22.11.1978
Neðri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það hefði kannske verið eðlilegra í dag, að við stjórnarsinnar hefðum notað tímann í þingflokksherbergjum til að rabba eitthvað um efnahagsástandið hjá þjóð okkar, en það gefst kannske tími til þess undir kvöldið, svo að það er ekki ónýtt að hafa þetta efni til að hressa sig á um tíma. Það er e.t.v. tími til kominn fyrir alþm. að eignast forustusveit í kjarabaráttunni, því að jafnvel þótt einhverjir alþm. hafi fengið hugmynd um Kjaradóm og jafnvel sett hana á blað, þá hafa þeir verið slappir og ekki fylgt henni eftir. Raunar koma mér mjög á óvart þetta með höfundarréttinn að frv., þ.e.a.s. að hendurnar hafi verið Esaú þótt röddin væri Jakobs, og ég hef fulla samúð með núv. flm. frv. þó að þeir áttuðu sig ekki á því, hvernig samkomulagi þeirra og samstarfi var háttað, hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar og Ellerts B. Schram. Raunar gildir það mig öldungis einu hver samdi þennan samsetning, og ég er raunar ekkert hissa á því, þó að hv. þm. Ellert B. Schram frábiðji sér að hafa samið grg.

Þingfararkaupsnefnd hefur ekki reynst okkur neinn þrýstihópur, held ég verði að segja. Hún hefur verið ákaflega hógvær og nægjusöm, og meira að segja fyrrv. formaður þfkn., hv. þm. Sverrir Hermannsson, hefur náttúrlega verið fyrirmynd n. bæði í hógværð og nægjusemi. Ég er ekki í vafa um að Kjaradómur, hvernig svo sem hann yrði skipaður, mundi líta á störf okkar með stærri augum heldur en þfkn. hefur gert, bæði núv. þfkn. og jafnframt fyrrv. þfkn. Hann mundi meira að segja fara að bera okkur saman við bankamenn eða blaðamenn eða einhverja aðra pótintáta þjóðfélagsins. Ég sé fram á það að kjör okkar mundu stórbatna við það. Ég tel t.d. alveg víst að Kjaradómur mundi ekki telja sér sæma annað en að ætla okkur t.d. tvær máltíðir á dag. Ég er alveg viss um það, að Kjaradómur mundi ætla okkur utanbæjarþingmönnum betri íbúð en menn fá hér í borginni núna fyrir 55 þús. kr. á mánuði. Ég er sérstaklega viss um það, að Kjaradómur mundi samræma bifreiðakostnað okkar við bifreiðakostnað annarra ríkisstarfsmanna, eins og glögglega hefur komið fram í ræðu hv. fyrrv. formanns þfkn. Við ökum jeppunum okkar út og suður í snjó og aur, en höfum malbikstaxtann til viðmiðunar, en ekki þann taxta sem ríkisstarfsmenn úti á landi búa við. Og þá verður sjálfsagt gaman að lifa og þá mundi líklega enginn kasta að okkur hnútum lengur. Enginn ríkisstarfsmaður, jafnvel í hærri tekjuflokki en þingmenn, mundi kasta að okkur hnútum, og það mundi engum detta í hug að reyna að slá sig til riddara svo ég noti orðalag hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, með því að gagnrýna laun og fríðindi öfundsverðra alþm. Og það yrði hugsanlega farið að verðlauna okkur fyrir yfirvinnu eða næturvinnu, og þá verður dýrmætt að eiga starfsama krata hér í deildinni, sem láta málunum rigna, og þá gætu kvöldin og næturnar t.d. farið í kratana, þó við færum að ræða efnahagsmál á daginn.

Samt sem áður sé ég ekki, ef þessi skipan yrði tekin upp, að þfkn. ætti nokkurn rétt á sér. Það segir reyndar í frv., að sumt skuli ákvarðað að fengnum tillögum þfkn. Ég sé enga ástæðu til þess, að þfkn. sé þá að neinu starfandi. Mér finnst ástæðulaust að hún sé að neinu vikadrengur hjá kerfinu. Ég get illa hugsað mér að hv. góðir félagar okkar í þfkn. fari að taka það hlutverk að sér.

Svo eru menn að tala um kerfiskarla stundum og æsa sig upp út af því, að þeir séu voðalegir menn, þessir kerfiskarlar, en vilja þó auka vald þeirra. Það er náttúrlega verið að hlaða undir þá með þessu frv.

En að athuguðu máli sýnist mér nú að alþm. hafi hér um bil nóg fyrir sig að leggja. Ég held líka að þm. eigi ganga á undan, að öllu gamni slepptu, með góðu fordæmi. Þeir eiga að prísa sín störf af hógværð og lítillæti, og þess vegna sé ég ekki að það sé mjög brýnt að breyta slíku skipulagi, jafnvel þó að illa séu rekin trippin hjá hv. þfkn. Og þfkn. í umboði Alþingis á ekkert að vera að skorast undan því að taka ákvarðanir frekar en Alþ. yfirleitt. Að meginstefnu er ég því mótfallinn, að Alþ. sé að fela sig á bak við einn eða neinn, Kjaradóm eða annað. Ég held að menn verði bara að taka því með jafnaðargeði, þó að einhverjir öfundi þá af því sem þeir hafa og sjái ofsjónum yfir því og ímyndi sér að þeir hafi það sem þeir hafa ekki. Og ég verð bara feginn því, ef einhver getur unnið sér eitthvað til frægðar með því að telja eftir það sem við höfum. Raunar segir í grg.: „Liggur nærri að draga þá ályktun, að þingið hafi verið feimið að ganga hart fram í eigin kjaramálum og sæta þeirri gagnrýni sem slíku hlýtur ævinlega að fylgja.“ Þessi feimni er ástæðulaus.

Ég kannast ekki við það sem mér finnst að hafi bryddað á í þessum umr., að kaup eða kjör okkar alþm. hafi verið einhvern tíma eitthvert leyndarmál. Það hefur ekki verið það síðan ég kom hér. Ég hef iðulega getað glöggvað mig bæði í blöðum og útvarpi og sjónvarpi á því, hver kjör okkar hafa verið. Ég tel að ef þingið hefur ekkert annað að gera en að hlusta á fyrirlestur formanns þfkn. þegar breytingar verða á taxtanum, þá sé það vel. En ég kannast ekki við að þetta hafi verið neitt leyndarmál fram að þessu. Ég hef að vísu aldrei átt sæti í þfkn. og geri ekki ráð fyrir að eiga þar sæti, en mér kemur það á óvart, ef hún hefur verið í einhverju pukri að störfum.

Hér hefur verið rætt um framtalsskyldu og skattamál, og það er best að það komi þá fram í þessari umr. til stuðnings málflutningi hv. þm. Sverris Hermannssonar, að ríkisskattstjóri úrskurðaði í einu tilfelli um það, hvernig þessu skyldi háttað. Skattstjóri á Vestfjörðum áætlaði tveim þm., sem búsettir voru í því kjördæmi, Karvel Pálmasyni og Gunnlaugi Finnssyni, einhverjar aukatekjur fyrir sporslur sem þeir höfðu haft á Alþingi, þ.e.a.s. fyrir þennan útlagða kostnað. Annar þeirra, Gunnlaugur Finnsson, fyrrv. þm., áfrýjaði til ríkisskattstjóra, og úrskurður hans var sá, að þetta þyrfti ekki að telja fram. Hitt er svo annað mál, að ef menn fella sig betur við það fyrirkomulag, þá sé ég ekkert á móti því að þm. geri það. En það er ástæðulaust fyrir þm. að liggja undir því, að þeir séu skattsvikarar á einhvern hátt eða misfari með lög, þó þeir fari eftir því sem ríkisskattstjóri hefur ákvarðað.

Ég held ég hafi heyrt það eftir þingskörungi sem hér var lengi, Einari Olgeirssyni, þegar einhvern tíma var hreyft hugmyndum um einhvers lags kjaradóm um kjör alþm., að hann hafi talið að Alþ. ætti að ráða og menn úti í bæ ættu ekki að setja Alþ., hvorki launalega né með öðrum hætti, stólinn fyrir dyrnar. Og í trausti þess, að þfkn. framtíðarinnar séu hófsamar og lítillátar eins og þær sem ég hef kynnst síðan ég kom til starfa hér, þá sé ég ekki ástæðu til að styðja þetta frv., jafnvel þó að hver höfuðsnillingurinn eftir annan sé höfundur þess.