27.11.1978
Neðri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. gerði hér áðan grein fyrir helstu forsendum þess frv. sem hér er á dagskrá og til umr. Ég tel þó nauðsynlegt að koma hér á framfæri nokkrum aths. til viðbótar við það sem þar kom fram.

Allt frá því að kjarasamningarnir voru gerðir árið 1977 hafa þær raddir verið býsna háværar í þjóðfélaginu sem hafa talið þá samninga óraunhæfa með öllu. Á þeim forsendum reisti fráfarandi ríkisstj. stefnu sína s.l. vetur er hún barðist gegn verkalýðshreyfingunni. Eftir kosningarnar í sumar hafa þessi viðhorf einnig komið mjög berlega í ljós í aths. stjórnarandstæðinga og raunar einnig innan stjórnarflokkanna sjálfra. Hæstv. félmrh. benti einmitt mjög hreinskilnislega á þetta mál í útvarpsþætti í gærkvöld. Hann sagði það viðhorf Alþfl., að allir yrðu að gefa eftir nú, einnig launamenn, ef unnt ætti að vera að vinna bug á verðbólgunni, hins vegar væri Alþb. annarrar skoðunar. Þetta er alveg rétt túlkun hjá hæstv. félmrh. og um þetta snerust deilur innan ríkisstj. síðustu sólarhringana. Alþb. hefur neitað og neitar að fallast á lögbundinn kauplækkunarferil á næsta ári. Sú afstaða flokksins mótast af fyrri yfirlýsingum og hún er í góðu samræmi við afstöðu Alþb. til baráttu verkalýðshreyfingarinnar á undanförnum missirum.

Alþb. telur nauðsynlegt, að nú verði gripið til róttækra, víðtækra efnahagsráðstafana. Það frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um einn þátt efnahagsmálanna, þ.e.a.s. launamálaþáttinn. Í frv. er gert ráð fyrir því, að um væri að ræða liðlega 6% kauphækkun, en á móti þeim 8%, sem þá vantar á, komi 3 stig í niðurgreiðslum, 2 stig í skattalækkunum og 3 stig í félagslegum ráðstöfunum. Alþb. fagnar því sérstaklega, að svokallað sjúkratryggingagjald verður nú lækkað verulega, en það er einn ranglátasti skattur sem lagður hefur verið á og kemur á alla þá sem hafa greitt útsvar. Er ætlun ríkisstj., að um helmingur skattalækkunarinnar komi fram í sjúkratryggingagjaldinu. Hinn helmingurinn kemur fram í lækkun tekjuskatts af lægri tekjum. Á móti þessari skattalækkun láglaunafólks koma skattahækkanir á hærri tekjur og fyrirtæki, eignir og veltu. Verður útfærsla skattalækkunarinnar að fara fram í samráði við verkalýðssamtökin, og einnig verður að sjálfsögðu að hafa góð samráð um hvernig hinir hækkuðu skattar verða á lagðir. Þegar verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur gengið frá kjarasamningum undanfarna áratugi hefur það margoft gerst, að fallið hefur verið frá kauphækkunarkröfum gegn því að tiltekin félagsleg réttindamál næðu fram að ganga. Í þessu sambandi má minna á Atvinnuleysistryggingasjóð og lífeyrissjóðina. Það er því í fullu samræmi við þessa fyrri stefnu og afstöðu verkalýðshreyfingarinnar, að nú er gert ráð fyrir að þrjú vísitölustig komi á móti tilteknum félagslegum úrræðum.

Hæstv. forsrh. kynnti þessi mál áðan í framsöguræðu sinni. Hér er annars vegar um að ræða málefni sem fyrri ríkisstj. veitti loforð um að framkvæmd yrðu, en stóð ekki við. Hér er átt við húsnæðismála- og lífeyrissjóðamálin. Má vænta þess, að frv. um þessi efni verði tilbúin innan skamms og verði þar í meginatriðum fylgt þeirri stefnu sem samið var um 1977 í sólstöðusamningunum. Í þessum félagslega þætti, sem hér er á dagskrá, er einnig um að ræða almenn félagsleg málefni. Þau eru í fyrsta lagi dagvistunarmál, þar sem gert er ráð fyrir verulegri aukningu fjármagns til þess málaflokks frá því sem ætlað er í fjárlagafrv. því sem nú liggur fyrir hv. Alþ. Í öðru lagi er í þessum félagsmálaþætti gert ráð fyrir því, að reglur um fæðingarorlof verði endurskoðaðar og kostnaði af fæðingarorlofi verði létt af Atvinnuleysistryggingasjóði. Loks er í þessum félagslegu ráðstöfunum fjallað um aðbúnað á vinnustöðum, bætta aðstöðu í veikinda- og slysatilfellum o.fl.

Á samráðsfundi með fulltrúum Alþýðusambands Íslands og ríkisstj. s.l. laugardag lagði Alþýðusambandið fram hugmyndir um ýmsa félagslega þætti sem samtökin óska eftir að þegar verði tekin afstaða til. Ég mun nú rekja nokkur þau mál sem fram komu á þessum samráðsfundi með Alþýðusambandi Íslands.

Í fyrsta lagi leggur Alþýðusamband Íslands mjög mikla áherslu á að hraðað verði samningu nýrra og endurbættra laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum svo og könnun þeirri sem nú stendur yfir á ástandi vinnustaða í öllum starfsgreinum, sem lofað var með yfirlýsingu stjórnvalda við lok sólstöðusamninganna 1977. Alþýðusamband Íslands leggur á það mikla áherslu, að í nýrri löggjöf um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum verði ákvæði um réttindi trúnaðarmanna og vinnueftirlits til að stöðva vinnu þar sem aðbúnaður vinnustaðar er ekki í samræmi við lög og reglugerðir eða hætta er á heilsutjóni eða slysum. Jafnframt leggja samtökin mjög mikla áherslu á það, að þegar í stað verði gerðar ráðstafanir til þess að tryggja að atvinnurekendur, sem vilja bæta aðbúnað á vinnustöðum í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru, fái til þess sérstakt lánsfé.

Í öðru lagi lagði samráðsnefnd Alþýðusambands Íslands á það áherslu, að ríkisstj. gripi til ákveðinna félagslegra ráðstafana varðandi réttindamál sjómannastéttarinnar. Þau mál voru rakin það ítarlega í ræðu hæstv. forsrh. áðan að ég tel ekki ástæðu til að bæta þar við.

Samráðsnefnd Alþýðusambands Íslands og forustumenn þeirra samtaka lögðu mikla áherslu á að fræðslu- og félagsmál verkalýðshreyfingarinnar verði tekin til sérstakrar endurskoðunar. Alþýðusamtökin hafa minnt á að fræðslu- og félagsmálastarf á vegum verkalýðshreyfingarinnar gegni æ mikilvægara hlutverki í eflingu samtakanna og til stuðnings þekkingu, félagsþjálfum og almennri virkni félagsmanna. Hafa samtökin lagt til að verulegu fjármagni verði varið til þess að efla félags- og fræðslumálastarf á vegum verkalýðssamtakanna. Lagði samráðsnefnd Alþýðusambands Íslands fram við ríkisstj. á laugardaginn ákveðnar tillögur um útfærslu þessara þátta, þ.e.a.s. að varið yrði ákveðnum upphæðum, verulega hækkuðum, til Félagsmálaskóla alþýðu, hagdeildar Alþýðusambandsins, hagræðingardeildar Alþýðusambandsins og til byggingar félagsaðstöðu við orlofsheimili verkalýðssamtakanna. Ég hygg að það megi segja, að ríkisstj. allri sé ljóst að nauðsynlegt er að koma til móts við óskir verkalýðssamtakanna í þessum efnum einnig.

Á umræddum samráðsfundi lögðu fulltrúar Alþýðusambandsins fram og kynntu hugmynd, sem verið hefur á dagskrá við kjarasamningagerð undanfarin ár varðandi eftirvinnu. Eins og kunnugt er hefst svokölluð eftirvinna yfirleitt eftir kl. 5 eða eftir 8 dagvinnustundir. Alþýðusambandið var með þá hugmynd í síðustu kjarasamningum, að næturvinna tæki við af dagvinnu á föstudögum. Þessari hugmynd Alþýðusambandsins var þá hafnað, en á fundi með samráðsnefnd Alþýðusambands Íslands á laugardaginn var þessi hugmynd tekin upp og bent á þann möguleika, að það yrði lögfest að öll eftirvinna legðist af í áföngum þannig að 1. jan. 1979 tæki næturvinna við á föstudögum að loknum 8 vinnustundum, en síðan bættist við einn vikudagur á hverju ári þar til eftirvinna væri endanlega fallin niður frá og með 1. jan. 1983.

Einnig lögðu þeir talsmenn Alþýðusambands Íslands mjög mikla áherslu á það, að réttindi verkafólks í veikinda- og vinnuslysatilfellum yrðu bætt frá því sem nú er. Hæstv. forsrh. gerði nokkra grein fyrir því áðan, og til viðbótar við það, sem þar kom fram, vil ég láta þess getið, að samráðsnefnd Alþýðusambandsins var með hugmynd um að í lög yrði fest regla þar að lútandi, að allir verkamenn ættu rétt á sérstakri læknisrannsókn ókeypis á tveggja ára fresti. Ég tel, að hér væri um að ræða mjög verulegt réttindamál verkafólk í þessu landi, og tel ríkisstj. skylt að taka það til sérstakrar skoðunar, jafnframt því sem kannað væri með hvaða hætti lögum nr. 16/1958, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests o. s. frv., yrði breytt.

Samráðsnefnd Alþýðusambands Íslands lagði mjög mikla áherslu á það, að með núverandi orlofskerfi væri það þannig, að verkafólk hefði ekki það sem kallað er verðtryggt orlof, ekki í nærri öllum tilfellum. Þess vegna lögðu þeir Alþýðusambandsmenn á það mikla áherslu að gerðar yrðu sérstakar ráðastafanir til þess að bæta ávöxtun orlofsfjár frá því sem nú er. Var nefndur sá möguleiki, að jafnan verði greiddir á orlofsfé þeir vextir sem samsvari hæstu innlánsvöxtum miðað við 12 mánaða sparisjóðsbækur og skuli þá miða útreikning vaxta við rétta og skilvíslega greiðslu atvinnurekenda, eins og lög og reglugerð kveða á um.

Enn fremur lagði samráðsnefnd Alþýðusambands Íslands fram tillögu um frekari útfærslu að því er varðar innheimtu orlofsfjár, þannig að Pósti og síma, póstgírói, væri heimilt að leggja dráttarvexti á þá atvinnurekendur, sem verða skuldarar á orlofsfé, og jafnframt að sú skylda yrði lögð á póstgíróstofuna að greiða orlofsþega höfuðstól orlofsfjárins þrátt fyrir vanskil atvinnurekanda.

Loks var af samráðsnefnd Alþýðusambands Íslands lögð fram hugmynd um að núverandi lögum um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot yrði breytt þannig að réttur verkafólks yrði tryggður betur en nú er í þeim efnum. Samkv. lögum og reglugerðum um þessi efni er talið af þeim, sem hafa reynslu af að innheimta laun verkafólks við gjaldþrot atvinnurekenda, að lögin séu í raun og veru ekki nærri nógu skýlaus og þar þurfi mjög úr að bæta. Það er bent á að samkv. 2. gr. reglugerðar nr. 302/1975, um greiðslu á launum úr ríkissjóði við gjaldþrot, nær greiðsluskylda ríkissjóðs aðeins til þeirra launa sem forgangsréttur fylgir samkv. skiptalögum, þ.e. launa sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 6 mánuðum fyrir upphaf skipta. Þeir Alþýðusambandsmenn lögðu þarna fram ákveðna hugmynd og þeir rökstyðja hana með þeim hætti, að til þess að ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot þjóni tilgangi sínum og tryggi launþega nokkurn veginn örugglega gegn því að glata launum sínum verður greiðsluskylda ríkissjóðs að ná til lengra tímabils en 6–7 síðustu mánaða fyrir upphaf skipta. Reynslan sýnir að oftast er mjög tafsamt að staðreyna gjaldþrot atvinnurekenda. Reynslan sýnir einnig að launþegar hafa talsverða biðlund og leita jafnvel ekki réttar síns fyrr en veruleg vanskil eru orðin á launum. Jafnvel láta þeir sér nægja að fá greitt upp í launin hverja vikuna á eftir annarri án fullnaðaruppgjörs. Allt þetta býður upp á þá yfirvofandi hættu, að laun falli utan ríkisábyrgðar. Á þessum forsendum eru þeir Alþýðusambandsmenn með ákveðna tillögu um breytingu á þessum lögum um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot.

Ég taldi rétt að gera á þessum fundi nokkra grein fyrir þeim hugmyndum sem þarna komu fram. Ég tel að þær hugmyndir séu ríkisstj. ákaflega mikilvægt veganesti við útfærslu þeirra félagslegu þátta sem gert er ráð fyrir að komi á móti 3% í verðbótavísitölu.

Ég vil einnig láta þess getið, að á laugardaginn var haldinn samráðsfundur með forráðamönnum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Þeir lögðu þar einnig fram ítarlegar hugmyndir um félagsleg málefni sem þá snerta sérstaklega. Í fyrsta lagi nefndu þeir rétt opinberra starfsmanna við atvinnuleysi, að þeir þyrftu að fá atvinnuleysistryggingu ekki siður en aðrir. Í öðru lagi nefndu þeir hugmynd sem hefur verið uppi innan þeirra samtaka um að svokallaður biðreikningur verði sameinaður lífeyrissjóðum. Í þriðja lagi ræddu þeir um húsnæðismál og í fjórða lagi um samningsréttarmál opinberra starfsmanna, sem hér eru nú til sérstakrar meðferðar í n. sem ríkisstj. hefur sett á laggirnar.

Ég hef rakið þennan félagsmálaþátt svo ítarlega til þess að undirstrika áherslu Alþb. við afgreiðslu þessa frv. á félagsmálin. Afgreiðsla félagsmálanna er ein meginforsenda afstöðu okkar í þessum efnum, og okkur er kunnugt um að verkalýðshreyfingin, Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, mun leggja mjög mikla áherslu á þessi málefni. Mörg þeirra mála, sem ég nefndi, eru allflókin í útfærslu, önnur ljós, og þeim síðarnefndu þarf að hraða svo sem framast er unnt í framkvæmd. Stuðningsyfirlýsingar Verkamannasambands Íslands og Landssambands vörubifreiðastjóra, sem birst hafa, verða ríkisstj. hvatning til þess að hraða afgreiðslu þeirra mála sem ég hef hér rakið.

Í upphafi minnti ég á að kjaramálin væru aðeins einn þáttur efnahagsmálanna. Ríkisstj. verður nú í samræmi við samstarfsyfirlýsingu sína að halda áfram að móta heildarstefnu í efnahagsmálum. Alþb. hefur skýra stefnu í þessum efnum. Á flokksráðsfundi þess var samþ. nýlega sérstök yfirlýsing um efnahagsmál, og vil ég í tilefni þessarar umr. lesa úr henni stuttan kafla.

„Jafnhliða ákvörðunum um skammtímaráðstafanir verður að ákveða aðgerðir í efnahagsmálum, sem hafa varanlegt gildi, til þess að vinna gegn þeirri verðbólgu sem annars ógnar afkomu launamanna og efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Við slíka stefnumörkun í efnahagsmálum bendir Alþb. á eftirfarandi meginatriði:

1. Ákveðið verði nú þegar að taka upp sterka fjárfestingarstjórn.

2. Gerð verði rækileg úttekt á rekstri ríkisins og ríkisstofnana.

3. Stuðlað verði að verulegum samdrætti í yfirbyggingu og eyðslukerfi þjóðfélagsins.

4. Rannsókn á innflutningsversluninni verði hraðað sem kostur er og gerðar ráðstafanir til að tryggja hagkvæmari innkaup til landsins. Hafist verði handa um rannsókn á útflutningsversluninni, könnuð verði framkvæmd á fjárfestingum á auðmagnsupphleðslu íslenskra stórfyrirtækja og einstaklinga erlendis.

5. Haldið verði ströngu verðlagseftirliti og mótuð stefna í verðlagsmálum til þess að draga úr þeim miklu verðhækkunum sem gerðar eru kröfur um.

6. Vextir verði lækkaðir samhliða því sem dregið verði úr verðbólgu.

7. Stjórn innflutnings- og gjaldeyrismála verði samræmd heildarmarkmiðum í efnahagsmálum.

8. Hamlað verði gegn erlendri skuldasöfnun.

9. Fjármagni verði á skipulegan hátt beint til framleiðslu-og framleiðniaukningar, sérstaklega í fiskvinnslu og iðnaði, og verulega auknu fjármagni verði varið til iðnþróunar.

10. Allt tekjuöflunarkerfi ríkisins verði tekið til endurskoðunar. Leggja ber á veltu- og fjárfestingarskatta. Afnumdar verði óeðlilegar afskrifta- og fyrningarreglur og endurskoða verður reglur um skattfrádrætti.

11. Gerðar verði ráðstafanir til þess að herða skattaeftirlit með sérstöku aðhaldi að fyrirtækjum og þeim aðilum sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur. Leggur flokkurinn áherslu á að á þessu sviði verði gripið til tafarlausra aðgerða.

12. Alþb. krefst þess, að fram fari allsherjar eignakönnun í landinu og verði niðurstöður hennar hagnýttar við ákvarðanatöku í efnahagsmálum.

13. Gerð verði úttekt á umsvifum og áhrifum þeirra fyrirtækja á íslenskt efnahagslíf sem hér blómstra á vegum og í skjóli amerískrar hersetu. Sérstök áhersla verði lögð á rannsókn á tengslum hersetunnar og umsvifum íslenskra fyrirtækja í Bandaríkjunum og áhrifasvæði þeirra.

Alþb. minnir á að hér er um að ræða tillögur sem allir vinstri menn ættu að geta sameinast um. Flokkurinn telur að allir ofangreindir þættir þurfi að felast í heildarstefnunni í efnahagsmálum. Verði ekki unnið eftir slíkri samþættri heildaráætlun fer efnahagsstjórnin úrskeiðis.

Alþb. hafnar algerlega þeirri kenningu, að orsakir verðbólgunnar hér á landi séu of há laun vinnandi fólks. Þess vegna er flokkurinn andvígur tillögum um breytingar á vísitölugrundvellinum sem að því miða að draga úr réttmætri verðtryggingu launa og leiða mundu til kjararýrnunar.

Alþb. stendur fast á því grundvallaratriði stjórnarsáttmálans, að ríkisstj. standi vörð um þau lífskjör og þann kaupmátt sem um var samið 1977.“

Hæstv. forsrh. fjallaði í framsöguræðu sinni ítarlega um grg. þá sem fylgir frv. sem hér er um að ræða, og hef ég þar ekki miklu við að bæta. Ég vil þó segja það varðandi endurskoðun vísitölunnar, sem er nefnd í grg., að þar vil ég leggja áherslu á þá meginforsendu, að því aðeins verði um að ræða breytingar á verðbótaþáttum launaákvarðana að um það verði fullt samráð og samkomulag við verkalýðshreyfinguna.

Í annan stað vil ég vegna grg. ítreka það, að útfærsla og framkvæmd 7. kaflans er meginforsenda þess, að launafólk megi una við þessar ráðstafanir.

Ég vil vegna kaflans, sem fjallar um tryggingabætur, segja það, að samkv, þeim kafla er gert ráð fyrir að elli- og örorkulífeyrir, þ.e.a.s. tekjutrygging, hækki um 9%. Þetta mun hafa það í för með sér, að tekjutrygging hjóna verður á mánuði eftir þessa hækkun 178 216 kr. Til samanburðar vil ég nefna það, að 5. taxti Dagsbrúnar eftir þriggja til fjögurra ára starf yrði eftir þá breytingu, sem hér er um að ræða, 176 203 kr.

Ég vil einnig vegna orða hv. 4. þm. Reykv. varðandi kaupmátt launa láta koma hér fram upplýsingar frá Kjararannsóknarnefnd, sem ég aflaði mér áðan. Ef miðað er við það, að vísitala meðalkaups verkamanna hafi verið 100 árið 1971 að jafnaði, þá er þessi kaupmáttur að meðaltali 118.8 fyrir septembermánuð s.l., 113.2 fyrir allt árið 1978, 115.8 fyrir októbermánuð, 112.4 í nóvember, en samkv. þeim áætlunum, sem Kjararannsóknarnefnd gerir, þá reiknar hún með að kaupmáttur launa verði, þrátt fyrir þær aðgerðir sem við erum að grípa til núna og gert er ráð fyrir í þessu frv., þá verði kaupmáttur launa í des. 119.3. Til samanburðar skal þess getið, að fyrstu 6 mánuði ársins 1974 er sambærileg tala 116.7 Þessar tölur tel ég nauðsynlegt að láta koma hér fram vegna þeirra ummæla sem fram komu í ræðu hv. 4. þm. Reykv. Og ég vil bæta því við, að samkv. þessum tölum er gert ráð fyrir að kaupmáttur aukist frá því fyrir sólstöðusamninga, eða frá því í maí 1977 til des. 1978, um 25–26%.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að eyða máli mínu í það að svara ítarlega ræðu hv. 4. þm. Reykv. Ræða hans einkenndist öll af sárindum í garð verkalýðshreyfingarinnar og forustumanna hennar. Hann kallaði viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar skemmdarverk, og hann talaði jafnan um stjórnmálin í viðtengingarhætti þátíðar í eins og helmingnum af sinni geysilöngu ræðu. Hann talaði um að verkalýðshreyfingin hefði efnt til skemmdarverka gegn febrúarlögunum og gegn brbl. Verkalýðshreyfingin mótmælti þessari lagasetningu og hún gerði það með fullkomlega lýðræðislegum og eðlilegum hætti. Um það er enginn ágreiningur og getur ekki verið. En ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar hafði hins vegar alla möguleika til þess og gerði það að framkvæma þessi lög, og hún hélt því fram, þegar febrúarlögin voru sett, að þau ættu að verða einn allsherjar Kínalífselixír til þess að bjarga efnahagsástandinu í landinu. Það er því ekki við verkalýðshreyfinguna í landinu að sakast þó að ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar hafi mistekist í þessum efnum eins og ýmsum öðrum.

Hv. 4. þm. Reykv. gerði því skóna, að þær félagslegu umbætur, sem hér væru á dagskrá í sambandi við þetta frv., væru allt saman gamlar kröfur og þær skiptu í raun og veru engu máli í þessu sambandi. Það er auðvitað mikil fjarstæða að halda á málum eins og hann gerði. Auðvitað er það rétt, að margar af þeim kröfum sem eru nefndar fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar í tengslum við þetta frv., eru gamlar og hafa áður sést margoft í baráttu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi. Hins vegar hefur það skort, að til væri í landinu sá pólitíski vilji, sem dygði til að koma þessum kröfum í framkvæmd. Kosningaúrslitin s.l. sumar, sem höfnuðu stefnu hv. 4. þm. Reykv., höfðu það í för með sér, að nú á að vera unnt að beita pólitískum vilja til þess að koma fram á Alþingi Íslendinga réttindamálum verkafólks sem hingað til hefur ekki verið svo mikið sem hlustað á. Það er vitaskuld alger fjarstæða að ætla sér að taka þessi réttindamál, sem hér er um að ræða, og bera þau saman við laun á ársgrundvelli, eins og hv. 4. þm. Reykv. reyndi að gera áðan. Hér er um að ræða réttindamál sem hafa mun áhrif á lífskjör launafólks í þessu landi, ekki einasta á árinu 1979, heldur væntanlega um langa framtíð. Á þeim forsendum, að svo verði gert og myndarlega verði staðið að þessu af hálfu ríkisstj., hefur Alþb. tekið þátt í og haft frumkvæðið um að þeirri stefnu væri fylgt sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Hv. 4. þm. Reykv. fær ekki með umr. sínum hér á Alþ. breytt hinum pólitíska vilja sem þjóðin krafðist í kosningunum s.l. sumar. Það verður að biða annarra kosninga, og ég er ekkert hræddur við þann dóm sem þá verður felldur.