23.11.1978
Sameinað þing: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil strax í upphafi máls míns lýsa yfir því, að um það er ég sammála hv. þm. Pálma Jónssyni, að ég tel að yfirráðaréttur yfir veiðiánum okkar sé betur kominn og nær því að vera almannaeign með því að vera í höndum þeirra bænda, sem á árbakkanum búa, heldur en með því móti að safna honum saman undir ráðuneytishatti suður í Reykjavík. Ég er enn fremur þeirrar skoðunar, að lífríki ánna sé í betri vörslu hjá bændunum, sem á árbakkanum búa, heldur en í höndum pólitísks valds, jafnbreytilegt og það kann að vera frá ári til árs. En ég tel aftur á móti að mál það, sem hér er til umr., hafi ekki réttlætt þau harðyrði sem hv. þm. Pálmi Jónsson lét falla í garð flytjanda þess.

Í öllum meginatriðum hygg ég að hér sé um að ræða gott mál. Ég fékk ekki betur heyrt en hv. 1. flm. flytti mál sitt af hógværð, sem í ljós mun koma þegar framsöguræða hans verður lesin í heild. Það er ekki í þessu máli gert ráð fyrir eignaupptöku frá bændum og ekki heldur gert ráð fyrir því að útilloka sölu á veiðileyfum til útlendinga sem veiða vilja í íslensku ánum. Fyrir engu slíku er gert ráð í þáltill. sem þeir félagarnir einn og átta flytja hér. Ef gripnar eru einstakar setningar út úr grg. eða framsöguræðu 7. flm. og lagt út af þeim, þá má vel túlka ákveðin varnaðarorð sem hótun, ef menn það vilja. Það mál, sem hér er, er alls annars eðlis.

Ég vil, áður en ég skil alveg við ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar, biðja hann afsökunar á því, ef vera skyldi að frammíkall mitt í ræðu hans hefði lent í þingskjölum. Ef svo er, þá vil ég afturkalla það, því að það var ekki verðugt. Hann fór ekki með blaður. En hann leyfði sér vítaverða ónákvæmni í frásögn sinni. Ég rengi ekki það, að Þingeyingum hafi tekist að skrifa skilmerkilega upplýsingar sínar varðandi fiskræktarstöðina við Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu. En ég tel að hv. þm. Pálmi Jónsson hafi ekki lesið þær nógu ítarlega upp fyrir okkur. Sannleikurinn er sá, eins og hv. þm. sagði, að klakið er út seiðum í fiskræktarstöðinni og þau alin upp, en þeim er ekki sleppt nema að litlu leyti í Laxá í Þingeyjarsýslu, heldur eru þau til sölu í aðrar ár. Eigi að síður er framtak þeirra bænda við Laxá að þessu leyti lofsvert, en minnir að dálitlu leyti á það ráð, sem stjórn Stangveiðifélags Reykjavíkur brá á hér um árið, áður en hv. þm. Árni Gunnarsson kom nærri því félagi. Hann ber því enga sök á þeirri ráðsnilld, þegar Stangveiðifélag Reykjavíkur, eins og hv. þm. Páll Pétursson kallaði, forvígisfélag íslenskra stangveiðimanna tók upp á því að leigja Grímsá og bjóða hana síðan erlendum auðmönnum til þess að veiða í henni og hugðist nota ágóðann af veiðibraskinu, eins og sumir íslenskir stangveiðimenn kalla þess háttar vinnubrögð, til þess að borga niður verðið fyrir innlenda veiðimenn, félagsmenn sína. Þetta útboð á ánni varð náttúrlega til þess að verð á henni stórhækkaði, og má segja að þessi aðferð hafi ekki að öllu leyti gefið góða raun, nálgast það e.t.v. að naga skottið á sér. En ég vík að því aftur síðar í ræðu minni, með hvaða hætti innlendir stangveiðimenn voru til þess knúðir að leita örþrifaráða, m.a. og e.t.v. fyrst og fremst sökum þess, að veiðilöggjöf okkar gerði ekki ráð fyrir slíkri þróun sem þá átti sér stað í stangveiðimálum, og léði a.m.k. olnbogarými undir þess háttar starfsemi sem þá átti sér stað.

Ég geri ráð fyrir því að ef við athugum svolítið íslenska veiðilöggjöf að fornu og þróun hennar og breytingar á henni, sem hafa orðið fram á þennan dag, þá munum við rekast á það, að einkaeignarrétturinn og yfirráðarétturinn yfir veiðiánum hafi löngum verið miklu strangari skilyrðum háður en hann er núna, að nokkur réttur alþýðu manna til veiðivatnanna hafi lengst af verið tryggður og að gengið hafi á almannarétt á hinum síðari áratugum hvað þessa löggjöf snertir fremur en hitt. Orsakirnar má aftur á móti rekja til breyttrar nýtingar á þessum gæðum frá þeim tíma þegar verðmætin lágu fyrst og fremst í fiski til ætis sem úr vötnunum mátti fá, yfir til þess sem nú er, að meginverðið liggur í réttinum til sportveiði — til þeirrar skemmtunar sem hafa má af því að veiða þar fisk á stöng.

Ég vil taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður, Gunnlaugur Stefánsson, nefndi lítillega um meginorsökina fyrir því, að nokkrir laxveiðidagar — og allmargir raunar í ýmsum ám — seljast ekki upp. Við mundum kætast af því, innlendir stangveiðimenn, ef veiðiréttareigendur tækju sig nú til og seldu nákvæmlega þessa daga erlendum stangveiðimönnum sem hingað til landsins koma til að stunda sportveiði a.m.k. að einhverju leyti. Ástæðan er beinlínis sú, að sumar þeirra laxveiðiáa, sem leigðar eru út til stangveiði, eru ekki beinlínis gjöfular, og sala veiðidaga hefst í mjög mörgum ám, þ. á m. í sumum dágóðum laxveiðiám, í þann mund sem laxinn er að byrja að ganga í árnar. Hann gengur á misjöfnum tíma — misjafnlega snemma — og við ber annað slagið að laxinn er ekki genginn á þeim tíma þegar seld hafa verið veiðileyfi í árnar. Við þessu er ekkert að gera, þetta þekkja allir veiðimenn, en fyrst og fremst í þessu felst skýringin á því, að tiltölulega margir veiðidagar á löglegum veiðitíma seljast ekki til stangveiði.

Ég ítreka það nú sem ég sagði í upphafi máls míns, af því að ég vék að hv. ræðumanni Gunnlaugi Stefánssyni, að ég má ekki til þess hugsa við núverandi aðstæður að veiðirétturinn í veiðivötnunum okkar og ánum verði settur undir hatt ráðuneytisstjóra suður í Reykjavík. Ég vil aftur á móti að þessi réttur verði fenginn í hendur bændunum, sem á árbakkanum búa, eiga þarna hagsmuna að gæta, eru best til þess fallnir og best settir til þess að vernda lífríki ánna. Og ég vil, að þessir bændur fái til umráða þann rétt sem fluttur hefur verið úr sveitunum og til bæjanna á liðnum áratugum, og vildi gjarnan, að hv. þm. Pálmi Jónsson og aðrir þeir, sem ég veit að hafa af greind og góðvilja og yfirsýn fjallað um veiðiréttarmálin, tækju til athugunar hvort ekki væri rétt t.d. að setja löggjöf á þá lund að hlunnindi eyðibýla, þ. á m. veiðiréttur, féllu til sveitarfélaganna á meðan þessi býli eru ekki í byggð og mættu þannig verða til þess að efla sveitarfélögin, efla hreppana, sem ýmsir hverjir, þar sem fólksflutningar hafa átt sér stað, standa illa fjárhagslega, ef verða mætti til þess að auka byggð aftur í þeim sveitarfélögum.

En svo að ég haldi áfram að ræða mál það, er hér liggur fyrir, og það stóra vandamál, sem okkur er nú á höndum í sambandi við útleigu til útlendinga á veiðiánum okkar annars vegar og þörf innlendra veiðimanna fyrir frelsi og aðstöðu til þess að stunda þá bráðnauðsynlegu og hollu íþrótt sem það er að veiða á stöng, þá verð ég að segja eins og er, og sakna ég eins og hv. síðasti ræðumaður þess ágæta og skemmtilega skýra þm. Ólafs G. Einarssonar héðan úr salnum, að þótt þeir flm. þáltill., sem hér um ræðir, hafi alls ekki farið með umboð hans sem stangveiðimanns er þeir fluttu þetta mál, þá þótti mér hv. 1. flm. og framsöguræðumaður túlka allvíða í ræðu sinni sjónarmið mín prívat og persónuleg, sem hef átt sumaryndi mitt að verulegu leyti í áratugi í því að veiða á stöng. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. Páll Pétursson hafi fremur átt við flutningsmáta hv. þm. Árna Gunnarssonar en efni ræðu hans, því að ekki er því að neita, að á stöku stað þótti mér hv. þm. dylja nokkuð orð sín þegar hann kvað að. Mér fannst ræða hans ítarleg og góð. Það eina, sem ég kynni að hafa getað sett út á hana í flutningi, var það að mér þótti hann ekki leggja nógu skýra merkingu í útlistun sína á mismuninum á eignaraðild bænda að veiðirétti annars vegar og eignaraðild svokallaðra veiðiréttareigenda hins vegar. Þó kom það fram býsna vel í ræðu hans, að vafasamt getur verið og raunar vafasamur greiði við bændastéttina, ef út í það er farið, að nefna bændur og veiðiréttareigendur í sömu andránni, því að svo margir eru eignaraðilar að dýrustu og bestu laxveiðiánum okkar, sem ekki eru bændur, að þar getur skeikað býsna miklu. Og af því að hv. þm. Pálmi Jónsson bar hv. þm. Árna Gunnarssyni á brýn að hann hefði farið með hótanir í garð bændastéttarinnar í framsöguræðu sinni, þá vil ég, án þess að ég ætli að taka ómakið af hv. þm. Árna Gunnarssyni að svara þessari ræðu, sem ég ætla mér alls ekki, undirstrika þetta atriði, að bændastéttinni kynni að verða vafasamur greiði gerður með því að hamra á rétti veiðibænda til þess að leita hæstu tilboða á heimsmarkaði í þau verðmæti, sem felast í frjóu árvatninu, fiskinum og grænum árbakkanum. Bændastéttinni kynni að verða vafasamur greiði gjör með því að krefjast slíks réttar til þess að leita hæstu tilboða á heimsmarkaðinum í þessa vöru sina, ef af því leiddi t.d. að landleysingjarnir — Íslendingarnir sem vilja ná í þessi gæði — krefðust þá sams konar réttar, t.d. réttar til þess að leita lægstu tilboða í landbúnaðarafurðir sem fáanleg væru á heimsmarkaðnum. Hér megum við ekki ganga á það lagið að etja þessum aðilum saman.

Ég held sem sagt, þegar grannt er skoðað mál frsm., að hv. þm. Árni Gunnarsson verði raunar ekki sakaður um offors í málflutningi sínum. En að einu skulum við gæta og síðan snúa okkur að því að skilgreina þetta viðkvæma mál, sem er deilumálið um veiðirétt, að valdahlutföll, fyrst fjallað er um þetta mál á Alþ., eru orðin þannig, að ef þeir aðilar, sem nú hafa allan lagalegan rétt á þessum gæðum, eiga ekki frumkvæðið að því að reyna að koma á sáttum í þessu viðkvæma máli, þá eiga þeir yfir höfði sér að umbjóðendur hinna mörgu atkvæðanna kannske gangi í þetta mál og leysi það þá e.t.v. á óheppilegan hátt, e.t.v. án þess að taka eðlilegt tillit til hins aðilans og e.t.v. á þann hátt, sem verða kynni til þess að spilla þessum gæðum sem við allir metum og viljum auka, en ekki rýra.

Hæstv. landbrh., Steingrímur Hermannsson, kallaði veiðiréttarmálin tilfinningamál er hann tók hér til máls hið fyrra sinnið sem þessi þáltill. var til umr. Sannast sagna eru veiðiréttarmálin ákaflega viðkvæm og má raunar kalla þau tilfinningamál. Það mun vera mála sannast, að löngu áður, þegar í árdaga, milljónum ára áður en maðurinn tók upp á því að temja sér húsdýr eða sá til akurs, þá hafi hann lifað á veiðum, og á þessu langa tímabili, segja mér mannfræðingar, þróaði veiðiskapurinn taugakerfi mannsins, og margur sá kækurinn, sem virðist lítt skiljanlegur og jafnvel broslegur í fari einstaklinga í nútímasamfélagi, þar sem manninum er ætlað hvað eina miklu fremur en það að fá að stunda veiðiskap, á rætur að rekja til þess, að maðurinn fær ekki eðlilega svörun við innbyggðri veiðináttúru sinni. Gæti ég, ef í það færi, nefnt kæki í fari ýmissa hv. þm. sem ég kynni að geta skýrt með þess háttar firringu.

Deilur hafa staðið um veiðirétt á Íslandi þegar frá því á landnámsöld. Landsnámsmenn fluttu með sér til Íslands ákvæði úr Gulaþingslögum, sem hér voru ekki í lög leidd á Íslandi fyrr en löngu síðar, og einmitt skortur á ljósum og sanngjörnum lagaákvæðum mun hafa leitt til eins fyrsta og versta vígs sem vegið var á Íslandi, í heimasýslu þeirra hv. þm. Pálma Jónssonar og Páls Péturssonar, þegar Hrollaugur vó Ingimund gamla eftir áflog um veiðina í Hofshyl í Vatnsdalsá, sem hv. þm. Pálmi Jónsson hefur tekið þátt í að leigja hinum fræga Ashley Cooper, útlendingi, samkv. eigin játningu úr þessum ræðustól fyrir skemmstu. Þegar Hrollaugur vó Ingimund gamla, sagði ég, var það Jökull Ingimundarson sem spjótinu skaut til Hrollaugs, og varð Ingimundur á milli þegar hann ætlaði að koma á sættum í þessu máli. Sumir hafa getið sér þess til og til þess var Ingimundur líklegur að hafa viljað firra þá dalbúa stórvandræðum út af þessari hatrömmu deilu um veiðiréttinn. Þar áttust við þeir aðilar sem samkv. ákvæðum Gulaþingslaga, sem þá voru ekki lögleidd á Íslandi, áttu veiðiréttinn í Vatnsdalsá, og hins vegar aðili, sem ekki átti réttinn, en samkv. sögunni hafði heimild Ingimundar gamla veiðiréttareiganda til þess að veiða sér til matar í ánni eigi að síður. En þannig er þetta með veiðiréttinn og veiðináttúru mannsins, að menn eru frekir til þessa réttar síns og þörfin til þess að veiða umfram það, sem lýtur beint að matföngum, er þess háttar að þeir, sem ekki eiga þennan rétt, gerast frekir til hans eigi að síður.

Enn þá skilst mér að þeim Húnvetningum komi í meðallagi vel saman um veiðiréttarmál. Ekki vil ég halda þeirri firru fram, að enn hefði Ingimundur gamli verið á lífi ef ekki hefði verið þessi óskaplega árátta til illinda um veiðiréttarmál í Húnavatnssýslu. En það herma fornar sagnir, að oft hafi þar flotið blóð á bökkum hinna fengsælu hylja, og stutt er síðan, ef marka má ummæli veiðivarðar þar við Víðidalsá, að haft var í hótunum á regnþrungnu og myrku ágústkvöldi við þennan veiðivörð um það að steypa honum í Hamarshylinn, — því að við erum tveir, sögðu veiðiþjófar, þú ert einn og hylurinn er djúpur. (Gripið fram í: Þeir voru nú úr Vatnsdalnum þessir.) Nei, þeir voru ættaðir af Hrútafjarðarhálsi og við nefnum ekki nöfn í því sambandi. En það eitt er víst, að ósanngjörn lagaákvæði eða ósanngjörn framkvæmd lagaákvæða, þar sem annar tekur sér allan rétt við veiðiána og ætlar hinum ekki neinn, munu ekki leiða til sátta í málum eins og þessu.

Ég hef stundum verið sakaður um að ofmeta þau lífsgæði sem felast í réttinum og frelsinu til þess að veiða, og þráfaldlega er ég spurður að því af mönnum, sem ekki hafa sömu áráttu til veiðiskapar og ég, hvort sé náttúrlegt að þurfa að veiða. Ég hafði víst leyft mér einu sinni í deilu að vitna í Karl Marx, sem sagði: Jagen ist notwendig. — Sá sem ég ræddi við, var betur að sér í Karli Marx, og sagði að hann hefði alls ekki sagt þetta, heldur hefði hann sagt: Jagen notwendig ist. — Ég hef verið spurður: Ef þetta er eðli mannsins, erum við þá eitthvað ónáttúrlegir sem ekki finnum hjá okkur þörfina til þess að veiða, sem ekki líður illa að fá ekki að veiða, — erum við þá eitthvað ónáttúrlegri en annað fólk? — Ég hef jafnvel orðið að bera af mér sakir um blóðþorsta og grimmd og drápsfýsn í þessu sambandi. — Nei, ég er ekki þeirrar skoðunar, að þið, hv. þm., sem ekki hafið sérstaka ánægju af veiðiskap, séuð neitt ónáttúrlegri að þessu leyti. Ég held ekki. Það má e.t.v. draga þann vísdóm einan af því, sem ég nú segi, að það hafi ekki bara verið akuryrkjumaðurinn Kain, heldur einnig veiðimaðurinn Abel, sem átti afkvæmi.

Ég fagna sérstaklega yfirlýsingu hæstv. landbrh. um það, að hann hafi ákveðið að gera til þess ráðstafanir að taka veiðilöggjöfina til endurskoðunar. Ég hafði vænst þess, að hæstv. ráðh. gæti orðið viðstaddur er við ræddum þessi mál nú, þannig að hann vildi gera okkur þann greiða að ítreka þessa yfirlýsingu sína, sérstaklega þar sem mér er kunnugt um að hann hefur nú þegar gert ráðstafanir í þessa átt, þ.e.a.s. að reyna að afnema þá agnúa á veiðilöggjöfinni sem nú valda helst slæmum árekstrum á milli veiðiréttareigenda og veiðimanna.

Ég tel að á því sé engin þörf að binda neitt það í lög okkar, sem komi í veg fyrir að erlendir stangveiðimenn fái að kaupa veiðileyfi í ánum okkar. Ég tel þess enga þörf. En ég tel alveg bráðnauðsynlegt að komið verði í veg fyrir að það verði bundið með lögum, að unnt sé að leigja erlendum aðilum einstakar ár, svo sem dæmi eru um hér á landi núna, svo að ég nefni dæmið um Laxá í Dölum, með slíkum skilyrðum að þar fái innlendir veiðimenn hvergi að koma nærri og fái ekki að veiða, eins og þar hefur átt sér stað. Ég er fremur þeirrar skoðunar, að þar hafi veiðibændum orðið á skyssa sem þeir hafi ekki séð fyrir hvernig verka mundi þegar til framkvæmdanna kæmi. Leigusamningar af þessu tagi eru óhæfa. Það má ekki leyfa það, að árbakkarnir séu með þeim hætti seldir til lengri eða skemmri tíma undan fótum okkar, enda álít ég að slíkt sé ekki, þegar til lengdar lætur, í þágu veiðiréttareigenda eða veiðibænda. Ég held að veiðiréttareigendur verði að viðurkenna forgangsrétt landsmanna til þess að fá að stunda þessa íþrótt, og ég hygg að affarasælast sé að veiðimenn viðurkenni aftur þar á móti yfirráðarétt veiðibænda yfir þessum hlunnindum á meðan þeir hlúa að þeim, rækta þau og auka.

Ég vék lítillega að því áðan, til hvaða neyðarráðstafana, sem illa gáfust, innlendir veiðimenn brugðu á árunum upp úr 1970 til þess að reyna að tryggja rétt sinn til veiði, þegar einstakir stangveiðimenn, sem helst vildu una við þetta sumarlangt, brugðu á það ráð að bjóða í íslenskar laxveiðiár og afla sér síðan ríkra erlendra viðskiptavina til þess að geta af ágóðanum af þeirri iðju tryggt sér ókeypis veiði í þessum sömu ám, — hvernig Stangveiðifélag Reykjavíkur þvældist inn í þess háttar viðskipti á sínum tíma með þeim hörmulegu afleiðingum, að þetta félag, sem átti að standa vörð um hagsmuni veiðimanna, varð til þess að auka enn ásókn útlendinga í árnar okkar. Ég held að þar eigi íslenskir stangveiðimenn nokkra sök, að gera það að keppikefli að reyna að ná góðri veiði í laxveiðiánum fyrir sem allra lægst verð. Sannleikurinn er sá, að góð laxveiðiá mun aldrei verða það sem kalla má ódýr hér á landi. Hún verður aldrei ódýr. Meginástæðan fyrir því er sú, að rökstudd veiðivon í laxi mun aldrei fara niður fyrir það verð sem veiðibóndi, jafnvel þó umboðsmaður allra Íslendinga sem yfirveiðibóndi væri ráðuneytisstjóri í Reykjavík, gæti fengið fyrir kg af laxi eða fyrir laxinn ef hann tæki hann í net og seldi til átu, heldur mun hún verða nokkuð þar fyrir ofan.

Það er rangt, og þar kem ég að ákaflega þýðingarmiklu atriði í ræðu hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar, að laxveiðileyfi á landi hér sem slíkt sé raunverulega yfirleitt dýrara en það var í kringum 1970 eða — við skulum rekja lengra til baka — allar götur til 1962. Það er rangt. Aftur á móti hefur hlaðist mjög mikill kostnaður á þetta sport á árunum síðan sem stafar af útlendingaveiðinni hérna, þar sem eru þær tekjur sem reiknaðar eru í fyrsta lagi af hótellífi útlendinganna á meðan þeir eru við veiðarnar og af fylgdarmönnum, af bílkostnaði og öðru slíku. Sem dæmi um þetta vil ég nefna ykkur það, að Stangveiðifélag Reykjavíkur hefur nú að nýju, sem þakkarvert er, fest leigu á þeirri ágætu veiðiá, Norðurá í Borgarfirði. Mér telst og skilst á þeim Norðurárnefndarmönnum og raunar þeim þeirra sem fróðastur er og lengst hefur verið í þeirri nefnd félagsins, að veiðileyfi á besta tíma í Norðurá á sumri komandi muni verða í kringum 50 þús. kr., dagverð. Þetta er há upphæð. En þetta er, ef nokkuð er, lægra hlutfall, ef miðað er við almennt kaup á Íslandi, heldur en var fyrir 1970. Það er sannleikurinn í málinu. Þarna fylgja ekki með leiðsögumenn, þarna útvega þeir ekki bíla og þarna þurfa menn ekki að lifa við þann mjög dýra hótelkostnað sem reiknaður er inn í veiðileyfin.

Það, sem hv. þm. Pálmi Jónsson sagði um 100 þús. kr. veiðileyfið, er alveg rétt. Það er talsverður fjöldi Íslendinga tilbúinn að borga þá upphæð fyrir veiði í á þar sem er rökstudd von um yfir 20 laxa á dag, og því miður eru í hópi þeirra manna, sem þannig bjóða, menn sem ganga til þessarar íþróttar með allt öðru hugarfari en því að fá fyrst og fremst út úr því yndi veiðidags að ganga með stöngina sína — allt öðruvísi menn. Nei, laxveiði í góðri laxveiðiá verður aldrei ódýrt sport, og ég veit ekki hvort hún á nokkurn tíma að verða það. Ég veit ekki hvort þess háttar veiði á nokkurn tíma að verða annað og meira en svo sem eins og kórónan á veiðigleði hvers sumars.

Ég hef hin síðari árin, og fjöldi kunningja minna og veiðifélaga, lagt æ meiri áherslu á silungsveiði á flugur. Við erum með á landi hér, eftir því sem sérfræðingar segja mér, um 130 þús. ha. frjórra silungsvatna. Talið er að ársframleiðsla þessara silungsvatna muni vera í kringum 1300 tonn af silungi, sem mundi þá gera ríflega 1.5 millj. tveggja punda silunga á ári. Það vita náttúrlega ekki aðrir en þeir sem reynt hafa, hvílíka geysilega gleði er hægt að hafa út úr því að veiða silung á flugu, og ekkert minni en að veiða lax ef rétt er að því staðið. Nú er ég ekki að halda því fram, að við eigum að láta erlendum auðmönnum haldast það uppi að kaupa af okkur laxveiðiárnar með þeim rökum að við getum bara farið og veitt silung. En af því að ég leyfði mér nú það hættulega vogunarspil áðan hér úr ræðustól að vitna í Karl Marx varðandi veiðiskap, þá er ekki úr vegi að vitna í skoskan sjálfstæðismann á öldinni sem leið, séra Peter Ross, sem silungsflugan skæðasta um heim allan er nefnd eftir, þar sem hann skilgreindi muninn á því að veiða sér til yndis á flugu og að veiða sér til matar, sem þó ber síst að lasta. Hann lagði út af því á pálmasunnudag, þegar Jesús frá Nazaret kom til þeirra fiskimanna við Genesaretvatn og bað þá að leggja frá sér netin, fylgja sér, hætta að veiða fiska og koma að veiða menn. Þegar þar var komið prédikuninni þagnaði hann við og sagði: Og þeir gerðu það. Það merkilega er að þeir gerðu það. En þeir voru ekki heldur fluguveiðimenn, sagði hann.

Ef við ætlum okkur að gera þessa íþrótt, stangveiðina, að almenningsíþrótt á landi hér, þá verðum við að gera til þess ráðstafanir í fyrsta lagi að koma í unga fólkið okkar þeirri dáð, að það nenni að vitja þessara silungsvatna, og kannske að greiða að einhverju leyti umferð til þeirra. Ég er ekki að halda því fram, að við eigum að leggja bílvegi á vatnsbakkana. Ég er fremur þeirrar skoðunar, að enginn eigi að fá að njóta þessarar gleði nema hann nenni að vinna til þess með fótum sínum, misjafnlega fráum. En einnig þessi möguleiki, einnig þessi réttindi, þ.e.a.s. silungsvatnanna, kunna að verða okkur sleip í hendi ef við stuðlum ekki að því að sett verði lög sem séu í fyrsta lagi til þess fallin að tryggja forgangsrétt Íslendinga sjálfra að þessum verðmætum umfram útlendinga og jafnframt til þess fallin að koma á eðlilegri sátt á milli landlausra manna með þörf fyrir veiðiskap og veiðiréttareigenda, og það vildi ég umfram allt að gert yrði.

Ég vænti þess og veit það raunar, að hæstv. landbrh. ætlar sér að standa af fullkomnum drengskap við það fyrirheit sem hann gaf okkur í Sþ. á dögunum að láta taka veiðiréttarlöggjöfina til endurskoðunar í þessu skyni. Mér er raunar kunnugt að hann hefur nú þegar gert ráðstafanir í þá átt. Ég ætla að hann vilji gjarnan miðla þarna málum, og væri þá mikið í húfi að Húnvetningur, handhafi veiðiréttar, gæti þess nú að skjóta hann ekki með spjótinu þar sem hann gengur á milli Hrollauganna og þeirra.