28.11.1978
Sameinað þing: 28. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

45. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það er með því furðulegra, sem hér gerist, að heyra sjálfstæðismenn standa upp og vera að hneykslast á því, að aðrir hafi ekki beitt sér nógu mikið í sambandi við „kommissarakerfið“. Saga Sjálfstfl. í því máli er sú, að hann snerist öndverður gegn Framkvæmdastofnuninni, þegar vinstri stjórnin 1971–1974 setti hana upp, og barðist þá með kjafti og klóm. Einstakir þm. hans heimtuðu að stofnunin væri lögð niður.

En svo gerðist það, að þeir komust sjálfir í stjórn og hvað tók þá við? Þá lögðu þeir niður skottið, skriðu inn í stofnunina og settust ánægðir eins og kettir í sæti „kommissars“, í sæti formanns stjórnarinnar og í allt „apparatið“. Svo standa þessir menn upp og ráðast á aðra fyrir að hafa ekki komið „kommissara“-kerfinu fyrir kattarnef. (Gripið fram í.) Hvað sagði hv. þm. um Alþfl.? (Gripið fram í.) Ég held að þm. ætti að reyna að stilla skap sitt og muna hvað hann sagði fyrir tveim mínútum.

Sannleikurinn er sá, að ein af þeim höfuðbreytingum, sem stjórn Sjálfstfl. gerði, var að fastráða þessa „kommissara“, svo að þeir eru orðnir jafnnaglfastir í stöðum sínum og bankastjórar, og það gerir stórum erfiðara að gera á breytingu. Þar að auki situr stjórnin í stofnuninni í dag óbreytt eins og hún hefur verið frá því að Sjálfstfl. kom til valda. Ég held að þeir ættu að gera þessi mál upp sín á milli og reyna að fylgja einhverri samfelldri stefnu frekar en hegða sér eins og þeir hafa gert í þessu máli, sem er Sjálfstfl. til skammar, en sýnir að þetta er ekki einn flokkur. Þetta er samansafn af hópum manna með mismunandi skoðanir og mismunandi hagsmuni og virðast vera jafngírugir í „kommisarastöður“ og formannastöður í peningastofnunum og hverjir aðrir.