28.11.1978
Neðri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Mér er sagt af kunnugum mönnum, að það sé ekki ótítt hér á hv. Alþ. að ef varaþm. slysast hér inn um stundarsakir vegna inflúensu, ferðalaga eða t.d. þess að aðalþm. séu að fá sér nýjar tennur, þá komi þessir varaþm. í sínu skásta pússi, fyllist hugljómun og flytji svokallaða jómfrúrræðu um eitthvert mál, sem annaðhvort er þeim hjartfólgið eða þeir hafa fengið lánað hjá flokki sínum eða ættingjum. Mér er einnig tjáð af kunnugum mönnum, að þetta sé ein hamingjusamasta stund í lífi margra varaþm., og jafnvel þótt þeir eigi ekki afturkvæmt á þingbekki fylgi þessar ljúfu minningar sumum allt til æviloka og þeir tali um málið sitt, sem þeir hafi forðum flutt á Alþingi. Það virðast ætla að verða örlög mín að verða sviptur þessari hamingjustund í lífi varaþm.

Í umr. um frv., sem hæstv. ríkisstj. leggur hér fyrir, hafa andstæðingar ríkisstj. eytt drjúgum hluta af málflutningi sínum í að ásaka mig, ótíndan múgamann, fyrir ýmsa mestu erfiðleika sem þjóðin stendur frammi fyrir, að ekki sé nú talað um Verkamannasamband Íslands, sem gengur eins og rauður þráður í gegnum allar þessar umr. og er helst líkt við Seðlabankavaldið í landinu, en það er það jarðneska vald á Íslandi sem er öllum öðrum ofar.

Ég kemst ekki hjá því að svara nokkrum af þeim ásökunum, sem bornar hafa verið mig og Verkamannasambandið, og mun þó reyna að hafa í huga tilmæli hæstv. forsrh. að teygja ekki umr. um of. Að vísu er sá meðalvegur vandrataður.

Ég hefði gjarnan viljað spjalla töluvert við hv. 1. þm. Vestf. Hann er illa fjarverandi. Ég skal reyna af þeim sökum að vera öllu meinlausari í málflutningi en ég hafði í hyggju. Ég veit ekki hvort ég hef aðstæður til að heilsa upp á hann síðar, en ég held að það sé ekki hægt að komast hjá því að minnast örfáum orðum á málflutning hans.

Hann kvartar undan því að útflutningsbann hafi stöðvað útgerð í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum. Og hann kvartar undan því, að brotin hafi verið niður brbl. ríkisstj. sem hv. þm. sat í. Eins og þar stendur: Um allar sagnir hallaði hann mjög til og ló víða frá. Eins mætti segja um þennan hv. þm., sem ekki er hægt að skattyrðast mikið við hér. En sannleikurinn er sá, að Verkamannasambandinu tókst aldrei að brjóta niður þessi brbl. Þau giltu til enda ráðherraferils þessa hv. þm. Og þrátt fyrir öll þessi bjargráð, þrátt fyrir að brbl. héldu allan þann tíma sem hann var ráðh., þá geisaði verðbólgan af meiri þrótti og brann aldrei glaðar en á meðan.

Það er ekki tími, ekki aðstaða, af ástæðum sem ég hef greint, að fara ítarlega út í það, þó kemst ég ekki hjá að veita því athygli, að þessi ágæti þm. hefur eftir að hann hætti ráðherrastörfum, geislað af hamingju og vellíðan gagnstætt ýmsum flokksbræðrum sínum. Og þótt þessi þm. sé dagfarsglaður, skemmtinn og orðheppinn í besta lagi, þá hef ég sjaldan séð lífshamingju öllu meiri. Það eru bókstaflega sjö sólir á lofti þegar hv. 1. þm. Vestf. mætir í þingsölum og hvar sem er á mannamótum. Hvernig skyldi standa á þessu? Ég satt að segja bjóst við hógværum og hljóðum manni, eins og mannlegt er og eðlilegt er þegar mönnum gengur illa í kosningum. En þessi gleði er að ýmsu leyti skiljanleg. Þegar hann lét af störfum hafði honum tekist það ásamt með samráðh. sínum, sem Verkamannasambandinu tókst aldrei, hann hafði stöðvað útgerð í Vestmannaeyjum, hann hafði stöðvað útgerð á Suðurnesjum, þar sem ekkert útflutningsbann var, og meira en það: hann hafði hótanir hvers og eins einasta frystihúss í landinu um að það yrði lokað, og hann hafði tilkynningar um að hver fiskifleyta á landinu færi ekki á sjó. Þegar hann hringdi í flokksbræður sína í eigin kjördæmi þar sem hann er jafnsterkur og raun ber vitni, og þá svöruðu þeir einungis: Þetta er ekki hægt, Matthías, við lokum. — Ég hef satt að segja í hyggju að leyfa til þessa hv. þm. sem ráðgjafa Verkamannasambandsins, ef það þyrfti að fara út í öflugar stöðvunarráðstafanir einhvern tíma, vegna þess að „praktískari“ reynslu held ég að fáir menn hafi. Árangurinn er svo firna glæsilegur, að ég efast um að það sé hægt að benda á nokkurn verkalýðsforingja sem hefði staðið frammi fyrir því að ef hann hefði verið viku lengur í ráðherrastól, og er þetta náttúrlega ekki bundið við hann einan persónulega, þá hefði öll útgerð og allur sjávarútvegur í landinu stöðvast. — Síðar er verið að brigsla ótíndum múgamönnum um það, að þeir hafi stöðvað atvinnurekstur. En ég mundi leita til þessa hv. þm. sem ráðgjafa í stöðvunaraðgerðum, sem vonandi þarf ekki til að koma.

Hins vegar mun ég ekki leita til hans varðandi hitt rn. sem hann gegndi, — ég vil taka það fram að í þessu felst ekki að hv. 1. þm. Vestf. sé eitthvert sérstakt varmenni eða öðrum mönnum verri, — en annar málaflokkur hans var heilbrigðismál. Þar er nú meiri stöðvunartilhneigingin. Hann hefur vart látið af störfum sem ráðh. þegar þjóðin stendur frammi fyrir því, að öllum helstu sjúkrahúsum á landinu á að loka, neyðst er til að loka þeim vegna skuldasöfnunar í tíð þessa hv. fyrrv. ráðh. Ég verð nú að segja það, að mig skal ekki undra þó hann kvarti undan rósagjöfum hæstv. viðskrh. Svona er nú rósagarður hv. 1. þm. Vestf.: Frystihúsin lokuð, sjávarútvegurinn að stöðvast og sjúkrahúsin líka að stöðvast. Þetta er nú rósarækt í lagi!

Ég sleppi nú því sem ég vildi meira sagt hafa við þennan ágæta kunningja. En ég vil stuðla að áframhaldandi hamingju þessa fyrrv. ráðh. og að hann geisli af hamingju, og ég held að öruggasta ráðið til þess sé að þessi ágæti þm. setjist ekki aftur í ráðherrastól. Er honum þó margt vel persónulega til lista lagt.

Ég ætlaði örlítið að heilsa upp á 1. þm. Reykv., sem ég met mjög mikils. Þeim ágæta þm. er það gefið, að hann er haldinn óbilandi dugnaði og hann hefur ýmsa þá mannkosti sem góða menn mega prýða. Ég vildi gjarnan að ég hefði af flokksbræðrum mínum fleiri, sem væru jafnötulir og hann að ganga um í sínu kjördæmi og rétta fólki hjálparhönd, rétta hag þeirra, sem erfitt eiga, og aðstoða þá í mörgum tilfellum á hinn ótrúlegasta og drengilegasta hátt.

Ræða hans var fyrir ýmissa hluta sakir nokkuð merkileg. Ég hef ekki tíma til að fara langt út í það. Ég tek undir með honum, ég held að það sé ákaflega hættulegt að setja hér á háan fjárfestingarskatt, það verði þá að hyggja mjög vel að, á hvaða fjárfestingar sá skattur væri lagður, og það eru orð í tíma töluð, sem hann sagði, að fjárfestingarskattur sem ekki væri því markvissari, getur stuðlað að atvinnuleysi og verið hættulegur.

Hins vegar ásakaði hann mig fyrir að vilja rýra kaup launþega um 8%. Ekki lági ég honum þann málflutning. En svo kom fram, sem reyndar allir kunningjar og vinir þessa hv. þm. vissu, að hann hefði verið mjög vel hæfur í fjh.- og viðskn. þessarar hv. d., því vart hafði hann sleppt orðinu við mig um kauprán er hann bauð Alþfl. upp á „kontant“-viðskipti, skulum við segja. Upp á hvað voru þau? Þetta voru viðskipti fyrir opnum tjöldum. Hann bauð kauplækkun, þ.e.a.s. útborgað kaup með vísitölu yrði lægra, og það var ekki annað að heyra, — nú er þm. ekki við til þess að leiðrétta ef rangt er með farið, og ég vil ekki níðast á fjarveru hans, —ekki gat ég annað fundið en að það félli þá niður bótalaust. Sem sagt, fyrst kemur ásökun um að 8% eigi nú að taka af launþegum og 6.12% sé of lítið. Síðan kemur tilboð um viðskipti við Alþfl. um að það verði alls ekki 6%, heldur mun minna og það með öllu bótalaust. Það er dálítið athyglisvert, að jafnglöggur og mætur maður og hv. þm. skuli skora á Alþfl. að standa við skoðanir sínar í þessu efni og telja að Sjálfstfl. muni nú athuga að styðja slíkar tillögur.

Ég held ég sleppi nú öðrum atriðum vegna fjarveru þm. Þó get ég ekki fallist á að það sanni að engin stéttaskipting sé á Íslandi, að við séum báðir bornir og barnfæddir Reykvíkingar, við höfum báðir bílpróf og séum báðir um 100 kg og drekkum kaffi frá Brasilíu. Við spjöllum um það einhvern tíma síðar.

Það er nú ekki talað hér fyrir fjölmennum fundi. Hv. 4. þm. Reykv. virðist vera fjarstaddur líka. Hann hélt hér langa ræðu í gær. Ég skal stytta mál mitt líka gagnvart honum. Það var sama, hann harmaði það kauprán, sem nú væri á ferðinni, og taldi að verkalýðsfélög hefðu misnotað aðstöðu sínu. En þessi hv. þm. er kokvíður. Hann minntist ekkert á allar þær ráðstafanir, sem hann stóð fyrir á seinni hluta árs 1974, árinu 1975, 1976, þegar kaupmáttur almenns verkafólks minnkaði um 25–30% og hann minntist ekki heldur á, — og hefði verið býsna fróðlegt að lesa upp kafla úr ræðum hans þá, — að þegar kaupskerðingin var mest á árinu 1975 var verðbólgan líka mest. Kaupskerðingin og verðbólgan héldust í hendur. Menn skulu því ekki telja hana allra meina bót. Verkalýðsfélögin gerðu samninga 1976 um svokölluð rauð strik, sem átti að vera nokkurs konar millistig í sambandi við vísitölu. Það kom þannig út, að kaupmáttur hélt áfram að lækka. Þetta var ný vísitala, nýtt form á vísitölu, sem þótti á sínum tíma ákaflega merkileg, en kaupmáttur hélt áfram að lækka, þjóðartekjur jukust, framleiðsla óx, en kaupmátturinn minnkaði.

Það er líka athyglisvert, að ríkisstj. og fyrrv. forsrh. var margboðið að gera samkomulag um aukinn kaupmátt með verðlækkunum í staðinn fyrir hærra kaup, og því var margyfirlýst, að allar verðlækkanir yrðu metnar til jafns við kauphækkanir og ef einhver verðlækkun væri kjarabót, þá skyldi hún metin til fulls við kauphækkun. Við lögðum fram a.m.k. ein 14 atriði og buðum jafnframt, að ef ríkisstj. væri með eitthvað annað, þá mundum við taka því. Þessu var öllu hafnað, gjörsamlega, eins og það lagði sig. Verðbólgan hélt áfram að vaxa. Allar till. okkar í þessum efnum voru gjörsamlega hundsaðar. Félagslegar ráðstafanir, það litla sem gert var í því, hafa ekki komist til framkvæmda.

Hv. 4. þm. Reykv. hélt því líka fram, að brbl. hefðu verið brotin niður og við værum betur stödd ef lögin hefðu náð tilgangi sínum. Það er nú það. Lögin stóðu allan þennan tíma. Um hvað er fólk eiginlega að tala hér? Fólk talar eins og lögin hafi verið brotin á bak aftur. Það er nú aldeilis ekki. (Gripið fram í.) Ég kem að því síðar.

En það fór nákvæmlega eins og ég var að lýsa hér áðan í sambandi við 1. þm. Vestf., að verðlagið brunaði áfram og við stóðum frammi fyrir öllum þessum vanda, þó þetta ætti að leysa verðbólguvandann á sínum tíma og ættu ekki að vera neinar bráðabirgðaráðstafanir. Þetta var reynslan af því.

Síðan er sagt hver sé munurinn á þessum ráðstöfunum, sem við erum með núna, og þeim ráðstöfunum, sem eru í þessu frv. Við getum nú farið stutt yfir sögu í sambandi við febrúarlögin. Ríkisstj. gafst sjálf upp á að framfylgja þeim. Þar var náttúrlega tekinn helmingurinn af vísitöluhækkunum bótalaust og ekkert kom í staðinn, og ef einhver eftirvinna var unnin, sem unnin er á Íslandi hjá öllum meginþorra verkafólks, sem vinnur meira en 8 tíma, þá þýddi það að þá fékk það ekki þennan vísitöluhluta. En í brbl. var eftirvinna að vísu tekin með það voru lagfæringar í þeim frá febrúarlögum, og þá hefði eftirvinna, sem er 40% samkv. samningum, orðið nú 1. des. 15%. 1967 eða 1968 gerðum við samninga í atvinnuleysi og erfiðleikum undir þeirri viðreisnarstjórn, sem var raunar lofuð hér rétt áðan, um að við samþ. að kauphækkun kæmi eingöngu á dagvinnu, sem þýddi að álag á yfirvinnu fór úr 50% niður í 40% og á næturvinnu úr 100% niður í 80%. Við höfum ekki getað náð neinni leiðréttingu þar fram, en það hefði þýtt núna 1. des. að óbreyttum brbl., að eftirvinna væri komin niður í 15% úr 40% og næturvinna úr 80% í 30%. Þó liggur fyrir að að meðaltali er röskur þriðjungur af tekjum verkafólks fyrir yfirvinnu.

Það er sjálfsagt kúnst að reikna út hver skerðingin á þessu er. Þó er það mjög auðvelt. Það er mjög mismunandi eftir því náttúrlega, hvernig menn vinna og hver vinnutími manna er. En það er athyglisvert, að í sambandi við þetta voru engar aðrar ráðstafanir gerðar. Í sambandi við febrúarlögin átti að ræða við verkalýðsfélögin. Það endaði á því, að fulltrúar verkalýðsfélaganna, — ég var ekki í þeim hópi sem gekk á fund fyrrv. forsrh., — gengu út vegna þess að þeim var stillt upp frammi fyrir afarkostum.

Með brbl. var ekki boðið samkomulag um eitt eða neitt. Það voru tveir valkostir um mismunandi skerðingu.

Sannleikurinn er sá, að fyrrv. forsrh., 4. þm. Reykv., gerði hverjar verðbólguráðstafanirnar eftir aðrar. Hann rýrði kjör verkafólks ár eftir ár, og þó að harðar aðgerðir væru oft og tíðum knúnar fram, sem afstýrðu því versta, og þó svo kjör fólks væru rýrð, þá réð þessi hæstv. forsrh. ekki nokkurn skapaðan hlut við verðbólguna. Hún óx yfirleitt í öfugu hlutfalli. Eftir því sem laun rýrnuðu þaut hún meira upp, og þótt vísitalan væri að fullu tekin af hélt verðbólgan áfram. Sannleikurinn er sá, að ríkisstj. féll m.a. vegna þess að hún hafði engin ráð gegn verðbólgu önnur en niðurskurð á launum.

Það er rætt um að nú sé verið að skerða kjör verkafólks, nú sé verið að misnota aðstöðu o.s.frv., sem ekki þarf upp að telja. Ég skal reyna að stytta mál mitt. Kauphækkunin er 6.12%. Um það þurfum við ekki að deila. Því hefur aldrei verið mótmælt í gegnum árin, að hafa niðurgreiðslur innan ákveðins ramma, það hefur yfirleitt verið á valdi hverrar ríkisstj., eins og fram hefur komið. Það má segja sem svo að um niðurgreiðslur, sem koma á matvæli, að þeir, sem séu á lægstum launum, verji stærri hluta launa sinna til brýnustu lífsnauðsynja og hagnist þá á niðurgreiðslum. Stærri fjölskyldur hagnast á þeim, minni fjölskyldur hins vegar ekki, og þetta er eins og við þekkjum. Þetta er ákaflega persónubundið, en þó er meginreglan sú, að niðurgreiðslur hafa ekki verið af verkalýðshreyfingunni almennt afsagðar, þó það megi færa rök að því, hvernig tekna til þeirra sé aflað.

Beinir skattar á lágtekjufólki eiga að hækka um 2%. Það hefur ár eftir ár verið samið um beina skatta í kjarasamningum, það er ekki nýtt atriði, og það hefur verið samið um miklu stærri hluti en þetta. Það má deila um beina skatta eins og annað, og það er rétt sem Alþfl.-þm. segja: Það er kannske ekki eingöngu að skattarnir séu háir, heldur er misréttið sem viðgengst sem gerir fólk fullt tortryggni yfir að því finnst náunginn og jafnvel heilir þjóðfélagshópar sleppa þar býsna vel. Um þetta þarf ekki að halda langar ræður yfir hv. þm. Það þekkja þeir allt saman vel. Ef þarna er um að ræða sjúkratryggingargjald, sem var hækkað á síðasta ári, upp að einhverju ákveðnu tekjumarki félli það niður, þá náttúrlega gengur það dæmi alveg upp. Það má hugsa sér persónufrádrátt og það má líka hugsa sér skattþrepin önnur. Þetta er eins og annað. Þetta má misnota, en þetta þurfa ekki að vera mjög skuggalegir hlutir. Það eru þessar félagslegu umbætur.

Ég kunni ákaflega illa við það, satt að segja fór um mig hálfgerður hrollur og er ég nú ekki vanur að lesa neinar svona loðmullulegar greinar eða loðmullulegar ræður frá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, en þetta með leikþáttinn kunni ég ákaflega illa við. Okkur er full alvara í því í Verkamannasambandinu, sem lýsir sig reiðubúið til að styðja þessar aðgerðir, og teljum okkur standa á guðs og manna lögum, af því að þessi hv. þm. fór nú að ákalla æðri máttarvöld gagnvart Alþb. Verkamaður, sem unnið hefur t.d. í 25 ár hjá sama atvinnurekandanum, hefur einn mánuð í veikindadaga. Þegar verkalýðshreyfingin á sínum tíma, 1958, var búin að berjast fyrir því ár eftir ár og áður en þessi lög voru sett, þá reyndi Verkamannafélagið Dagsbrún að fá það í gegn, að sá, sem hefði unnið í 10 ár hjá sama atvinnurekanda, fengi 2. daga. Svarið var svart nei. Þetta var 1958.

Í samráði við verkalýðsfélögin beitti þáv. félmrh., Hannibal Valdimarsson, sér fyrir setningu laga um réttindi verkafólks til uppsagnarfrests og kaups á veikinda- og slysadögum. Síðan hefur tekist að auka nokkuð þennan lið, en við teljum að þarna þurfi lengra að ganga. Lögin frá 1958 hafa staðið og enginn flokkur lagt í að hagga við þeim, en mörgum prósentustigum hefur verið rænt af verkafólki í kaupi og öðru. Hjá okkur er þetta enginn leikþáttur. Þarna eru einföld mannréttindi á ferð. Ég sé enga ástæðu til þess, að maður, sem vinnur hörðum höndum, hvort sem er í frystihúsi eða við verklegar framkvæmdir, sé ekki hálfdrættingur, ef hann verður fyrir veikindum og slysum, á við ýmsa aðra þjóðfélagshópa betur launaða.

Síðan kemur hvert atriðið á fætur öðru, sem ekki er neinn leikþáttur, miklu frekar að það sé rósagarður. Það er ekki einungis um veikindadaga. Það er ákvæði um, að vextir séu eðlilegir af orlofsfé launþega. Það er engin ástæða til þess að vextir yfirleitt lægst launaða verkafólksins, lausráðins fólks, séu 5%. Mér er sagt að þetta sé sú deild hjá Pósti og síma sem best beri sig, því valdi lágir vextir af orlofsfé verkafólks.

Síðan er þátturinn í sambandi við öryggismál og hollustuhætti á vinnustöðum. Það er ekki ætlast til að það sé leikþáttur í því heldur aukin félagsleg réttindi verkafólks. Ég fer ekkert dult með það, að ég hefði viljað fá þann rósagarð sem hæstv. viðskrh. las hér upp. Ég hefði viljað fá hann samhliða þessum lögum. Það má færa að því nokkur rök, að ýmsir þættir þeirra Íagabreytinga séu breytingar á fleiri en einum lögum, kalli á keðjuverkandi breytingar. E.t.v. þarf ein breyting að breyta þrennum eða fernum lögum og þarf til þess dálítinn tíma. En forsrh. lýsti yfir í upphafi, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því að leggja sig fram um að slík réttinda- og hagsmunamál sem hér hafa áður verið tilkynnt og hafa verið kynnt þingheimi kæmu sem fyrst til framkvæmda.

Hitt er rétt, að hafa það sem satt og rétt er, að hæstv. forsrh. hafði á því nokkurn fyrirvara um hvenær þetta kæmi. Það hefði ég viljað reikna frekar í vikum heldur en mánuðum. Í nokkrum atriðum skal ég fallast á að þarna þarf kannske nokkurrar athugunar við. En í öðrum atriðum tel ég að þarna þurfi ríkisstj. og stuðningsmenn hennar og hæstv. forsrh. að leggja sig fram í því að koma með þessi lagaréttindi sem allra fyrst.

Ég er ósmeykur við að koma fram fyrir mína félaga með þessa réttindalöggjöf. Það er fráleitt að tala þar um einhver 3% fyrir t.d. opinbera starfsmenn. Að vísu var einhver sérstök yfirlýsing í sambandi við það, að meginhlutinn af þessum tillögum er um réttindi sem þeir hafa, og ég sé enga ástæðu til að láta lægst launaða fólkið vera afskipt að því leyti. En þessar félagslegu úrbætur geta í mörgum tilfellum verið miklu meira en 3%. Í öðrum tilfellum geta þær verið minna. Þetta er háð stund og stað. Þetta er háð aðstæðum og viðkomandi réttindum. En einkenni þeirra er það, að mannréttindi þeirra sem skertastir eru að réttindum, eru aukin.

Ég vona að hv. þm. Vilmundi Gylfasyni hafi hlaupið kapp í kinn þegar hann þurfti að spjalla við 1. þm. Austurl. og þá hafi þetta skotist út úr honum, en ég þykist vita að við eigum stuðning hans vísan þegar þessar till. koma í frv. -formi fyrir Alþ. og við eigum líka stuðning hans vísan, ef einhver dráttur verður á því hjá ríkisstj., að keyra þá sem mest af því í gegn.

Ég ætla ekki að fara í þann leik sem hér hefur verið tíðkaður, að fara að deila við aðra stjórnarþm. innbyrðis. Ég held, þó að okkur Vilmund Gylfason kunni að greina á um ýmsa hluti, þá þurfum við að hafa það dálítið vel í huga, að meginþorrinn af því fólki, sem flokkum okkar fylgir, treystir því og trúir því, að með samstarfi þessara tveggja flokka með 28 þm. og meiri hl. í ríkisstj. og í samstarfi við Framsfl. geti þeir gert varanlegar breytingar á þessu þjóðfélagi, það verði nýtt þjóðfélag, með félagslegu öryggi, réttlátara þjóðfélag, ekki síst fyrir þá sem lægst hafa laun. Ég held að þeir geri þær kröfur til okkar, að við verðum að reyna að halda saman við að koma þessum fjölmörgu réttindamálum fram.

Ég vil aðeins minna þennan hv. þm. á í sambandi við vísitölu að ég held að eitt erfiðasta ár, sem ég hafi lifað, hafi verið árið 1963. Þá var engin vísitala í gildi, en þá voru þrennir kjarasamningar gerðir á árinu og verkföll í öll skiptin.

Lýst er yfir að ráðstafanirnar séu gersamlega ónógar. Ég býst við að ég mundi vilja hafa þessar aðgerðir töluvert öðruvísi en þær eru, eins og hv. þm. Vilmundur Gylfason. Hins vegar vitum við að það fólk, sem nú býr við almenn laun, þolir ekki mikið, en það er reiðubúið engu að síður til þess að standa að þessum málum.

Vilmundur Gylfason hefur tekið að sér að siðvæða þjóðina, og ekki ætla ég, ósiðvæddur maðurinn, að fara að siðvæða hann. Þó vil ég aðeins segja það, að í þessum efnum ber fleira að varast. Þær hagfræðikenningar vaða uppi, að það sé óframkvæmanlegt að stöðva verðbólgu nema atvinnuleysi sé að einhverju verulegu leyti líka. Þetta eru kenningar sem geta átt við í einhverjum háþróuðum iðnþjóðfélögum. En ef á að koma til atvinnuleysis og ráðstafanir ríkisstj. eiga að valda atvinnuleysi hjá verkafólki, þá er mínum stuðningi lokið við þessa ríkisstj. Atvinnuleysi var ekki tilgangur hennar, og fyrst og fremst og á undan verðbólgu þarf að koma í veg fyrir atvinnuleysi.

Ég skal ljúka máli mínu. Verkamannasambandið hefur lýst yfir afstöðu sinni. Það er reiðubúið að leggja þessari ríkisstj. lið í baráttu gegn verðbólgu. Það mun leitast við að leggja till. sínar og afstöðu sína fyrir ríkisstj. Það mun leita eftir samstarfi við hana. Það gerir sér grein fyrir því, að það kemur ekki öllum sínum málum fram, fjarri því, en það mun leita eftir því að kynna ríkisstj. till. sínar og afstöðu. Ég held þess vegna að þegar Verkamannasambandið tekur þessa afstöðu, þá sé það að taka þá afstöðu að verið sé að byggja hér upp þjóðfélag sem beri meiri brag af jafnaðarmennsku, þjóðfélagslegu réttlæti heldur en verið hefur, og ég held að okkur verði seint fyrirgefið ef við af hvatvísi eða hótunum förum á fyrstu stigum málsins að slíta frið okkar á milli. Enginn skal ímynda sér að þetta sé neinn dans á rósum. Vel má það vera, að upp úr þessu slitni. Þá liggur fyrir tilboð Alberts Guðmundssonar. Ekki er ég sannfærður um, að gróið Alþfl.-fólk í verkalýðshreyfingunni hafi það tilboð að leiðarljósi. Ekki er ég heldur sannfærður um að það verkafólk sem kaus Alþfl., þó að sjálfsagt kenni margra grasa í þeim stóra hóp, hafi haft viðreisnina að framtíðarsýn.