27.11.1978
Neðri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það hefur komið fram í þessum umr., bæði af hálfu stjórnarandstöðu og stjórnarsinna, að þetta frv. er með sérstökum ólíkindum. Bæði er það svo, að í rauninni skilst ekki hvað fyrir hæstv. ríkisstj. vakir með flestum greinum þess, en þó stendur það upp úr, að ætlunin er að eyða 8% vísitöluhækkun með ýmsum hætti, sem þýðir það að launþegar eru í rauninni sviptir 27 milljörðum kr. með þessum hætti, ef reiknað er það sem þeir hefðu átt að fá samkv. samningum. Og það er náttúrlega næsta hlálegt, að þetta frv. skuli koma frá þeim aðilum sem heimtuðu samningana í gildi á sínum tíma. Það stendur upp úr líka, að þessar vísitölubætur, sem frv. gerir ráð fyrir, og segir að skuli greiða og verður ekki skilið annað en megi ekki greiða hærri verðlagsbætur á laun en 6.1%, þær mæla verkamanni, sem er með 200 þús. kr. tekjur, 28 þús. kr. verðlagsbætur, en forstjóra með 600 þús. kr. 84 þús. kr. Þannig er nú það réttlæti sem hæstv. ríkisstj. sýnir launþegum með þessu frv., og blöskrar víst mörgum fleirum en mér að hv. þm. Guðmundur J. sem hér situr nú, skuli geta skrifað fyrir hönd Verkamannasambandsins sérstakt þakkarbréf út af þessu frv. til hæstv. ríkisstj.

En það var ekki þetta sem ég vildi ræða hér. Þetta hefur komið fram hér í umr. að einhverju leyti áður. En ég vil spyrja hæstv. forsrh., hvort þingheimur megi yfirleitt búast við því í framtíðinni, að stjórnarfrumvörp verði þannig úr garði gerð sem þetta frv. Í því er ekki einn einasti stafkrókur um það, hvað þær svífandi hugmyndir, sem koma fram í frv., muni kosta ríkissjóð. Látum nú vera að hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. hafi ekki áhyggjur af því, hvernig fer með atvinnuvegina þegar þeir þurfa að borga 6.1% hækkun á laun, eins og ástatt er nú í þjóðfélaginu og eins og aðstaða þeirra er. En hæstv. ríkisstj. leyfir sér að leggja fram frv. sem gerir ráð fyrir gífurlegum útgjöldum úr ríkissjóði á ýmsan hátt, en leggur ekki fram einn einasta stafkrók um það, hvað þetta þýði í fjárhæðum. Ég minnist þess, að það hefur verið mikið um það rætt hér á hinu háa Alþ., að það eigi ekki einu sinni að leggja fram frv, um að gera einhverjar smávægilegar umbótaaðgerðir í þjóðfélaginu, nema ríkisstj., sem vill vera ábyrg, geri grein fyrir hvað það kosti. Hér er frv. upp á milljarða sem á að leggja byrðar á ríkissjóð í einu eða öðru formi eða létta af sköttum, en það er ekki gerð grein fyrir því með einum einasta stafkrók, hvernig þetta eigi að framkvæma, hvað byrðar ríkissjóðs séu miklar vegna þessa frv., og ekki með hvaða hætti eigi þá að létta þeim af ríkissjóði, annaðhvort með niðurskurði eða með öflun skatta. Ég hélt að þetta væri kannske vegna þess, að frv. var samið í miklum flýti, eins og við hv. þm. vitum, að ekki var vikið einu einasta orði að því, hvað þessar greinar frv. kosta: niðurgreiðslur, félagslegar umbætur og lækkun skatta. Ég hélt að það væri vegna tímaskorts að þetta var ekki sett í grg. með frv. En ég hlustaði vendilega á hæstv. forsrh. og hann minntist ekki orði á þetta og þaðan af síður náttúrlega hvað kaupgjald, sem atvinnuvegirnir eiga að bera samkv. frv., þýddu í útgjöldum fyrir þá. En það eru sem sagt um 20 milljarðar fyrir alla launagreiðendur í landinu sem bætast ofan á það sem þeir greiða núna.

Það kom hér fram í umr., að hv. þm. Vilmundur Gylfason nefndi þessar frumvarpsgreinar, sem fela í sér beinar eða óbeinar greiðslur úr ríkissjóði, — hann nefndi þær og frv, í heild sjónhverfingar. Þetta eru orð að sönnu. Ég hef nefnt þetta eina umfangsmestu svikamyllu sem sést hefur í íslenskum stjórnmálum á síðari árum, þ.e.a.s. þetta frv. er framhald að þeirri svikamyllu sem kemur fram í fjárlagafrv. sjálfu. Þar er gert ráð fyrir að auka niðurgreiðslur á vöruverði í beinum niðurgreiðslum og óbeinum um 16 milljarða kr. Þetta kemur þannig fram, að bein aukning niðurgreiðslna á vöruverði samkv. því frv. er 11 milljarðar, en óbein niðurgreiðsla felst í niðurfellingu söluskatts á matvörum, þ.e.a.s. 5.3 milljarðar. Fjár til þess að greiða niður vöruverð um þessa hrikalegu upphæð, 16 milljarða kr., auka niðurgreiðslur um þetta á einu einasta ári, er hugsað að afla með auknum tekjusköttum og eignarsköttum, af því að þeir hafa ekki áhrif á vísitöluna. Þetta er beinlínis tekið fram í grg. með frv. og kom mjög glöggt fram í framsöguræðu hæstv, fjmrh. fyrir því frv. En það er ekki nóg með að ætlunin sé að ná þessu með þessum hætti, með auknum tekju- og eignarsköttum, heldur er beinlínis ætlunin að skattleggja aukinn kaupmátt fólks milli ára um 3 milljarða, og það er gert með því að hækka skattvísitölu einungis um 43% á sama tíma sem laun hækka um 50% milli ára. Persónuafsláttur og skattþrep hækka þá um 43% þegar launin hækka um 50%. Með þessu ætlar hæstv. ríkisstj. að skattleggja kaupmáttaraukningu, sem orðið hefur í landinu, um 3000 millj. kr. Ég vænti þess, að hæstv. viðskrh., sem fór hér með kaupmáttartölur í dag og talaði um taxtakaup, hafi gert sér grein fyrir því, að hann fór með hreint fleipur, vegna þess að í þeim kaupmáttartölum kemur ekki fram aukin skattheimta ríkisvaldsins á kaupmáttaraukninguna. Þar er aðeins um taxtabreytingar að ræða og kemur ekki fram hvort ríkisvaldið á einhverjum tíma eykur tekjuskatta á menn og tekur þannig til baka kaupmáttaraukninguna. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði að með þessu væri hæstv. núv. ríkisstj. að gera tekjuskattinn að meiri launamannaskatti og verri en áður, og ég er honum alveg hjartanlega sammála.

En svikamyllan heldur áfram með þessu frv. Hér er gert ráð fyrir að auka niðurgreiðslur frá því, sem er í fjárlagafrv., um 1/2, þ.e.a.s. greiða niður 1/2% að auki, miðað við forsendur frv., og síðan er þessi sjónhverfing útfærð og aukin með því að taka 3% vísitöluskerðingu með ótilgreindum félagslegum aðgerðum og með ótilgreindum skattalækkunum 2% að auki.

Þarna er sem sagt um það að ræða að auka þessa svikamyllu, að launþegar sjálfir greiði niður eigið kaup, með því að lofa þeim ótilgreindum félagslegum umbótum og skattalækkun sem engin veit hver á að meta til verðs og er í rauninni, eins og kom fram hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, óútreiknanlegt. Hvernig á að meta félagslegar aðgerðir til vísitölubóta eða ekki vísitölubóta? Ég hygg að hv. þm. Vilmundur Gylfason hafi hitt þar naglann á höfuðið, þótt stundum segi hann ýmislegt sem ekki fær staðist.

Það er alveg ljóst, að auðvitað verður einhver, alveg eins og með niðurgreiðslurnar, að borga fyrir félagslegar umbætur. Og hverjir munu borga það á endanum ef það er ekki allur almenningur í landinu? Menn verða því ekki bara látnir borga niður kaup sitt, heldur er með ótilgreindum loforðum um félagslegar umbætur reynt að fara á bak við það að vísitala er skert.

Ég hef reynt aðeins — að vísu hef ég ekki til þess öll gögn — að meta hvað þetta frv. gæti þýtt fyrir ríkissjóð í útgjöldum, ef taka á frv. alvarlega.

Í fyrsta lagi þýðir þetta það, að við 2800 millj. kr. fjárvöntun í fjárlagafrv. sjálfu til niðurgreiðslna bætast 800 millj. kr., vegna þess að það er ætlunin að greiða niður um 3% skv. þessu frv., en gert ráð fyrir 21/2% í fjárlagafrv. sjálfu. En það stendur í því frv., að þar skorti á 2 800 millj. kr. Fjárvöntun til niðurgreiðslna skv. þessu frv. og fjárlagafrv, er sem sagt 3 milljarðar og 600 millj. kr.

Það hefur oft verið sagt, að það sé ódýrasta leiðin fyrir ríkissjóð að fara í kringum vísitölukerfið með því að greiða niður vöruverð, greiða niður landbúnaðarvörur. Ef við metum með þessum ódýrasta hætti fyrir ríkissjóð þau loforð sem eru í 2. og 3. gr. frv., eins og um niðurgreiðslur væri að ræða úr ríkissjóði, — við skulum vona að þessi ríkisstj. hugsi sér a.m.k. að standa myndarlega að þessum loforðum til launþega, — þá þýðir þetta: 3% lækkun vísitölu vegna félagslegra umbóta og 2% lækkun vísitölu vegna lækkunar beinna skatta, samtals 8.7 millj. Sem sagt, fjárvöntun vegna þessara loforða, ef taka á þau bókstaflega, er hvorki meira né minna en 12.3 milljarðar kr. Á móti þessu kemur að það er gert ráð fyrir eilítið minni kauphækkun og þess vegna líka minni hækkun almannatrygginga í þessu frv. heldur en í fjárlagafrv. Þar græðir ríkissjóður 1200 millj. kr. Niðurstaðan af þessu er sú, að þetta frv, þýðir, ef á að taka það alvarlega og þetta er metið mjög varlega, metið á þeim grundvelli að ríkissjóður greiði niður þessi vísitölustig, þá er þarna um fjárvöntun að ræða nettó upp á rúma 11 milljarða.

Fyrir utan þetta væri kannske ekki úr vegi að upplýsa hv. þdm. um það, að mörg atriði í fjárlagafrv. eru þess eðlis, að þar eru liðir vanáætlaðir eða ríkisstj. hefur verið að gæla við það að hækka þá og þar fram eftir götunum. Ég skal minna á nokkra.

Landbrh. sagði í ræðu um daginn, að útflutningsbætur væru vanáætlaðar um 1 milljarð. Það hefur stundum verið talað um af stjórnarsinnum, að það þyrfti að hækka verklegar framkvæmdir um 1–2 milljarða frá frv. Og það hefur verið talað um að það þurfi að leiðrétta olíuprósentið, sem kallað er, en eins og hæstv. ríkisstj. gekk frá olíuprósentinu gefur það ríkissjóði 2 500 millj. kr. meiri tekjur en olíustyrkurinn. Byggðasjóður er með sérstökum reikningskúnstum skorinn niður um 1130 millj. kr. Til viðbótar þessu er nauðsynlegt að afgreiða frv. með a.m.k. 3–4 milljarða kr. greiðsluafgangi.

Það eru ótalmargir aðrir liðir sem koma til athugunar fjvn. Ég veit ekki hvað hæstv. ríkisstj. og stuðningslið hennar ætlar að taka af þessum liðum til leiðréttingar. En það þarf mikið fjármagn til ef þetta frv. á að taka alvarlega og ef þarf að gera breytingar á fjárlagafrv., eins og t.d. hækkun á verklegum framkvæmdum um 1–2 milljarða o.s.frv., lagfæra eitthvað olíuprósentið og þar fram eftir götunum, ég tala nú ekki um ef á eitthvað að lagfæra að það er skorið niður til félagslegra umbóta í þessu fjárlagafrv, um stórar upphæðir. Þar er skorið niður um 700 millj. kr. af Byggingarsjóði ríkisins, sem dregur úr íbúðarlánum, og þar er skorið niður meira að segja framlag til verkamannabústaða, sem var verið að ýja að hér að ættu að vera ein stærsta rósin í rósagarði ríkisstj. á sviði félagslegra umbóta. Þar eru þessir liðir skornir niður. Auk þess eru líka skornar niður verklegar framkvæmdir að raungildi um 9–10 milljarða kr. fyrir utan allt þetta. Hvernig ætlar ríkisstj. sér að ná saman fjárl. með því að samþ. þetta frv. fyrst, ef taka á loforð þess alvarlega? Ef meta á útgjöld skv. þessu frv. varlega, þá sýnist mér að þarna sé um að ræða svo stórfelldan vanda, að ég veit ekki hvort hv. þdm. gera sér grein fyrir því. Ég get ekki betur séð en að það sé lágmark, að afla þurfi nýrra tekna í ríkissjóð upp undir 15–20 milljarða, ef á að gera þetta allt saman og ná saman fjárl. Og mér er spurn: Hvernig hugsar ríkisstj. sér að framkvæma þetta? Ég dreg mjög í efa að unnt sé að skera meira niður en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Þess vegna þarf að ná þessu fjármagni með nýjum sköttum ofan á það sem hugmyndin er að gera með fjárlagafrv., og er þá reiknað með sköttunum eins og þeir eru þegar sérstöku skattarnir eru reiknaðir með á árinu 1979: sérstakur eignarskattur, sérstakur tekjuskattur og guð veit hvað.

Ég vil nú auglýsa eftir afstöðu Alþfl. sérstaklega, sem hefur skrifað undir þetta frv. án fyrirvara, en skrifar undir frv. til fjárlaga með fyrirvara vegna þess að hann er óánægður með skattheimtuna. Flokkurinn vill lækka tekjuskatta frá því sem er í fjárlagafrv. Hvernig hugsa menn sér þá að framkvæma þetta, að ná þessu fjármagni? Við skulum segja að þetta sé stórkostlega ýkt mynd hjá mér og þetta sé miklu minna, en það er alveg augljóst, að þarna er um marga milljarða króna að ræða sem verður að afla fjár til með einhverjum hætti. Ég vil nú auglýsa eftir hugmyndum Alþfl. um það, hvernig hann hugsar sér að koma því heim og saman við þá stefnu sem hann hefur þóst hafa í skattamálum, við þann fyrirvara sem hann hefur um fjárlagafrv., og sérstaklega fá svar við því, hvort Alþfl. sé fallinn frá fyrirvaranum um skattahækkun samkv. fjárlagafrv.

Sérstaklega vil ég endurtaka það, að ég óska eftir skýringum hæstv, forsrh. á því, hvernig hann hugsar sér vinnubrögð með stjfrv. í framtíðinni, hvort þetta er það sem hið háa Alþ. má eiga von á frá þessari hæstv. ríkisstj., að það komi ekki stafkrókur um það í frv.,sem hæstv. ríkisstj. ætlar að leggja fram, hvað þau kosti ríkissjóð, hvort þetta sé það sem koma skal. Og ég óska sérstaklega eftir að fá sem fyrst að vita glögglega hvaða mat ríkisstj. leggur á útgjöld úr ríkissjóði, sem frv. hafi í för með sér, og hvernig hún hugsi sér að afla tekna á móti.