23.11.1978
Sameinað þing: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég verð að byrja á því, sem maður á reyndar aldrei að byrja ræðu á, að segja að það er ekki laust við að ég sé hálffeiminn að koma upp í ræðustól eftir að hafa hlustað á svo rómantíska ræðu sem hv. þm. Stefán Jónsson flutti áðan. Það var auðheyrt á öllu, að þar talaði sá sem hafði reynsluna og þekkinguna á málinu, því að það var næstum því sem maður væri farinn að horfa á hann kasta fyrir lax eða silung í ræðustólnum, í svo rómantíska stemningu var hann kominn þegar hann var að ræða um þetta mál áðan. Út af fyrir sig var það ánægjulegt, jafnvel fyrir þá sem ekki eru veiðimenn — eins og ég — og þekkja þar lítið til nema af því sem grannarnir hafa sagt frá.

Út af þessari till., sem er á þskj. 18 og margir eru flm. að, en fyrst og fremst hv. 11. landsk. þm., Árni Gunnarsson, verð ég að segja það eins og er, að mér geðjast ekki að málinu eins og það liggur fyrir. Það féll í minn hlut á síðustu 4 árum að fara með samgöngumál hér á landi sem ráðh. Eitt af þeim verkefnum, sem ég tók við sem slíkur, var frv. um ferðamál, sem var búið að vera að velkjast á tveim eða þrem þingum. Ég taldi brýna nauðsyn bera til að koma þessu máli áfram í gegnum Alþ. til þess að fá betra lag á ferðamál hér á landi og m.a. vinna að því að Íslendingar hefðu tekjur af erlendum ferðamönnum. Ég taldi að þær gjaldeyristekjur, sem Íslendingar hefðu af þeim, væru þeim mikils virði eins og aðrar gjaldeyristekjur. Ég er enn þeirrar skoðunar, að skipan á þessum málum hafi með þessari löggjöf verið betur komið fyrir og landi og þjóð hafi verið unnið gagn á þann veg sem við eigum að gera með ákvörðunum okkar hér á hv. Alþ. Ég held að það orki ekki tvímælis, að Ísland hefur einnig haft af laxveiði sinni þó nokkrar tekjur í erlendum gjaldeyri og hafi orðið þekktara land vegna þess að erlendir þjóðhöfðingjar hafa sótt eftir því að fá að veiða í íslenskum ám. Ég hef ekki talið að það væri Vopnafirði á neinn hátt til tjóns, nema síður væri, þegar Karl Bretaprins og hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, væru báðir að veiðum í Hofsá. Frá þessu hefur verið sagt held ég bæði hérlendis og erlendis, og það hefur verið eftir þessu tekið. Ég held að það sé þjóð okkar og landi mikils virði, að Bretaprins, sem verður vonandi konungur Bretaveldis, sæki Ísland heim á hverju ári af því að honum þyki mikið varið í að koma hingað og veiða lax. Nú er ég ekki þar með að segja að prinsinn hafi ekki efni á að greiða þennan skatt sem hv. 11. landsk. þm. hugsar sér að greiddur verði. En yrði þetta framkvæmt líst mér ekkert á lögregluna sem vinur minn og flokksbróðir, hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, ætlaði að koma á. Ég held að það hafi verið nóg a.m.k. fyrir hæstv. fjmrh. okkar, að greiða laun annarra lögreglumanna þó þessu væri ekki bætt við. Ég sé ekki að þetta gæti orðið á annan veg, ef raun yrði, heldur en að þetta lenti á þeim, sem veiðileyfin seldu, og þaðan værum við að taka peningana. Ég er á því, að þó að ætti að koma því hér til leiðar að laxveiðimenn kæmust ekki hingað nema eftir alls konar krókaleiðum, þá mundu þeir finna krókaleiðirnar. Þess vegna verð ég að segja eins og er, að ég hef talið að við ættum innan vissra takmarka að nota gæði lands okkar til þess að afla okkur m.a. dýrmæts gjaldeyris, en hans getum við einnig aflað fyrir lax.

Ég vil líka í sambandi við þetta mál taka undir það, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, að ég er alveg viss um að verðið á laxveiðileyfunum núna er ekki hærra en það var fyrir nokkrum árum, ef verðgildi krónunnar er metið rétt. Ég þekki það ósköp vel, að menn hafa látið eftir sér að fara í laxveiði þó það hafi kostað sitt, af því að þeir hafa haft meiri áhuga á því en fara til Mallorca eða einhverra slíkra staða, og mér finnst það miklu skemmtilegra og eðlilegra. Það var einn ágætisvinur minn í Borgarnesi sem hafði ekki mikil fjárráð. Hann fór alltaf í laxveiði og hann var mjög fengsæll í laxveiðinni. Hún var honum því tvöföld ánægja. Hann kom heim sæll og glaður yfir því að hafa notið þess að vera á þessum stöðum og þess sem er að njóta í sambandi við að lifa úti í hinni frjálsu náttúru, og venjulega með mikla veiði líka. Þetta var því andleg hressing, fyrir utan kannske að hann hafi haft eitthvað upp úr veiðinni, sem ég held að hafi ekki verið mjög mikið.

Hér hefur verið rætt um að vinir mínir og stuðningsmenn í Dölum vestra — og okkar þm. Vesturl. — hafi gert skyssu í sambandi við leiguna á Laxá. Vel má það vera. Og ég tek undir það, að mér finnst ekki nema eðlilegt að Íslendingar hafi a.m.k. jafnan rétt og útlendingar og vel það til að ná laxveiðiánum. En ég vil láta þá borga fyrir. Mér finnst að þar eigi ekki að hlífa neinum miðað við það sem eðlilegt er, og ég tek undir það sem kom fram í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. um Norðurá í Borgarfirði. Áin hefur verið og er mjög eftirsótt, afskaplega skemmtileg og í svo óskaplega fallegu landi að veiðileyfi útlendinga. 996 það er hrein rómantík út af fyrir sig að njóta þeirrar fegurðar, þó að menn geri ekki nema halda á stönginni. En hún er leigð Íslendingum og hefur verið svo og verður svo.

Skoðun mín er sem sagt sú, að við hljótum alltaf að leigja útlendingum laxveiðiár — eða veiðirétt vil ég orða það, en ekki leigja laxveiðiárnar. Ég er ekki hlynntur því, að þeir fái árnar í heild, en þeir fái að veiða. Og ég tel að það, sem hafi gerst á síðustu tveim áratugum, sé að tekist hefur að auka laxagengd hér verulega mikið. Ég minnist þess frá fyrsta þingári mínu, að þá var frv. að nýjum laxveiðilögum til meðferðar á hv. Alþ. og rökin fyrir því, að nauðsyn bæri til að setja þá löggjöf, sem var mikið deiluatriði í mínu kjördæmi, sem þá var Mýrasýsla, voru einmitt þau, að löggjöfin mundi auka laxagengdina, veiðina, og þar með tekjurnar. Þetta hefur tekist og það tel ég afskaplega mikils virði.

Ég er líka á þeirri skoðun, að laxveiðiárnar og Iaxveiðin þar með eigi að fylgja þeim jörðum sem vatnið rennur um. Mér hefur verið illa við leigu á jörðum er laxveiðin hefur verið skilin undan. Þess vegna held ég að það hljóti að fara svo, að ef okkur tekst að auka laxveiðina í mjög ríkum mæli, sem ég vona og við höfum verið að vinna að, — því miður höfum við ekki lagt nógu núkið fjármagn t.d. í eldisstöðina í Kollafirði sem hefur gert mikið gagn og við þurfum að sinna betur, — getum við fullnægt eftirspurn hérlendra manna og hljótum því að selja erlendum mönnum veiðiréttindi líka.

Í sambandi við þessa þáltill. vil ég leyfa mér að vitna í umsögn þeirra manna, sem best þekkja til, forráðamanna veiðimála hér á landi, samtök veiðiréttareigenda. Þeir segja hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Við teljum framboð veiðileyfa nægjanlega mikið til að fullnægja innlendri eftirspurn þrátt fyrir núverandi veiðileyfissölu til erlendra aðila. Til stuðnings þessu sjónarmiði bendum við á, að Veiðimálastofnunin leyfði sölu á 32 936 veiðidögum sumarið 1978. Af þeim er talið að erlendir veiðimenn kaupi 5000 leyfi, íslenskir veiðimenn 19000, en tæpir 9000 veiðidagar séu ónotaðir.“

Nú er ég ekki alls kostar viss um að hér sé um ónotaða veiðidaga að ræða, því að eitthvað af þessu munu eigendur nota sjálfir. Jafnvel þótt þeir hafi þann möguleika að selja þá, þá hefur færst í það horf. Þeir segja enn fremur, með leyfi forseta:

„Við teljum að veiðileyfasalan til útlendinga hafi ekki sprengt verð veiðileyfa upp fyrir greiðslugetu íslenskra veiðimanna. Meðalverð leyfa á innanlandsmarkaði sumarið 1978 var áætlað 17 500 kr. á dag. Meðalaflaverðmæti á sama tíma var 13 000 kr. á dag, svo að íþróttin sjálf virðist ekki mikils metin, ef þessi verðmunur er of hár.“

Verðmæti laxins, sem veiddur var, var sem svaraði 13 000 kr. á dag, en salan 17 500 kr. Ég held því að það sé ekki heldur rétt, að ásóknin af hálfu útlendinga í veiðileyfi hér á landi hafi aukist. Ég held að hún sé í raun og veru minni árið 1978 en hún var 1974. Ég held því, að við þurfum ekki að óttast þó að sókn sé nokkur af hendi erlendra aðila í að kaupa hér veiðileyfi. Í grg. frá Landssambandi veiðifélaga segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. upplýsingum, sem Landssamband ísl. veiðifélaga hefur aflað sér, eru færri veiðileyfi seld til útlendinga sumarið 1978 en var árið 1974, og sjáum við ekki fram á breytingu á þeirri þróun. Við teljum því að ásókn erlendra veiðimanna sé ekki að aukast.“

Þetta vildi ég láta koma fram hér og svo líka minna á að þeir, sem veiðiréttindi selja, greiða nú þegar 2% af veiðitekjum sínum í Fiskræktarsjóð. Ef einhverju ætti að fara að breyta, þá væri það helst fjárframlögum þangað. En mér list ekki vel á hugmyndina um að fara að hálfloka landinu með því sem þarna er lagt til.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég ætla mér ekki að fara út í umr. um að gjaldeyrisskil og annað séu ekki sem skyldi. Þeirra, sem eiga að sjá um það, er þá handvömmin, því að það liggur alveg ljóst fyrir hverjir hafa árnar og hve mikið af veiðileyfum er selt.

Ég hefði gjarnan viljað að hinir hv. þm. hér á Alþ. drægju ofurlítið úr aðdróttunum, sem mér finnst ég hafa orðið meira var við á hv. Alþ. nú en áður, og tortryggni í garð manna. Síst af öllu finnst mér það eiga við þegar aðdróttanir eru í garð þeirra sem ekki hafa möguleika til þess að verja sig, eins og t.d. í þessu tilfelli er, þó að reyndar væri það svo að í dag talaði maður sem hafði tekið þátt í leigusamningum.

Skoðun mín er sú, að það, sem okkur beri að vinna að, sé að auka laxgengdina hér á landi. Það er eitt af þeim verkefnum sem Alþ. og ríkisstj., fjárveitingavald ríkisins eiga að veita meira fé til en verið hefur og vinna að framgangi þess máls. Það er alveg ljóst, að við getum ekki aukið laxgengdina í landi okkar nema með ræktun. Það er ræktun sem gildir.

Ég tek undir það með hv. 4. þm. Norðurl. e., að í því sambandi þurfum við einnig að huga að silungsveiði okkar ekki síður en laxveiði, því að hvort tveggja á jafnmikinn rétt á sér og er þjóð okkar jafnnauðsynlegt. Ég er alveg á móti því, að þannig sé á málum haldið, að Íslendingar séu útilokaðir frá því að njóta þessa. Eins er ég á móti því, að erlendir menn séu útilokaðir. Ég vil því að hinnar mestu hófsemi sé gætt í meðferð þessara mála.

Ég tel að þetta sé ein af dýrmætustu perlum lands okkar sem notið verði þegar menn hverfa frá hversdagsleikanum, en nota frístundir sínar á skynsamlegan og réttmætan hátt. Og ég hef aldrei skilið það, að betur sé varið þeim tíma, sem menn eyða í Suðurlöndum og suðrænni sól, en hér uppi á hálendi við fallegar og skemmtilegar veiðiár. En ég tek undir það, að ég vil engum frá því bægja.

Ég tel að það sé fjarri lagi að laxveiðin sé orðin það dýrt sport, miðað við annað, að verð sé í óhófi. Ég vil líka taka það fram, að ég er algerlega á móti því að aðskilja jarðirnar og árnar til þess að ríkið fari að ráða yfir laxveiðiánum. Það verða aðrir hv. alþm. að leggja því máli lið. Ég mun ekki gera það og berjast gegn þessu meðan ég verð að störfum hér á Alþ., því að þá væri verið að vinna mjög fráleitt verk, ef þetta mál næði fram að ganga.

Ég efast ekkert um að hv. 11. landsk. þm., Árni Gunnarsson, hefur meint vel með þessari till. sinni — ég ætla honum ekki annað. En ég tel að honum beri nauðsyn til að athuga málið betur. Hv. Alþ. treysti ég til að láta málið ekki ganga í gegn á þann hátt sem þarna var stefnt að, því að ég tel að þá værum við að vinna annað en við vildum vinna. Ég tel eðlilegt að Ísland verði ferðamannaland að takmörkuðu leyti eða í hófi. Ég tel að þegar sé búið að setja miklu meira eftirlit með ferðamönnum og strangari reglur um að vernda landið og annað, sem við þurfum að sinna í þeim efnum, en góðu hófi gegnir, miðað við að hingað komi ferðamenn og Íslendingar geti notið þess að hafa tekjur af erlendum ferðamönnum. Margar þjóðir hafa byggt afkomu sína verulega á slíku, og við eigum að reyna að hagnýta okkur slíkt svo sem eðlilegt og skynsamlegt er.