22.11.1978
Neðri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Finnur Torfi Stefánsson:

Herra forseti. Þessi umr. hefur flogið vítt og breitt og mér finnst, eins og ég held að ýmsum öðrum sem eru nú að koma inn á þingið í fyrsta sinn, að það sé aldeilis furðulegur siður hér í umr. á hv. Alþ., hvað menn eiga erfitt með að halda sig við dagskrárefnið. Menn telja sér einhvern veginn heimilt að ræða nánast hvað sem er og undir hvaða dagskrárlið sem er. Ég held af minni stuttu reynslu að þetta sé það sem tefur umr. okkar hvað mest, og ég ætla þess vegna að reyna að vera stuttorður og reyna að miða mál mitt við frv., sem hér liggur fyrir, og ekkert annað.

Á síðustu árum hefur verið mikil umr. um það hjá okkur Íslendingum, hve virðing og vald Alþingis hefur farið hnignandi. Menn hafa bent á ýmis dæmi þess, að Alþ. hefur selt vald sitt til aðila annars staðar í þjóðfélaginu, einkum þó í embættismannakerfinu, og menn hafa líka talað um að það sé orðið mjög áberandi hjá okkur, að ýmsar mikilvægar pólitískar ákvarðanir séu teknar í skúmaskotum, þ.e.a.s. um þær er fjallað og þær teknar einhvers staðar í embættismannakerfinu þar sem þjóðin getur ekki fylgst með og getur ekki komið fram neinni pólitískri ábyrgð. Það eru margir menn sem telja þetta mjög slæma þróun og þess virði að vinna nokkuð gegn henni, og það hafa komið fram hér á þingi nú þegar nokkur frv. sem segja má að fari í þessa átt. Og ég verð að segja það, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, gengur gegn öllum sjónarmiðum um það að efla virðingu og vald Alþingis og að halda stjórnmálalegum ákvörðunum og stórmálum í dagsljósinu, þannig að fólk geti fylgst með því, hver afstaða þm. sé í þessum stórmálum, því hér er gert ráð fyrir því, eins og menn hafa bent á, að þingið afsali sér rétti sinum til þess að ákveða kaup og kjör þm. og feli framkvæmdavaldinu þetta vald.

Af grundvallarástæðum er ég mjög andvígur þessu. Ég tel mjög mikilvægt að Alþ. reyni ekki að minnka virðingu sína og völd, heldur þvert á móti að auka hana, og mjög mikilvægt sé að þingið haldi einmitt þessu valdi. Ef Kjaradómur fengi valdið til þess að ákveða laun þm., þá vitum við ekkert í raun og veru hvað gæti komið upp hjá þeim ágætu embættismönnum. Það getur vel verið að þeir komist að þeirri niðurstöðu einn góðan veðurdag, að þingið sé frekar ómerkileg stofnun og það sé lélegt og lítt gagnlegt starf sem hér sé unnið, það eigi að borga það eftir því og lækka þar með kaup niður úr öllu valdi.

Menn hafa verið að velta fyrir sér tilganginum með flutningi þessa frv. Sumir hafa bent á, að þetta kunni að vera viðkvæmni gagnvart fjölmiðlum. Fjölmiðlar, eins og við vitum allir, hafa verið að velta sér upp úr þessu. Þetta er skemmtilegt fréttaefni. Það er auðvelt að gera þetta tortryggilegt og auðvitað mjög freistandi fyrir blaðamenn í fréttaleit að reyna að gera sér bita úr þessu. Sumir halda að það sé kannske rótin að þessu frv., og ég get vel trúað að svo sé.

Ég er nú raunar á þeirri skoðun, að það sé margt varðandi launakjör þm. sem megi taka til endurskoðunar og athuga betur, eins og það efni sem við vorum að ræða hér um daginn, tvöföld laun þm., menn geti haft störf utan þings og fengið jafnframt laun fyrir þau. Það má líka athuga margt varðandi dagpeningagreiðslur og greiðslu ferðakostnaðar. Þetta eru atriði sem ég tel þörf á að athuga. En það er ekkert vikið að þessu í frv. Það er ekkert vikið að gagnrýninni eða þeim atriðum sem þyrfti að endurskoða og vinna betur varðandi ákvörðun launakjara. Hér er einungis fjallað um að flytja til valdið og raunverulega án þess að það sé rökstutt með neinum sérstökum hætti, heldur bara frekar almennu orðalagi. Það kann að vera tilgangurinn með flutningi frv. þessa að menn vilji hækka laun þm. Mér hefur skilist það á sumum. Er þá ekki miklu hreinlegra að leggja fram beinar till. um það hér í þinginu, ef menn vilja hækka laun þm.? Ég tel að það væru miklu opnari og lýðræðislegri vinnubrögð og miklu skynsamlegra.

Það er alveg greinilegt, að Alþ. hefur ekki misnotað vald sitt til að ákvarða launakjörin í gegnum árin, því að menn hafa bent á það með gildum rökum, að laun þm. hafa sennilega yfirleitt verið frekar of lág heldur en of há. Og það er alveg greinilegt, að það aðhald, sem þingið hefur, þ.e.a.s. aðhald kjósenda í því að koma í veg fyrir misnotkun í þessu efni, er alveg fyllilega nægilegt aðhald. Reynslan hefur sýnt það. Það, sem er stefnt að með þessu frv., er í raun og veru að breyta Alþingi í þrýstihóp, að fjölga þrýstihópunum í þjóðfélaginu, vegna þess að með þessum hætti yrði Alþingi eins konar þrýstihópur sem þyrfti þá að þrýsta á Kjaradóm.