27.11.1978
Efri deild: 19. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

Forseti segir af sér

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Hér hafa gerst merkir atburðir og einstæðir í þingsögunni, bygg ég, a.m.k. á síðari áratugum, að forseti segi af sér störfum til að mótmæla stjfrv. og stjórnarstefnu. Forseti flutti hér svo góða ræðu að ég get þar engu við bætt. Hann sagði allt sem segja þarf um ráðleysi núv. ríkisstj. og þá hörmung sem þetta stjórnarsamstarf þegar er orðið. Hann gaf að vísu ekki nákvæma lýsingu á frv. efnislega né heldur formi frv., en svo gæfusnauð er þessi hæstv. ríkisstj., að hún getur ekki einu sinni komið frv. saman í réttu formi. 1. gr. þessa frv. er gagnslaus, 2. gr. er endaleysa, 3. gr. er endaleysa. Það sér hver einasti maður eða ætti að sjá, þó ekki væri löglærður. Það er ekki einungis að efni þessa frv. sé með þeim hætti sem forseti lýsti, heldur er form þess með þeim hætti að það er ekki sýnandi Alþingi.

Þessir atburðir verða lengi í minnum hafðir, á því er ekki minnsti vafi, og þingstörfin næstu daga verða vandasöm og erfið. Við í stjórnarandstöðunni ætlum ekki að gera vandann meiri en hann er orðinn. Við munum hjálpa til að greiða fyrir framgangi þeirra mála sem til úrbóta gætu orðið, gætu orðið til að bjarga. En það er ekki hægt að komast hjá að vekja athygli á því, að einn stjórnarflokkanna er klofinn. Stóri sigurvegarinn er klofinn vegna þess að samstarfsflokkarnir hafa ekki tekið tillit til eins eða neins í stefnu þess flokks. Allt er gert þveröfugt við stefnu Alþfl. Þess vegna er þessi flokkur nú klofinn og þess vegna gerast þessir miklu atburðir.

Ég skal ekki tefja frekar tímann, herra forseti, en vildi vekja athygli á því varðandi frv., að það er líka meingallað að formi til og ekki sýnandi löggjafarsamkundunni