22.11.1978
Neðri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Þetta er nú farið að verða býsna langt um lítið mál, því ef málið er skoðað kemur í ljós að það er aðeins um eitt atriði, þ.e. að láta ákveðna stofnun í þjóðfélaginu ákveða allar launagreiðslur til þm. í stað þess að hluti þessara ákvarðana hefur verið í höndum þfkn. Um annað er málið ekki. Þess vegna ætti að vera óþarft að eyða löngum tíma og mörgum dögum í að teygja ræður út af þessu máli í allar áttir, því að staðreyndin er sú, að það er aðeins þetta sem á spýtunni hangir. Meira að segja er frv. þannig úr garði gert, að þar er í hverri grein sagt, að þó Kjaradómur eigi að fá til meðferðar að ákveða laun alþm. og svokölluð hlunnindi, eins og þarna er að orði komist, eigi Kjaradómur að gera þetta að fengnum till. þfkn., þannig að í raun og veru trúi ég að útkoman yrði svipuð því og verið hefur. Þfkn., ákveður þetta núna ein út af fyrir sig, svo sem hún á að gera að mínum dómi, en samkv. þessu frv. á Kjaradómur að gera þetta með því að lesa fyrst boðskap þfkn. og till. í þessum efnum. Ekki er málið stærra en þetta. Þess vegna held ég að það taki því ekki að vera að fara um það mörgum orðum.

En ég vil segja það sem mína skoðun, að ég er á móti því að taka þetta vald af þfkn. Hún hefur farið ákaflega vægilega með þetta vald. Hún hefur ekki hagað sér eins og grimmur þrýstihópur, allt tal í þá veru er út í hött og til þess eins fallið að vekja tortryggni, eins og segir í þessari grg. og í ræðum manna um þetta efni, að það væri mikil tortryggni í þjóðfélaginu af öðrum ástæðum, einmitt vegna þess að þm. væru að ákveða þessa hluti sjálfir. Sú tortryggni er að mínum dómi ástæðulaus, því að það er sýnilegt að við höfum ekki verið kröfugerðarmenn.

Mér finnst það vera hálflítilmannlegt að taka svo smáan hlut eins og þennan út úr því öllu, sem þm. þurfa að ákveða, og færa í hendur embættismanna. Alþingi fer með mikla fjármuni. Fjárl. eru yfir 200 000 millj. kr. Alþingi og ríkisstj. og þm. eru að velta til milljörðum í þessu þjóðfélagi. Það er auðvitað hlutverk Alþingis, og ég vona að flestir landsmenn treysti Alþ. til þess. Hví skyldi þá ekki vera hægt að treysta Alþ. fyrir því að fást við svo litlar upphæðir eins og þessar, ekki síst með tilliti til þess, að það hefur gert það á ákaflega hógværan hátt? Þess vegna finnst mér ekki mikið til þessa frv. koma í raun og veru, því að sannleikurinn er sá að það mun litlu breyta. Þetta hefði kannske einhvern tíma verið kallað auglýsingamál, annað er það ekki.

Það, sem vekur þó meiri athygli mína en frv. sjálft, er grg., og ég undrast satt að segja margar setningar og fullyrðingar í þessari grg. Þar er nefnilega einu sinni enn farið með rangt mál. Þar koma fullyrðingar, orð og orðalag sem ekki á við. Hér er talað um að margt virðist vera gagnrýnivert í sambandi við fyrirkomulag á launakjörum þm. Það má vel vera að ýmislegt af því megi athuga. En ég tel alls ekki við hæfi að fullyrða það hér einu sinni enn, að einhver leynd hafi hvílt yfir þessu. Þetta mál hefur alltaf verið opið. Allir þm. í öllum flokkum hafa hvenær sem var og hvenær sem þeim sýndist getað gefið allar upplýsingar í þessum efnum. Það hefur verið rætt um þetta í fjölmiðlum þjóðarinnar af misjafnlega mikilli vandvirkni, en fyrrv. formaður þfkn., Sverrir Hermannsson, var með útskýringu á þessu í sjónvarpi í fyrra, að mig minnir, og þetta hefur alls ekki verið neitt launungamál. Hver sem var gat fengið allar þær upplýsingar sem honum sýndist.

Nú er talað um að Alþ. hafi verið umleikið tortryggni og það hafi brostið trúnað milli þings og þorra fólksins, ekki síst vegna þessara launamála. Allar slíkar fullyrðingar eru hreint út í hött.

Mér finnst einnig rangt að kalla þær greiðslur, sem við vorum að fjalla um um daginn, fríðindi. Þarna er aðeins um það að ræða að greiða kostnað, sem alþm. verða fyrir vegna starfa sinna, og ekki einu sinni að greiða allan þennan kostnað, heldur að greiða hluta af þessum kostnaði. Við þekkjum það, sem höfum verið þm, utan af landi, að það, sem við höfum fengið greitt hér í ýmsa kostnaðarliði, hefur ekki nálægt því dugað. Við höfum borgað með okkur hundruð þúsunda á ári í fjöldamörg ár, og ég veit ekki til þess að þessi harði þrýstihópur hér hafi kvartað mikið undan því. Við höfum ekki minnst á það einu sinni, ekki fyrr en nú að farið er að vekja þetta mál upp og gera það tortryggilegt að ástæðulausu.

Enn einu sinni kemur sú fullyrðing, að við alþm. séum skattsvikarar og höfum alltaf verið, það sé skylda að gefa þetta upp til skatts. En svo er ekki. Um það hefur úrskurður fallið af réttum aðilum í þjóðfélaginu, af þeim embættismönnum sem sumir þm. hér virðast treysta betur til allra hluta heldur en þm. Sjálfir höfuðbaráttumenn gegn kerfinu og valdi kerfisins eru með þessu frv. að reyna að færa einn bitann til þessa kerfis í viðbót, og fannst þó flestum nóg komið.

Ég vil leyfa mér að halda því fram, að hér hafi þetta alltaf farið fram fyrir opnum tjöldum, þó að það hafi komið fram í framsöguræðu með þessu frv., að hér væri um pukur að ræða. Meira að segja hélt hv. 1. flm, þessa frv. því fram, — og hv. 1. flm. þessa frv. hefur greinilega samið grg., það fer ekkert á milli mála, — en hann hélt því fram, að það hefði verið reynt að koma í veg fyrir að upplýsingar um launakjör þm. kæmust til almennings. Það væri kannske ekki úr vegi að þessi hv. þm. upplýsti það, hvenær, hvernig og hver hefði reynt að liggja á þessum upplýsingum og reynt að hindra, að almenningur fengi þær í hendur. Þetta er auðvitað röng fullyrðing og þessi hv. þm. dregur hana að sjálfsögðu til baka því að hún á ekki við rök að styðjast.

Öll þessi umr. hefur af hálfu gagnrýnenda verið með þeim hætti, að hún hefur vakið tortryggni, og enn síðustu daga hafa verið að birtast slíkar greinar í dagblöðum í borginni, í svokölluðum síðdegisblöðum, en kjallaragreinar þeirra blaða hafa ekki alltaf verið sem nákvæmastar eða þrætt vandlega vegi sannleikans. Meira að segja hefur komið grein eftir grein með sömu fullyrðingunum aftur og aftur, jafnvel þó að sannleikurinn í málinu hafi örugglega komið fram í millitíðinni. Nú fyrir örfáum dögum birtist grein í einu þessara síðdegisblaða, þar sem því er haldið fram, að alþm. hafi nú einu sinni enn verið að hækka kaupið sitt. Það var þegar við færðum kostnaðarliði okkar þm, upp á við í átt til þess sem hefði átt að vera í samræmi við verðþensluna og aðrar hækkanir í landinu. Þær hækkanir voru frá 27 og upp í 38%, en kaup hafði hækkað á sama tímabili, frá því í fyrrahaust, um og yfir 50%. Ég tel að allt tal af þessu tagi og skrif á þessum nótum sé einmitt það sem valdi tortryggni. Menn eru að reyna að lauma því að fólki, að eitthvað grunsamlegt sé á ferðinni þar sem allt er hreint. Þarna er verið að reyna að vekja tortryggni þar sem ekkert á sér stað sem tortryggni getur valdið.

Herra forseti. Ég vil að lokum segja það, að mér finnst rétt að ýmislegt í sambandi við nokkra þá liði, sem heyra undir þfkn., þurfi að athuga betur. Það þarf að endurskoða þar vissa þætti. Á það hefur verið bent, að það sé ekki fullkomið samræmi þar á milli ýmissa atriða, og hefur þegar verið ákveðið í þfkn. að endurskoða þessa þætti. Og það verður gert fyrir opnum tjöldum af fulltrúum allra flokka og upplýst um leið og einhverjar breytingar verða gerðar.