28.11.1978
Neðri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Frsm. meiri hl. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 124 leggur meiri hl. fjh.- og viðskn. til að frv. verði samþ. óbreytt. En í nál. segir: „Einstakir nm, áskilja sér rétt til að gera nánari grein fyrir afstöðu sinni í umr.

Fjh.- og viðskn. kom saman á fund í morgun kl. 9 og var á fundi þangað til nokkuð yfir kl. 12. Á þennan fund komu til viðtals við n. forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar og fulltrúi hans og fulltrúi frá fjmrn., og þeir svöruðu þar ýmsum spurningum, sem til þeirra var beint, og gáfu ýmsar almennar upplýsingar um þetta mál. Þá mættu einnig á fundum n. fulltrúar frá Vinnuveitendasambandi Íslands og fulltrúi frá Verslunarráði Íslands, fulltrúar frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands. Við þessa aðila ræddi n, um málið og geri ég ráð fyrir að inn í umr. um málið komi fram ýmislegt af því sem fram kom í viðtölum við þessa aðila.

Í rauninni var það svo, að það, sem helst kom fram hjá þessum aðilum, varðaði málið almennt meira en frv. sem slíkt, enda höfðu flestir ekki haft langan tíma til að kynna sér frv., en nokkrir þessara aðila höfðu þó fylgst með gerð þess á ýmsum stigum, en aðrir höfðu hins vegar ekki verið kallaðir þar neitt til samstarfs.

N. klofnaði um afgreiðslu málsins, eins og kemur fram í þessu nál., þar sem um er að ræða meiri hl., en fulltrúar Sjálfstfl., sem skipa minni hl. í n., skila sérstöku áliti og gera að sjálfsögðu grein fyrir því, þegar því verður hér útbýtt.

Af hálfu n. sé ég ekki ástæðu til að hafa hér öllu lengri framsögu, vegna þess að þeir, sem óska eftir því að gera sérstaklega grein fyrir afstöðu sinni almennt til málsins, munu gera það. Ég mun hins vegar, þegar ég hef lokið þessari skyldu minni að tala hér fyrir hönd meiri hl, og gera grein fyrir því, hvernig málið var afgreitt í n., ræða nokkuð almennt um málið, en það flokkast að sjálfsögðu ekki á neinn hátt undir það, að ég sé að tala fyrir hönd meiri hl., heldur er ég þar eingöngu að ræða um viðhorf mitt til málsins og afstöðu flokks míns almennt séð.

Efni þess frv., sem hér liggur fyrir, er í rauninni tiltölulega mjög einfalt og skýrt. Gerðar eru ráðstafanir í þessu frv. til þess að koma því fyrir á þann hátt, að ekki verði hækkað kaupgjald nú 1. des. nema sem nemur 6.1% af 14.1%, sem kaup hefði átt að hækka um samkv. útreikningi á kaupgjaldsvísitölu. Hins vegar eru gerðar sérstakar ráðstafanir í frv. til þess að ekki þurfi að koma út í kaup sem nemur 8% af þessari hækkun.

Í 1. gr. frv. er um að ræða ákvörðun um að greiða niður vöruverð, sem nemur 3% af þessari hækkun, umfram það sem verið hefur. Þessi niðurgreiðsla ætti ekki að koma neinum á óvart, vegna þess að tilkynnt hafði verið áður, þegar efnahagsmálin voru til umr., að það mundi verða bætt við viðbótarniðurgreiðslu sem næmi 2.5 prósentustigi, en með þessari grein er gert ráð fyrir að niðurgreiðslan verði 3% eða hálfu prósenti meiri en áður hafði verið skýrt frá. Áður hafði verið gerð tekjuöflun sem átti að standa undir kostnaðinum af þessari niðurgreiðslu sem nam 2.5 prósentustigum. Þar var um að ræða tekjuöflun þá sem fólst í brbl. ríkisstj. frá því í septembermánuði.

Þá er gert ráð fyrir í 2. gr. frv. að til komi samkv. lagasetningu síðar lækkun á beinum sköttum sem sérstaklega ætti að verða lágtekjufólki til góða. Er þar tilnefnd sérstaklega lækkun á sjúkratryggingagjaldi, sem nú er 2%, og hækkun á skattvísitölu eða aðrar hliðstæðar ráðstafanir varðandi tekjuskattinn sem gætu komið lágtekjufólki til góða. Gert er sem sagt ráð fyrir því, að með sérstakri lagasetningu verði þetta ákveðið og eigi þetta að jafngilda 2% í kaupi. Fram hefur komið, að það er hins vegar ekki búið að ganga formlega frá því, í hvaða formi þetta verður, að hve miklu leyti sjúkratryggingagjaldið lækkar og hvernig verður gengið frá lækkun á hinum almenna tekjuskatti.

Í 3. gr. frv. er síðan gert ráð fyrir því, að það komi einnig til lagasetning sem feli í sér ýmiss konar félagslegar umbætur, sem gerð er nokkur grein fyrir í grg. frv. Þar er einnig um að ræða ýmsar aðgerðir sem ekki eru fullmótaðar enn og því ekki í rauninni hægt að ræða nema að litlu leyti, en tími gefst að sjálfsögðu til þess þegar frv. um þetta efni verða lögð fram. En samkv. 3. gr. er gert ráð fyrir að þessar félagslegu aðgerðir skuli metnar sem nemur 3% í kaupi.

Á þennan hátt er kaupgjaldsvísitalan færð niður frá því, sem hún er nú, um 8 prósentustig, eða öllu heldur hækkuð um 6.1 prósentustig frá því sem hún er nú, og því síðan slegið föstu í 4. gr. frv., að verðbótavísitalan skuli vera 151 stig á mesta ársfjórðungi.

Þetta er í rauninni meginefni frv. Í fylgd með þessu eru svo ákvæði um greiðslu á bótum almannatrygginga og sérstök hækkun á svonefndri tekjutryggingu. Þetta er í rauninni tiltölulega einfalt efni sem hér er um að ræða. Hér er um að ræða sérstakar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að almenn kauphækkun í landinu 1. des. verði eins og hún hefði átt að vera ef ekkert hefði verið að gert, 14.1%, — hún verði þá aðeins 6.1%, því að annað er þarna látið koma í staðinn.

Ljóst er, að þessar ráðstafanir munn kosta ríkissjóð nokkurt fé. Það er t.d. ljóst. að þetta hálfa prósentustig, sem bætist við í niðurgreiðslu frá því sem áður hafði verið ákveðið, mun kosta ríkissjóð á ári í kringum 800–900 millj. kr., eftir því hvað varið verður miklu til þess að greiða niður. Eins er það líka ljóst, að ráðstafanirnar samkv. 2. gr. um skattbreytingu munu kosta ríkissjóð sennilega á milli 3 og 4 milljarða kr., eftir því í hvaða formi þessi breyting verður. Og þær félagslegu aðgerðir, sem rætt er um í 3. gr., það er auðvitað afskaplega erfitt að segja um hvað þær muni kosta á næsta ári. Það fer auðvitað eftir því, hvaða félagslegar umbætur verða valdar, því að sumar þeirra geta komið til greiðslu strax á næsta ári, aðrar koma aftur ekki til greiðslu fyrr en nokkru síðar. En það má ætla, að þarna gæti verið um aukin útgjöld að ræða á næsta ári sem gætu numið 1–2 milljörðum kr. Það er því mjög sennilegt að mínu mati, að hér gæti verið um aukin útgjöld að ræða hjá ríkinu á næsta ári í kjölfar þessarar lagasetningar sem gætu numið á heilu ári um 5–6 milljörðum kr. En það liggur ekki heldur fyrir á þessu stigi málsins, hvernig á að afla fjár á móti þessari fjárhæð, nema rætt er, miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið, um svonefndan skyldusparnað, sem hefur verið í gildi á þessu ári. Talið er að ef hann hefði verið framlengdur fyrir næsta ár, skyldusparnaðurinn í óbreyttu formi, mundi hann hafa gefið í tekjur til ríkisins 3 milljarða kr. í innheimtu á næsta ári. Rætt hefur verið um að breyta þessum skyldusparnaði í beinan tekjuskatt á hærri tekjur og sameina hann í rauninni þeim viðbótartekjuskatti sem lagður var á með brbl. Ef þetta yrði sameinað í eitt gæti það gefið á næsta ári um 3 milljarða kr.

Þá hefur einnig verið nefnt að til kæmi nokkur sparnaður í rekstri ríkisins, og einnig eru nefndir aðrir skattar sem geta komið til greina. En um þetta verður að sjálfsögðu að flytja frv. síðar og ganga frá þeirri tekjuöflun sem augljóslega þarf að koma í kjölfar þessarar lagasetningar.

Þetta er það sem mér sýnist að felist í rauninni í þessu frv. En það er að sjálfsögðu athyglisvert að gera sér grein fyrir því, hvernig á því stendur að hækkun á verðbótavísitölu nemur rúmum 14% á tímabilinu frá 1. sept. til 1. des. Það hefur verið skýrt frá því, að það sé alveg augljóst að rétt í kringum helmingur af þessari hækkun stafar af því sem komið var inn í efnahagskerfið áður en núv. ríkisstj. tók við völdum og má því rekja til eldra tímabils. Ég skal nefna aðeins þrjá liði sem eru mjög greinilegir í þessum efnum, — ekki það að hægt sé að rekja þá alla út af fyrir sig til fyrra tímabilsins, en það eru þeir sem valda þessari miklu hækkun.

Það er tilnefnt af hálfu Hagstofunnar sem upplýsingar um þetta efni, að frá ágústverðlaginu, sem fyrri vísitala var miðuð við, hækkar nú liðurinn vegna hins nýja verðlags á búvörum í septembermánuði, þessi búvöruliður hækkar frá ágústgrundvelli, frá þeim niðurgreidda grundvelli sem þar var, um 24.4%, en það jafngildir 38.1 vísitölustigi í framfærsluvísitölu. Þetta er mesta hækkunin sem þarna er á ferðinni. Allir vita auðvitað að verðákvörðun landbúnaðarvara, sem fer fram eftir ákveðnum lögum og reglum, sú verðákvörðun, sem átti sér stað varðandi septembermánuð, er auðvitað öll til komin vegna hreyfinga sem höfðu átt sér stað áður en núv. ríkisstj. tók við.

Þá er mjög áberandi í vísitöluhækkun á þessu þriggja mánaða tímabili á svonefndri eigin bifreið. Þar er um að ræða hækkun á bensínverði, sem hafði verið tilkynnt áður, og talsverða erlenda verðhækkun. Inn í það koma að sjálfsögðu einnig áhrif af gengisbreytingu á því tímabili. En einnig kemur inn í þessa mynd allveruleg breyting, einkum á verði bifreiðarinnar, vegna þeirra gengisbreytinga sem eru okkur í rauninni óviðráðanlegar, þ.e.a.s. breytinga sem hafa orðið á gengi ýmiss Evrópugjaldeyris gagnvart dollar á þessu tímabili. Þannig hefur innkaupsverð á eigin bifreið hækkað mjög mikið á þessu tímabili af þessum ástæðum. Þessi liður einn, eigin bifreið, hækkar því á þessu tímabili um 20.3 stig.

Þá er liður í vísitölunni, sem hefur hækkað mikið á þessu tímabili líka, og það er liður sem nefndur er blöð. Þar koma inn í dagblöðin, sem frægt er, bækur og annað prentað mál og útvarps-og sjónvarpsgjöld, en þessi liður hækkar um 16 stig á þessu tímabili.

Í þessum þremur liðum, sem ég hef nefnt, er um að ræða hækkun, sem er um 74 stig eða fullur helmingur af allri þeirri hækkun sem veldur því, að kaupgjaldsvísitalan á að hækka um 14.1% nú 1. des. Það mátti vera augljóst, þegar sú staðreynd lá fyrir, að frá 1. ágúst 1977 til 1. ágúst á þessu ári, eða á árstímabili fram að því að núv. stjórn var að taka við, var hækkun vísitölunnar 51.7%. Hér var, eins og oft hefur verið minnst á, um mikla hækkun að ræða á þessu tímabili og var verulega þungur skriður á verðlagshækkunum í landinu. Þessi þungi skriður verður ekki slævður með einu handtaki. Þetta hverfur ekki í einu lagi. Það eru þegar komnar inn í verðmyndunarkerfið margvíslegar hækkanir og orsakir til margvíslegra hækkana sem eiga eftir að koma fram. Og það er einmitt það, sem hefur verið að gerast núna varðandi útreikning vísitölunnar 1. des.

Frammi fyrir þessum vanda standa menn, og það er gripið til þeirra ráða sem gerð er grein fyrir í þessu frv. Ég tel fyrir mitt leyti að þau úrræði sem hér er gripið til, séu fullkomlega eðlileg og í rauninni þau einu sem völ var á, eins og nú standa sakir, til þess að draga úr þeim vanda sem þarna var um að ræða. Það er gagnslítið fyrir menn að berja höfðinu við steininn og láta sem þarna hafi ekkert gerst. Þessi vandi lá á borðinu, var að koma til, og það þurfti að mæta þessum vanda sérstaklega.

Í þessum efnum hefur verið allmikið um það rætt af þeim. sem vilja sérstaklega lýsa yfir óánægju sinni með aðgerðir núv. hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, og það er mikið úr því gert, að ráðstafanir hennar, þegar hún kom til valda 1. sept. og svo aftur nú, séu aðeins bráðabirgðaráðstafanir til örstutts tíma. Ég tók eftir því, að m.a. hv. 7 þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, margendurtók í sinni ræðu, að hér væri um efnahagsráðstafanir að ræða aðeins til þriggja mánaða. Svona misskilning verður auðvitað að leiðrétta. Hér er um algera villu að ræða. Við skulum aðeins fara yfir það, hvað gert var með bráðabirgðaráðstöfunum ríkisstj. í septembermánuði og hvað er verið að gera nú.

Með bráðabirgðaráðstöfunum í sept. voru gerðar ráðstafanir til þess að draga úr því, að kaup hækkaði um 50.5% eins og það hefði annars gert. Þetta var gert með því að afnema söluskatt á öllum matvörum, um 20%. Var verið að gera það til þriggja mánaða? Nei, það var verið að gera það um miklu lengri tíma, um óákveðinn tíma.

Það var einnig gripið til þess þá að greiða niður verð á öðrum matvælum og þá fyrst og fremst landbúnaðarvörum, þannig að þessar ráðstafanir jafngiltu 5.7% í kaupi. Var verið að gera það til þriggja mánaða? Nei, það var aflað tekna í þessu skyni fyrir heilt ár og reyndar heldur meira en heilt ár, fyrir það sem eftir var ársins 1978 og fyrir allt árið 1979. Hér var því ekki verið að gera ráðstafanir í sambandi við tiltekinn vanda sem aðeins átti að standa í þrjá mánuði, það er rangt.

Það er að sjálfsögðu hægt að deila um það, hvort hefði verið hægt að gera meira í septembermánuði en gert var, og það er líka hægt að deila um það, hvort sú skattlagning, sem þá átti sér stað til þess að standa undir þessum aðgerðum, hafi verið réttlát eða ekki. Ég tel að eftir atvikum hafi sú skattlagning verið sú skásta sem um var að ræða, og hún hafi verið launafólki mjög í hag, sérstaklega láglaunafólki.

Sama er að segja um aðgerðirnar sem felast í þessu frv. Sú niðurgreiðsla, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv., 3% til viðbótar því sem fyrir var, er hún gerð aðeins til þriggja mánaða? Nei, hún er gerð út allt næsta ár. Það er verið að ræða um að afla fjár til þeirrar niðurgreiðslu út allt næsta ár, svo að fullyrðingin í þessum efnum er röng.

Hvað er að segja um ákvæði í 2. gr, frv., þar sem gert er ráð fyrir að létta beinum sköttum af launafólki sem nemur í kringum 2% í kaupi? Er verið að gera þá breytingu aðeins til eins árs eða aðeins til þriggja mánaða, eins og sagt er? Ég lít þannig á þá breytingu, að hún sé til miklu lengri tíma, þ.e.a.s. skattbreytingin. Ef sjúkratryggingagjaldið verður fellt niður eða lækkað verulega, þá stendur sú aðgerð nema annað verði ákveðið af Alþ. Ég veit ekki betur en ekki aðeins við Alþb.-menn, heldur einnig allir Alþfl.-menn sem voru á þingi þegar fyrrv. ríkisstj. var að smápota þessu gjaldi á, fyrst sem 1% gjaldi og síðan sem 2% gjaldi, þá greiddum við allir atkv. gegn þessu gjaldi og töldum það sérstaklega óréttlátt og bitna þungt á láglaunafólki. Hér er verið að vinna að því að fella þetta niður.

Hvað er svo að segja um ákvæðin í 3. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að fella niður úr kaupgjaldsvísitölu 3 prósentustig í staðinn fyrir félagslegar aðgerðir? Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, að það er í rauninni ómögulegt að meta þetta nákvæmlega til jafns við kaup, af því að allar slíkar félagslegar aðgerðir eru þess eðlis, að þær verður að meta á annan hátt. En hér hefur verið á það bent og ég vil undirstrika það líka, að verkalýðshreyfingin í landinn hefur sett þessar tillögu sínar fram í hverjum kjarasamningum og gert samþykktir á sínum þingum um það, að ef launþegahreyfingin fengi framgengt þessum óbeinu kjaramálum, þá mundi hún líta á það eins og um beinar kauphækkanir væru að ræða. Þetta er því ekkert nýtt. Hér er um það að ræða, að launþegahreyfingin í landinu er að reyna að koma fram þýðingarmiklum kjarabótum í óeiginlegri merkingu, sem eiga að koma í staðinn fyrir beina krónutöluútborgun á laun. Það á eftir að koma í ljós, hverjar þessar aðgerðir verða og hvernig þær verða metnar. En auðvitað dettur engum manni í hug að halda því fram, að þessar aðgerðir eigi aðeins að standa í þrjá mánuði. Vonandi standa þessi félagslegu réttindi, sem þarna yrðu sett í lög, ekki aðeins eitt ár, heldur mörg ár.

Ég held því, að hver sá sem skoðar þessar aðgerðir á hlutlægan hátt, það sem gert var í septembermánuði og það sem er verið að gera nú, viðurkenni að það eru í eðli sínu aðgerðir sem geta komið að gagni um langan tíma. En það er rétt, þessar aðgerðir eru til þess að bregðast við sérstöku vandamáli sem er að koma upp núna.

Auðvitað er það svo, að hér hafa verið uppi í langan tíma í rauninni tvær misjafnar till. um það, hvernig eigi að bregðast við vanda eins og þessum. Annars vegar er till. um að skuli fella niður svo og svo mikið af þeirri kauphækkun, sem um hefur verið samið, að launþegar skuli falla frá því sem þeir hafa samið um af sínum kauplið án nokkurra bóta. Þetta var það sem fyrrv. ríkisstj, var að reyna að lemja í gegn. Þetta fólst í febrúarlögum hennar og þetta fólst í brbl. hennar frá því í maí. Um það verður ekki deilt. Fyrrv. ríkisstj. hélt því fram og það er auðvitað skoðun út af fyrirsig, að ekki væri hægt að rísa undir þeim kaupmætti launa, sem um var samið á árinu 1977. Hún taldi nauðsynlegt að færa þennan kaupmátt niður. Hún gerði ráðstafanir í þessa átt. Við, sem þá vorum í stjórnarandstöðu, töldum að þetta væri ekki rétt mat hjá fyrrv, ríkisstj., kaupmáttur launa væri ekki of mikill á Íslandi og það væri hægt að færa sterkar sannanir fyrir því í samanburði við það sem þekktist annars staðar, að miðað við okkar þjóðartekjur og okkar þjóðarframleiðslu væri hlutur launastéttanna hér ekki of mikill borið saman við það sem við þekkjum annars staðar frá.

En fyrrv. ríkisstj. var á annarri skoðun, og hún rak þessa skoðun sína í gegn með þeim afleiðingum sem allir þekkja. Nú heyrist mér á málflutningi hér, að ýmsir og m.a. fulltrúar úr Alþfl. séu á þessari skoðun sem kom upp í fyrrv. ríkisstj. Þeir eru á þeirri skoðun, að það sé óhjákvæmilegt að höggva niður kaupmátt launa. Vegna þess gerir Alþfl. kröfu um það, til þess að hann geti kallað þetta einhverjar efnahagsaðgerðir, að það verði sett þak á launin, það verði ákveðið, að hvað svo sem líður verðlagsþróun hækki útborguð laun á þriggja mánaða fresti ekki nema sem nemur 4%. Þetta kom einkar skýrt fram í máli hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, og þetta liggur auðvitað mjög skýrt fyrir í þeim till., sem Alþfl. lagði fram í ríkisstj. varðandi efnahagsaðgerðir nú. Og það er best að það liggi alveg ljóst fyrir hjá öllum, að það er ágreiningur á milli okkar Alþb.-manna og a.m.k. vissra manna í þingflokki Alþfl. um þetta atriði. Við erum á móti því að ætla að binda í lögum að launin skuli lækka án tillits til þess hvernig fer með verðlag.

Það er augljóst mál, eins og hefur komið fram í þessum umr., að yrði farið að þessum tillögum Alþfl. mundi kaupmáttur launa lækka sennilega um 14–16–18% á næsta ári, ef farið er eftir spám um verðlagsþróun. Við þá útreikninga, sem Þjóðhagsstofnun hefur verið að gera með sínar auðvitað meira og minna vafasömu spár um það, hvernig fara mundi, segir hún t.d., að þó að kaupgjaldshækkanir yrðu ekki nema 5% á þriggja mánaða fresti á næsta ári, þá telur hún líklegt, að verðbólgan mundi á árinu vera í kringum 35%. Það er því augljóst mál hvernig færi fyrir launþegum á næsta ári með kaupmátt launa, ef ekki ætti að heimila meiri kauphækkanir en sem nemur 4% á þriggja mánaða fresti.

Hin leiðin, sem ég var að minnast á, er sú sem kemur raunverulega fram í þessu frv., þ.e. að reyna að draga úr þeim kauphækkunum, sem fara út í hið almenna verðlag, með ráðstöfunum á móti sem launþegasamtökin í landinu geta fallist á í meginatriðum. Og það er það sem verið er að gera. Það er vissulega táknrænt í sambandi við það, sem nú er að gerast, að t.d. hið stóra, mikla og volduga samband láglaunafólksins í landinu, Verkamannasambandið, mælir beinlínis með þessum aðgerðum. Þeir, sem þar fara fyrir liði, vita hvað þeir eru að tala um. Þeir kunna að meta það, sem hér er boðið á móti því sem á að falla niður í launum. Ég vil því að það sé alveg skýrt, einnig á milli okkar Alþb.-manna og Alþfl.-manna, að það er um þetta sem okkar ágreiningur stendur. Hann stendur um þetta og ekki neitt annað. Við erum ekki tilbúnir til þess að lögbinda kaupið án tillits til þróunar verðlags, og við gætum allra síst kallað það kjarasáttmála á milli hins opinbera og launafólksins í landinu sem þannig yrði til, ákveðinn einhliða með lagasetningu gegn vilja launafólks. Það er vitanlega enginn kjarasáttmáli. Það var enginn kjarasáttmáli sem fólst í till. fyrrv. ríkisstj. Þar var um hreina kjaraskerðingu að ræða.

Það hefur nokkuð verið gert úr því í þessum umr. af hálfu þeirra sem talað hafa hér fyrir hönd Alþfl., að við Alþb.-menn vildum aðeins fást við bráðabirgðaráðstafanir í efnahagsmálum, ráðstafanir til stutts tíma, eins og sagt er, en við vildum ekki taka á hinu eiginlega vandamáli, við vildum ekki gera hér ráðstafanir til langs tíma. Nú vil ég spyrja þessa ágætu menn: Vilja þeir ekki í umr. um efni málsins taka það fram, hvar fram kemur þessi ágreiningur við okkur? Er ágreiningur á milli okkar og þeirra varðandi t.d. nýja stefnu í fjárfestingarmálum? Ég veit ekki til þess. Mér er það ljóst, að sumir Alþfl.-menn hafa margendurtekið það í málflutningi sínum, að þeir legðu til að á næsta ári yrði heildarfjárfestingin í landinu miðuð við það að fara ekki yfir 24–25% af þjóðarframleiðslu. Ekki höfum við Alþb.-menn staðið á móti þessari till. Við höfum hins vegar allan tímann bent á að það sem máli skiptir í þessum efnum er að átta sig á stefnunni í fjárfestingarmálum. Að skrifa á blað eitthvað eins og að heildarfjárfestingin skuli ekki fara yfir 25% af þjóðarframleiðslu, slíkt segir afskaplega lítið um stefnu í fjárfestingarmálum.

Nú er það svo, að þessi. tillaga út af fyrir sig veldur hér engum stórbreytingum. Ef við lítum á fjárfestinguna hér í nokkur ár kemur þetta í ljós: Á árinu 1976 var fjárfestingin miðað við þjóðarframleiðslu 29.6%, og á árinu 1977 var hún 30.3%. Á þessu ári, sem er að líða, er talið að fjárfestingin muni verða 26.5% eða 143 milljarðar kr. af 540 milljarða þjóðarframleiðslu. Ef fjárfestingin á næsta ári yrði miðuð við 25%, sem við Alþb.-menn höfum ekki neina sérstaka aths. við að gera út af fyrir sig, því að hér er ekki um neina stökkbreytingu að ræða, þá mundi fjárfestingin verða í staðinn fyrir 143 milljarða að áliti Þjóðhagsstofnunar 182 milljarðar, hækka rétt í kringum 40 milljarða, fjárfestingin í krónum talið, vegna þess að þjóðarframleiðsluspáin er um 728 milljarða.

Við höfum þegar rætt um það í sambandi við afgreiðslu fjárl. að draga úr fjárfestingu á fjárl. sem næmi í kringum 10–12% af þeim þætti sem þar er að finna, en sá þáttur er aðeins lítill hluti af heildarfjárfestingunni í landinu. Við Alþb.-menn höfum því bent á að það er auðvitað fásinna að ætla sér að breyta heildarfjárfestingunni í landinu með því t.d. að ætla sér að skera niður um 30% framlög til hafna, vegagerðar og skólabygginga í landinu, svo að nokkur dæmi séu tekin, þau stærstu af þeim sem er að finna á fjárl. Það væri alger fjarstæða, því að hér er aðeins um lið að ræða sem er um 20–25 milljarða kr. af 143 milljörðum á þessu ári. Það, sem máli skiptir, er að sjálfsögðu hvernig á að standa að því að draga úr fjárfestingunni í þessum stóru liðum, t.d. eins og í sambandi við framkvæmdirnar á Grundartanga. Þar er um lið að ræða sem verulega munar um. Eða áætlaðar framkvæmdir við Hrauneyjafossvirkjun. Ríkisstj. hefur þegar unnið að því að ná samkomulagi við þá, sem vildu fara mjög geyst í þeim efnum, um að draga verulega úr fjárfestingunni á þeim lið.

Ég vil því segja um þennan þýðingarmikla lið, sem snertir fjárfestinguna, að það er algerlega rangt eða kannske er það misskilningur að halda því fram, að það sé einhver ágreiningur á milli okkar Alþb.-manna og Alþfl.-manna um það, hvernig skuli taka á fjárfestingarmálunum í landinu, nema það komi í ljós, að ágreiningurinn sé um hvaða fjárfestingu á að draga saman og hverja á að auka.

Nú er það samt sem áður svo, að það er yfirlýst stefna stjórnarinnar og hefur verið margendurtekið af Alþfl. engu síður en okkur, að við viljum beina fjármagni þjóðarinnar m.a. í okkar atvinnuvegi til þess að auka þar á framleiðni. Þar er ekki heldur um ósamkomulag okkar á milli að ræða.

En látlaust er talað um að taka þurfi tillit til stefnu Alþfl. í efnahagsmálum. Ég lýsi eftir því, hver þessi stefna sé önnur en stefnan um það að vilja lögbinda kaupið, eða þetta dularfulla sem menn tala um, að það verði að taka upp nýja vísitölu. Auðvitað er það, að krafan um að taka upp nýja vísitölu felur ekkert í sér annað en það, að menn vilja fá einhverja vísitölu sem mæli ekki eins mikla kauphækkun. Við höfum sagt það, Alþb.-menn, að við getum vel hugsað okkur breytingar á vísitölugrundvellinum. En við viljum að vísitalan fullnægi því upphaflega hlutverki sínu, að hún verðtryggi sæmilega launin.

Hvar liggur þessi ágreiningur á milli okkar Alþb.manna og Alþfl. að öðru leyti varðandi langtímastefnu? Alþfl.-menn tala um að breyta kerfinu. Gerum við það ekki líka? Viljum við ekki draga úr yfirbyggingarkostnaði í sambandi við fækkun banka, fækkun vátryggingafélaga, breytingu á olíudreifingarkerfinu, taka ríkiskerfið allt til endurskoðunar? Er ágreiningur á milli okkar í þessum efnum? Ég hélt satt að segja að við værum líka sammála um að taka mætti til hendinni í sambandi við það að draga úr rekstrarkostnaði hjá ríkinu. Ég heyri að þeir tala um það, Alþfl.-menn, í sínum till., að þeir vilji hér strangt verðlagseftirlit.

Mér er ekki kunnugt um það, í hverju þessi ágreiningur felst, annað en að það eru sífelldar upphrópanir eitthvað út í bláinn um að það þurfi að taka hér upp heildstæða stefnu í efnahagsmálum. Sannleikurinn er sá, að að sjálfsögðu þarf að breyta hér um stefnu í efnahagsmálum. Við erum sammála um þetta. En það tekur nokkurn tíma að koma á nýju skipulagi til þess að stjórna fjárfestingunni í landinu, og ég veit ekki betur en það sé starfandi n. á vegum ríkisstj. til þess að ganga frá því, hvernig stjórn á fjárfestingu skuli háttað.

Nei, það sem er best að komi fram í þessum efnum er að menn nefni hlutina réttum nöfnum, þeir viðurkenni það þá ef það er svo. Ég er ekki farinn að trúa því, að það eigi við um alla Alþfl.-menn, að það sé ágreiningur á milli okkar í Alþb. og ýmissa aðila í Alþfl. um stefnuna í launamálum. Við viljum standa fast á því að vernda þann kaupmátt, sem um var samið á árinu 1977, álitum að það sé hægt. Við tökum ekki undir með íhaldinu, sem segir: Það er ekki hægt. — En ég segi það, að ef Alþfl. er á þeirri skoðun, að það sé ekki hægt að ráða við efnahagsmálin hér á landi nú nema setja lög um kauplækkun, þá á hann að mynda stjórn með Sjálfstfl., þá á hann að þora það. Hann er alltaf að tala um að þora, sýna kjark. En sífellt fjas um að það sé ágreiningur við okkur Alþb.menn um að taka á verðbólguvandamálinu, gera breytingar í kerfinu sjálfu, er út í bláinn og við skulum hætta því, vegna þess að þetta er ekki rétt.

Ég skal nú fara að stytta mál mitt, þó að ég vildi mjög gjarnan fá tækifæri til þess að víkja að ýmsu því sem hér hefur komið fram, ekki síst víkja nokkuð að þeirri furðulegu ræðu sem formaður Sjálfstfl. flutti hér, eins og t.d. þegar hann hélt því fram að mér virtist án þess að roðna, að með þeim aðgerðum, sem fælust í þessu frv., væri verið að færa niður kaupmátt launa um 8%. Hann endurtók það og sagði: Svo hrapar niður kaupmáttur launa samkv, þessu frv. um 8%. — Það er alveg furðulegt að formaður stærsta stjórnmálaflokksins í landinu skuli leyfa sér málflutning af þessu tagi. Það getur vel verið að Morgunblaðið geti leyft sér að mála þetta upp með stóru letri, En þó vita allir að niðurgreiðsla á vöruverði, sem átti sér stað í tíð fyrrv. ríkisstj., var alltaf metin sem eðlilegur hlutur og á valdi stjórnvalda að lækka verðlag með niðurgreiðslu, enda var til þess gripið þar og engum datt í hug að kalla neitt slíkt kauprán. En nú þegar gerðar eru ráðstafanir til þess að greiða niður vöruverð, þá heitir það kauprán á máli Morgunblaðsins og kjaraskerðing á máli formanns Sjálfstfl. Menn eru orðnir aðþrengdir í málflutningi, þegar þeir grípa til röksemda af þessu tagi.

Það er enginn vafi á því, að þó að menn jafnvel slái um sig með slíkum furðuröksemdum eins og þeim, sem í rauninni ætti ekki að vera boðlegt neinum manni í þessum sal að grípa til, að segja á þennan einfalda hátt: Launaupphæðin öll í landinu er 300 milljarðar kr. og þegar bætt er við það launum bænda og sjómanna, þá er hér um upphæð að ræða upp á 340 mill jarða. 8% af þessu eru rúmir 27 milljarðar. Það er verið að taka af launafólkinu í landinu um 27 milljarða, og ef það fær ekki endurgreidda þessa 27 milljarða, þá er verið að hafa þetta af fólkinu. Samkv. þessu hafa niðurgreiðslurnar auðvitað — það sjá allir menn sem líta á þessar tölur — aldrei átt að ná yfir nema helminginn af því sem þær hafa átt að ná yfir á hverjum tíma, því að miðað við 340 milljarða er augljóst mál, að hvert prósentustig mundi þar vera yfir 3 milljarða, en ekki 1.7 milljarðar eins og nú er almennt í niðurgreiðslum. En eins og ég sagði hafa allir verið ásáttir um að niðurgreiðslan jafnaði í þessum efnum. Í þessum málflutningi flokksins er reiknað með brúttólaunatekjum allra í landinu, sem eiga eftir að fara í gegnum allt skattakerfið, bera bæði söluskatt og alla aðra skatta og er auðvitað tekið að hálfu leyti af fólki, það eigi ekkert að taka tillit til þess, menn eigi bara að fá þetta nettó upp borið með því að fá einhverjar bætur á móti, sem sjálfsagt kæmu þá ekki í gegnum skattana. Hér er um svo augljósa villu að ræða, að það er í sjálfu sér ekki boðlegt neinum manni að halda þessu fram. En þetta er röksemd af álíka mikilli skarpskyggni og sú röksemd að segja eins og hv. 4. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, sagði hér: Þjóðin sjálf borgar niður kaupgjaldsvísitöluna. Já, einmitt það. Það munar ekkert um það. Þjóðin sjálf borgar þetta niður. Ætli þjóðin borgi ekki alla skatta? Til hvers erum við að leggja þetta á þjóðina? Til hvers að vera að taka þetta af henni til þess að láta hana fá það aftur? Auðvitað er útúrsnúningur eins og þetta gersamlega út í hött. Hér er um það að ræða, að uppi er sú skoðun, að það séu til aðilar í landinu, ýmist í formi atvinnurekstrar eða hátekjufólks, sem getur verið réttlátt að láta taka þátt í að greiða til samfélagsins og nota það í ákveðnu skyni. En ætla að afgreiða það með því að segja: Þessir peningar eru teknir af þjóðinni. Til hvers er verið að taka þá af þjóðinni? — slíkar röksemdir fá ekki staðist á neinn hátt.

Það er mikið talað um það í þessu sambandi, að þær ráðstafanir, sem hér er gripið til, muni ekki duga til þess að vinna bug á verðbólgu. Vissulega er mér ljóst að það þarf miklu meira til að koma til þess að hægt eigi að reynast að færa verðbólguna niður á það stig sem okkur er í rauninni nauðsynlegt. En ég hef sagt hér áður, að það verður ekki gert með neinu einu handtaki, það er reginmisskilningur, það mun enginn gera. Jafnvel þeir sem vilja skrúfa kaupið fast, munu reka sig á það, að það tekur langan tíma, þó að menn geri eitthvað slík t, og reyndar miklu lengri tíma en kaupið fæst til þess að vera kyrrt.

Ég hef gert hér nokkurn útreikning og borið mig þar saman við Þjóðhagsstofnun, enda er dæmið í sjálfu sér afskaplega auðvelt til að gera sér grein fyrir því, hvaða hreyfingar eru í raun og veru á þeirri vísitölu sem menn eru hér að miða allt við. Eins og ég sagði, þá liggur alveg ljóst fyrir, enda gefið út opinberlega af Þjóðhagstofnun, að hraðinn á verðbólgunni áður en núv. stjórn tók við, þ.e.a.s. frá 1. ágúst 1977 til 1. ágúst 1978, var sú, að framfærsluvísitalan fór úr 766 stigum upp í 1162 stig, hækkaði um 51.7%. Um þetta verður ekki deilt. Vísitöluhreyfing á ársgrundvelli segir talsvert. Nú skulum við taka það, hvað er að gerast núna í næstu lotu. Hver var vísitalan 1. nóv. 1977? Það er sem sagt sú vísitala sem við miðum við nú. Þá var hún 840 stig. En sú vísitala, sem nú er búið að birta, ef við drögum frá henni þær aðgerðir sem felast í þessu frv., — mér er það ljóst að sumt af því verður formlega dregið frá henni, þ.e.a.s. niðurgreiðslustigin, en hin tvö stigin, sem eru skipti á skatti, verða ekki formlega sett inn í framfærsluvísitölu, en hafa sitt gildi, — ef þetta er dregið frá, þá yrði vísitalan á þennan hátt 1144 stig. En þá hefði líka vísitalan hreyfst frá 1. nóv. í fyrra til 1. nóv. núna um 36.2%. Ef menn gefa sér það, — en um það liggja fyrir spádómar, ég tek þá ekki mjög alvarlega, — ef menn gefa sér að vísitalan á næsta tímabili hreyfist um 6% fram að 1. mars á næsta ári, — það er nokkru meira en er verið að gera ráð fyrir í þessu frv. að menn þurfi að setja sér sem mark, — ef svo yrði, þá hefði vísitalan hreyfst frá 1. febr. 1978 til 1. febr. 1979 um 29.7%. Þarna er tekið tillit til þeirra ráðstafana, sem er verið að gera, að sumu leyti á óbeinan hátt og fara út fyrir hina formlegu framfærsluvísitölu.

Ég er því ekki í nokkrum vafa um það, að við erum nú á réttri leið í þessum efnum, þó að aðgerðir okkar núna miðist fyrst og fremst við að mæta aðsteðjandi vanda, sem lá á borðinu 1. sept., og þeim sem hlaut að koma upp á borðið 1. des. Það er því furðuleg villa að mínum dómi að halda því fram, að hér sé um þýðingarlausar ráðstafanir að ræða í okkar efnahagsmálum. Hér er um mjög þýðingarmiklar ráðstafanir að ræða. En þessu þarf að fylgja á eftir með nýrri stefnu í fjárfestingarmálum, m.a. fara inn á þá braut sem við erum sammála um, Alþb.menn og Alþfl.-menn, að reyna t.d. að halda heildarfjárfestingunni við ca. 25% af þjóðarframleiðslu. En þá skiptir miklu máli í hvað fjárfestingin fer, og þá þarf að fylgja þessu einnig eftir með því að reyna að sjá um að það fjármagn, sem við höfum yfir að ráða, gangi til framleiðniaukningar í landinu, til þess að auka framleiðni í okkar atvinnulífi, og um það erum við líka sammála. Margar aðrar ráðstafanir, sem við höfum verið að greina frá í okkar samþykktum og Alþfl. í sínum, þurfa að sjálfsögðu einnig að koma þarna til.

Ég skal nú ljúka máli mínu, en ég vil aðeins segja það, að ég tel að með þessu frv. sé brugðist við vandanum á þann hátt sem hægt var að bregðast við honum. Það er eins og hæstv. forsrh. sagði, það er auðvitað alltaf hægt að ræða um það, að menn hefðu átt að taka stærri skref. En ég efast um að það hafi verið nokkur aðstaða til þess, og ég sé ekki nokkra ástæðu til þess, að þeir, sem tóku þátt í að gera stjórnarsáttmálann á sínum tíma, þurfi að sýna á sér einhver uppgjafarmerki nú. Ég veit að sumum í því liði varð eitthvað bumbult strax í upphafi þegar samkomulagið var gert, en ég vona að þeir fari að hressast úr þessu og nú getum við haldið áfram á miklu greiðari götu en hingað til.