18.10.1978
Efri deild: 6. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

13. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Í íslenska stjórnkerfinu hefur rétturinn til kosninga og kjörgengis verið grundvallaratriði þeirrar stjórnskipunar sem hér hefur verið við lýði. Þessi réttur hefur hins vegar tekið allmiklum breytingum frá því að fyrst var efnt til kosninga til Alþingis við endurreisn þess árið 1845. Á þeim tíma og á 19. öld var ríkjandi sú hugsun, að fjárhagur og eign væru frumforsenda þess að hafa ákvörðunarrétt um málefni þjóðarinnar og geta kosið fulltrúa til löggjafarstofnunarinnar. Þessi hugsunarháttur, að gera fjárhag og eign að frumforsendu lýðræðislegra réttinda, var síðan ríkjandi hér á landi sem og í ýmsum nágrannalöndum á 19. öld og reyndar að nokkru leyti einnig fram á þessa öld. Það var fyrst og fremst fyrir baráttu þeirra hugsjónamanna, sem báru kjör og réttindi alþýðu fyrir brjósti, og fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar og verkalýðsflokkanna hér á landi sem og í nágrannalöndum sem fjárhagsleg og eignarleg skilyrðin fyrir frumrétti lýðræðislegrar þátttöku í íslenska stjórnkerfinu voru afnumin. Á þessum tíma var það einnig skilyrði fyrir þátttöku í kosningum, eins og kunnugt er, að vera karlmaður og hafa náð þó nokkrum aldri.

Í raun og veru er hægt að segja að þróun íslenska stjórnkerfisins frá 1845 og til okkar daga hafi í stórum dráttum einkennst af baráttu samtaka alþýðunnar í landinu fyrir að afnema þau margvíslegu forréttindaskilyrði sem áður voru sett fyrir kjörgengi og kosningarrétti. Í áföngum voru fjárhags- og eignarskilyrðin og skilyrði karlmennskunnar afnumin og loks 1934 skilyrði um það að hafa ekki þegið sveitarstyrk.

Á síðari áratugum hefur umræðan um kosningarréttinn fyrst og fremst einkennst af því, við hvaða aldursmörk skyldi miðað. Þegar við flettum umr. um kosningarrétt og kjörgengi frá fyrri tímum sjáum við að menn höfðu að ýmsu leyti annarlegar hugmyndir um það, hvaða aldri nauðsynlegt væri að ná til þess að geta öðlast þessi réttindi. En sú mikla þjóðfélagslega breyting, sem átt hefur sér stað á síðustu áratugum bæði hér og í þeim löndum sem við teljum okkur menningarlega og stjórnarfarslega skyldust, hefur gert það að verkum, að þessi aldursmörk hafa smátt og smátt verið lækkuð. Nú síðast voru þau lækkuð hér á Íslandi á síðasta áratug úr 21 ári í 20 ár.

Eitt af þeim atriðum, sem setja svip sinn á þjóðfélagsþróunina á okkar tímum, er að ungt fólk kemst fyrr til þroska, bæði að félagslegum einkennum og náttúrulegum einkennum. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar sem leiða í ljós að þroskatíma fólks hefur fleygt mjög fram, bæði vegna betri félagslegs aðbúnaðar, betri almennrar næringar og betri menntunarskilyrða.

Þessi þjóðfélagsþróun hefur það eðlilega í för með sér, að krafan um niðurfærslu kosningaaldursins kemur fram, og það sjónarmið, að hann taki eins og ýmis önnur félagsleg réttindi mið af þessari almennu þróun í okkar heimshluta, er bakgrunnur þeirrar tillögu sem hér er flutt.

Það er rétt að benda á að í gildandi löggjöf veitast íslenskum þegnum við 16 ára og 18 ára aldur margvísleg félagsleg réttindi og félagslegar skyldur sem í raun og veru gera ungt fólk ábyrga þegna í okkar þjóðfélagi og stjórnkerfi að mörgu leyti áður en kemur að kosningar réttinum sjálfum.

Ef skoðuð er sú grundvallarhugsun sem liggur að baki réttindum til kosninga og kjörgengis, þá endurspeglar hún það, að allir eigi að hafa rétt til að velja fulltrúa í þeim stofnunum sem hafa veruleg áhrif á félagsleg réttindi, þjóðfélagslega og stjórnarfarslega stöðu þegnanna sjálfra. Um leið og við höfum veitt ungu fólki margvísleg réttindi og skyldur, sem snerta greiðslu opinberra gjalda, sem snerta rétt til stofnunar hjúskapar og uppeldis barna, þá segir það sig sjálft, að innan tíðar hlýtur að koma að því, að við lækkum einnig kosningaaldurinn í samræmi við þessa almennu þróun.

Því ber að fagna, að á undanförnum árum hefur smátt og smátt aukist almennur skilningur á nauðsyn breytinga af þessu tagi. Á síðasta þingi flutti núv. hæstv. menntmrh., Ragnar Arnalds, frv. til stjórnarskipunarlaga sem fól í sér að kosningarréttur við kosningar til Alþingis yrði miðaður við 18 ára og eldri, auk hinna almennu skilyrða um íslenskan ríkisborgararétt og lögheimilisfestu hér á landi. Það frv. til stjórnarskipunarlaga, sem ég hef hér flutt sem 13. mál Ed., er í reynd endurflutningur á frv. hæstv. menntmrh. frá síðasta þingi, — endurflutningur sem er miðaður við að halda áfram baráttu Alþb. fyrir lækkun kosningaaldurs í samræmi við þá félagslegu og þjóðfélagslegu þróun sem ég vék að áðan. Það er ánægjulegt, að í Nd. Alþingis hefur verið flutt annað frv. til stjórnarskipunarlaga sem felur í sér sams konar breytingu. Mætti því ætla að a.m.k. meðal tveggja verkalýðsflokkanna á Alþ., sem nú hafa samtals 28 þm., sé víðtækur stuðningur fyrir þessari breytingu og væntanlega einnig meðal annarra þm.

Það er að vísu rétt að rifja það upp í þessu samhengi, að það hefur verið hlutskipti samtaka launafólks og stjórnmálaflokka þess á undanförnum áratugum að beita sér fyrir breytingum á stjórnskipun íslenska lýðveldisins, stjórnarskránni og öðrum þeim lögum sem eru afgerandi fyrir stjórnarhætti þessa lands, sem miða við að taka meira tillit til réttinda og möguleika alþýðu þessa lands til að hafa áhrif á stjórnkerfið sjálft.

Þótt breyting um lækkun kosningaaldurs í 18 ár sé aðeins litið skref á þeirri braut sem við viljum ganga og hefur m.a. verið mörkuð með flutningi frv. á undanförnum þingum af hálfu þm. Alþb. um margvíslegar aðrar breytingar á stjórnarskipunarlögum, þá er þetta spor mjög mikilvægt.

Það er rétt að minna á að í mörgum þeirra landa, sem við höfum helst viljað taka mið af, eins og Norðurlöndum og ríkjum Vestur-Evrópu og Austur-Evrópu einnig, þ.e.a.s. í hinum vestræna heimshluta, hefur kosningaaldur nú þegar í fjölmörgum tilfellum verið færður í 18 ár.

Á undanförnum árum hafa verið uppi bæði innan þings og utan víðtækar umr. um nauðsyn breytinga á stjórnarskránni, og fyrir dyrum stendur kjör sérstakrar nefndar til að sinna því verkefni sérstaklega.

Eins og oft áður hefur það gerst á undanförnum árum, að ágreiningur um kjördæmaskipan og kosningalög hefur gert það að verkum, að ýmsar nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins hafa beðið. Í fullvissu þess, að með kjöri þeirrar nýju stjórnarskrárnefndar, sem nú stendur fyrir dyrum, verði tekin upp ný vinnubrögð í þessum efnum, er það von mín að breytingar eins og sú, sem þetta frv. felur í sér, verði ekki látnar stranda á hugsanlegum ágreiningi um kjördæmaskipun og kosningar. Vonandi næst víðtæk samstaða um margháttaðar breytingar á stjórnarskránni, bæði lækkun kosningaaldurs, breytingar á stöðu og gerð Alþingis, þjóðaratkvgr., aukin mannréttindi og margt annað sem á undanförnum árum hefur verið flutt hér inn á þing sem skoðanir bæði Alþb. og annarra flokka. Hins vegar hefur, eins og hv. þm. er kunnugt, verið ákveðið að setja þeirri stjskrn. tveggja ára tímamörk. Að mörgu leyti er eðlilegt að sú breyting, sem hér er gerð tillaga um, verði einnig skoðuð af þeirri n., þótt ég leggi til að hún fái enn fremur ítarlega meðferð og umr. í n. þessarar deildar.

Ég legg til að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til allshn.