22.11.1978
Efri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

95. mál, leiklistarlög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil færa hæstv. menntmrh. þakkir fyrir þetta frv. til l. um breyt. á leiklistarlögum, en frv. um mjög svipaða breytingu flutti ég á þinginu í fyrra, en það varð þá ekki útrætt. Það var til komið af þessari sömu ástæðu sem hæstv. menntmrh. nefndi, að það var vefengt mjög að samkv. núgildandi leiklistarlögum væri t.a.m. fjvn. heimilt að veita atvinnuleikhópum fjárhagslegan stuðning, lögin í raun og veru kæmu í veg fyrir það. Það er rétt sem hæstv. ráðh. kom inn á, að við upphaflega endurskoðun leiklistarlaganna, sem var gerð að till. okkar hv. fyrrv. þm. Karvels Pálmasonar, var alltaf ætlunin í þeirri n. sem að því stóð, að þessi breyting á leiklistarlögunum næði til þessara hópa. Í rn. urðu hins vegar þær breytingar á þessum lagagreinum, að það mátti með nokkrum rétti vefengja rétt þeirra til að hljóta þessar fjárveitingar. Ég var aldrei á þeirri skoðun að þetta væri rétt, en hins vegar varð ég að beygja mig fyrir t.d. meiri hl. í fjvn. í fyrra, sem taldi að sá aðili eða þeir aðilar tveir reyndar, sem þar sóttu á, ættu þarna ekki fyllilega lagalegan rétt. Með samþykkt þessa frv. væri þessu komið á hreint, en eftir sem áður væri það háð ákvörðun fjvn. hverju sinni, hvaða leikhópar fengju fjárhagslegan stuðning og hve mikill sá fjárhagslegi stuðningur yrði. Mér er hins vegar alveg ljóst, að það er ákveðinn hópur starfandi í dag sem fyllilega á skilið að hann sé styrktur af ríkisins hálfu, og ég hef reyndar flutt um það brtt. við fjárlagaafgreiðsluna tvö undanfarin ár. Ég vona að jafnvel þó að þetta frv., sem ég vona að nái fram fyrir áramót, verði ekki að lögum svo snemma, þá takist fjvn. að leiðrétta þau mistök, sem hafa orðið við fjárlagaafgreiðslu síðustu tvö ár, og þessi leikhópur a.m.k. fái stuðning.

Hins vegar get ég í þessu tilfelli ekki stillt mig um samanburð, þótt hann sé alltaf leiðinlegur í þessu efni. Ég kann vel að meta starfsemi Þjóðleikhússins og veit að hún er vissulega mikils virði, alveg sérstaklega mikils virði fyrir þetta svæði hér, Reykjavíkursvæðið. Fyrir okkur landsbyggðarfólk hefur hún vægast sagt takmarkað gildi, svo að ekki sé meira sagt. Ég bendi á að í frv. til fjárl. nú eru ætlaðar til starfsemi Þjóðleikhússins 584 millj. kr. Í fjárl. s.l. árs var þar um að ræða 359 millj. Þessi breyting mun að vísu stafa að hluta til af eðlilegum launabreytingum, en hér er líka um að ræða að þessi ágæta stofnun er alltaf að færa út starfsemi sína. Ég bendi á það, að á sama tíma er fjárstuðningur ríkisins til annarrar leiklistarstarfsemi ákaflega takmarkaður. Leikfélag Reykjavíkur er með 14 millj. á fjárl. þessa árs og með sömu upphæð í frv. til fjárl. Leikfélag Akureyrar er með 11 millj. á fjárl. þessa árs og með sömu upphæð á frv. til fjárl. núna. Og öll áhugaleikstarfsemi í landinu er með 11 millj. einnig, um 60 leiksýningar. Nýbúið er að skipta þeirri upphæð og þar var hæsti styrkur á einstaka sýningu, þ.e.a.s. sýningu á íslensku leikverki, 220 þús. kr., 200 þús. til barnaleikrita, 170 þús. til erlendra leikrita sem teljast til menningarverka og 110 þús. til svokallaðra „farsa“. Þetta er sem sagt ríkisstuðningurinn við áhugaleikfélög.

Um leið og ég fagna því, að þetta frv. er komið fram til þess að taka af allan vafa um það, að fjvn. hafi fullt vald til þess að ráðstafa nokkru fé til þeirra atvinnuleikhópa sem eiga það skilið, þá get ég ekki stillt mig um að vekja athygli á því, hve fjárvöntun er mikil til almennrar leiklistarstarfsemi í landinu. Ég þykist vita að Reykjavíkurborg sjái þann veg fyrir sínu leikfélagi hér í Reykjavík, að því sé ekki mikil hætta búin. Ég veit að Leikfélagi Akureyrar er geysileg hætta búin í sambandi við fjárveitingu ef hún á að standa óbreytt, ég tala nú ekki um ef hún á að standa óbreytt í krónutölu nú á þessu ári. Og ég sé ekki annað en ef við gerum ekki myndarlegt átak í því að hækka framlög til leiklistarstarfsemi áhugafólks, þá sé beinlínis verið að drepa hana hreinlega niður. Hún verður ekki framkvæmd með góðu móti með þeim fjárstyrk sem nú er, nema þar sem aðstæður eru sérstaklega góðar og menn geta náð til stórs áhorfendahóps og sýningarnar eru sérstaklega vel sóttar.

Ég vil aðeins vekja athygli á þessu hér og um leið vona að fjvn. taki vel á þessu máli. Ég mun a.m.k. beita mínu atfylgi þar til þess að svo verði, að leiklistarstarfsemi almennt í landinu verði stórefld með framlögum í fjárl. næsta árs, og beinlínis til þess — það endurtek ég — að áhugastarfsemin, starfsemi áhugafélaganna hreinlega drabbist ekki niður. Hitt er svo rétt að undirstrika, að það er jafnnauðsynlegt að atvinnuleikhópar af því tagi t.d. sem Alþýðuleikhúsið er eigi tilverurétt og fái stuðning. Það hlýtur auðvitað á engan hátt að draga úr mikilvægi hins, að rétta hlut áhugafélaganna.