áhugi er á hér og raunar víðar í veröldinni, sbr. samþykktir ráðherrafunda Norðurlanda og Evrópuþjóða, sem mig minnir ég kynna hér einhvern tíma í þessari hv. d. í sambandi við flutning frv. um fullorðinsfræðslu.

Um fullorðinsfræðslumálin í heild vil ég aðeins rifja það upp, að fyrrum menntmrh., Magnús Torfi Ólafsson, skipaði nefnd á sínum tíma til að athuga þessi mál í heild og gera um þau till. Þessi nefnd skilaði mjög yfirgripsmiklu áliti og tillögum í frumvarpsformi. Þær till. og það frv. voru mjög sniðin eftir fyrirmyndum frá Norðurlöndum og alveg sérstaklega frá Noregi, en Norðmenn höfðu, þegar þetta frv. var samið, mjög nýlega sett lög um fræðslu fullorðinna þar í landi, lög sem þá var að vísu ekki komin mikil reynsla á, en höfðu verið sett að því er virtist að undangengnum nokkuð miklum og vönduðum undirbúningi. Frv. þessarar n. var flutt hér á Alþ. oftar en einu sinni, en Alþ. afgreiddi það ekki, það kom ekki fram nál. um það. Og ég hygg að hv. alþm. muni hafa þótt frv. í heild sinni nokkuð viðamikið og að með því hafi verið stefnt um of að því að aðgreina fullorðinsfræðsluna og setja yfir hana verulega yfirstjórn, — m.ö.o.: mönnum hafi sýnst þetta of fyrirferðarmikið til þess að gerlegt væri að afgreiða það í þeirri mynd sem það var flutt. — Nú get ég auðvitað ekkert um þetta fullyrt, því að það kom aldrei fram nál., eins og ég tók fram, svo að það liggur ekkert fyrir skjalfest um þetta. En eftir viðtölum við hv. alþm. á þessum árum læt ég nú í ljós þetta álit á ástæðunum fyrir því, að málinu var svo tómlega tekið hér á hv. Alþingi.

Ég held að það hafi alls ekki verið vegna þess, að hv. þm. hafi verið út af fyrir sig andvígir því að sinna fullorðinsfræðslunni, þó að svona hafi til tekist með þetta mál. Ég man eftir að síðast þegar þetta frv. var flutt í minni tíð sem menntmrh., þá var því aðeins breytt, sett inn í það bráðabirgðaákvæði um að þær greinar frv., sem fjölluðu um skipulegan stuðning við bréfaskóla og námsflokka, öðluðust gildi þegar í stað, en aðrir þættir frv. í áföngum eftir því sem fé væri veitt til á fjárl., ef ég man rétt hvernig þetta bráðabirgðaákvæði var. En þrátt fyrir þetta náði málið ekki fram að ganga.

Nú má það sýnast svo, að við í menntmrn. höfum á seinni árum síðasta kjörtímabils verið næsta tómlátir um þetta mál, að setja ekki af stað endurskoðun á þessu frv. eða alveg nýja vinnu varðandi fullorðinsfræðsluna. En til þess lágu alveg ákveðnar orsakir, að ekki var meira aðhafst af hálfu menntmrn., og þær orsakir voru að það hillti undir afgreiðslu á nýjum lögum um framhaldsskóla og menn tóku að velta því fyrir sér, hvort ekki væri unnt að leysa fullorðinsfræðslumálin í meira mæli en menn áður höfðu gert ráð fyrir inni í hinu almenna skólakerfi, í framhaldsskólunum, og jafnvel innan háskólans eftir því sem við ætti. Ég veit að menn hafa nú í sumar og í haust, bæði fyrir og eftir stjórnarskipti, velt þessu fyrir sér í þeim starfshópum sem um þessi mál hafa fjallað, og er það áreiðanlega í samræmi við vilja núv. hæstv. menntmrh., því að hann hefur lýst sérstökum áhuga á fullorðinsfræðslumálunum og framgangi framhaldsskólamálsins. En eins og hv. þm. muna hefur tvívegis verið lagt fram á Alþ. frv. um þau mál í heild, var mjög endurskoðað eftir fyrstu gerð, sent fjölmörgum aðilum og mikil vinna í það lögð þá. Síðan var það endurflutt seint á þingi í fyrra, og ég veit að það hefur enn verið í skoðun og að hæstv. menntmrh. hefur eftir stjórnarskiptin sérstaklega hugað að þessu máli.

Það er eitt af meiri háttar markmiðum í frv. um framhaldsskóla, eins og það hefur legið fyrir og eins og það áreiðanlega verður í næstu gerð ekkert síður, að greiða mönnum leið milli námsbrauta og greiða mönnum leið inn í skólakerfið, inn í námsbrautirnar, þegar það hentar hverjum og einum, á ýmsum stigum námsins og á ýmsum aldursstigum líka.

Mér finnst ástæða til að vekja athygli á því hér, af því að það er verið að tala um mál, sem er í sjálfu sér fullorðinsfræðslumál, að með stofnun fjölbrautaskólanna opnast alveg nýir möguleikar í sambandi við fræðslu fullorðinna. Það hafa starfað öldungadeildir við menntaskóla og hafa verið mikið sóttar, að vísu sem eðlilegt er mest fyrstu árin, á meðan verið var að sinna þeirri eftirspurn sem hafði hlaðist upp og ekki verið hægt að sinna, en alltaf mikið. En þessar öldungadeildir við menntaskólana hafa auðvitað verið eingöngu bundnar við venjulegar menntaskólagreinar, m. ö. o. við bóknám. En aftur með tilkomu fjölbrautaskólanna og sérstaklega þegar búið er að byggja upp aðstöðu til verknáms, þá opnast þarna möguleikar fyrir öldungadeildir, ef ég má nota það orð, einnig á því sviði. Og það er ákaflega þýðingarmikið að nýta þessa möguleika. Kennsluaðstaðan til verkkennslunnar, t.d. í Breiðholtinu, er ágæt og hefur sjálfsagt kostað mikið fé. Þarna koma vissir möguleikar á þessu sviði, og ég nefni þetta aðeins sem eitt dæmi um þá möguleika sem fyrir hendi eru í almenna skólakerfinu.

Ég álít þó og er raunar sannfærður um það, að þetta, sem ég nú var að segja, breytir ekki því, að fleira þarf til að koma og kemur til að fræðsla fullorðinna komist í það horf sem við óskum og viljum hafa og auðvitað hljótum að taka upp smátt og smátt.

Rétt fyrir stjórnarskiptin skipaði menntmrn. nýja n. um þessi mál, fræðslu fullorðinna, og gaf henni fyrirmæli á þessa leið:

„Leggja ber áherslu á sem nánust tengsl við skóla framhalds- og háskólastigs og hlutdeild áhugafélaga, launþegasamtaka og fyrirtækja.“ Þetta gefur til kynna, að þó það komi nýir möguleikar með meiri sveigju í framhaldsskólastiginu, þá er ekki þar með hægt að varpa öllum áhyggjum sínum á skólana að þessu leyti, heldur verður að nýta krafta áhugafólksins í þessu skyni eins og áður og nýta þá betur en áður með því að auka stuðning við þá.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fjallar nánast um það að flýta afgreiðslu á einum tilteknum þætti fullorðinsfræðslunnar og vissulega mjög merkum þætti hennar að mínum dómi. Ég vil láta þá skoðun í ljós, að ég tel sjálfsagt að þetta frv. verði vandlega athugað í hv. d. og þá m.a. gaumgæft, ef það verður ofan á að afgreiða þetta frv., hvort skynsamlegt þyki að flýta um leið með löggjöf aukinni þátttöku ríkisins og skipulegri en áður í einhverjum öðrum þáttum fullorðinsfræðslunnar, og mér koma þá eðlilega fyrst í hug þeir tveir sem lagt var til að taka út úr fullorðinsfræðslufrv.: bréfaskólinn og námsflokkarnir. Ég á við það að flýta þessum þáttum og setja um þá sérstaka löggjöf áður en gengið verður frá heildarlöggjöf um fræðslu fullorðinna.

Í því tilviki, sem þetta frv. fjallar um, eins og mjög víða hafa áhuga- og hagsmunasamtök hlaupið undir bagga og haft forustu um þjónustu sem tvímælalaust er nauðsynleg og a.m.k. mér þykir eðlilegt að hið opinbera styðji að verulegu marki.

Ég skal ekki fara út í það að ræða einstök atriði þessa frv. Það hefur verið nokkuð gert í þeim umr. sem þegar eru orðnar, vikið að einstökum atriðum. Það eru aðeins tvö atriði sem ég vil samt drepa á í því sambandi — rétt nefna þau. Annars vegar er það, að gert er ráð fyrir að þessi lög og framkvæmd þeirra heyri undir félmrn. Ég efast um að það sé skynsamlegt. Ég held að fullorðinsfræðslumálin í heild eigi eðli sínu samkv. að heyra undir menntmrn. eitt. Og ég held að það væri ekki skynsamlegt, samræmis vegna, að taka t.d. þennan þátt út úr og láta hann heyra undir félmrn. Ég held að eðlilegra væri upp á allt samræmi, hugsanlegan stuðning sem þessi fræðsla gæti haft frá skólakerfinu, samvinnu við það o.s.frv., að láta þessa fræðslu heyra undir menntmrn.

Annað, sem ég vil vekja athygli á, er það, að í þessu frv. er lagt til að ríkissjóður greiði að fullu kostnað, bæði allan stofnkostnað og svo rekstrarkostnað. Og það eru eiginlega engin skilyrði sett þarna í frv., sýnist mér, a.m.k. mjög lauslega. Mér kemur í hug varðandi einstaka skóla, sem sett hefur verið um löggjöf, og þá á ég við löggjöf um viðskiptafræðslu, að þar er þessu ekki þannig varið. Ríkið borgar ekki að fullu, en að vísu mikinn meiri hluta kostnaðar. Það borgar t.d. allan rekstrarkostnað, en þó þannig að hann fari ekki fram úr kostnaði við sambærilega skóla ríkisins, svo sem nánar er tilgreint þar. Stofnkostnaður minnir mig að sé greiddur 80%. Kostnaður er ekki greiddur að fullu við þá skóla sem hafa annast viðskiptamenntun lengi og er gert ráð fyrir að geti starfað áfram á vegum þeirra samtaka sem hafa rekið þá. Síðan eru ýmis fleiri skilyrði fyrir því, að ríkið styðji svona mikið fræðslu á vegum þessara aðila. Og ég vil benda á að þó eru þessir skólar nær hinu almenna skólakerfi, nær því að falla alveg inn í hið almenna skólakerfi, nær því að falla alveg inn í hið hefðbundna framhaldsnám en t.d. þessi skóli. Ég er ekki að segja þetta til þess að kasta neinni rýrð á þann skóla sem hér er um að ræða, en þetta er þannig, að það nám, sem fer fram í viðskiptaskólunum, Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólanum, nánast algerlega samræmt viðskiptanámi innan hins almenna skólakerfis. Samt sem áður eru þessi skilyrði sett fyrir greiðslum ríkisins.

Ég vildi vekja athygli á þessu tvennu. En ég árétta það að lokum, að ég tel þetta mál allrar athygli vert. Ég tel hins vegar að það þurfi að athuga það mjög vandlega og gæta samræmis við aðrar ráðstafanir varðandi fullorðinsfræðsluna sem við erum að búa okkur undir að lögbinda. Því fremur tel ég að við þurfum að gæta vel að slíku samræmi, þar sem fullorðinsfræðslan er mjög í mótun eins og er, má segja bókstaflega í sambandi við gerð framhaldskólafrv. Mér er vel kunnugt um þetta og eins að það er starfandi n. í þessu. Í síðasta lagi og ekki síst er eðlilegt að gæta þarna samræmis við aðrar aðgerðir þegar haft er í huga að hæstv. menntmrh, hefur alveg sérstaklega lýst áhuga sínum á þessum þætti og mun flýta meðferð hans eftir föngum.