18.10.1978
Efri deild: 6. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

13. mál, stjórnarskipunarlög

Flm.(Ólafur Ragnar Grímsson):

Um leið og ég þakka hv. 5. þm. Reykn., Karli Steinari Guðnasyni, fyrir stuðning hans við þetta frv., vil ég leiðrétta þann misskilning og fjalla aðeins um þá sterku pólitísku eignarréttarhyggju sem virðist þjá suma vini mína í Alþfl., að þeir einir hafi uppgötvað allar helstu hugmyndir heimsins og aðrir þeir, sem þær hafa uppi, séu að gerast sporgöngumenn Alþfl. Þótt ýmsir ungir og sprettharðir nýliðar Alþfl. hér á Alþ. hafi verið fljótir að hlaupa til skrifstofu þingsins með það frv, sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hefur verið að mæla fyrir í Nd. í dag, þá er engin ástæða fyrir Alþb. að falla frá frv. sem talsmenn og forustumenn flokksins hafa flutt hér inn á þing áður en sá ágæti, sprettharði ungi þm. kom hingað á þing. Ég held að sú hugsun, sem þarna bar á góma sé fjarri lagi, að þótt í einni deild þingsins sé flutt mál af einhverjum tilteknum flokki, þá eigi það sjálfkrafa að gera það að verkum að allir aðrir, sem fylgjandi eru sömu stefnu, haldi að sér höndum í krafti virðingar við það sem við getum kallað hinn pólitíska eignarrétt. Ég held þvert á móti að sú staðreynd, að tvö frv. eru komin hér fram í sitt hvorri deild, eigi að gefa tilefni til þess, að fljótlega liggi fyrir, ef svo er, að almennur vilji er ríkjandi á þingi fyrir því að breyta kosningaaldrinum í þá veru sem hér er gerð till. um. Það er ánægjulegt, að verkalýðsflokkarnir, Alþfl. og Alþb., þótt Alþfl. eigi vissulega lengri sögu að baki en Alþb., geti orðið samferða í því og væntanlega fengið stuðning frá öðrum hv. þm. við að koma þessari breytingu á.

Ef hins vegar ungir sjálfstæðismenn eru ekki enn þá búnir að taka upp stefnuna um 18 ára kosningaaldur, þá er a.m.k. til eitt stefnumál sem Sjálfstfl. og Alþfl. þurfa ekki að bítast á um hvor hafi stolið frá hinum, eins og áberandi hefur verið síðustu vikur hvað snertir stefnuna í efnahags- og atvinnumálum.