29.11.1978
Neðri deild: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. um of. Ég þarf að koma hér fram örfáum orðum. Ég tók eftir því þegar ég las ræðu mína frá fyrri umr., að það hafði komið fram sá misskilningur í máli mínu að ekki væri vísitöluþak í þeirri grein sem fjallar um vísitöluna í frv. sem hér er til umr. Ég sé að svo er, og það er rétt að það komi fram sem sannara reynist. Ég bið velvirðingar á þeirri missögn minni, að svo væri ekki. En það, sem ég ætlaði fyrst og fremst að segja að þessu sinni, var eiginlega að þakka hv. 1. þm. Austurl. — ég sé að hann er því miður ekki í salnum hér núna — þakka honum fyrir að gera þó örlitla tilraun til þess að gera þessari hv. deild grein fyrir því, hvað þetta frv, þýddi að hans mati í útgjöldum ríkissjóðs og þar af leiðandi nauðsyn á nýrri skattheimtu. Hann sagði að niðurgreiðslustigið, hálfa prósentið sem væri ætlunin með þessu frv. að ganga lengra en með fjárlagafrv., mundi kosta ríkissjóð nm 800–900 millj. kr. En svo bætti hann við, að 2% skattbreytingarákvæðið, ákvæðið sem lækka á vísitölu um 2% vegna lækkunar skatta á lágtekjur, mundi kosta ríkissjóð í tekjutapi um 2–3 milljarða. Það er út af fyrir sig athyglisvert fyrir þessa hv. d., að ætlunin er að lækka skatta, sem ákveðnir voru í fjárlagafrv., um nokkra upphæð og fá þannig fram vísitölulækkun með lækkun tekjuskatta. Beinir skattar eru ekki í vísitölunni og það mælist ekki í hærri vísitölu þegar tekjuskattar eru hækkaðir. Það er nú einmitt það sem er á bak við allar þessar aðgerðir. Blekkingavefurinn felst í því, að tekjuskattar, sem eru ætlaðir til að standa straum af öllum þessum niðurgreiðslum sem hæstv. ríkisstj. stendur að, eru ekki mældir í vísitölu. Nú á hins vegar að fá fram lækkun á verðbótavísitölu með því að lækka tekjuskatta. Þetta er út af fyrir sig bráðsnjöll leið sem ég vil nú benda hv. þm. á og kannske ekki síst hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni sem hér er inni í deildinni. Ég fæ ekki skilið hvernig verkalýðshreyfingin getur samþykkt svona aðferð. Það er ætlunin með fjárlagafrv. að ná 3000 millj. kr. tekjuskatti með því að láta skattvísitöluna vera 143 á sama tíma sem launin hækka um 50%. Með þessu nást 3000 millj. kr. með lægri persónufrádráttum og skattstigum en ella væri. Nú er ætlunin að slaka á þessu. Þá á það að þýða vísitölulækkun. En þegar þetta var ákveðið þýddi það ekki vísitöluhækkun að leggja slíka aukna skattbyrði á.

Hér er sem sagt fundin alveg bráðsnjöll leið til þess að fá fram lækkun á verðbótavísitölu: bara ákveða tekjuskattana nógu háa og slá svo af þeim, þá kemur það fram í lækkun á verðbótavísitölu þegar skattarnir lækka, en vísitalan stendur í stað þegar þeir hækka. Þetta finnst mér alveg stórkostlega snjöll aðferð. Ég verð að játa að ég verð að gefa hv. 1. þm. Austurl. alveg sérstakt hrós fyrir að finna upp svona aðferð til þess að ná niður vísitölunni. (LJós: Er það nú víst að ég hafi fundið hana upp?) Það var hann sem mælti fyrir þessu sem formaður fjh.- og viðskn., og hann sagði að ætlunin væri að ná niður vísitölunni um 2% með því að lækka tekjuskatta og sjúkratryggingagjald, tekjuskatta með því að hækka skattvísitölu eilítið meira en í fjárlagafrv. stendur.

Síðan hélt hv. 1. þm. Austurl. áfram. Hann sagði: 3% félagslegar aðgerðir, það er erfitt að meta hvað það þýðir í auknum útgjöldum fyrir ríkissjóð. En hann giskaði á, að á þessu ári mundi það kosta 1–2 milljarða. Þarna er fundin önnur aðferð sem er enn þá ódýrari fyrir ríkissjóð heldur en að greiða niður vísitöluna, eins og oft hefur verið gert, eftir þessum ummælum hv. 1. þm. Austurl. Það kostar ríkissjóð, eins og hann sagði raunar sjálfur, 1700–1800 millj. kr. að greiða niður eitt vísitölustig, 1% verðbótavísitölu. En það á sem sagt að kosta aðeins 1–2 milljarða að greiða 3% niður í félagslegum umbótum.

Það er út af fyrir sig ágætt fyrir ríkisstjórnir komandi tíma, ef þetta góða vísitölukerfi helst, að hafa fordæmi þessarar ágætu ríkisstj. fyrir að greiða niður vísitöluna, eyða vísitölustigum, eins og var sagt hér, með svona stórsnjöllum hætti: í fyrsta lagi með því að lækka tekjuskatta, sem ættu þá að lækka vísitöluna þegar þeir lækka, en standa í stað þegar þeir hækka, og með því að leggja til félagslegar umbætur sem í raun eru þrisvar sinnum ódýrari í niðurgreiðslu vísitölunnar heldur en niðurgreiðsla á vöruverði. Mig undrar satt að segja að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki gera þetta einvörðungu með þessum tvennum hætti, greiða niður vísitöluna með skattalækkun og félagslegum umbótum, fyrst þetta er svona miklu umsvifaminna fyrir ríkissjóð heldur en sú gamla leið að greiða niður vöruverð.

Sannleikurinn er sá, að allt er þetta sami blekkingavefurinn. Og ég virði hreinskilni hv. þm. Vilmundar Gylfasonar þegar hann sagði að við vissum auðvitað allir að þetta væri sama leiðin, þetta væru sömu ráðstafanirnar og kallaðar voru kauprán í vor, því auðvitað kemur þetta í svipaðan stað niður.

Ef við lítum aðeins örstutt á það, hvað hér er í rauninni að gerast, þá er ríkissjóður, eins og ég hef áður bent á, að auka núna niðurgreiðslur á vöruverði um hvorki meira né minna en 17 milljarða kr., og til þess tekur hann tekju-og eignarskatta í staðinn. Það kostarríkissjóð með þessum hætti 1700 millj. að greiða stigið niður, en það firrir hann útgjöldum um 900 millj. í hækkun kaupgjalds og almannatrygginga, þannig að það kostar ríkissjóð í raun ekki nema 800 millj. að greiða niður vísitölustigið, á sama tíma sem með þessu er eytt 3400 millj. kr. í launum hjá öllum launþegum í landinu. Ég held nú að öllum hv. þm. sé ljóst, að það mundi ekki vera farið út í slíkt fen ef við byggjum ekki við það úrelta vísitölukerfi sem við búum við núna. Aðalgalli þess kerfis er sá, að það eru bara sumir skattar inni í vísitölunni, en aðrir ekki. Þess vegna er eina leiðin, ef menn ætla að leika svona leik með vísitöluna, að leggja á tekjuskatta og greiða síðan niður verðlag.

Að lokum þetta, herra forseti: Það er ljóst samkv. því sem frsm meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. sagði, að þetta frv. leggur að hans mati ekki minna en 5-h milljarða kr. byrðar á ríkissjóð. Þar að auki er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir sérstakri lækkun niðurgreiðslna á árinu 1979. Það vantar sem sagt 2800 millj. kr, til þess að standa við þá niðurgreiðslu. Ef við bætum því við 5–6 milljarða, þá eru komnir tæpir 9 milljarðar, skulum við segja. Síðan eru ótalmargir aðrir liðir í fjárlagafrv. sem þarf að leiðrétta, upp á marga milljarða kr., og mér er sagt núna að ríkisstj. hafi ákveðið t.d. að auka verklegar framkvæmdir um 2 milljarða. Það er því alveg ljóst, að eins og fjárlagadæmið stendur núna, eftir að þetta frv. hefur verið afgreitt úr þessari hv. d., vantar mikið á annan tug milljarða kr. til þess að endar nái saman. Það er útilokað mál að ná þessu fé með niðurskurði. Það er aðeins einn kostur eftir, og hann er að hækka tekjuskatta frá því sem ákveðið er í fjárlagafrv., ofan á tekjuaukaskatta og eignaraukaskatta og allt það sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur fundið upp.

Ég get ekki skilið samþykki Alþfl. við þetta frv. öðruvísi en hann sé fallinn frá þeim meginfyrirvara sem hann hafði við tekjuöflunardæmi ríkissjóðs, þ.e.a.s. tekjuskattinn, hækkun tekjuskatta. Það sem eftirstendur þá af stefnu Alþfl., sem hann lofaði í kosningunum, er þetta: Hann lofaði nýjum efnahagsúrræðum, það eru sem sagt auknar niðurgreiðslur á landbúnaðarvörur, framleiðniaukandi niðurgreiðslur, og stórhækkun tekjuskatta. Er ekki rétt munað að Alþfl. hafi lofað þessu fyrir kosningar - eða kannske alveg öfugt? En þetta er það sem menn eru að samþykkja núna. Ég spurði við 2. umr. hvort þetta væri ekki réttur skilningur hjá mér, að Alþfl. væri fallinn frá fyrirvörum við fjárlagafrv. með samþykkt þessa frv. Ég vænti þess, að þeir hinir vösku ungu menn, sem hér hafa talað fyrir Alþfl., sitji ekki algerlega klumsa undir þeirri spurningu.