28.11.1978
Sameinað þing: 28. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

83. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, sem voru út ef fyrir sig glögg. Ég verð þó að harma að hæstv. ríkisstj. virðist ekki hugsa sér að bæta sveitarfélögum þennan tekjumissi af jöfnunarsjóðsframlagi, en þarna er um að ræða, eins og kom fram hér hjá hæstv. ráðh., eina verðtryggða tekjustofn sveitarfélaganna í dag. Það má vel vera, að það sé hægt að finna aðra leið til þess að hjálpa sveitarfélögunum í þeim vanda, sem þau standa framnú fyrir nú og glöggt kom fram í máli hæstv. ráðh. vegna þeirrar verðbólgu sem ríkir hér hjá okkur, að tekjustofnar þeirra eru ekki verðtryggðir og eftiráinnheimta á tekjum þeirra. Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. skoði það mál rækilega. Ég vona að hæstv. ríkisstj. hugsi sér ekki að þrengja að sveitarfélögunum með þessum hætti. Að draga til ríkisvaldsins meiri verkefni frá sveitarfélögunum sýnist mér vera stefna í öfuga átt við það sem ætti að gera. Ég lít svo á, að það ætti að fela sveitarfélögum fleiri verkefni og láta þau hafa meiri tekjustofna til þess að sinna þeim verkefnum, vegna þess að það stjórnvald er nær fólkinu en ríkisvaldið.