27.11.1978
Efri deild: 19. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

Forseti segir af sér

Forseti (Bragi Sigurjónsson):

Hv. þingdeild. Ég hef ákveðið hér og nú að segja af mér forsetastarfi Ed. Alþingis. Ákvörðun minni er ekki beint gegn þd., sem ég þakka af alhug fyrir umburðarlyndi og hjálpsemi í glapsömum forsetastörfum mínum þann stutta tíma sem ég hef sinnt þeim.

Ákvörðun mín er tekin af þeim sökum, að ég vil ekki teljast samstarfstákn í forsetastóli ríkisstjórnarflokka, sem ekki hafa kjark né þrek til að marka og koma sér saman um slíka úrlausnarstefnu í verðbólguvanda þjóðarinnar, að til vafalausra úrbóta horfi, né heldur nýta þann fórnar- og samstarfsvilja, sem ég tel að nú hafi verið fyrir hendi meðal almennings, til að ráðast gegn þeim vágesti.

Ég hef þá sannfæringu, að besta kjarabót, sem nú væri hægt að færa alþjóð manna og þó fyrst og fremst þeim, sem þrengst eiga fyrir dyrum, mundi vera umtalsverð minnkun verðbólgu. Þá minnkun þarf að skapa úr mörgum þáttum. En frv. það, sem nú hefur verið ákveðið í ríkisstj. að bera fram á Alþingi sem vopn gegn verðbólgu, er að mínum dómi bitlaust og auk þess rangsleitið. Það beinist fyrst og fremst að launþegum hvað lagasetningu snertir, þó í leiðinni sé þeim klappað með lausyrtri greinargerð og hálfkveðnum loforðum um úrbætur í lífskjörum, ef þeir eiri vísitöluskerðingu á laun sín.

Þjóðin hefur slæma reynslu af loforðum í ermi og lausatökum. Þau vinnubrögð urðu að minni hyggju fyrrv. ríkisstj. fyrst og fremst að falli, kjark- og úrræðaleysi beit úr henni bakfiskinn.

Ég harma, að ríkisstj., sem ég hefði viljað sjá vaxa og vel dafna, hafi nú lotið að sömu vinnubrögðum og sýnt sams konar kjark- og úrræðaleysi.

Ég harma, að stuðningsflokkar hennar hafa nú lotið að þeim leik að setja tilfundin ágreiningsefni ofar þjóðarþörf á röggsamlegum úrræðum, sem við öll undir niðri óskum eftir.

Ég harma, að stundarhagir flokka séu af flokksforingjum bornir meir fyrir brjósti en alþjóðarheill.

Ég vil ekki vera samstarfstákn slíks leiks og slíkra vinnubragða. Því segi ég af mér forsetastarfi þessarar deildar, en megi hollvættir Íslands leiða forustumenn okkar ágætu þjóðar til réttrar brautar.

Ég bið hv. 6. þm. Suðurl., Jón Helgason, 2. varaforseta deildarinnar, að taka nú við fundarstjórn.