28.11.1978
Sameinað þing: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það var mikið, að hv. Alþb.-menn fengu tækifæri til að koma að þessu áhugamáli sínu. Auðvitað var meðferðin rétt eins og virðing þeirra fyrir sannleika, staðreyndum eða öðru slíku. Það á að heita ritstjóri fyrir einu af stærstu dagblöðunum, eða hefur verið það, sem var að tala áðan, en hann er ekki meiri fréttamaður en svo, að hann talar og æsir sig upp út af því, að ég hafi gengið á fund sendiherrans. Ég gekk ekki á fund hans. Ég kallaði hann í utanrrn. Og ég hafi farið bónarveg eða verið með betlistaf! Ég hef aldrei átt staf á ævinni, hvorki betlistaf né annan. Svona orðbragð er ekki til þess að vekja traust á nokkrum málstað.

Það er hægt að fara út í umr. um varnarmálin almennt hvenær sem er. En það er staðreynd, að það hefur starfað þarna álíka fjöldi manna, sem var fækkað verulega fyrir allmörgum árum, úr mörgum þúsundum niður í rúmlega eitt þúsund og hefur verið haldið þar. Ef Alþb.-menn hafa skyndilega áhuga á efnahagslegum þáttum varnarliðsins, ættu þeir að snúa sér að stóru félögunum í staðinn fyrir að höggva að þessu litla fólki á Suðurnesjunum, meira eða minna óbreyttu verkafólki og iðnaðarmönnum, sem eru í þessum hóp sem hér um ræðir. (Gripið fram í: Hvaða stóru félögum?) Sameinuðum verktökum t.d. (Gripið fram í: Það stendur ekki á okkur, Benedikt.) Stendur ekki á ykkur? (Gripið fram í: Það stendur á þér.) Látið þið litla fólkið í friði þangað til þið hafið gert eitthvað í hinum málunum og sýnt eitthvað þar.

Þetta mál er náskylt því í venjulegum verkalýðsmálum, hvernig uppsagnarfresti og öðru slík u er hagað. Og ég tel að við höfum tvímælalausan rétt með okkur í því að vera ekki háðir svo skyndilegum breytingum sem hér er um að ræða. Við ákveðum það sjálfir með uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum, hversu mikið af okkar fólki verður þar og hversu margt af því leitar til flugvallarins með okkar leyfi. Því fólki hefur ekki fjölgað síðan ég kom í núverandi starf, en ég tel það skyldu mína að verja það fólk, sem þarna er, fyrir því að verða fyrir skyndilegum atvinnumissi.

Það er furðulegt, þegar ég er að reyna að verja rétt okkar samkv. samningum og samkomulagi fyrir Ameríkumönnum og ágangi þeirra, að þá snýst Alþb. eins og það leggur sig af ofsahita yfir á hinn vænginn, stendur með Ameríkumönnum, heimtar að þeirra fyrirskipanir til íslensks verkafólks fái að standa. Hvað á maður að halda, þegar svona hringsnúningur gerist? Þið standið Ameríkumegin í þessu! Þið viljið, að svona skipanir, sem hér eiga ekkert erindi og geta orðið til vandræða, séu framkvæmdar í skyndi.

Ég vil ítreka það, að þetta er lítið mál, en það getur snert marga einstaklinga og það er lítið fólk. Takið þið grósserana og braskarana, sem eru alltaf að reyna að gera sér Keflavíkurflugvöll að féþúfu, en látið þetta fólk í friði þangað til ríkisstj., núv. og þær sem á undan hafa verið og eiga eftir að koma, sjá fyrir atvinnutækjum og atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum, sem er íslensku þjóðinni sæmandi. Þá mun ekki þurfa að standa vörð um að það fólk verði ekki rekið út á klakann um miðjan vetur.