27.11.1978
Neðri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Það hefur verið athyglisvert að hlýða á hv. þm. sem talað hafa í kvöld við þessa umr. af hálfu stjórnarandstöðunnar. Þeir hv. þm. Sjálfstfl., sem hér hafa tekið þátt í umr., hafa deilt á ríkisstj. fyrir tvennt. Þeir hafa annars vegar deilt á ríkisstj. fyrir að það kaup, sem gert er ráð fyrir að greitt verði eftir 1. des. skv, því frv. sem hér er til umr., sé eiginlega allt of hátt með tilliti til stöðu atvinnuveganna í landinu, sem verið sé að leggja á auknar byrðar, enda þótt atvinnuvegirnir standi að þeirra dómi svo illa, að þeir þoli ekki neina launahækkun. En svo hafa þeir jafnframt deilt á ríkisstj. fyrir það, að hún sé með þessu frv. að klípa af launum launafólksins í landinu, og nefna í þeim efnum jafnvel himinháar tölur. Það væri ákaflega fróðlegt að fá nánari upplýsingar um það, hvort hv, þm. Sjálfstfl. telji að það kaup, sem frv, gerir ráð fyrir að verði borgað eftir 1, des., sé heldur of hátt eða of lágt. Það getur nefnilega varla verið hvort tveggja, eins og mætti skilja af málflutningi þeirra.

Ég hlustaði einnig með athygli á ræðu hv. 7. þm. Reykv., Vilmundar Gylfasonar, og ég hygg að það hefði verið hollt fyrir marga fleiri en þá, sem sitja á hinu háa Alþ., að heyra það sem hann hafði að segja. Í ræðu hans kom ákaflega skýrt fram sitthvað um aðdraganda þessa frv. sem hér er nú til umr., og það kom ákaflega skýrt fram, að enda þótt stuðningsflokkar ríkisstj. standi að frv, nú þá var þeirra á milli býsna mikill ágreiningur um það hvernig ætti að gera þetta frv. úr garði.

Hv, þm. Vilmundur Gylfason lýsti hér nokkuð þeim till. sem hans flokkur, Alþfl., hafði lagt fram og gert kröfu um að ríkisstj. gerði að sínum till. Hann gat um það meginatriði þessara till. Alþfl., að í frv. skyldi kveðið á um það, að laun mættu ekki hækka á árinu 1979 nema um 4% í verðbætur sem hámark eftir hverja 3 mánuði, þ.e.a.s. í mesta lagi um 17% í krónutölu á næsta ári. Þetta var aðalatriði till. Alþfl., eins og kom skýrt fram hjá hv. 7. þm. Reykv.

Um þetta er það að segja, að ef ríkisstj. sem heild hefði fallist á þessar till. Alþfl., hefði þar verið um að ræða alvarlegri aðför að launakjörum almenns verkafólks og alls láglaunafólks í þessu landi heldur en átti sér stað af hálfu fráfarandi ríkisstj. fyrr á þessu ári. Þetta eru stór orð, en ég bið menn að taka eftir því sem ég segi í þessum efnum, því það eru ekki nema staðreyndir.

Ég hygg að við finnum hvorki í hópi hagfræðinga né stjórnmálamanna neina þá sem halda því fram, að nokkrar líkur séu á að hægt verði á árinu 1979 að koma verðbólgunni lengra niður en í máske 35% eða svo, og væri það vissulega mikill árangur. En það að fara að tillögum hv. þm. Alþfl., sem hv. þm. Vilmundur Gylfason gerði hér að umræðuefni, hefði þýtt, að jafnvel þótt takast kynni að ná verðbólgunni niður í 35% á árinu 1979 átti kaupið — líka hjá lægst launaða fólkinu í landinu — ekki að hækka nema um 17% eða innan við helming af hækkun verðlags.

Það var ekki í þessum till. verið að leggja til að sækja fjármagn til þeirra aðila í þjóðfélaginu sem safnað hafa verðbólgugróða í stórum stíl á undanförnum árum. Það var ekki verið að setja fram rökstuddar till. um að ná fjármagni úr þeim holum sem stundum hefur verið talað um að væri að finna í neðanjarðarhagkerfinu, sem þeir hv. þm. Alþfl. minnast stundum á. Nei, það átti að byrja á einum stað, hjá launafólkinu.

Það kann að vera að það virðist létt verk að ráða niðurlögum verðbólgunnar á Íslandi ef kaupið er bara lækkað nógu mikið. En ég er ekki viss um, að þeir stuðningsmenn Alþfl. í verkalýðshreyfingunni, sem stóðu við hlið annarra þar fyrr á þessu ári í kjaradeilunum, hafi verið eða séu jafnsannfærðir um það, að meginmeinsemdin í okkar þjóðfélagi sé of hátt kaup verkafólks, eins og hv. þm. Alþfl. sumir hverjir a.m.k. virðast vera.

Það er rétt að minnast þess, að í tíð fyrrv. ríkisstj., á síðasta kjörtímabili, átti líka að lækna verðbólguna — og hvernig var farið að því? Með mjög svipuðum hætti og till. Alþfl. fólu í sér. Kaupmáttur almennra launa lágtekjufólks í þessu landi var skertur á fyrstu valdamánuðum ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar um ekki minna en svo sem 20%. Það átti að vera byrjunin í aðförinni að verðbólgunni. Hvernig tókst til? Leiddi þessi launalækkun til lækkunar verðbólgu? Hún gerði það ekki. Það er öllum kunnugt. Og sú ríkisstj., sem hv. þm. Geir Hallgrímsson veitti forstöðu, endaði feril sinn með því, að 50% verðbólga ríkti í þessu landi þegar kjósendur hröktu hana úr valdastólum á s.l. sumri.

Ég hygg að það sé ákaflega mikilvægt, að sem allra flestir gætu gert sér þess nokkuð skýra grein, að það er ekki kaupið hjá almennu verkafólki eða öðrum í hópi lægra launaðs fólks í þessu landi sem veldur verðbólgunni. Þar kemur allt annað til. Þetta kaup er ekki hátt miðað við okkar þjóðartekjur. Í þeim efnum mætti að sjálfsögðu rekja dæmi með samanburði við önnur lönd, sem oft hefur verið gert og ég ætla ekki að eyða í tíma hér nú eða spyrja um hver hafi verið þróun annars vegar kaupmáttar launa og hins vegar þjóðartekna í þessu landi undanfarin ár og áratugi. Hvort heldur sem litið er í þessum efnum til okkar nágrannalanda eða til sögulegrar þróunar hér heima undanfarin ár og áratugi, þá verður niðurstaðan sú ein, að það er með engu móti hægt að leiða að því skynsamlegar líkur, að þetta kaup sé of hátt.

Það er oft talað um að það kynni að vera hægt að ná miklum árangri í baráttunni við verðbólguna með því að tengja launin við — stundum talað um viðskiptakjör, stundum talað um þjóðartekjur í því sambandi, — launin megi ekki hækka nema þjóðartekjurnar hækki og fleira í þeim dúr.

Ég vil að vísu taka það fram, að ég tek ekki undir þessa kenningu, vegna þess að skoðun mín er sú, að jafnvel þótt þjóðartekjurnar breytist ekki sé ástæða til að skipta þeim með öðrum hætti en gert hefur verið og þá þannig, að það komi þeim til góða sem búa við lág laun. En setjum svo að þessi regla hefði verið hér í gildi á undanförnum árum og verið kveðið á um það með samningum eða með lögum, að kaupmáttur launa skyldi þróast í samræmi við vöxt þjóðartekna. Ég minnist þess, að einn af forustumönnum í hinni faglegu verkalýðshreyfingu, sem jafnframt er miðstjórnarmaður í Sjálfstfl., vakti athygli á því í umr. í sjónvarpi snemma á þessu ári, í aðdraganda kjarasamninganna sem gerðir voru í júní, að ef laun á Íslandi hjá hafnarverkamönnum hefðu hækkað frá stríðslokum að kaupmætti til jafns við hækkun þjóðartekna á mann og þjóðartekjurnar þá mældar á föstu verðlagi, þá hefði kaupið fyrir samningana, sem gerðir voru í júní, hjá þessu láglaunaða fólki hér átt að vera helmingi hærra en það var, þ.e. kaupmátturinn.

Ég fletti sjálfur upp á þessum tölum eftir þessar umr. í sjónvarpinu, og það fór ekkert milli mála að þessi einstaklingur, sem ég þykist muna að þá hafi verið formaður Landssambands verslunarmanna og hygg að hann sé það enn, miðstjórnarmaður í Sjálfstfl. jafnframt, að það var rétt sem hann sagði í þessum efnum.

Þetta eru staðreyndir, sem menn gleyma ærið oft þegar hátt er um það talað, að nú sé hægt að lækna verðbólguna á Íslandi með því að tengja launin við þróun þjóðartekna eða þróun viðskiptakjara. Það er ekki alveg víst, að slík tenging leiddi til lækkunar launa, gæti leitt alveg eins til hækkunar, eins og verið hefði á því tímabili sem ég gat um áðan. Það sér að sjálfsögðu enginn fyrir.

Hv. 7. þm. Reykv., fyrsti talsmaður Alþfl. í þessum umr., vildi kenna okkur í Alþb. um það, að þeir Alþfl.menn hefðu því miður ekki fengið fram sitt mál varðandi það að lögbinda kaupið út allt næsta ár. Ég vil vona að sem flestir í þessu landi kenni okkur Alþb.-mönnum um að þannig fór, um það að þessi ákvæði standa ekki í því frv., sem við erum að ræða hér í kvöld.

Hv. 7. þm. Reykv. Vilmundur Gylfason, kallaði ófyrirgefanleg pólitísk mistök, að þessar till. skyldu ekki vera samþ. En hann ætlar samt að standa að því að gera þessu ófyrirgefanlegu pólitísku mistök — og látum það svo vera.

Hv. þm. sagði líka orðrétt: Hér var lögð til lögbinding —- og var þá að ræða um hvernig ætti að haga launamálunum á næsta ári. Já, það átti skv. þessum till. að binda kaupið fast, hvað sem verðlaginu liði, allt næsta ár og ganga í þeim efnum harðar að almennu verkafólki og launafólki í þessu landi heldur en fráfarandi ríkisstj. hafði gert. Svo er sagt af sama hv. þm., að Alþb. sé ófært um að stjórna á erfiðum tímum. Það gætu komið svo erfiðir tímar í þessu landi, að það væri kannske ekki til margra annarra ráða að grípa en ganga í vasa láglaunafólks í landinu. En það eru ekki nú erfiðir tímar í þessu landi. Það er meira til skipta í okkar þjóðarbúi en nokkru sinni fyrr. Það skulu menn hafa í huga. Okkar þjóðartekjur eru hærri en nokkru sinni fyrr. Spurningin er aðeins um það, hvernig menn ætla að nota það vald sem meiri hl. Alþ. og ríkisstj. hefur til að skipta þessum tekjum.

Hv. 7. þm. Reykv., fyrsti talsmaður Alþfl. í þessum umr., lagði á það þunga áherslu, að verðbólgan léki láglaunafólkið verst. Það er nokkuð til í því. En láglaunafólkið á Íslandi hefur eina vörn gegn verðbólgunni, — vörn sem það hefur tryggt sér í sínum kjarasamningum. Og hver er þessi vörn? Hún er ákvæðin í kjarasamningunum um verðbætur á launin, um það, að ef verðlagið hækkar svo og svo mikið, þá skuli þó kaupið hækka líka, að vísu eftir á. Það er vörnin. En till. þeirra hv. þm. Alþfl. voru um að svipta þessari vörn burt — þessari einu vörn. Það var engin önnur trygging boðin í staðinn — alls engin.

Nú má vel vera að þeir hv. þm. Alþfl. kynnu að halda því fram, að þeir hefðu treyst sér til þess að koma verðbólgunni niður í þessi 16–17% á næsta ári, eins og kaupið átti að fara. En þeir eiga eftir að færa sönnur á það, hvernig þeir ætluðu að fara að því. Það var ekkert um það í þeirra tillögum.

Ég vil segja um það frv., sem hér er til umr., að það hefur að sjálfsögðu aldrei verið krafa verkalýðshreyfingarinnar að launahækkanir, hvort sem væru í sambandi við verðtryggingu launa eða að öðru leyti, væru eini möguleikinn til þess að bæta kjörin. Það liggur ljóst fyrir, að ef gerðar eru ráðstafanir til að lækka verðlag í landinu, þá er það ekki síður kjarabót, og það er ekkert nema gott um það að segja, að þær bætur, sem almennt launafólk á að fá skv. samningum komi í formi lækkaðs verðlags ekki síður en hækkaðra launa.

Og það er einnig svo, að það er ekkert við það að athuga, þó að heimili, sem borgar 2% af sínum launum í sjúkratryggingagjald, sé sleppt við að borga þessi 2% í sjúkratryggingagjaldið, en fái þá ekki samsvarandi launahækkun. Það kemur út á eitt.

En þá kemur að því, að gert er ráð fyrir í þessu frv., að eftir liggi hinn 1. des. 3% af launum sem ekki verði — miðað við það sem vera átti skv. samningum 1. des. bætt með beinum hætti. Það er nú svo, að auðvitað skipta þau atriði, sem boðuð eru í grg. þessa frv., í 7. lið grg., þar sem talin eru upp 11 atriði sem verkalýðshreyfingin í landinu hefur lagt kapp á að fá fram og öll eru mikilvæg, — auðvitað skipta þau miklu máli. Og enda þótt það sé að mínum dómi svo, að í rauninni ætti að vera hægt að greiða þessi 3% og fá líka ærið mikið fram af þeim atriðum sem talin eru, félagslegum atriðum í 7. lið grg., þá vil ég taka það fram, að eins og allar aðstæður eru þegar þetta frv. er flutt, með tilliti til þess m.a., hversu alvarleg tilraun var gerð innan ríkisstj. til þess að knýja fram langtum alvarlegri skerðingu, þá tel ég að við þetta verði að una. Sú afstaða liggur reyndar fyrir frá ekki veigaminni aðila en Verkamannasambandi Íslands, eins og hæstv. forsrh. kynnti í sinni frumræðu, og ég efast ekki um að sú afstaða liggur fyrir vegna þess að af hálfu Verkamannasambandsins eru þau atriði, sem upp eru talin í 7. lið grg., metin mjög mikils og því þá væntanlega treyst, að hér verði ekki um orðin ein að ræða, heldur verði efndirnar að marki betri en stundum hefur orðið áður hjá fyrri ríkisstj. í sambandi við slík loforð, og þessu vil ég einnig treysta.

Ég vil taka það fram, að mér finnst það mjög slæmt að ekki skuli fylgja frv. nánari grg. um fjáröflun. Það er tæpt á hlutum í þeim efnum. Það er tæpt á hátekjuskatti, veltuskatti á vissa hluta atvinnurekstrar, fjárfestingarskatti, eignarskatti. Ég tel að út af fyrir sig þá geti þessir tekjuliðir allir komið til álita og ýmsir fleiri. En það er óneitanlega nokkur vöntun, að ekki skuli gerð nánari grein fyrir áformum ríkisstj. í þessum efnum í grg. frv.

Það er minnst á að mæta því tekjutapi eða kostnaðarauka, sem ríkissjóður verður fyrir ef frv. verður samþ., að hluta með niðurskurði ríkisútgjalda. Ég vil einnig vænta þess, að hæstv. ríkisstj. verði svo gæfusöm að ná nokkrum árangri í þeim efnum. En hitt vil ég segja, að nokkru leyti vegna ummæla sem hér hafa áður fallið í þessum umr., að ég vil vara við því, að samþykkt frv. verði á nokkurn hátt notuð til þess að draga úr fjármagni við samþykkt fjárl. sem ganga á til hinna margvíslegu aðkallandi verklegu framkvæmda á vegum hins opinbera eða til þeirrar félagslegu þjónustu sem ríkisvaldið heldur uppi í þessu landi. Til þess má ekki koma að mínu viti.

Ég vil síðan að lokum aðeins segja það, að tíminn stendur ekki kyrr hér hjá okkur á hinu háa Alþ. frekar en annars staðar, og þegar liðið er eitt þriggja mánaða tímabil, þá byrjar það næsta. Ég hygg að ýmsir hugsi undir þessum umr., þegar þetta frv. er skoðað, ekki bara til 1. des., heldur einnig til 1. mars. Og ég vil segja það, að eins og hin pólitíska staða er í þessu landi, nú þegar við þekkjum vilja stjórnarandstöðunnar til að skera niður launin í mjög stórum stíl og við þekkjum þá afstöðu sem fram hefur komið innan ríkisstj., þá má heita allvel sloppið í þessum áfanga. En það verður ekki hægt að telja upp aftur þá 11 liði sem eru taldir í 7. tölul. grg. þegar kemur að 1. mars, og það verður ekki heldur hægt t. mars að skipta í annað sinn á lækkun sjúkratryggingagjalds og beinni kauphækkun. Ég held að það sé rétt, að hv. alþm. geri sér þess grein nú þegar, að Alþb. ætlar sér ekki að standa að því að höggvið verði í kaup láglaunafólksins í landinu, hvorki 1. mars, 1. júní, l. sept. né 1. des. á næsta ári. Þá staðreynd held ég að menn þurfi að skilja, a.m.k. allir þeir sem vilja lif þessarar ríkisstjórnar.