22.11.1978
Efri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

49. mál, félagsmálaskóli alþýðu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hér í d. hafa orðið nokkrar umr. um það frv. til l. um félagsmálaskóla alþýðu, sem Karl Steinar Guðnason og fleiri flytja, og það frv. hefur í senn orðið tilefni til orðaskipta um afskipti aðila vinnumarkaðarins af fræðslumálum og einnig um fjármögnun og skipulag þessa menntunarþáttar í tengslum við fullorðinsfræðslu í landinu. Með því að flytja frv. á þann hátt sem hér er gert og tengja félagsmálaskóla alþýðu við skólakerfi ríkisins og setja hann undir félmrn. held ég að boðið hafi verið heim þeirri hættu, sem þegar hefur komið fram í þessari umr., að fram yrði sett krafa af hálfu atvinnurekenda, Vinnuveitendasambandsins, að þeir ættu þá um leið aðild að skólanum á einhvern hátt, stjórn hans og námstilhögun, eins og þegar hafa komið fram sjónarmið um í þessari umr. (Gripið fram í. ) Já, eins og frv. gerir ráð fyrir. Hér er þess vegna komið að einu kjarnaatriðinu í menntunarmálum verkalýðshreyfingarinnar, að hún þarf í raun og veru að tryggja sjálfstæði þeirra stofnana sem hún felur stéttarlegt, fræðslulegt og faglegt uppeldi meðlima sinna.

Ég held að saga verkalýðshreyfingarinnar sýni það með fjölmörgum dæmum hérlendis og erlendis, að sjálfstætt fræðslustarf verkalýðsfélaganna hefur verið veigamikill þáttur í þeim árangri sem þau hafa náð í baráttunni fyrir þjóðfélagslegum umbótum. Ég óttast að með því að stiga það skref að gera menntastofnun alþýðu að ríkisstofnun verði boðið heim þeirri hættu sem ég gat um áðan, að atvinnurekendur mundu gera tilkall til hlutdeildar í stjórn skólans, starfsháttum hans og námsefni. Ég persónulega treysti ekki ýmsum þeim aðilum, sem farið hafa með félagsmál innan ríkisstj. á undanförnum árum og áratugum, til þess að hagnýta ekki aðstöðu sína í væntanlegri ríkisstj. í framtíðinni og meiri hluta aðstöðu hér á Alþ. til þess að setja samtök vinnuveitenda til jafns við samtök launafólks í stjórn þessa skóla. Ég er alveg viss um að víðs fjarri er að það sé ætlun flm. frv. að svo verði. En ég held að reynsla síðustu áratuga sýni okkur að verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur enga tryggingu fyrir því, að það verði ekki gert. Ég held þess vegna, að það væri réttari stefna af hálfu alþýðusamtakanna að halda fast við það, að sá þáttur í fræðslustarfsemi launafólks, sem er helgaður hinu stéttarlega og baráttulega uppeldi í samtökum launafólks, eins og svo skýrt kemur fram í 2. gr. þessa frv., að veita fræðslu um sögu, starf og stjórn stéttarfélaga, baráttu þeirra fyrir bættum lífskjörum alþýðustéttanna, um hagsmunasamtök atvinnurekenda og innra eðli þeirra, starfshætti og markmið, geti aldrei til lengdar, svo að vel sé, verið tryggt í ríkisskóla af því tagi sem hér er gerð tillaga um.

Það er í sjálfu sér skiljanlegt, að forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar, sem hafa lengi sumir hverjir barist fyrir nauðsynlegum úrbótum í menntunarmálum launafólksins í landinu, skuli á síðari árum hafa hneigst til þessarar lausnar, einkum og sér í lagi ef horft er til nágrannalandanna, þar sem annars konar samband hefur verið milli ríkisvaldsins og samtaka launafólks heldur en löngum hefur verið hér á landi. Þar hefur þróast áratugum saman visst bræðrasamband milli stjórnenda ríkisvaldsins og stjórnenda launþegasamtakanna, sem hefur gert það að verkum, að forsvarsmenn samtaka launafólks hafa getað treyst því og talið sig hafa tryggingu fyrir því, að slíkum ríkisskóla yrði ekki einhvern tíma breytt á þann veg að ónýta hann sem baráttutæki launafólks með því að hleypa samtökum atvinnurekenda þar inn. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því alveg skýrt og skorinort, eins og mjög vel kom fram í ágætri framsöguræðu Karls Steinars Guðnasonar, að félagsmálaskóli alþýðu er ekki aðeins almenn menntastofnun, er ekki aðeins ætlað að vera almennur liður í fræðslukerfi landsins, fullorðinsfræðslu, eins og hv. síðasti ræðumaður, fyrrv. menntmrh. Vilhjálmur Hjálmarsson, fjallaði um, heldur hefur honum hingað til og verður í framtíðinni fyrst og fremst ætlað það hlutverk að vera baráttutæki samtaka launafólks fyrir breyttu þjóðfélagi, fyrst og fremst til þess að manna verkalýðsfélögin á þann veg með þekkingu og þjálfun að þau geti náð betri árangri í baráttu gegn samtökum atvinnurekenda, í baráttu gegn fjandsamlegu ríkisvaldi, heldur en þau hafa náð hingað til. Þess vegna held ég að það sé höfuðatriði fyrir alþýðusamtökin í þessu landi, að þau fari sjálf með óskorað forræði yfir menntunarmálum félaga sinna. Og vissulega er það vilji flm. þessa frv., eins og fram kemur í frv., að reyna að tryggja að svo sé með þeim ákvæðum um stjórn skólans sem í frv. eru. En ég hef þegar lýst ótta mínum um það, að annar meiri hl. á Alþ. en nú situr, önnur stjórn félmrn. en nú er kunni í framtíðinni að verða við þeim hugmyndum eða kröfum sem nú þegar hafa komið upp við 1. umr. þessa máls hér á Alþ., að vinnuveitendasamtökin í samræmi við ýmsar almennar reglur, sem gilda á öðrum sviðum, fái líka helmingaskipti á við verkalýðssamtökin í stjórn þessa skóla. Og þá vitum við það, að á sömu stundu er skólinn ekki lengur það beitta baráttutæki fyrir samtök launafólks sem hann þarf að vera.

Í raun og veru held ég að vandamálið sé ofur einfalt. Vandamálið er að það þarf að tryggja samtökum launafólks í landinu mun meira fjármagn til þess að geta rækt það hlutverk sem er kjarnainnihaldið í þessu frv. Hv. þm. Helgi Seljan, 3. þm. Austurl., gerði að umræðuefni þær fjárhæðir sem nú eru í frv. til fjárl. til fræðslustarfsemi alþýðusamtakanna. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé eitt af þeim verkum sem sá ríkisstjórnarmeirihl., sem nú situr á Alþ., eigi að tryggja við afgreiðslu fjárl., að ekki aðeins tvöfalda, þrefalda eða fimmfalda þá upphæð, eins og kom fram í máli hv. þm. Helga Seljans, heldur komi til greina að gera þarna á stórbreytingu. Ég hef í mínum huga staðnæmst við tölu eins og 100 millj. kr. á næsta ári sem félagssamtökum verkafólks í landinu, Félagsmálaskóla alþýðu, eins og hann er nú rekinn, og Menningar- og fræðslusambandi alþýðu yrðu afhentar til þess að efla og styrkja þá fræðslu- og útgáfustarfsemi sem samtök launafólks vilja sjálf koma á fót. Þannig sé gert tvennt í senn: forræði launþegasamtakanna, stéttasamtaka launafólks, yfir menntunarmálum meðlima sinna óskert sé tryggt áfram eins og það er nú, en stjórn þessara stofnana er kosin í dag á þingi Alþýðusambandsins, og við hér, sem stöndum að meiri hl. þeirrar stjórnar vinnandi stétta, sem á að sitja í landinu, sýnum vilja okkar í verki til þess að efla þessa starfsemi með þáttaskilum sem fælust í því, að á fjárl. fyrir árið 1979 yrðu settar a.m.k. 100 millj. til þessarar fræðslustarfsemi. Ég held að með því verki gæti núv. meiri hl. á Alþingi sýnt hug sinn til nauðsynjar fræðslustarfsemi launafólks í landinu á miklu skýrari og ótvíræðari hátt en með samþykkt frv. af þessu tagi, vegna þess að grundvallarvandamál er að það skortir fjármagn. Það skortir hvorki stjórn né kennslukrafta né jafnvel námsefni, heldur skortir fyrst og fremst fjármagn.

Ég kysi þess vegna að sú stefna yrði ríkjandi í þessum málefnum, að annars vegar yrði unnið að alhliða úrbótum á fullorðinsfræðslu í landinu, líkt og hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson var að lýsa áðan að hefði verið unnið að og væri verið að vinna að í tengslum við frv. um almennan framhaldsskóla og við breytta starfshætti svokallaðra öldungadeilda, og jafnvel hvað snertir opnun Háskóla Íslands, hliðstætt því sem gerst hefur í nágrannalöndum okkar, fyrir alla þá sem eru orðnir t.d. 25 ára og eldri, hvort sem þeir hafa stúdentspróf eða ekki, og þannig yrðu opnaðar fjölmargar brautir til almennrar fullorðinsfræðslu í landinu og til þeirrar endurmenntunarþarfar sem óhjákvæmilega er nauðsynleg í þjóðfélagi síbreytileikans, eins og við búum við nú, en því yrði ekki blandað saman við þau skólamál verkalýðsstéttarinnar í landinu sem eiga fyrst og fremst að vera grundvölluð á því að skerpa baráttustyrk verkalýðsstéttarinnar gegn atvinnurekendavaldinu og gegn því fjandsamlega ríkisvaldi sem löngum hefur ríkt í þessu landi gagnvart samtökum launafólks. Síðari þáttinn eigum við eingöngu að leysa með myndarlegu fjárframlagi í fjárl. ársins 1979 til Menningar- og fræðslusambands alþýðu og Félagsmálaskóla alþýðu.

Mér er kunnugt um það, og ég vil láta það koma hér skýrt fram við 1. umr., að í röðum fjölmargra forsvarsmanna verkalýðsfélaganna í landinu ríkir ótti við það, að breyting á Félagsmálaskóla alþýðu í ríkisskóla, miðað við þær þjóðfélagsaðstæður sem hér hafa ríkt, geti í raun og veru ónýtt skólann sem baráttutæki verkalýðshreyfingarinnar. Það eru fjölmargir af helstu forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar í landinu sem áfram kjósa sams konar skipan á þessum efnum og verið hefur hingað til, þ.e.a.s. að verkalýðssamtökin sjálf hafi óskoraðan og algeran yfirráðarétt yfir þessum menntunarmálum sínum, en verkefni ríkisvaldsins og almannavaldsins í landinu verði fyrst og fremst að leggja þar fram fé, líkt og lagt er fram fé á fjárl. til margvíslegrar annarrar starfsemi í landinu, menntunarstarfsemi og annarrar starfsemi sem kemur hagsmunasamtökum og fjöldasamtökum fyrst og fremst til góða.

Þessar aths. vildi ég láta koma skýrt fram þegar við 1. umr. þessa máls. Ég tel að frv. það, sem hér liggur fyrir, þurfi að fá vandlega athugun í n. Það þarf að kanna hvort hér sé verið að stiga spor sem verkalýðshreyfingin á Íslandi er í raun og veru öll sammála um að sé rétt eða ekki og hvort það er ekki hætta á því, að menn teldu það eitt duga til úrbóta í þessum efnum að samþykkja þessa breytingu og koma á lögum af þessu tagi. Menn væru þá að falla í þá gryfju, sem stundum hefur einkennt þjóðfélagsumr. Íslendinga, að þegar vandamál kallar að, sem fyrst og fremst krefst nýs skipulags og fjármagns, þá reyna menn að leysa vandamálið með lagasetningu án þess að útvega fjármagnið, án þess að útvega það sem í raun og veru þarf til þess að framkalla raunverulegar breytingar. Oftrú á lagasetningunni sjálfri er notuð sem afsökun fyrir því að gera ekki það sem í raun og veru þarf til þess að framkalla þáttaskil.

Sú lýsing, sem í frv. kemur fram, á að mínum dómi í alla staði vel við starfshætti þess skóla sem ég sé sem nauðsynlegt baráttutæki verkalýðsstéttarinnar í landinu. Ég vil þess vegna taka það skýrt fram, að þær aths., sem ég hef gert við frv., eru á engan hátt tengdar þeirri efnislýsingu sem fram kemur í frv. á hlutverki skólans. Þær beinast eingöngu að því, hvort rétt sé að stíga það skref að afhenda ríkisvaldinu með lagasetningu forræði yfir þessum skóla án þess að hafa þær baktryggingar, að ríkisvaldið verði áfram jafnhlynnt verkalýðsstéttinni í landinu og það e.t.v. er nú. Saga þjóðfélagsþróunarinnar á Íslandi sýnir að við höfum ekki slíkar baktryggingar. Þar að auki tel ég að það megi ganga of langt á þeirri braut að fella allt menntakerfi þjóðarinnar inn í heildarramma skóla sem samræmdir eru menntakerfi ríkisins algerlega. Ég held að í því margbreytilega þjóðfélagi, sem hefur verið að skapast hér á Íslandi og er nú í mótun, séu margvíslegar röksemdir fyrir því að fela félagssamtökum af ýmsu tagi verulegan þátt í menntun meðlima sinna eftir að hinni almennu skólagöngu lýkur.

Ég vil geta þess til að koma í veg fyrir misskilning, að sú hugsun, sem ég hef hér lýst, beinist ekki að því að verkalýðsstéttin ein eigi að hafa forræði yfir menntunarmálum sínum, heldur geti ýmisleg önnur samtök einnig átt tilkall til almennra fjármuna til þess að annast ýmiss konar sérhæfða menntun starfshópa eða meðlima, sem þeir telja rétt hverju sinni. Það hefur stundum verið haft á orði, að það þyrfti að tryggja starfsgrundvöll svokallaðra „frjálsra félagasamtaka“ í þessum efnum. Ég vil ógjarnan nota hugtakið „frjáls félagasamtök“, vegna þess að ég veit ekki til þess að það séu nokkur ófrjáls félagasamtök í þessu landi. Á hinn bóginn tel ég að hér séu starfandi fjölmörg samtök áhugafólks og einnig hagsmunasamtök skipulagðra þjóðfélagshópa og starfsstétta, sem geti átt jafnt tilkall til fjármagns úr almennum sjóðum þjóðfélagsins til þess að annast menntun meðlima sinna eins og ég tel að verkalýðsstéttin eigi í þessum efnum, og geti verið viss hætta fólgin í því að færa alla menntunarþætti landsins úr höndum fjöldasamtaka af þessu tagi yfir á skipulagsverk-svið ríkisins. Krafan um það, að Félagsmálaskóli alþýðu og Menningar- og fræðslusambands alþýðu séu enn áfram algerlega undir forræði alþýðusamtakanna, en hljóti eingöngu stóraukið fjármagn af þeirri stærðargráðu, sem ég hef hér lýst, til starfsemi sinnar, er þess vegna sett fram með hliðsjón af þeirri almennu skoðun, að það geti einnig átt við um fjölmörg önnur fjöldasamtök í þessu landi.

Út frá þessum grundvallarsjónarmiðum vil ég gjarnan að þetta frv. fái ítarlega meðferð í n. og verði rækilega kannað, hvort samtök launafólks í landinu kjósa í raun og veru ekki frekar að ganga þá braut að fá t.d. á fjárl. næsta árs fjármagn af þeirri stærðargráðu, sem ég hef hér nefnt til sinnar fræðslustarfsemi, til að mennta meðlimi sína, þjálfa þá í hinni stéttarlegu baráttu í stað þess að koma hér á fót ríkisskóla, sem veitir enga tryggingu fyrir áframhaldandi forræði samtaka launafólks og hefur ekki heldur neinn aukinn fjárhagsgrundvöll í för með sér miðað við það sem nú er.