28.11.1978
Neðri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Til umr. er hér frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, og það er út af fyrir sig erfitt fyrir varamenn hér á löggjafarsamkundu þjóðarinnar að setja sig nægilega vel inn í slíkt mál sem þetta á þeim stutta tíma sem ég hef hér verið. En þetta mál virðist nú skýrast betur smátt og smátt hér í umr., og einhvern veginn er það nú svo, að þegar betur er að gáð, þá er hér ekki um neitt nýnæmi að ræða. Það er einhvern veginn svo, að það er ýmislegt hér sem menn kannast við frá fyrri tíð, þó menn leiti nokkuð langt aftur.

Að ræða þessi mál, sem tengjast efnahagsmálum þjóðar okkar, er alls ekki auðvelt mál, alveg á sama hátt og það er ekki auðvelt að ræða þá tilveru sem við lifum í. Það hefur ýmsum reynst erfitt og jafnvel sjálfum prestunum. Það er nú svo, að í efnahagsmálum eru alveg sömu vandamálin og í lífinu almennt, að það verður ekki alltaf bæði haldið og sleppt. Það er sama vandamálið, að menn þurfa að velja sér lífsviðhorf og lífsstíl, menn þurfa að velja markmið, og það hefur lengi vafist fyrir mönnum. En við erum nú samt að þessu og við gerum þetta, ekki vegna þess að menn séu alltaf sannfærðir um að það sé verið að gera hið eina rétta og þær einu réttu ráðstafanir sem hægt var að grípa til í því tilfelli, heldur vegna þess að við lifum í efnahagslegum raunveruleika, sem við verðum að mæta, við verðum að skilja og við verðum að hafa áhrif á, hvort sem okkur líkar það.betur eða verr. Þetta fjallar um að skipta okkar auði, og það hefur aldrei verið auðvelt eða átakalaust og það hefur ekki minnkað í sama hlutfalli og auðurinn hefur vaxið.

Það hefur lengi verið svo, að Íslendingar hafa haft góðan skilning á þörfum náungans, kannske fyrst og fremst vegna innbyrðis tengsla og þekkingar sinnar á lífsbaráttu og fátækt þjóðarinnar í gegnum árin. En það er nú einhvern veginn svo, að þessi skilningur virðist smátt og smátt vera að bresta, og þess hefur gætt á undanförnum árum með vaxandi verðbólgu, að þessi skilningur á okkar málum hefur farið minnkandi. Og það er nú svo, að menn hafa alla tíð lagt mikla áherslu á að byggja upp hér og annars staðar sem fullkomnast hagkerfi. Það er vissulega gott og göfugt markmið, en það verður hins vegar aldrei fullkomin trygging fyrir því, að réttlæti og viðunandi jöfnuður ríki í þessu þjóðfélagi. Það fer ekkert síður eftir heiðarleik og hugsun og góðum hug þeirra sem stjórna og hafa áhrif á skiptingu þessa auðs, og ég efast ekki um háleit markmið þeirra manna, sem nú fara með æðstu völd í þessu landi. Það er einnig svo, að þetta hagkerfi verður aldrei annað og meira en þeir sem standa á bak við það.

Ég ætla ekki að fara að halda neinn fyrirlestur og koma með einhverja nýja speki í þessum efnum, til þess hef ég ekki þekkingu. En einhvern veginn er það nú svo, og einhvern tíma sagði ágætur maður, að það væri alltaf sú hætta fyrir hendi, að fulltrúar hinna ýmsu hagsmunahópa í þjóðfélaginu, hvort sem það eru launþegar, atvinnurekendur, alþm. og aðrir, hefðu meiri metnað til þess að standa vörð um hagsmuni umbjóðenda sinna en þessum sömu umbjóðendum væri fyrir bestu. Ég held að í þessu felist kannske skilgreining á þeim vanda sem við höfum smátt og smátt verið að komast í og hefur farið vaxandi, að menn hafa haft óskaplegan metnað fyrir hönd þessara umbjóðenda sinna, og það hefur á margan hátt skaðað heildina.

Ég sagði áðan, að einhvern veginn væri það nú svo, að þetta væri kunnuglegt sem hér væri fært á borð hv. alþm. Menn hafa verið að engjast í því á undanförnum árum og áratugum að berjast við verðbólgu, menn hafa margir verið þar miklir bardagamenn og hafa margir fallið í þeim bardaga. Og alltaf er það nú svo, að verðbólgan heldur áfram að aukast. Á áratugnum 1950–1960 var hún innan við 10%, síðan hefur hún smátt og smátt verið að aukast, og það má segja, að mesta ófremdarástandið hafi orðið 1974, þá er hún komin í 43% og fer vaxandi. Og það má segja, að mestallur tími fyrrv. ríkisstj. og Alþ. fór í það að engjast í þessum málum, eftir því sem ég gat best séð. Verðbólgan var um það bil 32% 1977, ég hef ekki nákvæmar tölur um það, en frá nóv. til nóv. var hún 30.2% og í febr. til febr., þ.e.a.s. frá febr. 1977 til febr. 1978, var hún 37.2%. Og þá sáu menn fram á að þetta mundi rjúka upp á við. Menn sáu þar fram á þróun sem enginn gladdist við að horfast í augu við, þ.e.a.s. ef menn fengust til að horfast í augu við þessa þróun.

Upp úr þessum aðstæðum komu hin svokölluðu febrúarlög, og þau áttu sér nokkra forsögu. Ég held að sé óhætt að segja um þau lög út af fyrir sig eða þær aðgerðir, sem þar var gripið til, hvort sem mönnum líkaði það betur eða verr og ef menn töldu að til þeirra þyrfti að grípa, að gripið var til þeirra of seint, eins og oft vill verða. En hvernig stóð á því? Það hefur vérið sagt hér í umr., og m.a. held ég að ég muni það rétt, að hv. þm. Eðvarð Sigurðsson hafi sagt það, — ég vona að ég beri ekki á hann röng ummæli, því að það vildi ég síst af öllu gera, — að verkalýðshreyfingin hafi átt afskaplega litla kosti og litla möguleika að hafa áhrif á þær ráðstafanir sem þá voru gerðar. Fyrrv. ríkisstj. skipaði svokallaða verðbólgunefnd, og ég held að fyrrv. ríkisstj. hafi gert sér allt of háar hugmyndir um þessa n. og ætlaðist kannske að nokkru leyti til að þessi n. fyndi lausnir á efnahagsvanda þjóðarinnar og þá um leið fengist sæmileg sátt um þær lausnir. Þess vegna voru skipaðir í nefndina menn frá ýmsum hagsmunahópum og öllum stjórnmálaflokkum. Ég hélt því fram á sínum tíma, að ríkisstj. mætti ekki skipa þessa n. með það í huga að hún ætti að leysa þennan vanda, því að ríkisstj. bar áfram sína ábyrgð á allan hátt. Þessi n. komst ekki að neinni algildri niðurstöðu, en það komu ýmis álit. Það voru ekki góðir kostir. Þar voru menn frá launþegasamtökum þjóðarinnar og vinnuveitendasamtökum, og þeir kusu ekki að hafa þar í frammi ákveðnar ábendingar um aðgerðir sem væru raunhæfar. Ég ætla ekki að fara að lýsa þeim till., sem þar komu fram, og sameiginlegu áliti fulltrúa Alþýðusambands Íslands, Alþfl., Alþb. og BSRB að miklu leyti, þó að það væru þar nokkur ívöf. En ég leyfði mér á sínum tíma að kalla þá leið, sem þar var sett fram, blekkingaleið, og ég hef í engu breytt skoðun á því, en ætla mér ekki að fara að rekja það hér. Ég hef áður gert það og menn geta séð það í þingtíðindum.

Þegar hér var komið sögu lá það náttúrlega fyrir, að þessir stjórnmálaflokkar, Alþb. og Alþfl., og mikilvægustu verkalýðssamtök þjóðarinnar ætluðu sér að berjast sameiginlega á móti þeim ráðstöfunum, sem þá voru gerðar, án þess að hafa í frammi tillögur til úrbóta. Ríkisstj. fór í það að setja fram frv. sem var í nokkrum takt við þessar niðurstöður, og þau lög voru samþykkt og það leiddi til mikilla átaka í þjóðfélaginu sem ekki er ástæða til að rekja hér. En ég vil fullyrða það, að ég held að fulltrúar verkalýðssamtakanna hafi haft tækifæri til þess að hafa þarna nokkur áhrif á, ef hefði verið vilji til þess hjá þeim mönnum sem völdust til þeirra trúnaðarstarfa í þágu þessara samtaka.

Núv. ríkisstj. hefur fengið vandann í arf. Það má lengi tala um það, hvenær menn fá einhvern arf, og ríkisstj. þar á undan hefur sjálfsagt fengið eitthvað í arf frá hinni, og þannig getum við farið nokkuð langt aftur í sögu þjóðarinnar, því að oft er skipt um ríkisstj. Og mér finnst það út af fyrir sig dálítið merkilegt þegar menn eru að deila um hvaðan þetta allt saman sé komið, það sé aðalvandamálið.

Aðgerðir núv. ríkisstj. hafa að því leyti til verið merkilegar að mínum dómi, að hún hefur lagt sig mjög fram um að vinna skilning meðal þjóðarinnar á því sem þyrfti að gera. Það er e.t.v. fyrst og fremst þessi skilningur sem menn þurfa á að halda og menn þurfa á því að halda að fá sæmilega sátt um það, hvernig skuli unnið að þessu. Mér sýnist að það sé að bera nokkurn árangur í þessu efni eða vonast til þess.

Það frv., sem hér liggur fyrir, minnir í sjálfu sér í mörgu á frv. frá í febr. En það, sem skiptir meginmáli, er að menn nái bærilegu samkomulagi um þessi mál. Menn hafa haft í frammi ýmsa útreikninga. Hv. þm. Geir Hallgrímsson talaði um það, hvað hér væri mikið kauprán á ferðinni, og notaði þar reikningsaðferðir fyrrv. stjórnarandstöðu. Ég er alveg sammála hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, þegar hann sagði áðan að það væri náttúrlega hin mesta firra að reikna á þennan hátt, því að þótt laun hækki um 27.5 milljarða, þá fá menn það ekki í vasann, ekki bara vegna þess að menn þurfa að borga skatta af því, heldur vegna þess að þessi laun hafa áhrif til hækkunar á verðbólgu í landinu, til hækkunar á verðlagi á neysluvörum sem tekur þetta að hluta til baka. Þetta kemur ekki til með að auka kaupmáttinn, þannig að að sjálfsögðu er þetta rétt hjá hv. þm. En þetta eru samt reikningsaðferðir sem voru notaðar þegar var verið að reikna út hið svokallaða kauprán fyrr á þessu ári, og er út af fyrir sig sorglegt að menn skuli nota slíkar aðferðir. Það, sem skiptir mestu máli í þessu sambandi og er eina raunhæfa viðmiðunin um það, hvernig launþegar standa, er hvernig tekst að varðveita þann kaupmátt sem launþegar búa við. Það hlýtur að vera hagsmunamál í þjóðfélaginu að sá kaupmáttur verði sem mestur, en samt þannig að það leiði ekki af sér efnahagslegt öngþveiti.

Það er alveg sama hvað menn deila lengi um það, hvort launin skipti einhverju máli í verðbólgunni eða ekki, við komumst ekki fram hjá því, að launin eru stærsti þátturinn í því sem við skiptum með okkur af þjóðartekjum. Þegar lögin í febr. voru sett var gert ráð fyrir því fyrst í till. meiri hl. í verðbólgunefnd, að kaupmátturinn yrði svipaður og hann var. Ráðstöfunartekjur á mann skipta náttúrlega meginmáli í þessu sambandi, vegna þess að þær hliðarráðstafanir, sem alltaf er verið að gera, hafa þarna áhrif. Það eru ekki bara kauptaxtarnir, eins og hefur verið margítrekað hér, heldur það sem menn hafa til ráðstöfunar. Og lögin stefndu að því, að kaupmáttur ráðstöfunartekna yrði 99 miðað við 100 1974. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég fékk í morgun, er gert ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann verði 102, e.t.v. 103, miðað við 100 1974. Þó er þetta ekki alveg ljóst, vegna þess að það hefur ekki verið frá því gengið, hvernig þeirri skattheimtu verður háttað sem stendur til að flytja frv. um. Ef ekkert hefði verið að gert í febr. 1974 var gert ráð fyrir því, að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann yrði 106 til að byrja með. Svo fer hjólið að snúast, og hjólið á líka eftir að snúast núna.

Við fengum upplýsingar um það, að ef ekkert verði meira að gert og miðað við það hvernig fjárlagafrv. er úr garði gert, eða ég skildi það svo, og það fjárfestingarhlutfall, sem talað er um í grg., þá megi búast við að verðbólgan verði 40–45% á næsta ári, þannig að menn eru ekki búnir að vinna það stríð að vernda kaupmátt launa. Það verður alltaf eilíft vandamál. En aðalatriðið er að menn séu sæmilega sáttir með það, hvernig þeim launum, sem við höfum til skipta í þessu þjóðfélagi, er skipt.

Ég fagna því, að Verkamannasamband Íslands hefur lýst stuðningi við þetta mál, vegna þess að mér sýnist að þessar aðgerðir, sem hér er verið að fara í og menn voru líka að reyna með febrúarlögunum, miði að því að vernda sem best hagsmuni þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu. Og það er nú svo, að hvorki Verkamannasamband Íslands né aðrir hafa átt marga stuðningsmenn í þessari baráttu, því að það er nú svo, að hagsmunir launþega eru margvíslegir og margir hugsa mest um fjárhæðir án tillits til þess hvað menn hafa mikið til að eyða fyrir sig og sína fjölskyldu. Ég held að menn ættu að temja sér að tala minna um kauprán og alla þessa útreikninga, sem eru ekki alltaf mjög áþreifanlegir, og koma svolítið niður á jörðina í þeim efnahagslega vanda sem við eigum í. Þá færi ýmislegt betur.

Ég ætlaði aðeins að gera það að umtalsefni, hvernig afla skal tekna til þess að standa undir þeim útgjöldum sem ríkissjóður verður hér fyrir og hv. 1. þm. Austurl. upplýsti að mundu vera milli 5 og 6 milljarða, en það kemur ekki fram í grg. frv. Hér er sem sagt um tilraun að ræða til að jafna tekjuskiptinguna í landinu, og að því leyti til gengur þetta frv. lengra en febrúarlögin. Að vísu var gert ráð fyrir því þar að lækka vörugjald og eyða peningum til þess að hækka almannatryggingar og í fleiri hliðarráðstafanir, á sama hátt og hér er gert. Hins vegar var ekki gengið eins langt þar, m.a. vegna þess að þá var nýlega búið að ganga frá fjárl., en nú hins vegar er eftir að ganga hér frá fjárl. og Alþ. hefur alla möguleika á því að velja þar og hafna, draga úr einhverjum útgjöldum, draga úr fjárfestingu til þess að fá fjármagn til þessara hluta.

Það er gert ráð fyrir að leggja á hátekjuskatt. Ég skil það svo, að það sé nánast um það að ræða að breyta skyldusparnaðinum svokallaða í skatt, og ég get út af fyrir sig stutt það. Mér sýnist að áhrif þess verði einfaldlega þau, að skatthlutfallið verður mjög svipað og stefnt er að með því frv. sem á að taka gildi á næsta ári, — mjög svipað ef þessi skattur verður lagður á. En þar verður út af fyrir sig ekki um neina stökkbreytingu að ræða, skyldusparnaður hefur verið undanfarið, þótt ekki sé hægt að líkja algerlega saman skyldusparnaði og skatti.

Einnig er gert ráð fyrir því að hækka eignarskatt. Það kemur vissulega til álita, og þá er rétt að menn hafi það í huga, að frv. það, sem samþ. var hér á s.l. vori um tekjuskatt og eignarskatt og var mjög víðtæk samstaða um hér á Alþ., þótt ágreiningur hafi verið þar um minni háttar atriði, gerir ráð fyrir stórkostlegri hækkun eignarskatts, vegna þess að það á að endurmeta allar eignir í landinu og eignarskattsstofninn verður miklu áþreifanlegri en áður. Og m.a. kemur þetta fyrst og fremst niður á atvinnurekstrinum. Eignarskattur er samkv. núgildandi lögum frádráttarbær við álagningu tekjuskatts. Frv., sem samþ. var hér á s.l. vori, gerir ráð fyrir að fella það niður, þannig að jafnvel þótt eignarskattur verði hækkaður eitthvað, þá hef ég enga trú á því, að það komist nálægt því sem að er stefnt í frv. frá í vor og enginn hefur enn reiknað út. En það frv., sem þá var samþykkt, er að því leyti til gott, að þá verður fyrst góður grundvöllur til þess að breyta þessum eignarskatti í þá veru að skattleggja hinn svokallaða verðbólgugróða.

Hér er einnig minnst á það að leggja á veltuskatt. Ég vil lýsa mig algerlega andvígan slíkum skatti, hann er þess eðlis. Velta fyrirtækja getur aldrei orðið skattstofn sem eitthvert vit er í, og það er langt síðan menn komust að þessari niðurstöðu. Það gerði nú m.a. Alþfl. þegar hann var í ríkisstj. og barðist mjög fyrir því. Og vinstri stjórnin hélt þeirri stefnu áfram að vinna að því að leggja niður hið svokallaða aðstöðugjald. En nú hafa menn tekið upp aftur að leggja á veltuskatt. Á s.l. vetri kom þetta mjög til umr. af hálfu Alþb.-manna, en hins vegar voru þeir alltaf að falla frá ákveðnum atvinnugreinum: sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, mér skildist að þeir hefðu fallið frá því. Þá átti að standa eftir alls konar þjónustustarfsemi, milliliðastarfsemi og annars konar starfsemi. Þjónustustarfsemin er víðtæk, og við vitum nú, það var upplýst hér, að dreifbýlisverslun samvinnufélaganna væri rekin með 500–600 millj. kr. tapi. Þessi dreifbýlisverslun velti á árinu 1977 400 milljörðum og veltir sjálfsagt í ár nálægt 600 milljörðum. Menn hafa verið að tala þarna um 1.2% gjald. 1.2% gjald á 600 milljarða er 720 millj. Hvaðan á að taka þessa peninga? Halda menn að það verði ekki reynt að velta þessu út í verðlagið? Eða hafa menn svo gífurlega trú á verðlagseftirliti, jafnvel þótt um svo gífurlegan taprekstur sé að ræða. Það má sjálfsagt leggja þetta á heildverslunina, og mér skilst að nú tali menn helst um það, en það býður því heim að auka alls konar umboðsviðskipti.

Heildverslun er rekin með tvennum hætti, annars vegar með því að heildverslunin kaupir beint inn og selur smásalanum eða þá smásalinn kaupir beint í gegnum heildverslunina og heildverslunin tekur umboðslaun. Þetta er út af fyrir sig afskaplega áþekk lýsing, nema umboðssalinn tekur bara umboðslaun og hefur lítinn kostnað af og þarf ekki að borga neinn veltuskatt af vörunum sem hann kaupir, þannig að þetta verður allt saman eitt allsherjar sullumall. Satt best að segja var það svo, meðan aðstöðugjaldið var hærra en það er í dag, að þá stóð það hreinlega í vegi fyrir því, að bókhald væri oft og tíðum fært með eðlilegum hætti, vegna þess að menn voru að reyna að komast fram hjá þessu gjaldi með því að stunda meir umboðsviðskipti heldur en hrein og bein viðskipti. Ég vænti þess að menn geri sér grein fyrir þessum annmörkum og þessum vandamálum áður en út í það er farið. Þar að auki hefur veltu fyrirtækja aldrei verið þannig háttað, að það væri hægt að líkja henni við tekjuhugtakið. En menn ætla kannske að gefast upp við að skilgreina það hugtak og leggja þetta gjald bara á einhvern stofn og ná þannig inn einhverjum peningum án tillits til þess á hvað er lagt. Ég ætla ekki að gera þetta frekar að umtalsefni.

Sú skattlagning, sem áður var farið út í, var m.a. skattur á fyrningar, sem ég vonast til að menn taki til endurskoðunar, því að þær eru út af fyrir sig ekki skattstofn. Það er ekki hægt að finna nein rök fyrir þessum skattstofni, það er bókstaflega ekki hægt. Það er hins vegar til í skattalögum svokölluð verðstuðulsfyrning, sem er afskaplega undarlega samansett fyrning og miklu nær að fella hana hreinlega niður heldur en vera að gera fyrningar að sérstökum skattstofni. Menn geta alveg eins og miklu frekar gert vextina að skattstofni eða ýmsan rekstrarkostnað. Einnig held ég að það verði ekki komist hjá því í framtíðinni að endurskoða ýmsar ákvarðanir sem hafa verið teknar varðandi breytingar á söluskattskerfinu. Allar þær undanþágur, sem þar eru komnar, gera mestu bölvun. Það er út af fyrir sig mjög gott að fella niður söluskatt á matvörum og eykur mjög kaupmátt t.d. lægstu launa. En það er ekki í fyrsta skipti sem menn hafa velt þessu fyrir sér. Menn hafa verið að þessu í löndum í kringum okkur, í Noregi og Danmörku, og hv. þm. geta fundið langar skýrslur um þessi vandamál, þar sem menn velta þessu fyrir sér fram og til baka og langaði greinilega óskaplega mikið til að gera þetta, en gerðu það ekki, vegna þess að menn lögðu ekki í þá framkvæmd sem þetta krafðist. Og ég óttast það, þótt ég hafi ekki rannsakað þetta mál, að menn verði að snúa hér til baka og menn verði að passa sig á því að gera ekki öll þessi kerfi svo flókin að helmingurinn af þjóðinni verði kominn í að vinna við þessi kerfi eftir einn áratug, á sama tíma sem menn eru að tala um að minnka skrifstofubáknið í þjóðfélaginu og við þurfum jafnvel að hafa heilan háskóla til að útskrifa mannskap í þessi störf. Það getur verið út af fyrir sig gott að hafa markmið um að útvega væntanlegum háskólaborgurum þægilega vinnu. En þetta verða menn að varast, og ég tel að það hafi ekki verið gert í nægilegum mæli, hvorki af þessari ríkisstj. né öðrum og ekki heldur af hv. Alþingi.

Ég sagði áðan, að það skipti mestu máli að menn hafi nokkra vissu fyrir því, að það sé sanngjarnlega um mál þeirra fjallað. Hér hefur verið talað um að það standi til að reyna að ná samkomulagi um að breyta vísitölukerfinu, og hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði að menn virtust hafa mestan áhuga á því að finna þá vísitölu sem ekki mæli eins miklar kauphækkanir og sú sem nú er miðað við. En ég vil vekja athygli á því, að núverandi vísitölukerfi hefur á margan hátt úrslitaáhrif á það, hvernig tekjum þjóðarinnar er skipt. Það er t.d. alveg ljóst, að sjómenn eru við annað borð í þessu vísitölukerfi heldur en aðrar stéttir í þjóðfélaginu, aðrir launþegar. Það hefur komið fram, að fiskverð hefur á þessu ári ekki hækkað nema sem svarar kannske helmingi af því, sem verðlag hefur hækkað í þessu landi, þannig að laun sjómanna hafa ekki fylgt þessu verðlagi. Þar að auki hefur orðið verðfall á nokkrum sjávarafurðum, sem hefur einnig áhrif. Ég get t.d. upplýst það, að verð á síld hefur lækkað og sjómenn á síldarbátum hafa kannske 10–12% hærri hlut en fyrir tveimur árum. Vegna hvers er þetta? Það er vegna þess að markaðsverðið hefur lækkað og hlutdeild útgerðar og sjómanna í þessu afurðaverði hefur lækkað, vegna þess að allur tilkostnaður í landi hefur hækkað í samræmi við vísitölukerfið, þannig að þessi stétt manna hefur mátt þola miklu meiri kjaraskerðingu en ýmsar aðrar stéttir. Og menn skyldu vara sig á því að horfa upp á slíkt, vegna þess að ef þróunin verður sú, að laun þessa fólks verði lakari en þeirra sem vinna í landi, þá er ég hræddur um að menn fái fáa menn í þessu landi til að draga fisk úr sjó. Og það er eitt af því sem þarf að vera eftirsóknarvert meðal Íslendinga, því á því byggjum við afkomu okkar að mestu leyti.

Herra forseti. Ég hef verið hér of langorður, þótt ég hefði getað haft lengra mál um ýmislegt sem hér hefur komið fram og ég hef drepið hér á. Það, sem skiptir mestu máli, er að menn haldi áfram að vinna á þeirri braut að ná sæmilegu samkomulagi um aðgerðir í baráttunni gegn verðbólgunni. Ég held að fyrrv. ríkisstj. hafi á margan hátt brennt sig á því að fara út í aðgerðir án þess að hafa neina tryggingu fyrir því, hvernig við þeim yrði brugðist. Hitt er svo annað mál, að ef það tekst ekki og menn ná hér engu samkomulagi, þá hljóta menn að sjá að það er ekkert annað framundan en stórkostleg átök í þjóðfélaginu. Það hlýtur að enda með því, ef ekki er hægt að ná slíku samkomulagi, því að á þessum vanda verður að taka ósleitilega áður en yfir lýkur.

Mér finnst að Alþ. beri þarna mikla ábyrgð. Alþ. og ríkisstj. hljóta að bera ábyrgð á því að leiða þjóðina í þessu máli, og sú umr., sem hefur verið hér á Alþingi Íslendinga um þetta mál, gefur mönnum ekki glæstar vonir um þá leiðsögn. Menn hafa eytt hér miklum tíma í að segja að Alþfl.-menn séu miklu verri menn en Alþb.menn, og talsmenn Alþfl. hafa talað um hvað þeir í Alþb. séu ábyrgðarlausir. Það hefur allt of mikill tími farið í það, að menn hafi verið að ásaka þennan og hinn. M.a. eyddi hv. 1. þm. Austurl. nokkuð löngu máli í að þylja það upp, hvað mikið af þessu væri komið frá fyrrv. ríkisstj. Það væri hægt að rifja það upp, hverjar till. hans og hans flokks voru á því kjörtímabili til þess að bregðast við þessum vanda. Þær voru stórkostlegar. Það var blekkingaleiðin sem ég nefndi hér áðan. Það var að fella niður næstum því alla tekjustofna ríkisins. Slíkt tal gagnar ekki, og ég er viss um að mönnum eru það mikil vonbrigði almennt í þjóðfélaginu, hvernig sú umr., sem hér hefur farið fram, hjá mörgum þeim sem hér hafa talað, er á afskaplega fánýtu plani, og menn skulu varast að halda áfram að ræða þessi mál eins og óþekkir krakkar, kenna hver öðrum um.

Ég held að það, sem skipti máli, sé að menn setjist niður og reyni að finna lausnir, eins og menn reyndu í verðbólgunefnd. Menn sáu þar, að margt var hægt að gera, þó að stór hluti n. kysi fremur að hlaupa frá því öllu, þegar menn sáu hvað það var skelfilegt sem þurfti að gera. En þetta er það sem menn þurfa að halda áfram að gera, að virða fyrir sér þessi vandamál, finna ákveðnar lausnir, en hlaupa ekki frá þeim.