28.11.1978
Sameinað þing: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Það er minn skilningur, það er skilningur Alþfl. og ég býst við að það sé skilningur þjóðarinnar, að Alþb. hafi fórnað kröfunni um brottför hersins á grundvelli stjórnarsamstarfsins. Í stjórnarsáttmálanum segir:

„Þar eð ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki sameiginlega stefnu í utanríkismálum verður í þeim efnum fylgt áfram óbreyttri grundvallarstefnu og verður þar eigi gerð breyting á nema samþykki allra ríkisstjórnarflokkanna komi til.“

Þetta segir okkur það, að utanrrn. er leyfilegt og reyndar skylt að halda óbreyttu ástandi á Keflavíkurflugvelli. Það er það sem Benedikt Gröndal er að gera með mótmælum sínum. Ég verð að segja það, að mér finnst það fyrirlitlegt sjónarmið, sem fram kemur hjá hv. fyrri ræðumönnum er hafa gagnrýnt þessa gjörð, að geta þolað það miklu frekar að fólk gangi atvinnulaust á Suðurnesjum heldur en þetta sé gert. Atvinnulíf á Suðurnesjum hefur verið að koðna niður undanfarin ár vegna aðgerða stjórnvalda og hefur því verkafólk á Suðurnesjum þurft að leita atvinnu á Keflavíkurflugvelli. Atvinnulíf á Suðurnesjum var blómlegt. Vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs var reyndar á Suðurnesjum hér áður fyrr. Þá var varnarliðið hér sem nú og miklu fleira fólk var í þjónustu þess en nú er.

Ég vil geta þess, að verkalýðsfélögin í Keflavík styðja þessa aðgerð og voru þess hvetjandi að svo yrði gert. Og ég verð að segja það hiklaust, að það er óþolandi fyrir utanrrh. og utanrrn. að þessir andstæðingar vestrænnar samvinnu og andstæðingar fólksins á Suðurnesjum skuli vera að skipta sér af svona afgreiðslumálum í rn. hans.