28.11.1978
Sameinað þing: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að bera fram fsp. til hæstv. utanrrh. Tilefni fsp. er frétt sem lesin var í fréttatíma Ríkisútvarpsins í gær kl. 7 síðdegis, en í fréttinni sagði á þessa leið:

„Töluvert atvinnuleysi er nú í Keflavík og víðar á Suðurnesjum. Hætta er talin á því, að ástandið í þeim efnum kunni enn að versna vegna þeirrar ákvörðunar Bandaríkjastjórnar, að bandaríska hernum skuli óheimilt að ráða nema einn óbreyttan starfsmann fyrir hverja fimm, sem láta af slíkum störfum hjá hernum.

Vegna þessa og ákvæða í varnarsamningnum og viðauka við hann frá 1974, þar sem segir að ekkert skuli gert af bandarískri hálfu sem haft gæti óheppileg áhrif á íslenskt efnahagslíf, kallaði Benedikt Gröndal utanrrh. nýskipaðan sendiherra Bandaríkjanna hér á landi, Richard A. Ericson, á sinn fund í utanrrn. í dag. Utanrrh. óskaði eindregið eftir því í viðtali sínu við sendiherrann, að athugaðir yrðu möguleikar á því að þessari ákvörðun Bandaríkjastjórnar yrði ekki fylgt eftir hér á landi.“

Þetta er sú frétt sem lesin var í Ríkisútvarpinu og er tilefni fsp. minnar. Fsp. til hæstv. utanrrh. er á þessa leið: 1. Hefur hæstv. utanrrh. Benedikt Gröndal borið fram þau tilmæli við sendiherra Bandaríkjanna í Reykjavík sem greint er frá í útvarpsfréttinni?

2. Ef svo er, þá er spurt: Hefur verið fjallað um slíka beiðni á fundum hæstv. ríkisstj. og tekin afstaða til málsins þar? Og þá er einnig spurt: Hvaða skýringu vill utanrrh. gefa á slíkri málaleitan við ríkisstj. Bandaríkjanna?

Ég mun ekki hafa um málið fleiri orð hér áður en utanrrh. hefur átt þess kost að gefa svör við þessum spurningum, en ég vil aðeins láta þess getið strax, að sé svo, mót von minni, að hér sé rétt frá greint, þá tel ég að um sé að ræða hið versta hneyksli.