28.11.1978
Neðri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Frsm. minni hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Það vakti athygli mína þegar hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, formaður fjh.- og viðskn. Nd., mælti fyrir meirihlutaáliti n., sem er að vísu ekki nema 4 línur, hversu stuttan tíma hann þurfti til þess að mæla fyrir áliti nm. Hv. 1. þm. Austurl., sem maður veit ekki betur en sé sameiningarkraftur stuðningsmanna þessarar ríkisstj., taldi ekki nauðsynlegt að eyða meiri tíma í það að túlka viðhorf ríkisstj., og stuðningsmanna hennar í þessum málum, en eyddi sýnu lengri tíma í það — mér liggur við að segja að tyfta þá sem maður hélt að hann ætlaði að laða til samstarfs. En það er hans mál hvernig hann hagar sínum vinnubrögðum. Sumir hafa þetta lag, að berja til ásta, þó að það hafi ekki alltaf gefist mönnum vel.

Ég mun nú í örstuttu máli gera grein fyrir áliti minni hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. d., sem ég að vísu stend einn að vegna fjarveru annars nm. Sjálfstfl. í nefndinni. Fjh.og viðskn. þessarar hv. d. hefur haldið einn fund um þetta mál. Hann var haldinn sameiginlega með fjh.- og viðskn. hv. Ed. Nm. urðu ekki sammála um afstöðu til frv., og stöndum við fulltrúar Sjálfstfl., sem vorum á þessum sameiginlega fundi, að því minnihlutaáliti sem er á þskj. 125. Eins og þar kemur fram, komu forsvarsmenn ýmissa samtaka til fundar við nm. Einnig komu til viðræðu við n. forsvarsmenn Þjóðhagsstofnunarinnar og fulltrúi frá fjmrn.

Áður en lengra er haldið vil ég láta það koma hér skýrt fram, að frv., sem við ræðum nú, um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, er að formi til afar nýstárlegt. Ég hygg að um það megi hafa þau orð, sem komu fram í máli forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar á fundi n. í morgun, þar sem hann sagði að sumar greinar frv. væru raunar ekki lagalegs eðlis, heldur væri þar um yfirlýsingar að ræða, en ekki lagafyrirmæli. Ég ætla að um slíka lagasetningu séu ekki fordæmi, og er sá formgalli svo alvarlegur að mínum dómi, að ekki eru neinar líkur til að þær greinar frv., sem svo eru úr garði gerðar, komi til með að hafa gildi í sama mæli og vera ætti um lög frá Alþingi.

Þetta frv. er ekki frambærilegt að þessu leyti og mjög torvelt að taka afstöðu til ákvæða sem í raun eru ekki lögbundin, eins og 2. og 3. gr. þess sanna ljóslega. Þær taka til vissra áforma ríkisstj., sem ekki er þó sammála um hvernig standa skuli að framkvæmd þeirra loforða sem tæpt er á í frvgr., og mátti glöggt heyra það í máli formanns fjh.- og viðskn. Nd. fyrr á þessum fundi. Og sá óþægilegi grunur læðist að mér, að ekki sé neinn vilji fyrir hendi hjá stjórnarflokkunum að fullnægja þeim áformum, sem 2. og 3. gr. fjalla um, þegar af þeirri ástæðu, að talsmenn frv. í fjh.- og viðskn. töldu algerlega óþarft að ætla kauplagsnefnd að meta það, hvort þeim áformum væri náð sem felast í 2. og 3. gr., töldu raunar að mjög væri torvelt og nærri ógerlegt að meta það til nokkurrar hlítar, hvort þeirri viðmiðun væri náð sem þarna er gert ráð fyrir að koma á. Ég held satt að segja að lagasetning sem er af þessu tagi, sem er svona reikul og óljós, sé stórlega varasöm, og það tel ég fullvíst, að hinn almenni borgari fái aldrei þá launabót, sem í fljótu bragði lítur út fyrir að 2. og 3. gr. frv. eigi að tryggja honum.

Þetta er makalaust frv., eins og ég hef áður sagt, — frv. sem þyrfti að draga til baka og semja upp og setja í venjulegt form lagafrv. til þess fyrst og fremst að alþm. geti tekið með raunhæfu móti afstöðu til þess, og til þess, sem er kannske ekki síður mikilvægt, að almenningur fái skilið hvert stjórnvöld stefna með þessari lagasetningu og hvers konar kjara almenningur eigi að njóta á næstu mánuðum.

Jafnvel í venjulegum greinum frv., eins og 4. gr., verður þess vart, að þeir, sem hugsa sér að styðja þetta frv., eru alls ekki sammála um hvernig beri að skilja ákvæði þeirrar greinar. Það kom greinilega fram á fundi n. í dag í máli stuðningsmanna stjórnarinnar. 4. gr. hefst með þessum orðum:

„Á tímabilinu 1. des. 1978 til 28. febr. 1979 skal greiða verðbætur á laun samkv. verðbótavísitölu 151 stig, sbr. þó ákvæði 2. gr. laga nr. 96/1978, um kjaramál.“

Fulltrúum stjórnarsinna í n. kom alls ekki saman um hvernig bæri að skilja þessa grein. Sumir töldu að það væri heimilt að semja um hærri eða lægri greiðslur til launþega heldur en 151 verðbótavísitölustig. Aðrir töldu að það kæmi ekki til greina að heimild stæði til slíks, töldu að það væri bannað að greiða hærri laun frá 1. des. til 28. febr. en 151 stig. Mér finnst að hér sé um mjög mikilvægt atriði að ræða, og þess vegna sé ég ástæðu til þess að beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh., og ég vænti þess, að hann sjái sér fært að svara þeirri fsp. við þessa umr.: Hvernig ber að skilja ákvæði fyrri mgr. 4. gr. frv. sem ég hafði hér yfir áðan? Er heimilt að greiða hærri laun heldur en þessi frvgr. gerir ráð fyrir? Ég veit að það eru fleiri en nm. í fjh.- og viðskn. sem eru í vafa um þetta og því mjög mikilvægt að fá úr því skorið, hver er skilningur stjórnvalda í þessu efni, hvernig eigi að túlka þetta ákvæði. Mér er t.d. kunnugt um að Reykjavíkurborg hefur gert um það samþykkt að greiða laun eftir þeim samningum sem gerðir voru 1977. Ef ekki má greiða hærri verðbætur en eftir vísitölu 151, þá virðist þetta vera óheimilt, og mér er kunnugt um að þetta hefur komið til umr, í borgarstjórn Reykjavíkur. Mér skilst að meiri hl. borgarstjórnar telji að honum sé óheimilt að fara lengra en þessi lagagrein tekur til. Ég vænti þess því, að hæstv. forsrh. sjái sér fært að túlka þessa grein fyrir dm. og greina frá því, hvernig beri að skilja þessa grein að mati þeirra manna, sem staðið hafa að því að semja þetta frv. Það er alveg makalaust, að þrátt fyrir það að þessi grein er samin með venjulegum og viðteknum hætti lagafrv., þá skuli hún þó þurfa að vera svo óljós að það geti valdið ágreiningi, hvernig eigi að fara eftir henni. Og hvað þá um hinar greinarnar í frv., sem hafa á sér allt annað snið og geyma ekki nein ákveðin lagafyrirmæli?

Þegar svo er ástatt eins og ég hef nú lýst um frv., þá tel ég að þeim, sem um það vill ræða, sé nokkur vorkunn, þó að hann eigi erfitt með að rekja greinarnar og túlka eftir þeim þá hugsun, sem á bak við er, og þau áhrif, sem lögin, ef frv, verður samþykkt, hafa í þá átt sem þeim er ætlað að hafa. Ég mun því frekar reyna að ræða þetta frv. út frá aths., sem með frv. eru, eftir því sem möguleiki er á, og hafa þá til hliðsjónar þau svör, sem gestir fjh.-og viðskn. á fundinum í dag létu nm. í té við þeim spurningum sem við bárum fram.

Ég vil þá fyrst koma að því, að aths. með frv. hefjast á því, að þar er sagt, með leyfi hæstv. forseta: „Aðgerðir þær, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, miða fyrst og fremst að lausn þess efnahagsvanda, sem fyrirsjáanlegur er 1. des. n.k. Þó ber að líta á þetta frv. sem lið í þeirri viðleitni ríkisstj. að ná fram varanlegum breytingum í efnahagsmálum, sem komi til framkvæmda þegar á árinu 1979. Að þessu er unnið í samráði við aðila vinnumarkaðarins, enda er árangur óhjákvæmilega mjög undir því kominn, að gagnkvæmur skilningur ríki á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um nauðsyn slíkra aðgerða.“

Ég ætla að menn séu sammála um það, að hér sé komið að veigamiklu atriði og það hafi sýnt sig að mikilvægt er að geta náð þeim árangri með samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins. Vegna þessara ummæla í aths. með frv. leituðu nm. eftir því að fá úr því skorið hjá aðilum vinnumarkaðarins, sem komu til fundar við n., með hverjum hætti hefði verið leitað eftir samstarfi við samtök þeirra. Forseti Alþýðusambands Íslands sagði, að þeir frá Alþýðusambandinu hefðu mætt á þremur reglulegum fundum með fulltrúum ríkisstj. til að ræða þessi mál. Þrátt fyrir það sagði forseti ASÍ, að þeir hjá Alþýðusambandinu teldu að sú tilraun, sem felst í frv. sem hér er til umr., væri misheppnuð ef þyrfti að koma til þeirra í Alþýðusambandinu 1. mars með sams konar beiðni og komið var með til þeirra 1. sept. og nú 1. des. Þó að þeir hafi verið á þremur reglulegum fundum með fulltrúum ríkisvaldsins, þá virðist þó ekki hafa verið komist að nánara samkomulagi en svo, að forseti ASÍ virðist draga mjög í efa árangur af þeirri tilraun sem er gerð með þessu frv.

Formaður Vinnuveitendasambands Íslands lét þess getið, að samráðs hefði verið leitað við Vinnuveitendasambandið með þeim hætti, að þeir voru boðaðir á fyrsta samráðsfund með fulltrúum ríkisstj., sá fundur hefði verið haldinn fyrir rúmlega einum mánuði, en síðan hefðu ekki borist tilmæli um að þeir kæmu til fundar hjá fulltrúum ríkisstj., svo að ekki hefur verið mikið um samráð að ræða á milli þessara aðila.

Formaður BSRB upplýsti, að samstarf við þau samtök hefði verið með þeim hætti, að hann hefði mætt á tveimur fundum með fulltrúum ríkisstj. Hins vegar tók hann það fram, að samtök hans teldu ekki rétt að farið þegar gerðir samningar eru skertir með löggjöf.

Fulltrúi frá Verslunarráði Íslands upplýsti, að ekki hefði verið leitað samráðs við þau samtök.

Þessi fyrsti liður í aths. með frv. hefur því sannarlega vérið sniðgenginn verulega og er sannarlega illa farið að svo hefur verið að málum staðið.

Þá vil ég koma að því, að það er öllum vitanlegt sem fengist hafa við starf á Alþ., að sú hefur verið föst venja þegar ríkisstj. leggur fram á Alþ. lagafrv. sem koma til með að hafa veruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs, að þá hafa verið látnar fylgja þeim upplýsingar um það, hversu stór sá fjárhagsvandi er sem af þeim leiðir fyrir ríkissjóð. Engar slíkar upplýsingar fylgja þessu frv. Þó held ég að engum blandist hugur um að hér er stefnt að mjög miklum greiðslum úr ríkissjóði, eins og komið hefur fram í þeim umr. sem orðið hafa um þetta frv., og um leið er gert ráð fyrir því í aths. með frv., að vegna þeirra aðgerða, sem þessu frv. er gert að koma fram, verði ekki hjá því komist að gera ráðstafanir til tekjuöflunar. Ég gat þess áðan, að til okkar í n. hefði komið fulltrúi frá fjmrn. og hann var spurður að því um hve miklar fjárhæðir væri að ræða í sambandi við þetta frv. Hann svaraði því til, að það hefði ekki verið gert upp enn og hann gæti ekki svarað því. Hann var spurður að því, hvort ekki hefðu verið gerðar einhverjar áætlanir um það, með hverjum hætti yrðu lagðir á þeir skattar sem tæpt er á að leggja á í aths. með lagafrv. Gert er ráð fyrir því þar, að lagður verði á eða athugað að leggja á hátekjuskatt, veltuskatt af ýmiss konar rekstri, fjárfestingarskatt og eignarskatt. Ekkert af þessu hefur verið athugað eða ákveðið að hverju verði fyrst beint athyglinni, hvers konar skattlagningu, og hann var spurður að því t.d., hvort það mundi vera ætlunin í sambandi við fjárfestingarskatt, að hann yrði innheimtur í einhvers konar leyfisgjaldi eða lagður á eftir að ráðist hefði verið í framkvæmd. Engar upplýsingar lágu fyrir um þetta, en hann sagðist ekki telja líklegt, að um leyfisgjald yrði að ræða. Nær ákvörðuninni var ekki hægt að komast og nánari vitneskju var ekki að hafa um það, um hversu stórar fjárhæðir væri hér verið að fjalla og hvernig ætti að firra ríkissjóð halla á árinu 1979, því að ég hygg, að það verði reynt að standa við það áform hæstv, fjmrh., sem hann lagði mikla áherslu á við fjárlagaumr., að það skyldi verða rekstrarafgangur hjá ríkissjóði á árinu 1979, og mér þykir ekki líklegt, að það verði horfið frá því, nema svo sé að hæstv. fjmrh. sé horfinn frá sínu starfi, sem ég vænti nú að ekki sé.

En það er fleira en frvgr. sjálfar sem má fullyrða að sé óljóst í þessu frv. sem við fjöllum hér um. Meira að segja aths. eru að sumu leyti þannig, að það getur riðið á æðimiklu hvern skilning er hægt að leggja í orðin sem þar standa. Ég vil í því sambandi minna á 3. lið í aths. með lagafrv., sem er þannig, með leyfi hæstv, forseta:

„Vísitöluviðmiðun launa verði breytt fyrir 1. mars 1979 að höfðu samráði við fjölmennustu heildarsamtök launafólks.“

Um þennan lið sagði hagfræðingur ASÍ, sem mætti á nefndarfundinum, að hann teldi þetta orðalag mjög klaufalegt, ég held að ég hafi náð alveg orðrétt því sem hann sagði, og að 3. liður, sem ég nú kynnti upphafið að, væri mjög óljós. Hann segir: „Við treystum því að vísitöluviðmiðuninni verði ekki breytt nema við samþykkjum. Við skiljum orðalagið „að höfðu samráði“ þannig að því verði ekki breytt nema við samþykkjum.“ Þessu hygg ég að ég hafi náð orðrétt upp frá hans hendi, og ég hygg að það hefði verið hollara fyrir alla aðila að orða þetta á þann veg, að það gæti ekki valdið misskilningi.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort er ástæða til fyrir mig að rekja frv. öllu frekar en ég hef þegar gert. Ég tel þó rétt að benda á það, að í raun og veru virðist 1. gr. frv. vera óþörf, því að ríkisstj. hefur á hverjum tíma haft heimild til að auka niðurgreiðslur án þess að setja um það sérstök lög. Það er því mitt mat og stutt þeim rökum, sem ég hef rakið hér að framan, að 1. gr. sé þarflaus. Ég tel, að 2. og 3. gr. eigi ekki heima í lögum. Um 4. gr. er það að segja, eins og ég hef rakið hér, að stjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um skilning á henni. Upplýsingar hafa ekki fengist um það, með hverjum hætti verði aflað tekna til þeirra hluta sem hér þarf að standa straum af. Í 5. gr. frv. er ákvæði um hækkun bóta almannatrygginganna, en þær eru ekki í samræmi við verðbólguaukninguna, því að þeir aðilar, sem þar er rætt um, munu ekki nema að mjög takmörkuðu leyti njóta þeirra félagslegu umbóta sem látið er í veðri vaka að verði gerðar. Þrátt fyrir allt þetta virðast stuðningsflokkar ríkisstj. ætla sér að knýja málið fram óbreytt. Niðurstaða mín um þetta frv. er þessi:

Kjarni frv, er sá, að ekki verði greidd laun samkv. kaupgjaldsvísitölu, heldur skuli hún skert um 8%. Verðbótavísitalan þannig skert er lögbundin með þessu frv., og ætla ég að mönnum þyki það ekki vera í samræmi við kosningaloforðin frá í vor um „samningana í gildi.“ Meðal þeirra frambjóðenda frá því í vor, sem nú styðja þetta skerðingarfrv., sem ég vil svo kalla, eru einmitt þeir sem hæst gólu um kjararán á s.l. vori. Ég vil nú ráða þeim til að koma fram fyrir þjóðina og viðurkenna það hreinskilnislega, að þeir hafi ekki áttað sig á því, hversu bregðast hefði þurft við vanda efnahagsmálanna, og þeim hafi í þeim efnum skjátlast hrapalega, eins og þetta frv. sýnir best. Þannig væri sæmilega heiðarlega að málunum staðið.

Nú hafa stjórnarflokkarnir viðurkennt með þessu frv., að svo miklu leyti sem um lagafrv. er að ræða, að til þess að vinna gegn verðbólgu og til þess að tryggja atvinnuöryggi verði ekki komist hjá nokkurri kjaraskerðingu. Þetta er viðurkennt með þessu frv. Aðeins er rétt að gera sér grein fyrir því, að nú verður sú skerðing meiri og langærri en verið hefði ef ráðstafanir fyrrv. ríkisstj. frá febr. í ár hefðu fengið að njóta sín. Nú er þannig staðið að efnahagsaðgerðunum, að ekki verður séð með neinu öryggi hversu stórfellt kjararán menn mega nú vænta að yfir skefli, svo að orð núv. stjórnarsinna frá í vor séu líka notuð, þar sem þeir kölluðu þetta kjararán þá. Ég hygg að það megi fullyrða, að við sjálfstæðismenn teljum að þetta frv. sé svo gallað, sé svo óljóst, að ekki verði tekin afstaða til margra efnisþátta þess að svo komnu. Þrátt fyrir beiðni okkar um ákveðnar upplýsingar um fyrirkomulag á lækkun skatta, um ýmsar félagslegar umbætur, um mat þessara þátta til kjarabóta, svo og um nýja skattheimtu, hversu þeir skattar verði miklir og í hverju þeir séu fólgnir og fleira þvílíkt, þá hafa ekki fengist svör við þessum afgerandi þáttum efnahagsaðgerðanna. Fyrir því vil ég lýsa andstöðu við þessa málsmeðferð og þetta lagafrv., ef það má kalla svo. Þess vegna tel ég að slík lagasetning geti ekki skilað árangri í baráttunni við verðbólguna. Við sjálfstæðismenn stöndum ekki að slíkri lagagerð. Við berum ekki ábyrgð á þeirri töf sem orðin er á því að rétta við efnahagslíf þjóðarinnar og fjármálavanda ríkissjóðs eins og hann er nú orðinn.