27.11.1978
Neðri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Hv. þm. Bragi Sigurjónsson sagði í dag af sér störfum sem forseti Ed. Alþingis. Með þeirri gerð var hv. þm. Bragi Sigurjónsson að lýsa ekki einasta skoðun sinni, heldur vanþóknun á þeim efnahagsaðgerðum sem í dag litu dagsins ljós. Ekki kannske fyrst og fremst vegna þess, að þessar aðgerðir séu slæmar í sjálfu sér svo langt sem þær ná, heldur af þeirri einföldu ástæðu að hér eru enn á ný gerðar ráðstafanir sem einasta ná til þriggja mánaða. Hér er enn á ný verið að gera ráðstafanir sem einasta ná til þriggja mánaða. Hér er enn á ný verið að gera ráðstafanir sem aðeins fresta styrjöld. Sams konar átök og fóru fram 1. sept., þegar núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð, fóru enn í hönd 1. des. og fyrirsjáanlegt er, ef að líkum lætur, að enn munu þau fara fram 1. mars. Á bak við allt þetta ástand mun geisa óðaverðbólga og því miður er sennilega fyrirsjáanlegt, að með þessum ráðstöfunum sé verið að lögbinda rúmlega 40% verðbólgu í landinu á næsta ári.

Það segir sig auðvitað sjálft, að þetta eru ekki þau vinnubrögð sem við í Alþfl. vildum viðhafa. Þeir, sem þekkja okkar kosningastefnu, og þjóðin gerir það, vita mætavel að svona vildum við ekki að málum standa. Þetta frv. er hins vegar stutt og verður stutt af mér a.m.k. og fleiri í þeim flokki vegna þess að það er verið að afstýra nýrri holskeflu sem annars hefði dunið yfir samfélagið, og það sem meira er: Ólafur Jóhannesson, hæstv. forsrh., hafði svo sagt og tilkynnt, að ef þetta frv., eins og það kom fram í endanlegri mynd, yrði ekki stutt, þá mundu öll 14% fara út um samfélagið. Mönnum geta fundist slíkir leikir vera snjallir, en það segir sig alveg sjálft, að þó að menn láti undan slíkum hótunum einu sinni, þá gera þeir það ekki tvisvar.

Það kunna að vera skiptar skoðanir um vinnubrögð af þessu tagi, en mér fyrir mína parta líka þau ekki. En þetta frv. verður samt að ná fram til þess þó að afstýra enn meiri áföllum á næsta ári. Samt segir sig sjálft, að þessar ráðstafanir eru gersamlega ónógar. Þær eru ónógar m.a. vegna þess að þær eru aðeins gerðar til þriggja mánaða í senn, og reynsla undanfarinna ára segir okkur það einfaldlega, að ekki er hægt fyrir stjórn að stjórna landinu og ætla að vera í stríði innbyrðis og úti um samfélagið allt á þriggja mánaða fresti.

Í því frv. til l., sem hér var kynnt í dag, er enn ekki gert ráð fyrir neinum heildstæðum ráðstöfunum. Það er kunnugt og það er kunnugt í gegnum fjölmiðla, að við í Alþfl. vildum fara öðruvísi að. Kjartan Jóhannsson, hæstv. sjútvrh., kynnti í ríkisstj. till. sem náðu til ársloka 1979. Þær till. gengu út á það að setja þak á launahækkanir, 4% á þriggja mánaða fresti, sem hefði þýtt leyfilegar kauphækkanir á árinu allt að 20%.

Við höfum aldrei sagt að samfélagið þyrfti ekki að leggja á sig fórnir til þess að vinna bug á því ástandi, sem hér hefur geisað. Hins vegar er það svo, að þetta hefðu ekki verið verulegar fórnir ef ríkisstj. hefði staðið við þau ítrustu markmið sín að koma verðbólgunni niður fyrir 30% á næsta ári. En staðreyndin virðist einfaldlega vera sú, að þrátt fyrir þessar almennu yfirlýsingar í stjórnarmyndunarviðræðum, að ég hygg, í stjórnarsáttmála og nú í grg. fyrir frv., þá virðast a.m.k. margir af stjórnarsinnum — og þar með talinn sjálfur guðfaðir núv. ríkisstj., hv. 1. þm. Austurl. — ekki trúa orði af því sem þeir eru að segja sjálfir. Og af hverju er þetta? Ég hef ásamt fleiri þm. Alþfl. staðið í dellum hér í þessari hv. d. um vaxtamál, m.a. við guðföður þessarar ríkisstj. og talsmann atvinnurekstrar og neikvæðra vaxta, sama hv. þm. Þar talar hann að jafnaði um — í áróðursskyni að ég hygg — að við raunvaxtamenn, þó að við leggjum til að þetta gerist í tveimur áföngum, séum að tala um 50–60% vexti. Af hverju er þetta? Vegna þess að sami hv. þm. trúir ekki orði af því sem hann er að segja þjóðinni í stjórnarsáttmála eða annars staðar. Hér á að geisa áfram 50–60% verðbólga á næstu árum. Og þegar svona er, þá skilur auðvitað samfélagið allt, að engin furða er þó að þverbrestur sé kominn í stjórnarsamstarfið, sem vissulega og auðvitað er.

Ég er þeirrar skoðunar, að fyrir utan ráðh. Alþfl.hæstv. fjmrh., Tómasi Árnasyni, einum alvara í verðbólgumálum. Það er öllu samfélaginu ljóst, hvaða almennt hjal sem menn setja á svið um þessar ráðstafanir, að þurft hefði að gera erfiðar ráðstafanir, en því miður sýnist manni reynslan vera sú, að fyrir utan ráðh. Alþfl. sé það hæstv. fjmrh. einn sem þó meinar eitthvað af því sem hann er að segja. Ég hygg að það hafi verið sýnt fram á það með óyggjandi rökum, að sjálflýstur guðfaðir stjórnarinnar, hv. 1. þm. Austurl., meinar minnst af því sem hann hefur um þessi mál sagt.

En hvaða tilgangi þjónar það að vinna með þeim hætti sem hér hefur verið lýst, gera ráðstafanir og leggja alla þá vinnu í þær sem hér hefur verið gert, sem einasta duga til þriggja mánaða?

Það er alveg ljóst, að launþegahreyfingin hefur verið að færa fórnir núna, með hvaða almennum orðum sem menn lýsa þessum fórnum. Og það er líka alveg ljóst, að t.a.m. hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson og Eðvarð Sigurðsson, til að tiltaka menn í þessari d., geta með hangandi hendi stutt þetta nú, en ég er stórefins um að þeir muni geta stutt hliðstæðar aðgerðir eða enn erfiðari sem gera þyrfti 1. mars. Ríkisstj. hefði núna getað stigið stærri skref, eins og þær aðgerðir sem Kjartan Jóhannsson hafði lagt til. Þær hefðu verið heildstæðar, þær hefðu náð út árið 1979 og þær hefðu auðvitað verið gerðar með því félagslega ívafi sem hæstv. viðskrh. lýsti áðan. Tímafresturinn hefði verið lengri og það hefði verið möguleiki að stefna að heilbrigðara efnahagslífi á árinu 1980. Núv. ríkisstj. bar því miður ekki gæfu til að fara þessa leið. Þar gerði núv. ríkisstj. að minni hyggju ófyrirgefanleg pólitísk mistök og af því eigum við eftir að súpa seyðið á næstunni.

Við, sem m.a. höfum staðið í stjórnarmyndunarviðræðunum í sumar og þekkjum hvernig þær gengu þá og nú í viðræðunum í kringum þetta, sjáum að nú hafa hálfu erfiðari spor verið stigin. Það segir sig alveg sjálft hvað gerist þegar næsta skriða skellur yfir.

Þó að þetta frv. verði stutt, þá verður ekki komist hjá því að lýsa því, hversu óendanlegri óánægju það veldur að svona hafi verið að þessu staðið. Þetta vekur aðrar spurningar, og það eru einfaldlega spurningar eins og þær: Er Alþb. stjórnhæft, þegar erfiðir tímar eru? Ég veit vel að Alþb. gat stjórnað landinu á árunum frá miðju ári 1971 og áfram, enda var þá tiltölulega blómlegt bú. Nú er ekki blómlegt bú í landinu. Nú eru allt aðrir tímar, allt annars konar ráðstafanir sem gera þarf.

Það er í sjálfu sér ekki verið að segja neitt nýtt. Það er ekki verið að segja annað en það sem við jafnaðarmenn sögðum sjálfir fyrir kosningar í vor, að Alþb. t.a.m. boðaði samningana í gildi án þess að hróflað væri, að mér skilst, nokkurn tíma við vísitölukerfinu. Deilur okkar og Alþb. um þessi mál eru kunnar. Alþb. gerði meira. Það átti einfaldá lausn í landbúnaðarmálum, sem var aðeins að auka neysluna innanlands. Þetta eru landsþekktar hugmyndir. Höfundur þeirra, hv. þm. Lúðvík Jósepsson, og Alþb. ætluðu einnig að koma sér vel hjá fyrirtækjaeigendum, það átti að lækka vexti án þess að hreyfa við verðbólgunni að því er séð verður. Svona loforðalista er auðvitað hægt að gefa endalaust.

Við deildum hart við Alþb. fyrir kosningar s.l. vor. Auðvitað vonuðum við, þegar lagt var út í þessa stjórnarsamvinnu, og vissum, að mennirnir mundu vitkast, að mennirnir gátu ekki meint nema brot af þessum loforðum. Tilraunir til samninga nú undanfarið hafa leitt í ljós, að þeir hafa afskaplega litið vitkast. Alþfl. og Alþb. eru auðvitað ekki einn flokkur, þeir eru tveir flokkar. Þeir eru um margt afar ólíkir og m.a. í allri afstöðu til efnahagsmála. Sá listi af loforðaglamri, sem hér hefur verið lesinn eftir Alþb. s.l. vor og fyrir kosningar, er auðvitað allt annars eðlis en það plagg og þau fyrirheit sem við gáfum um gerbreytta efnahagsstefnu. Ég geri ráð fyrir að hv. dm. sé kunnugt um þetta. Og auðvitað er það svo, að þessar ráðstafanir, sem hér hefur verið lýst og eru lagðar fram á grundvelli frv., eru að stórum hluta til þess eins að bjarga andliti Alþb., til að bjarga því út úr loforðaglamrinu sem það gaf fyrir síðustu kosningar.

Vitaskuld er það svo, að rúmlega 14% áttu að fara út í verðlagið. En það fara engin 14% út í verðlagið, það fara rúmlega 6%. Vitaskuld er það líka svo, að það getur verið erfitt að meta félagslegar ráðstafanir beinlínis til fjár, og vitaskuld er það gert meira og minna á ágiskunarformi. Það veit hvert einasta barn í landinu. Það er búið að leiða að því mörg og enn frekari rök. Vitaskuld er það svo, að mikið af þessum ráðstöfunum, sem hér hefur verið lýst, er sjónhverfingar, eins og andstæðingar stjórnarinnar hafa sagt. Og ég hefði haldið að það að vera aðili að ríkisstj. væri til annars en að spila upp í hendurnar á Sjálfstfl. En sjónhverfingar eins og þær, sem hér eru hafðar í frammi, eru til þess eins fallnar að spila upp í hendurnar á Sjálfstfl.

Menn skyldu vera minnugir þess hvernig kosningar fóru að aflokinni síðustu vinstri stjórn og svo mikill vinur Sjálfstfl. er ég ekki, að ég óski eftir öðrum svipuðum kosningaúrslitum. En ef á að standa áfram að efnahagsmálum eins og hér hefur verið gert, þá er það auðvitað Sjálfstfl. einn sem á slíku hagnast.

Við vildum fara öðruvísi að. Við vildum gera heildstæðar áætlanir í efnahagsmálum, sem giltu út árið 1979. Auðvitað er það iðulega svo, að löggjafinn, sem þarf að setja lög, á ekki nema einn kost og það er að eiga samvinnu við sjálft almenningsálitið í landinu, — ekki við foringja þrýstihópa, hversu ágætir sem þeir annars eru, heldur við sjálft almenningsálitið. Og listin að stjórna er og getur iðulega verið í því fólgin að þurfa að leita beint til almennings í landinu og flétta sig fram hjá hagsmunahópunum sem vitaskuld eru til í samfélaginu. Nú hefði þurft að koma til slíkra aðgerða. Það er þegar búið að svíkja orðin um „samningana í gildi“ í bókstaflegri merkingu þeirra orða. Það hefði þurft að koma til frekari ráðstafana, sem miðuðu að því að setja launaþak, sem miðuðu að því að stjórna efnahagsmálum, peningamálum, skattamálum og ríkisfjármálum skynsamlega að öðru leyti, nota þau tæki til að halda verðbólgunni niðri, halda friði á vinnumarkaði, m.a. með ráðstöfunum í félagsmálum sem Magnús Magnússon er þegar að vinna að og Svavar Gestsson lýsti hér áðan og vissulega munu margar koma til framkvæmda á næsta ári. Þetta hefði verið hægt. Þetta hefði verið vit. En það er ekkert vit í því sem verið er að gera nú.

Þingheimi er efalítið um það kunnugt, að það hafði náðst, m.a. í herbúðum Alþfl. og Framsfl., samkomulag um að einungis 3.6% færu út í verðlagið. Af einhverjum yfirskilvitlegum ástæðum, sem mér er að öðru leyti ekki kunnugt um, skipti hæstv. forsrh. um skoðun á þessu máli og 6% urðu það sem út fór, sem gæti þýtt og jafngilt lögbindingu á 40% verðbólgu hér á næsta ári. Okkur jafnaðarmönnum er og hefur verið alvara í verðbólgumálum. Við röðum þeim markmiðum fremst í forgangsröð, og við segjum nú eins og við höfum sagt áður, að við erum tilbúnir til að fórna öðrum markmiðum af ástæðum sem auðvitað öllum er um kunnugt.

Verðbólga elur á stjórnlausri eignatilfærslu, hún elur á spillingu, hún elur á braski og hún kemur verst við láglaunafólkið í landinu. Af hverju? Af því að það er láglaunafólkið í landinu sem hefur ekki möguleika á því að komast í bankana og verja sig með lánum, eins og þeir gera sem betur mega sín. Þessi sannindi er búið að reyna að berja inn í Alþb.-menn allt frá því að stjórnin var mynduð, en þeir virðast ómögulega geta skilið hvernig verðbólgan leikur láglaunafólkið í þessu landi verst. Það er búið að reyna og gera til þess margar tilraunir, en því miður með ótrúlega litlum árangri.

Þetta vekur enn fleiri spurningar, spurningarnar um þær viðræður sem farið hafa fram um vísitölukerfið, — kerfið sem hér var sett á laggirnar árið 1939 við allt aðrar aðstæður. Við erum talsmenn nýrri og nútímalegri sjónarmiða, sem taka mið af þessu ári og þessum áratug sem við lifum á. Við höfum satt að segja mætt frumstæðum hugmyndum um þessi efni. Þær umr. hafa farið fram fyrir opnum tjöldum og mönnum er auðvitað um það kunnugt.

Eitt vil ég gera hér að umræðuefni enn. Þegar við kynntum till. okkar um heildstæða áætlun í efnahagsmálum fyrir árið 1979, þá vorum við að því spurðir, hvort hér væri ekki um brot á kjarasáttmála að ræða vegna þess að lögð var til lögbinding. Auðvitað þýðir kjarasáttmáli ekki að það fari fram valdaafsal Alþingis til þrýstihópa. Kjarasáttmáli getur aldrei þýtt það. Á alvörustundum getur auðvitað og kemur iðulega upp það ástand, að löggjafinn verður að taka af skarið. Kjarasáttmáli þýðir iðulega að löggjafinn setur rammalöggjöf t.d. í kjaramálum, í skattamálum eða í hverjum þeim öðrum efnum sem til löggjafar heyra, og síðan er um þennan ramma reynt að ná friði á vinnumarkaði og innan hans fara fram umræður, samningar, samráð um félagsmál eða hvað eina sem til slíks getur heyrt.

Svavar Gestsson las áðan yfir þingheimi lesningu sem hann hefur að stórum hluta fengið lánaða uppi í félmrn., að ég hygg. Auðvitað er það svo, að slík félagsmál tilheyra kjarasáttmála og eiga að gera það. En þegar um alvörutíma er að ræða, þegar þarf að taka ákvarðanir, m.a. í verðbólgumálum, þar sem Alþ. hlýtur að vera til þess bærara en einstakir hagsmunahópar — það segir sig sjálft — þá getur svo farið að Alþ. eigi ekki aðeins, heldur sé því beinlínis skylt að grípa fram fyrir hendurnar á öðrum og setja löggjöf af þessu tagi. Og enn fremur vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að ég er sannfærður um að allur þorri fólks úti í hinu stóra samfélagi ætlast beinlínis til þess að Alþ. hagi sér ekki eins og ríkisstj. hefur verið að haga sér, hrekist fyrir verðbólguvindunum, heldur taki Alþ. af skarið og geri það sem gera þarf. Það hefði verið rétt ákvörðun að binda kaupgjald með þeim hætti, sem við höfum lagt til, og leggja aðrar ákvarðanir samkv. frekari lýsingu í hendurnar á ríkisstj., — ríkisstj. sem hefur það markmið að halda verðbólgunni fyrir neðan 30% mörkin. Auðvitað er þarna dæmi sem vel gengur upp, og það sem meira er, árangur hefði náðst í baráttunni við verðbólguna og við, sem meinum eitthvað með þeim orðum, hefðum kunnað að meta slíkt.

Ég óttast að það sé að koma í ljós, að Alþb., vegna þess hvernig það er upp byggt og aðallega vegna þess sem það hefur sagt, sé ófært um að stjórna á erfiðum tímum. Það getur stjórnað þegar það tekur við barmafullum sjóðum, en á erfiðum tímum er erfitt að eiga samleið með Alþb. Ég efast ekki um góðan vilja margra þeirra, sem þar eru, og virðingarverð er t.a.m. sú upptalning sem hæstv. viðskrh. las hér áðan. En þetta er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá, að við forgangsröðun verkefna er það verðbólgan sem skiptir máli, m.a. vegna þess hvernig hún leikur láglaunafólkið í þessu landi. Og þeir, sem skilja þetta ekki, en vilja sveipa sig ljúfum orðum fyrst og fremst, er ég hræddur um að séu lakir talsmenn sinna umbjóðenda. Þetta verður þó að koma í ljós á næstunni. Mikið af þessu hefur verið sagt við þessa menn áður og út á þetta hafa fundir okkar gengið að miklu leyti, en ég verð að segja að það er iðulega klökkt hvað skilningur þessara manna hefur því miður verið lítill.

Við erum að gera tilraun með samstjórn þriggja flokka. Framsfl. hefur ekki virst hafa miklar skoðanir á því, hvað gera skyldi og hér hefur verið lýst. En hitt er rétt, að bæði Alþfl. og Alþb. hafa skoðanir og fulltrúar þessara skoðana hafa verið að takast á. Hv. d. er fullkunnugt um útkomuna að þessu sinni. Hv. d. er líka fullkunnugt um hvaða augum við lítum á þessa útkomu. Ég er þeirrar skoðunar, að Alþb. kunni að vitkast, það sé ekki loku fyrir það skotið enn. En ég er jafnframt þeirrar skoðunar, að Alþb. sé að verulegu leyti þræll gersamlega óraunhæfra kosningaglamuryrða, sem dundu á okkur í vor, og af því séum við að súpa seyðið nú. Hætt er við að samfélagið allt komi til með að súpa seyðið af þessu.

Það er kannske ekkert nýtt þó að ég ausi úr skálum reiði minnar yfir Alþb. Við höfum fyrr mæst, síðast þegar ég mætti til vinnu 1. og 2. mars s.l. vegna þess að ég taldi ekki stætt á því að sá, sem væri að bjóða sig fram til þess að setja landinu lög, gengi jafnframt fram fyrir skjöldu og bryti lög. Og ég fékk af mér myndarlegar myndir í Þjóðviljanum ásamt hóflegu fúkyrðaregni. Mér þykir leitt að geta ekki svarað nema broti af því héðan úr ræðustól að sinni.

Vandinn er og verður þessi: Auðvitað er það svo, að þessi brbl. kveða ekki á um að samningarnir gangi í gildi, og ég fyrir mína parta sé enga ástæðu til þess að taka þátt í því kannske með einhverjum öðrum stjórnarsinnum að flytja hér ræðu sem innifelur allt annað en við vitum að stendur í þessu plaggi, einasta til að bjarga andlitinu á Alþb. 3% félagslegar umbætur er gersamlega ómögulegt að meta til fjár, hvað sem einhverjir launþegaforingjar kunna um það að segja.

Við jafnaðarmenn höfum margháttuð annars konar áhugamál, sem við viljum að komi hér til. Hér hefur verið talað um neðanjarðarhagkerfi, — það feikilega net skattsvika, sem ofið er utan um og meira og minna inn í stóran hluta af rekstri hér á landi og fólki er auðvitað kunnugt um. Enn hefur gengið erfiðlega í stjórnarsamstarfinu að koma slíkum málum fram. Þar eigum við hins vegar sennilega mesta samleið með Alþb., þegar allt kemur til alls. En það, sem enn og aftur er kjarni málsins, er að ráðstafanir til þriggja mánaða duga skammt, þær duga ekki. Við erum aðeins að safna enn meiri gufu í ketilinn, og sá ketill verður þessari ríkisstj. væntanlega gersamlega óviðráðanlegur að þremur mánuðum liðnum.

Alþb. hefur alltaf lagt áherslu á það, að hér sé aðeins um bráðabirgðastjórn að ræða. Þeir, sem þekkja stjórnarsáttmálann, vita að í honum er síðasta ákvæðið um að hann skuli endurskoða á árinu 1979. Þeir, sem enn betur þekkja til, vita að grg. með þessu frv. er eins konar endurútgefinn stjórnarsáttmáli. Það segir sig alveg sjálft, að ef svona leikur á að endurtaka sig á þriggja mánaða fresti, þá verður þetta ekki stjórn sem nær neinum árangri í verðbólgumálum, enda gerir hv. 1. þm. Austurl. ekki ráð fyrir því í víðfeðmri og langdreginni umfjöllun sinni um vaxtamál hér í deildinni.

Við ætluðum að eiga aðild að stjórn, sem ætlaði sér að vinna bug á verðbólguvanda. Til þess var leikurinn gerður upphaflega. Öllum er kunnugt, og ekki síst Alþb.mönnum, að þegar stjórnin var mynduð rétt fyrir 1. sept. s.l. voru átök um vísitölumál, þar sem við fengum okkar ekki fram öðruvísi en þannig að bókað var í ríkisstj., að endurskoðun ætti að fara fram fyrir 20. nóv. Við vitum öll að vísitölunefndin sprakk, það varð ekkert úr verkum hennar. Endanlegar tillögur voru nánast tillögur formanns n. eins. Þessi bókun reyndist vera einskis virði. Nú er hér flutt grg. með frv. Í grg. er efni, sem við vildum koma inn í lagagreinarnar sjálfar, en um það náðist ekki samkomulag og þær eru í grg. Ég geri ráð fyrir því, að einhverjir þeirra, sem að þessari grg. standa nú, meini u.þ.b. jafnmikið með henni og þar með öllum liðunum, að 7. lið meðtöldum, og þeir meintu með bókuninni í ríkisstj. á sínum tíma. Ég vona að menn skilji það. Ég hef ekki eytt mörgum vikum í þessum sölum, en ég gerði mér aðrar hugmyndir um samvinnu en þær sem hér hefur verið lýst.

Ég mun greiða þessu frv. atkv. af ástæðum sem ég hef nú lýst, til að afstýra því að enn verri og meiri holskefla gangi yfir þetta þjóðfélag. En mér er nákvæmlega eins farið og hv. þm. í Ed., Braga Sigurjónssyni. Mér er fullljóst, að hér er um hallærisráðstafanir að ræða, — ráðstafanir sem ekkert duga í þeim raunverulegu vandræðum og baráttu í efnahagsmálum sem við eigum við að etja. Mér er raun að því, að talsmenn Alþb. skuli ekki hafa skilið, hvernig þær ráðstafanir, sem við erum að leggja til, annars vegar og hagsmunir láglaunafólks hins vegar fléttast saman. Mér er raun að því, að þessir menn skuli ekki hafa skilið þetta, en svo er ekki að sjá a.m.k. enn þá.

Allt um það. Það kann að fara svo að úr rætist. Það kann að fara svo, að samstarfsaðilar okkar eða sá þeirra sem hefur skoðun, vitkist. En ég óttast að forsendur málsins séu með þeim hætti, að seint verði af því. Ég óttast að loforðaglamrið hafi verið með þeim hætti, að flokkurinn sé mikið til ófær um að stjórna á erfiðleikatímum. Þetta er alvarlegur ótti, vegna þess að við eigum mikla samleið í menningarmálum, félagsmálum og á öðrum slíkum sviðum, og þar er vissulega betra með þeim að vinna en flestum öðrum. En vandinn er sá, að meðan á að vaða reyk í efnahagsmálum, eins og Alþb. gerði fyrir kosningar og eins og það hefur gert nú í tveimur bráðabirgðaráðstöfunum, verður landinu ekki stjórnað, þá veður hér uppi verðbólga með öllum sínum fylgikvillum, spillingu og braski og það er níðst á láglaunafólkinu. Meðan svo er er þungur ábyrgðarhluti að bera ábyrgð á ríkisstj., sem svo háttar um.