28.11.1978
Sameinað þing: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Svör við spurningum hv. 3. þm. Vestf. eru á þá lund varðandi fyrstu spurninguna, hvort ég hafi borið fram þau tilmæli við sendiherrann, sem getur í frétt útvarpsins, að það er rétt, nema tilmæli mætti eins kalla mótmæli.

Í öðru lagi er spurt: Hefur verið fjallað um þá beiðni í ríkisstj.? Það var fjallað um málið á ríkisstjórnarfundi í morgun, hinum fyrsta eftir að málið kom upp, og Alþb.menn létu bóka þar mótmæli. Að öðru leyti stendur gerðin óhögguð.

Þriðja spurningin er: Hver er skýringin? Hún er á þá lund, að seinni hluta s.l. viku lét starfsmannastjóri varnarliðsins embættismenn varnarmálaráðuneytisins og menn í varnarmálanefnd vita af því, að varnarliðið hefði fengið frá Bandaríkjunum fyrirskipun þess efnis, að það skyldi fylgja þeirri reglu að fyrir hverja fimm starfsmenn, — þ.e.a.s. að sjálfsögðu aðra en þá sem eru í herþjónustu, sem víkja úr störfum af hvaða tilefni sem er, megi aðeins ráða einn. Þessar reglur munu vera á þá lund, að hlutföllin eru mismunandi eftir því hve viðkomandi stofnanir eru stórar. Ef starfsmenn eru innan við 50, þá er það 1:1, ef þeir eru frá 56 upp í 740, eru þau 2:1, en ef starfsmenn eru yfir 741, þá er hlutfallið 5:1.

Varnarmálanefnd hafði samband við mig um þetta mál og óskaði fundar, sem ég átti með mönnum úr nefndinni fyrir helgina — þeim mönnum sem í áratugi hafa mest fjallað um vinnumál á Keflavíkurflugvelli. Það var einróma skoðun þeirra, að ef þessi fyrirskipun yrði framkvæmd hér gæti hún valdið snöggri og ófyrirsjáanlegri truflun á mannaráðningum hjá varnarliðinu. Nú er það svo, að á Keflavíkurflugvelli öllum starfa að jafnaði um 2500 Íslendingar. Ég giska lauslega á að liðlega þriðjungur þeirra sé eingöngu við millilandaflug, allmargir starfsmenn íslenska ríkisins starfa við hvort tveggja, en í beinni þjónustu varnarliðsins hafa lengi verið rúmlega 1000 manns. Síðustu tölur, sem ég hef um það, eru 986. Það leiðir af líkum, að tilfærslur í svo mörgum störfum geta verið allmargar, jafnvel tugir á mánuði, en eru þó breytilegar eftir ýmsum aðstæðum, árstíðum, störfum, verkefnum og öðru.

Nú er það svo, að það hefur verið samkomulag, sem má kalla hefð og er einnig bundið bæði í viðauka við varnarsamninginn frá 1951 og eins í samkomulaginu frá 1974, að varnarliðið skuli ekki gera ráðstafanir sem hafi óheppileg áhrif á íslenskt efnahagslíf. Við litum því svo á, að ef ætti að framkvæma þessa reglu, sem sjálfsagt er búin til vestur í Ameríku í þeim tilgangi að skera niður hin risavöxnu skrifstofubákn þar, gæti hún haft mjög óheppileg áhrif, bæði á einstaklinga, sem þarna hafa starfað, og eins á ýmiss konar starfsemi, eins og brunalið, snjómokstur og annað, sem snertir almenna öryggisstarfsemi, þar sem starfsliðið er eingöngu íslenskt. Þess vegna mótmælti ég þessu með tilvísun í hefð, samninginn frá 1951 og samkomulagið frá 1974.

Það er skoðun mín að við eigum sjálfir að ráða þróun atvinnumála á Suðurnesjum og þar bíða okkar mikil verkefni. Skyndilegar ákvarðanir teknar við allt aðrar aðstæður einhvers staðar langt vestur í Ameríku eiga ekki að verða til að valda raski sem geti komið illa við fjölda manns hér á landi. Er það óneitanlega verra þegar um er að ræða svæði eins og Reykjanessvæðið er núna, þar sem atvinnuástand er ekki mjög tryggt. Þess vegna tel ég að þetta hafi verið sjálfsögð framkvæmd á gildandi reglum og venjum og ekki um það að ræða að taka því, að slíkum reglum sé dembt yfir okkur fyrirvaralaust, án þess að við mótmælum því, og ég vona að við fáum því hnekkt.