27.11.1978
Neðri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefur einhver stjórnarþm. gleymt biblíu sinni hér í ræðustólnum: Verðbólguvandinn. Ég lýsi eftir eigandanum.

Ég vil hefja mál mitt á því að fullvissa hv. síðasta ræðumann um að ég er einn þeirra sem vilja styðja að, kannske ekki langlífi ríkisstj., en alla vega koma í veg fyrir að hún komist í burtu strax eða bráðlega. Ég held að það verði eina ráðið til þess að koma þjóðinni í skilning um það, að kominn er tími til þess að landinu verði ekki stjórnað með samsteypustjórnum. Vonandi verður þess ekki langt að bíða, að þjóðin treysti Sjálfstfl. einum fyrir stjórn landsins, í von um að þá fyrst geti hjólið snúist nokkurn veginn rétt.

Ég hafði hugsað mér að segja nokkur orð um frv. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu sem hér liggur fyrir til umr. Ég er hræddur um að þetta frv. sé ekki sá boðberi góðra tíðinda fyrir þjóðina, sem stjórnarmeirihl. hefur talað um. Launagreiðslur í landinu nema um 300 milljörðum kr. á heilu ári á gildandi verðlagi, eins og kom fram hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni í upphafi umr., en til viðbótar koma svo tekjur sjómanna, sem nema um 20–25 milljörðum kr., og tekjur bænda, sem eru 12-13 milljarðar. Ef 8% launahækkun er afnumin 1. des. er felld niður hækkun peningalauna sem nemur 24 milljörðum. Hvert prósentustig, sem kaup er lækkað um við niðurgreiðslu vöruverðs, kostar því um 1700 millj. kr. á ári á gildandi verðlagi. Ef tekin eru saman þessi 8% og reiknað hvað það gerir í niðurgreiðslum, þá nemur sú fjárupphæð um 14 milljörðum kr. Launþegar verða því af 10 milljörðum kr. í launum. Það er mismunurinn á því, sem má segja að tekið sé af þeim, og því sem þeir fá.

Frv. gerir ráð fyrir 3% lækkun verðbótavísitölu 1, des. 1978. Sú niðurgreiðsla kostar, eins og hér hefur áður komið fram, 5.1 milljarð kr. Þá er ráðgert að lækka skatta um sem nemur 2% af verðbótavísitölunni 1. sept. Ef sú framkvæmd samsvarar að fullu niðurfelldri launalækkun ættu skattar að lækka um 6 milljarða kr. Þá er loks ráðgert að félagslegar umbætur verði metnar til kjarabóta sem nemur 3% af verðbótavísitölu. Ég hef notið aðstoðar manna sem eru vanir að reikna þetta út, og þeir komast að þeirri niðurstöðu, að launaskerðingin eða mismunurinn á því, sem launþegar eru að láta af hendi, og því, sem þeir eru að fá til baka, sé á milli 10 og 12 milljarðar kr.

Þetta er árangurinn af því, að Alþb. komst í stjórnaraðstöðu. Þetta er árangurinn af því, að ráðh. gátu snúið verkalýðsforustunni. Hún gerði háar kaupkröfur og langt fram yfir það sem þjóðarbúið þoldi í síðustu Loftleiðasamningum og bættu ofan á það útflutningsbanni, sem enn er óreiknað hvað hefur kostað þjóðina. Frá sterkri afstöðu er horfið, og ráðh. nota sömu leiðtoga verkalýðshreyfingarinnar til að snúa vopnum hennar gegn sjálfri sér.

Það er gaman að fylgjast með því tali sem hér hefur átt sér stað. T.d. hélt hv. 7. þm. Reykv. ágæta ræðu og át svo allt ofan í sig í lokin með því að segja, að þrátt fyrir allt mundi hann standa með þessum slæmu till. sem hér liggja fyrir.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði alveg réttilega, að Alþfl. gæti ekki komið öllu því fram, sem hann vildi og þar af leiðandi væri frv., sem hér lægi fyrir, ekki gott frv. En ég spyr: Af hverju? Hvað er það sem knýr Alþfl. til þess að greiða atkv, með þessu frv., sem þm. hans tala á móti? Ég skil það ekki. Hvað knýr Alþfl. til þess að taka afstöðu gegn sannfæringu sinni og koma í veg fyrir þessa 14% hækkun? Alþfl. hafði allt annað á stefnuskrá sinni, sem Alþfl. taldi og telur enn miklu betri lausn en það, sem nú liggur fyrir. Af hverju koma Alþfl.menn ekki með það fram í frv.-formi og vita hvort þeir koma því í gegn. ef það er eitthvað betra? Það væri ekki óhugsandi. Ef við, sem erum í stjórnarandstöðu, fáum eitthvert valfrelsi á milli úrlausna og úr því að afstaða Alþfl. er þessi bara til að koma í veg fyrir enn meiri skaða en þetta frv. leiðir af sér, því það er það sem hv. þm. var að segja, þá vildi ég gjarnan fá að sjá till. þeirra í frv.formi, og við skulum láta reyna á hvort það kemst í gegn eða ekki. Ég er ekki með þessum orðum að reyna að kljúfa stjórnarliðið, því við verðum á sama tíma að gæta þess að það klofni ekki, annars verða minni líkur til þess, að Sjálfstfl. nái hreinum meiri hl. í næstu kosningum.

Svo ég snúi mér aftur að því, sem ég var nú byrjaður á, að tala um þetta frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, þá er fyrirsögnin eiginlega það besta. — Gert er ráð fyrir auknum niðurgreiðslum samkv. 1, gr. jafnframt því sem lækka á skatta, sbr. 2. gr., og auka útgjöld til félagsmála, sbr. 3. gr., í þeim tilgangi að koma í veg fyrir 8 kauphækkun. 8% hækkun launagreiðslna í landinu gerir um 24 milljarða kr., eins og ég sagði áðan. Ef ríkissjóður hefði keypt alla þessa hækkun af sér með almennum niðurgreiðslum hefði það numið um 14 milljörðum kr. Ekki er ástæða til að ætla, að ódýrari kaup fáist þó farin sé að hluta leið skattalækkana og aukinna félagslegra útgjalda. En ef ríkisstj. væntir þess að eiga kost á slíku væri fróðlegt að fá upplýst að svo sé, því það liggur alveg ljóst fyrir, að hér er verið að taka af launþegum um 10 milljarða kr.

Tilgangur þessa frv. er sagður vera viðnám gegn verðbólgu, en ég fullyrði að áhrif laganna verða þveröfug ef frv. verður samþ. Hér er ekki um tekjutillögur að ræða, það kemur ekkert fram í þessu um neinar sérstakar tekjur, og peningar verða bara prentaðir eins og áður hefur verið gert. Meginorsök verðbólgu undanfarinna ára er þessi peningaaustur, bæði ríkissjóðs og Seðlabankans, inn í landið. Og ég endurtek að peningar, sem engin verðmæti standa bak við, eru ekkert annað en áprentaður pappír. Hér er verið að ausa stórum fjárfúlgum út úr ríkissjóði, fjárfúlgum sem ekki verða lagðar á fólkið í sköttum, heldur fengnar beint úr prentvélum Seðlabankans.

Ég er alveg sannfærður um að þessir peningar munu valda mjög auknum innflutningi erlendra vara. En við vitum öll að enginn gjaldeyrir er til til þess að auka innflutning. Það liggur ljóst fyrir, ekki nema miklar erlendar lántökur séu fyrirbugaðar til að kasta í þessa eyðslu líka. Það er það eina sem ég get látið mér detta í hug. En það væri fróðlegt ef ríkisstj. gæti upplýst þetta.

Þessir peningar hafa auðvitað keðjuverkandi áhrif. Þeir valda einnig þeirri veltu innanlands sem leiðir af sér aukinn innflutning iðnfyrirtækja á hráefni og aukna samkeppni þar um vinnuaflið. Hér er full atvinna eins og er, eða að ég hélt þangað til í dag eða í kvöld. Ég skal koma að því svolítið seinna. Ég óttast að það geti orðið um yfirboð að ræða á vinnumarkaðinum í iðnaði, ef þessi leið verður farin. Ég er hræddur um að stöðvun verðbótavísitölu með þessum hætti muni ekki stöðva kauphækkanir.

Í aths. við frv. er talað um hátekjuskatta og veltuskatta á rekstur. Hér er um hreina blekkingu að ræða. Hátekjuskattur mun ekki gefa meiri tekjur en áður. Hann bjargar engum miklum vandamálum í þjóðfélaginu. Að veltuskattur leggist á rekstur er líka rangt. Það er mjög rangt. Það ættu verkalýðsforingjarnir að vita. Hann leggst á neytendur með hærra vöruverði og erum við þá ekki komnir að þeim endalokum, sem ætlunin var að forðast? Þetta er allt í sama hringnum allan tímann. Ef fyrirtækin gætu borið þennan veltuskatt væri þá ekki nær að láta launþega njóta þess í launum beint? Hvaða lækning er það að skerða laun á grundvelli þess, að atvinnuvegirnir geti ekki tekið á sig hærri laun án verðhækkana, og ætlast svo til þess að atvinnureksturinn greiði nýja og aukna skatta í ríkissjóð og það skatt eins og veltuskatt, sem er einna ranglátust skattheimta sem til er?

Ég er sannfærður um að ef þetta frv. verður að lögum, þá hlýtur það að leiða til aukinnar verðbólgu, aukinnar erlendrar lántöku og að lokum tvímælalaust til afnáms verslunarfrelsis í landinu og verði þeim áfanga mjög sennilega náð seint á þessu ári eða þar næsta. Ég held það fari eftir því hve mikið lánstraust Seðlabankinn eða kannske hve mikið lánstraust seðlabankastjórinn persónulega, Jóhannes Nordal, hefur hjá Alþjóðabankanum, hvað við getum haldið lengi áfram eins og við höfum gert.

Ég skal nú rétt til gamans — af því að Ed.- maðurinn, sem greip hér fram í áðan, er nú kominn í salinn aftur upplýsa hvað ég átti við þegar ég talaði um að fram til þessa dags og jafnvel fram á kvöld hélt ég að hér væri full atvinna. Þegar ég kom heim og opnaði útvarpið var eitt af því fyrsta, sem ég heyrði, það, að ríkisstj. Alþb. með guðföður úr ákveðinni átt hefði látið utanrrh. sinn kalla sendiherra Bandaríkjanna á sinn fund til að biðja hann góðfúslega — líklega á hnjánum — um að vera nú svo góður að hjálpa íslenskum vinnumarkaði með því að taka eins marga og mögulegt væri, segja nú engum upp og láta ekki bandarísk lög yfir erlendar herstöðvar ná til Íslands, þ.e.a.s. að ráða bara einn fyrir hverja fimm sem hægt væri að segja upp. Þegar ég heyrði þetta fannst mér þetta ekkert óeðlilegt, því ríkisstjórn með kommúnista innanborðs hefur ekki þurft eins langan tíma til að koma öllu í kaldakol og þessi ríkisstj. hefur haft.

Ég held að aðgerðirnar, sem þetta frv. miðar að, stefni ekki að lausn efnahagsvandans sem blasir við 1. des., nema síður sé. Ég er afskaplega óánægður með það líka, af því að það er alltaf verið að tala um að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins, að það skuli ekki hafa verið haft samráð við atvinnurekendur. Ég hafði talið þá, áður en ég fékk þá skýringu sem í þessu frv. felst, aðila að vinnumarkaðnum. Atvinnurekendur eru ekki þjóðflokkur út af fyrir sig. Þeir hljóta að tilheyra íslensku þjóðinni og þeir eru aðilar að vinnumarkaðnum. En það hefur ekki verið haft samráð við þá og það er mér alveg óskiljanlegt. Það er eitt, sem mér datt í hug, að hinn frjálsi vinnumarkaður væri orðinn svo lítill og hinn þvingaði vinnumarkaður, vinnumarkaðurinn sem ríkisstj. og sveitarfélög ráða yfir, sé orðinn það stór að það þurfi ekki að taka neitt tillit til svokallaðra frjálsra aðila á vinnumarkaðnum. Og þá er mér spurn: Er sósíalisminn kominn það langt í framkvæmd á Íslandi, að frjálst framtak sé það hverfandi að ekki þurfi að taka tillit til þess við gerð samninga? Það getur vel verið. Ég skal ekki um það segja. En það lítur út fyrir að það sé ekki nein sérstök ástæða til þess að taka tillit til þess litla sem eftir er af frjálsum vinnumarkaði. En ég ætla nú samt sem áður, með leyfi forseta, að fara fram á það, að nú verði leitað til þeirra aðila, sem standa fyrir félagasamtökum atvinnurekenda hér, bæði Vinnuveitendasambands Íslands og Verslunarráðs Íslands, og umsagnir þeirra fengnar þegar þessu frv. verður vísað til n., því ég geri ráð fyrir að það komist í gegnum 1. umr. og til nefndar.

Ég var ekki viss um hvenær eiginlega verkalýðsforinginn — ég kalla hann hins vegar verkalýðsrekandann — var í þessum ræðustóli áðan eða hvenær það var þm. sem talaði, þegar hv. 6. þm. Reykv. var hér í stólnum. Hann var ýmist með verkalýðshattinn eða með þm. í sér. Það er dálítið vont þegar menn rugla saman og átta sig ekki á því, á hvaða stöðum þeir eru að tala. Þetta var orðið eins og hjá Alþfl.: fremur kosningaræða en þátttaka í umr. um frv. á Alþingi.

Það kom fram hjá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni áðan, sem dæmi um ósóma skulum við segja, hvað sumir atvinnurekendur gætu haft það gott og lifað hátt og sett allan kostnað á fyrirtækið, skildist mér. En ég verð að segja alveg eins og er, og það er okkar litla landi og þjóð til hróss, að mér er ekki nokkur leið að sjá nokkurn mun á t.d. mér og verkalýðsforingjanum Guðmundi J. Guðmundssyni. Við búum báðir í einbýlishúsum. Við eigum báðir bíla. Við erum báðir giftir og eigum báðir börn. Við erum sæmilega til fara báðir. Ef það kæmi hér útlendingur í salinn, gæti hann þá sagt um hvor okkar væri verkalýðsforingi og hvor okkar væri þessi arðræningi sem hér á að eiga sér stað? Ég get ekki með nokkru móti ætlast til þess, að ókunnugur maður gæti fundið út hvor okkar væri arðræninginn. Ég held það sé alveg sama hvar við leitum í ríkiskerfinu — og forustumenn Sambands ísl. samvinnufélaga, sem er líka viðskiptaaðili, hafa það allir ágætt og eiga að hafa það gott. Ég vil því mótmæla svona tali.

Ég skal reyna að stytta mál mitt, klukkan er orðin margt, en ég er hræddur um að margt af þessu, sem kemur fram í aths., sé þess eðlis að það geti ekki náð fram að ganga. Það er alveg útilokað. Ég get t.d. ekki séð hvernig í ósköpunum bankar, peningastofnanir og bankastjórar eiga að starfa ef á að setja lög um hvað þeir eigi að gera, ef þeir eiga ekki að dæma, taka ákvarðanir sjálfstætt þegar viðskiptavinur kemur inn í bankann. Það á að setja þeim takmörk um það, hvernig þeir eigi að haga sér í útlánum. Það á að setja þeim ákveðin útlánaþök, hvernig sem allt veltist. Það er talað um aukna bindiskyldu við Seðlabankann. Ég held að hún sé alveg nógu mikil fyrir, jafnvel allt of mikil Og þetta fé lekur meira og minna út um bakdyrnar inn í ríkissjóð. Og þaðan fer það áfram út á vinnumarkaðinn og skrúfar hann upp og er í samkeppni við hinn frjálsa framkvæmdaaðila í þjóðfélaginu.

Hér segir um útlánaregluna, að það eigi að breyta útlánareglum fyrir fjárfestingarlánasjóði — sem er kannske ekki alvarlegt — og útlánum banka í samræmi við stefnuákvarðanir sem Alþ. tekur. Getið þið ímyndað ykkur að menn geti starfað eftir einhverjum fyrir fram ákveðnum línum? Það er ekki nokkur leið. Það tekur allt frumkvæði af þessum mönnum, sem eru þannig ráðnir að þeir eru sjálfs sín herrar í ríkisbönkum. Þetta er mótsagnakennt og er ekki hægt að bera slíkt á borð.

Í 7. liðnum, síðustu línunni, er talað um sérstök réttindamál opinberra starfsmanna sem eigi að taka til endurskoðunar. Hvaða réttindi hafa þeir ekki? Hverju á að bæta við? Er ekki kominn tínú til þess að láta þá vita að þeir eru kontóristar sem eiga að hlýða fyrirskipunum þeirra sem eru valdir á Alþ. til að stjórna landinu? Það er ekki nema eðlilegt að alþm. hlæi. Þetta er hlægilegt. Það er stórhlægilegt, að kontóristar hjá ríkinu skuli vera farnir að stjórna ríkisstj. í togstreitu við, eins og ég sagði áður, þrýstihópa. Þá er átt við verkalýðshreyfinguna og orðum beint til Guðmundar J. Guðmundssonar, sem situr á þingi eins og er. (Gripið fram í.) Þú hefur ráðið fram úr annarri eins gátu og þessari: Það hefur auðvitað verið mikill ágreiningur milli okkar.

Í 4. lið er talað um að gera ráðstafanir fyrir áramót og leggja fram frv. til l. um tekjuöflun fyrir áramót. M.a. komi til athugunar hátekjuskattur og veltuskattur á ýmiss konar rekstur. Einnig komi til athugunar í þessu skyni fjárfestingarskattur og eignarskattur. Fjárfestingarskattur ofan á þá háu vexti, sem eru núna, dregur algjörlega úr vilja fólks til að gera nokkurn skapaðan hlut. Og hvað verður þá um skjólstæðinga verkalýðsforingjanna? Er ekki alveg nóg komið af eignarskatti? Er ekki komið miklu meira en nóg af eignarskatti? Nú er brbl. í gildi þar sem 6% eignarskatti var bætt á það sem fyrir var. Ég held að fólkið í landinu mótmæli þessu. Þegar það sér hvað er verið að bjóða því, þá mótmælir það. Þá verður ekki þessi samstaða, hvorki verkalýðshreyfingar né annarra, sem ríkisstj. treystir á.

Það er margt í þessu frv. sem ég hefði viljað gera aths. við. Hæstv. landbrh. hvíslaði að mér áðan að hann mundi svara fsp., sem liggur fyrir frá mér, á morgun. Ég ætla því að bíða með umr. um það mál. En það stendur hér síðast í 5 lið. „Stefnt verður að því að draga í áföngum úr framleiðslu umfram þarfir, þannig að jafnframt dragi úr þörf fyrir útflutningsbætur.“ — Það er hægt að spara mjög mikið á því að draga bara úr umboðslaunum af niðurgreiðslunum. Þannig er margt sem hægt er að athuga í sambandi við þetta frv.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. En ég harma það, að Alþfl. skuli segja eitt í dag og annað á morgun, og fagna því þó, að það er neisti í honum. Það kom fram í dag í Ed. Neisti getur verið nóg til þess að kveikja það bál sem þarf til þess að samræmi komist einhvern tíma á gerðir þeirra.

Ég er sannfærður um að þetta frv., sem hér er lagt fram til samþykktar, er þjóðinni ekki til góðs, heldur frekar hitt. Það leysir engan vanda, — alls engan vanda. Ég er sjálfur sannfærður af eigin reynslu vegna þess að ég hef í langan tíma, eða frá því ég kom aftur til landsins, verið í viðskiptum og hef fundið hvað það þýðir að álagning hringlar til og frá, að sama varan kostar e.t.v. þetta í dag og annað á morgun. Ég get ekki með nokkru móti skilið við t.d. gengislækkanir, hvers vegna 30% reglan, sem viðskiptaheimurinn verður að sætta sig við, er ekki látin ná til ríkisins líka. Mér er ekki nokkur leið að skilja það, þegar gengið er lækkað, við skulum segja um 20%, af hverju tollarnir, vörugjaldið og söluskatturinn haldast í sömu prósentutölu. Af hverju eru ekki þessi 20% tekin af þessum liðum, þannig að ríkið margfaldi ekki það gjald eða þá upphæð sem það tekur. Þetta er keðjuverkandi og fer allt beint út í verðbólguna, fer allt út í allar þær vísitölur sem við höfum haft. Og ef það er hægt að vefja upp á eitthvað, þá hlýtur að vera hægt að vefja niður af því. Ég er alveg sannfærður um að ef söluskatturinn, sem er 20%, væri lækkaður um 20% þegar gengislækkun er 20%, og það sama yrði gert við vörugjaldið, þá hlyti minni upphæð að fara út í verðbólguna. Því er ekki eitthvað svona lagað gert? Ég held að við ættum að fara að hugsa um að vefja ofan af, en ekki alltaf að bæta á. Þá getum við aukið verðgildi krónunnar í staðinn fyrir að auka fjölda krónanna sem þarf til að lifa af.