22.11.1978
Efri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

49. mál, félagsmálaskóli alþýðu

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Ég hélt satt að segja að þetta frv. gæfi ekki eins mikið tilefni til maraþonræðna og komið hefur fram hér í þau tvö skipti sem frv. hefur verið til umr. En ég verð að lýsa því, að mér var það mikil ánægja þegar 1. flm. þessa frv. bauð mér að vera með í flutningi þess, því að ég hef löngum haft mikinn áhuga á þessu máli eða á fræðslu til félagsmála fyrir verkafólk. Það eru 30 ár síðan ég flutti fyrst tillögu á þingi Alþýðusambands Íslands um bréfaskóla á vegum Alþýðusambandsins, en lengra voru málin ekki komin í þá daga. En nú er málum miklu lengra komið, eins og kom greinilega fram í ræðu frsm., og það kom einnig fram í ræðu frsm., að við Íslendingar stöndum langt að baki nágranna okkar og frænda í öðrum löndum. Við erum að vísu komnir með þess konar alþýðuskóla eða vott af honum sem er beinlínis félagsmálaskóli fyrir verkalýðsstéttirnar, ef ég mætti nota slíkt orð. En mér finnst í einfeldni minni að þetta frv. sé mjög gott, og ég sé ekki ástæðu til verulegra breytinga á því. Hins vegar gæti vel komið fram í n., þegar vel verður farið ofan í sauma á máli þessu, að það fyndust einhverjir annmarkar svo að betur mætti sníða, en engan veginn get ég óskað eftir því, að stjórn skólans yrði önnur en greint er í frv. þessu. Ég vil engan veginn óska eftir aðild atvinnurekenda að stjórn þessa skóla, frekar en mér dytti í hug að ASÍ færi að kássast í stjórn bændaskólanna eða eitthvað þess háttar.

En það eru vitanlega engin lög svo fullkomin að reynsla í framkvæmd gæti ekki breytt þeim lögum seinna. Það kom upp sú hugmynd, að almenna skólakerfið gæti fullnægt þeirri þörf sem hér ræðir um, en það held ég að komi engan veginn til greina. Þetta er hluti af fullorðinsfræðslunni og vissulega mjög mikilsverður hluti. Það er nefnilega svo, að oft finna ungir menn, hvort sem þeir eru í röðum verkamanna, sjómanna eða iðnaðarmanna eða einhverra annarra, sig ekki félagslega hæfa eða í stakk búna til þess að standa að félagsmálum á unga aldri, einmitt á þeim tíma sem námið er þeim hægast. En síðar á lífsleiðinni koma t.d. sjómenn í land og hætta að stunda sjóinn. Þá er brauðstrit hvers eins verkamanns kannske ekki eins erfitt og þeir gefa sér tíma til að huga að sínum stéttarfarslegu málum, en þá finna þeir sig í þeirri stöðu að þá vantar alla þekkingu á félagsmálum, og það er þarna sem ég held að meginkostur þessa frv. komi fram. Ég held að mennirnir, sem treysta sér til þess seinna að vinna að málefnum stétta sinna, að félagsmálum alþýðunnar í landinu, þurfi að fá þekkingu sem þeir fengu ekki í uppvexti sínum og höfðu ekki tækifæri til að afla sér á þeim árum. En að fara að bíða eftir heildarlöggjöf um fullorðinsfræðslu og að drepa þessum málum á dreif, það finnst mér alveg fráleitt, því að löggjöf um fullorðinsfræðslu er mikið verk og seinunnið og það yrði ekki til neins annars en að tefja þetta góða mál, sem ég álít að sé. Ég óska því eftir að þessi hv. d. sjái sér fært að flýta þessu máli og koma því fljótt heilu í höfn.