29.11.1978
Neðri deild: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vék nokkuð að því í fyrri ræðu minni við umr. um þetta frv., að forvígismenn Alþb. í launþegasamtökunum hefðu snúist, afstaða þeirra væri önnur nú en hún var til efnahagsráðstafana fyrrv. ríkisstj. í febrúarmánuði s.l. Ég held því fram, að þær efnahagsráðstafanir, sem þetta frv. felur í sér, hafi í för með sér meiri kjaraskerðingu en efnahagsráðstafanirnar frá því í febr., að ég tali nú ekki um að viðbættum brbl. í maí. Efnahagsráðstöfunum fyrrv. ríkisstj. var mætt með ólöglegu verkfalli og löglegum verkföllum og allt gert sem í valdi forvígismanna Alþb. í launþegasamtökunum stóð til þess að koma í veg fyrir að þær bæru árangur og næðu tilgangi sínum að draga úr verðbólgu í landinu og tryggja afkomu atvinnuveganna og atvinnuöryggi fyrir alla launþega í landinu.

Nú, þegar þetta frv. kemur fram, er því mætt með aflátsbréfi Verkamannasambands Íslands, en önnur launþegasamtök hafa að vísu ekki hingað til beygt sig svo í duftið eða snúið svo rækilega frá villu síns vegar, skulum við heldur orða það, vegna þess að ég álít þetta hugarfarsbreytingu til bóta hjá forvígismönnum Verkamannasambands Íslands frá því fyrr á þessu ári. En ein er sú skýring, sem gefin er á þessari breyttu afstöðu hv. 6. þm. Reykv., Eðvarðs Sigurðssonar, og hv. 10. þm. Reykv., Guðmundar J. Guðmundssonar, sem ég sé að því miður er ekki lengur á þingi og hefur forðað sér þaðan áður en til atkvgr. um þetta frv. kom. Sú skýring og afsökun, sem þessir hv. þm. hafa, er að samráð hafi ekki verið haft við verkalýðshreyfinguna í tíð fyrrv. stjórnar, eð launþegasamtökin hafi þá verið tilbúin að taka gildar ýmsar ráðstafanir stjórnvalda í stað launahækkana í krónutölu. Nú vil ég þess vegna rekja í eins stuttu máli og mér er unnt þau samráð, sem voru höfð af hálfu fyrrv. ríkisstj. við launþegasamtökin og fulltrúa launþegasamtakanna, og sömuleiðis drepa á nokkrar þær ráðstafanir sem voru gerðar í tíð fyrrv. ríkisstj. til þess einmitt að koma til móts við launþegasamtökin í landinu, þannig að þau gætu metið þær ráðstafanir á móti krónutöluhækkun kaups.

Okkur er öllum í fersku minni, að það var vinstri stjórnin 1971–1974 sem tók vísitöluna alfarið úr sambandi með brbl. eftir þinglok vorið 1974. Á þeirri stjórn báru ábyrgð m.a. þeir tveir hv. þm. sem ég hef sérstaklega nefnt. Alþb. bar ábyrgð á því, að vísitalan var tekin alfarið úr sambandi. Þannig stóðu málin þegar fyrrv. ríkisstj. tók til starfa. Þá voru gefin út brbl. sem fólu í sér sérstakar láglaunabætur til þess að draga úr kjaraskerðingu sem afnám vísitölubindingar vinstri stjórnarinnar hafði haft í för með sér gagnvart láglaunafólki. Þá voru ítarleg samráð höfð við forvígismenn launþegasamtakanna í landinu, m.a. við báða þessa hv. þm., Eðvarð Sigurðsson og Guðmund J. Guðmundsson. horvígismennirnir gerðu hvorki að játa eða neita. Láglaunabæturnar voru í lög færðar og giltu fram eftir vetri og fram á vor, þegar samningar voru gerðir milli launþega og vinnuveitenda, og brbl. voru síðan aðlöguð þeim samningum af hálfu ríkisstj. og þannig samþ. sem lög frá Alþingi. Síðan áttu sér stað í þrem samningahrotum ítarleg samráð milli vinnuveitenda og launþega á árunum 1975 og aftur 1976 og áttu sér stað margvísleg víxláhrif sem of langt yrði upp að telja að sinni. Þá lögðu stjórnvöld, fyrrv. ríkisstj., sitt af mörkum til að þessir samningar tækjust, fyrst með staðfestingu láglaunabótanna með nokkurri breytingu, síðan með því að miða verðlagsuppbætur við svokölluð rauð strik. Með þessum hætti náðust hóflegir kjarasamningar sem höfðu í för með sér að verðbólgan var komin niður í 26% á árinu 1977, þegar þá var gengið til kjarasamninga. Einnig þá, áður og meðan í samningaumleitunum stóð vorið 1977, bauðst ríkisstj. til að gera ýmiss konar ráðstafanir. Að vísu skal það játað, að á þessu tímabili bárust óskalistar frá forvígismönnum launþegasamtakanna og Alþýðusambandi Íslands sem voru lengri og víðtækari en ríkisstj. taldi sér kleift að verða við. En ég leyfi mér — með leyfi forseta — að lesa hér upp formála að fréttatilkynningu frá ríkisstj. sem gefin var út í tengslum við samningaumleitanirnar vorið 1977, svo hljóðandi:

„Eftir viðræður ríkisstj. og fulltrúa samtaka launþega og vinnuveitenda hefur ríkisstj. ákveðið að beita sér fyrir ýmsum ráðstöfunum á sviði efnahags- og kjaramála til þess að stuðla að lausn vinnudeilunnar milli ASÍ og vinnuveitenda. Ráðstafanir þessar munu m.a. fela í sér um 2–3% aukningu kaupmáttar ráðstöfunartekna almennings. Forsenda ráðstafananna er að samkomulag náist milli deiluaðila um launabreytingar sem ekki stefni að meiri kaupmáttaraukningu milli áranna 1976 og 1977 en 6–7% í heild og ámóta aukningu milli áranna 1977 og 1978 og horfi jafnframt til launajöfnunar.“

Hér á eftir fara meginatriði þeirra ráðstafana, sem ræddar höfðu verið, og síðan eru taldar upp ráðstafanir í skattamálum, í lífeyrismálum, í vaxtamálum, í verðlagsmálum, í húsnæðismálum, í vinnuverndarmálum, í dagvistunarmálum, og það fylgdi með, að ráðstafanirnar í skattamálum, sem voru settar í framkvæmd, ráðstafanirnar að nokkru leyti í lífeyrismálum, sem voru framkvæmdar ásamt niðurgreiðslum, þessar ráðstafanir hefðu í för með sér um 2–3% aukningu kaupmáttar ráðstöfunartekna almennings á því ári. Okkur datt sannast að segja ekki í hug að fara að meta ráðstafanir í öðrum málaflokkum til lækkunar á kröfum launþegasamtakanna eða til hækkunar á kaupmætti ráðstöfunartekna eða kauptaxta, eins og sýnist vera meiningin með því frv. sem hér er til umr. og forvígismenn launþegasamtakanna virðast taka gott og gilt.

Ég vil bæta því við í sambandi við tilboð ríkisstj. við samningana 1977, að ríkisstj. hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki tekið aftur þetta tilboð þegar samningarnir leiddu að lokum í ljós að grunnkaupshækkun í samningunum hafi orðið milli 27 og 30% og þannig í raun og veru farið út fyrir þann ramma sem fyrirsjáanlegt var að efnahagsgrundvöllur þjóðarinnar leyfði. Ríkisstj. taldi hins vegar of mikinn ábyrgðarhluta að taka þetta tilboð til baka og stofna þá til vinnustöðvunar og verkfalls sem leitt gæti tjón yfir landslýð.

Ég minni á það líka, að áður en febrúarráðstafanirnar voru gerðar fóru fram ítarlegar viðræður við forvígismenn launþegasamtakanna og aðstaða atvinnuveganna, horfur í efnahagsmálum og fyrirætlanir ríkisstj. voru kynntar þeim. Það er rétt, að ekki náðist samkomulag við forvígismenn launþegasamtakanna. Þeir báru þá ekki síst fyrir sig fyrirætlanir um það að taka óbeina skatta og niðurgreiðslur út úr vísitölunni frá og með næstu áramótum. Þetta er þó eitt af þeim atriðum sem þeir tjá sig nú viljuga til þess að ræða nánar. Að öðru leyti voru ráðstafanirnar með febrúarlögunum að engu leyti frábrugðnar þeim ráðstöfunum sem nú er verið að gera, nema hvað þær voru mildari gagnvart hinum lægst launuðu í þjóðfélaginu. Ég hef áður lýst yfir að samkv. lögunum frá því í febr. s.l. var full verðlagsuppbót ætluð þeim er höfðu 88 þús. í mánaðartekjur í des. 1977. Enn fremur kom það fram að með öðrum hliðarráðstöfunum mundi kaupmáttur vera aukinn um 1.5–2%. Ég gerði grein fyrir þessu í framsöguræðu með þessum ráðstöfunum á þessa leið, með leyfi forseta:

„Í frv. þessu eru gerðar till. um ráðstafanir til að milda áhrif helmingunar verðbóta á kaupmátt og lífskjör almennings og lækka verðlag með nokkurri lækkun skatta og aukningu niðurgreiðslna. Barnabætur eru hækkaðar um 5%, en það léttir skattbyrði barnmargra fjölskyldna, og gert er ráð fyrir lækkun sérstaks vörugjalds úr 18% í 16%. Þá er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki með launum og á sömu dögum, og auk þess er gert ráð fyrir sérstakri hækkun tekjutryggingar og heimilisuppbótar umfram launahækkun hinn 1. mars n.k. Loks hyggst ríkisstj. auka niðurgreiðslur vöruverðs um 1300 millj. kr. á ári, en það jafngildir 1% í kaupmætti ráðstöfunartekna. Kaupmáttaráhrif þeirra ráðstafana, sem hér hafa verið nefndar, jafngilda, þegar allt er talið saman, tæplega 1.5% aukningu kaupmáttar ráðstöfunartekna frá því sem ella hefði orðið.“

Ég vil með þessu undirstrika, að þeir, sem höfðu eingöngu dagvinnutekjur í frystihúsum, fengu með þessum hætti fulla vísitöluppbót á laun sín samkv. verðlagi á hverjum tíma. En í þeim lögum sem nú er verið að tala um, verða þessir launþegar fyrir frádrætti launa sem nemur 8'%, og hefði vissulega verið talað um í febr. s.l. af fyrrnefndum þm. að um kauprán væri að ræða af minna tilefni.

Það var efni málsins í febr. s.l., að þá átti kaupgjaldsvísitalan að hækka um 10%. Hálfar verðbætur voru 5%. Skerðingin var þannig engin hjá hinum lægst launuðu í dagvinnu, þegar allt er meðtalið, en fór vaxandi í hálfar verðbætur á launabilinu frá því um og yfir 100 þús. kr. og upp í 170–180 þús. kr. Ég held að það sé engum blöðum um það að fletta, að fyrirhuguð lög, sem nú eru til meðferðar og afgreiðslu hér í hv. d., hafi í för með sér enn frekari skerðingu en febrúarlögin, að ég tali ekki um þegar tekið er tillit til brbl. í maí.

Auðvitað er það aldrei fagnaðarefni að grípa inn í samninga vinnuveitenda og launþega. Það er algert neyðarúrræði. Það var neyðarúrræði í febr. og maí fyrr á þessu ári, og það hlýtur að vera litið á það sem neyðarúrræði nú í nóv. Það var talað um kauprán af núv. stjórnarsinnum fyrr á þessu ári af sama tilefni og nú eru skrifuð bréf til að þakka auðmjúklega fyrir ráðstafanirnar.

Ég endurtek, að ég tel nauðsynlegt að draga úr víxláhrifum verðlags og launa. Ég tel nauðsynlegt að gera ráðstafanir sem ganga í þá átt. Og við getum ekki lokað augunum fyrir því, að um sinn þurfi e.t.v. að draga nokkuð úr þeim kaupmætti, sem að var stefnt með kjarasamningunum vorið 1977, til þess að tryggja betri og stöðugri afkomu og raunar meiri kaupmátt, þegar til lengdar lætur öllum launþegum landsins til handa. Það er efni málsins. Og það er líka efni þessara ráðstafana, sem nú eru gerðar, þótt ófullkomnar séu.

Auðvitað eru þessar ráðstafanir mjög ófullkomnar, ekki eingöngu vegna þess að þær eru bundnar við bráðabirgðaúrræði, eins og hæstv. forsrh. hefur rækilega lagt áherslu á. Þetta eru önnur bráðabirgðaúrræði núv. hæstv. ríkisstj., og þótt ég sé ekki þeirrar skoðunar, að það sé í einu vetfangi unnt að gera efnahagsráðstafanir sem dugi til allrar framtíðar, þá hefðu menn gert þá kröfu til þessarar hæstv. ríkisstj., að efnahagsráðstafanir hennar væru á traustari grundvelli byggðar og til lengri frambúðar en er samkv. þeirra eigin yfirlýsingu.

Við skulum athuga það, að hér hefur verið gagnrýnt af hálfu þm. Alþb., að það væri ætlun okkar sjálfstæðismanna með fyrri efnahagsaðgerðum og raunar skoðun ýmissa annarra þm., að það yrði ekki hjá einhverri kaupmáttarskerðingu komist, ef vinna á bug á verðbólgunni og tryggja atvinnuöryggi í landinu og afkomu atvinnuveganna. En hvað sýna þm. Alþb. með aðild sinni að þessum ráðstöfunum? Hver hefur þróunin orðið? Slagorðið og kosningaloforðið: „samningarnir í gildi“ átti að efna með brbl. í sept. Með þeim var kauptilkostnaður í landinu hækkaður um 61/2%. Þó bættist ekkert við dagvinnutekjur láglauna- og millitekjufólks, en hinir hærra launuðu fengu upp í 10–12% kauphækkun, og þrátt fyrir skerðinguna á yfirvinnukaupi fengu þeir, sem unnu yfirvinnu í frystihúsum, ekki nema 3–3.5% kauphækkun. Það var öll kjarabótin þeim til handa, sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson gerði núkið úr í ræðu sinni fyrr við umr.

En hvað stóð þessi dýrð lengi? Þeir, sem fengu enga kauphækkun í byrjun sept., og þeir, sem fengu 3 og 3.5% kauphækkun í byrjun sept., vegna þess að þeir höfðu unnið yfirvinnu eða ákvæðisvinnu og hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni finnst mikið til um, eiga núna að fá 8% kauplækkun, og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hrópa húrra og þakka fyrir. Það er ekki að furða þótt ég óski þeim til hamingju með raunsæja afstöðu og skoðanabreytingu.

Ég spurði: Hvað er orðið af loforðinu: „samningarnir í gildi.“ Ég rifjaði það upp í fyrri ræðu minni, að þegar verkalýðsforingjarnir voru spurðir hvað þeir ættu við með „samningana í gildi“, þá sögðu þeir að þeir ætluðu að tryggja þann kaupmátt sem að hefði verið stefnt vorið 1977. Hver var sá kaupmáttur? Sá kaupmáttur var langt fyrir ofan það sem enn hefur orðið eftir brbl. frá því í sept. Sá kaupmáttur er enn lengra fyrir ofan það sem að er stefnt með ráðstöfunum ríkisstj. nú. Með þessu er ég ekki að segja að það sé unnt að tryggja launþegum meiri kaupmátt. Ég held ekki. Ég held einmitt að í þeim ráðstöfunum, sem núv. ríkisstj. er að gera ráð fyrir og ætlast til að samþykktar verði, sé um hámarkskaupmátt að ræða sem við verum að horfast í augu við.

Það hefur verið rætt um að kaupmáttur hafi mjög minnkað á árunum 1975 og 1976, og það er alveg rétt, einkum kaupmáttur kauptaxta. Samkv. skýrslu, sem ég hef, er talið að miðað við ársmeðaltal 100 á árinu 1974 hafi kaupmáttur kauptaxta farið niður í 85 og 81 á árunum 1975–1976, en á þessum árum gliðnar einmitt bilið milli kaupmáttar kauptaxta launþega og kaupmáttar ráðstöfunartekna á mann. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann minnkaði mun minna eða úr 100 í 89 og 91 árin 1975 og 1976. Auðvitað skiptir kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann meira máli en kaupmáttur kauptaxta allra launþega, vegna þess að í kaupmætti ráðstöfunartekna er tekið tillit til skattbyrða. Þótt skýringin sé fólgin m.a. í yfirvinnu, ákvæðisvinnu, auknum tekjum sjómanna miðað við aðra launþega í landinu og yfirborgunum almennt, þá er vitað að á þessu tímabili lengdist ekki vinnutími sem máli skipti á viku hverri, þannig að hér var um raunverulegar tekjur að ræða, — tekjur sem menn höfðu til ráðstöfunar. Sem betur fer náði kaupmáttur kauptaxta allra launþega á árinu 1977 90 miðar við 100 árið 1974, og kaupmáttur ráðstöfunartekna fór yfir kaupmáttinn að ársmeðaltali 1974 eða í 101.

Nú skulum við taka það með í reikninginn, að kaupmátturinn 1974 var byggður á sandi, hann var byggður á viðskiptakjörum sem við höfðum notið best þeirra er sagan greinir frá, en fóru hríðversnandi á árunum 1974, 1975 og langt fram á árið 1971. Á árunum 1974, 1975 og fyrri hluta árs 1976 versnuðu viðskiptakjörin um 2530%. Ég hef séð það einhvers staðar í skjölum, að menn vildu taka tillit til 2% rýrnunar kaupmáttar fyrir hönd launþega í landinu, hvað þá heldur er ástæða til að taka tillit til 25–30% rýrnunar viðskiptakjara. Ég held þess vegna að rýrnun kaupmáttar hafi verið óhjákvæmileg á þessum árum, bæði af þeirri ástæðu, að boginn hafði verið spenntur of hátt með kjarasamningunum vorið 1974, eins og ráðstafanir vinstri stjórnarinnar þá um vorið, þegar hún tók vísitöluna úr sambandi, staðfestu, og enn fremur vegna þess að viðskiptakjörin fóru versnandi í kjölfarið.

En sem betur fer fór kaupmátturinn vaxandi upp frá því, og það, sem við sjálfstæðismenn sögðum í byrjun þessa árs og fyrir kosningarnar í vor, var að þær efnahagsráðstafanir, sem gerðar hefðu verið, væru við það miðaðar að verndaður væri sá kaupmáttur sem var í byrjun þessa árs og var um 15–17% hærri en fyrir kjarasamningana 1977, og jafnvel væri unnt að bæta hann nokkuð. Jafnframt var stefnt að því að koma verðbólgunni niður í 30% frá ársbyrjun til ársloka.

Hvað er nú hér á ferðinni? Ef við reiknum með að þær aðgerðir ríkisstj. verði samþykktar sem hér eru til umr., þá mundi verðbólgan vera á næsta ári milli 40 og 46% og nauðsynlegt að takmarka kaupgjaldshækkanir hvert vísitölutímabil við 5% á næsta ári til þess að ná þeim árangri að koma verðbólgunni niður í eða undir 30%, þ.e.a.s. að ná þeim árangri sem við hefðum getað náð nú þegar á þessu ári. Með þeim hætti væri sterkari grundvöllur til þess að bæta kjör launþega til frambúðar, það væri meira atvinnuöryggi og afkoma atvinnuveganna hefði verið betri og ekki hefðu verið teknar þær kollsteypur sem fylgja þeim gengisbreytingum sem átt hafa sér stað síðari hluta þessa árs.

Ég skal ekki fara fremur út í einstakar greinar þessa frv., sem hér er til umr., en ég hef þegar gert, enda hefur það verið rækilega gert af öðrum ræðumönnum. Ég vil þó að gefnu tilefni ræða nokkuð 4. gr. frv., ekki síst vegna þess ágreinings sem kom fram í fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. og getið er um í nál. minni hl. Þar var ágreiningurinn um það, hvort heimilt væri að greiða hærri verðbætur á laun en 4. gr. gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. samkv. kaupgjaldsvísitölu 151. Það var óskað eftir áliti fjh.- og viðskn., en það fékkst ekki. Stjórnarsinnar voru þar á öndverðum meið. Sömuleiðis voru fulltrúar þeirra samtaka aðila vinnumarkaðarins, sem voru á fundinum, mismunandi skoðunar að þessu leyti. Það var því nauðsynlegt af hálfu frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd., hv. 9. landsk. þm., Steinþórs Gestssonar, að spyrja hæstv. forsrh. greinilega um hvernig skilja bæri þessa grein. Og hæstv. forsrh. vékst ekki undan að svara, og vil ég leyfa mér — með leyfi forseta að sjálfsögðu — að lesa hér upp samkv. eftirriti af ræðu hæstv. forsrh., hvað hann sagði:

Hv. þm. spurði að því, hvernig ætti að skilja þessa grein. Hana á að skilja þannig, að það er engum skylt að greiða hærri verðbætur á þessu tímabili heldur en segir í þessari grein.“ Enn fremur: „Tilvitnun til 2. gr. í lögunum á að sjálfsögðu við það, að þakið á að gilda áfram. Hins vegar er það einnig svo og í samræmi við tilvitnun í l. kafla kjaralaganna, að mönnum er heimilt að semja um það hér eftir að greiða hærri vísitölu, alveg eins og þeim er heimilt að semja um það að greiða hærri grunnlaun.“ Enn fremur: „Lagaákvæði um þessi efni hafa mér vitanlega aldrei verið skilin á þvílíka lund, að launagreiðanda væri ekki heimilt að greiða hærra, ef hann bara gæti, og það væri eitthvað athugavert fyrir launamóttakanda að taka á móti hærri launum.“ Og enn fremur: „En það er ekkert bann við því, að á þessu tímabili sé samið um hærri vísitölugreiðslur né heldur um hærri laun.“

Það er sem sagt alveg ótvírætt, margendurtekið af hæstv. forsrh., að það er heimilt að greiða laun samkv. hærri kaupgjaldsvísitölu en greint er frá í þessu lagafrv., ef launagreiðandi ákveður það eða samningar takast um það milli aðila. Ég vík að þessu sérstaklega vegna þess, að eitt af glamuryrðunum í kosningabaráttunni í vor var bundið við kosningabaráttuna til sveitarstjórna, hér í Reykjavík við borgarstjórnarkosningarnar í maí s.l. Það er mönnum í fersku minni, að kjörorð núv. meiri hl. í borgarstjórn Reykjavíkur var „samningana í gildi“. Meiri hl. borgarstjórnar Reykjavíkur gerði í júní s.l. samþykkt um að samningarnir skyldu ganga í gildi í áföngum, eins og kallað var. Það voru að vísu vanefndir á þessu loforði sem var fyrirvaralaust. En frá og með 1. jan. 1979, stóð í þessari samþykkt, skyldu samningarnir ganga fullkomlega í gildi. Og það er hægt að vitna t.d. í núverandi forseta borgarstjórnar, Sigurjón Pétursson, fulltrúa Alþb. í borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem hann segir í viðtali við Þjóðviljann: „Að öðru leyti stendur ákvörðunin frá í sumar óbreytt og eftir áramót verður greitt kaup samkv. samningum með fullum verðbótum á öllum launum“ — jafnvel ekki með vísitöluþaki á hann við.

Það er sem sagt ekkert vafamál, að það er heimilt borgarstjórn Reykjavíkur að standa við þessa samþykkt sína. Það gæti verið umtalsefni hvort heimilt er samkv. skoðun hæstv. forsrh. að virða ekki þakið, en að öðru leyti er ótvírætt að fullar verðbætur koma á öll laun samkv. samþykkt borgarstjórnar frá því í júní s.l., ef núv. meiri hl. borgarstjórnar, sem er myndaður af stuðningsflokkum núv. hæstv. ríkisstj., stendur við orð sín. Það þarf sérstaka samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur ef þeir ætla að ganga á bak orða sinna. Ég vildi láta þetta koma hér fram, vegna þess að athyglisvert er, að úrskurð í þessu máli, sem að vissu marki hefur verið umræðuefni í borgarráði Reykjavíkur og sitt sýnst hverjum e.t.v., — úrskurð í því máli hefur hæstv. forsrh. kveðið upp varðandi skilning á þessu frv.

Herra forseti. Ég skal fara að stytta mál mitt, en vildi láta það koma hér fram, að allir núv. stuðningsflokkar hæstv. ríkisstj. hafa farið með mismunandi hætti í gegnum sjálfa sig við umr. um þetta frv. Það vekur athygli, að mestur tími umr. hefur farið í innbyrðis deilur þeirra sjálfra á milli, sem segir sína sögu. En að öðru leyti er það í stuttu máli að segja, að Alþb. og formælendur þess, sem hafa sagt að gengislækkun væri eingöngu til ills og engan veginn nauðsynlegt úrræði til lausnar efnahagsvanda, — Alþb. hefur staðið að 15% gengisfellingu í byrjun sept., nær 5% gengissigi síðan með leyfi hæstv. viðskrh. og stefnir nú með þessum efnahagsráðstöfunum, ef ekkert er að gert í framhaldi þeirra, í líklega 35–40% gengisfellingu eða gengissig á næsta ári. Þetta eru efndir Alþb. á því að koma í veg fyrir gengisfellingu. Efndir Alþb. og Alþfl. á því að koma samningunum í gildi eru að auka launakostnaðinn í landinu með tilstyrk Framsfl. í byrjun sept. um 6.5%, en skerða svo launauppbætur 1. des. um 8%. Skrefið er tekið til baka og meira en það. Það, sem átti að vera efndir loforðsins um „samningana í gildi,“ er að engu orðið og minna en það.

Alþfl., sem ætlaði að koma verðbólgunni niður með heildstæðum aðgerðum til langs tíma, hefur runnið á stóru orðunum sem að engu eru orðin. Hann stendur nú að aðgerðum. sem fela í sér 40–50% verðbólgu, án þess að hafa neina tryggingu fyrir öðrum aðgerðum í framhaldi sem stemmt geta stigu við verðbólgunni. Hann talar um að kaupgjald skuli ekki hækka á hverju vísitölutímabili um meira en 4% En jafnvel með 5% kauphækkun á hverju vísitölutímabili á næsta ári mundi verðbólgan vera um 36% á milli ára og um 30% frá ársbyrjun til ársloka. Við mundum standa í sömu sporum og við hefðum staðið ef t.d. Alþfl. hefði staðið með okkur sjálfstæðismönnum í efnahagsráðstöfunum fyrr á þessu ári. En jafnvel við þetta góða fyrirheit er ekki staðið af hálfu Alþfl. Og jafnvel þótt um slíka þróun mála væri að ræða, þá sæjum við fram á það, að gengisbreyting eða gengissig væri um 20–25% þrátt fyrir það að reiknað væri með að útflutningsverð hækkaði um 6–7% á næsta ári.

Framsfl. hefur svo dansað sinn Óla-skans-dans, hækkað kaupið í byrjun september og segir nú ábyrgðarleysi ef sú kauphækkun er ekki tekin aftur og meira til í byrjun desember.

Það er ekki von að unnt sé að treysta þeirri ríkisstj., sem hefur slíkan stuðning og slíka formælendur og sýnir með aðgerðum sínum það andlit sem ég hef nú lýst, og er þó ekki eitt andlit, ekki tvö andlit, heldur þrjú andlit og jafnvel fleiri, vegna þess að menn eru ekki á eitt sáttir jafnvel innan hvers stuðningsflokka ríkisstj. um sig.