29.11.1978
Neðri deild: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er nú sjálfsagt að taka tillit til óska forseta í þessum efnum. En það hefði kannske verið skiljanlegt, ef hæstv. forseti hefði fyrr óskað eftir því, að menn styttu mál sitt og þá ekki síður stjórnarsinnar, sem hafa haldið uppi málþófi og þrefi um þetta afkvæmi sitt síðan það var lagt fram og kom til 1. umr.

Því miður gat ég ekki verið á fundi deildarinnar í gærkvöld, en mér var sagt að hæstv. forsrh., sem sýnir nú þd. ekki þá virðingu að vera viðstaddur þegar mál sem hann leggur fyrir er rætt, hafi þá beint ýmsum ummælum til mín. Ég man eftir mönnum úr hans flokki sem neituðu að ræða mál ef viðkomandi ráðh. var ekki viðstaddur, stóðu þá jafnvel 20–30 mínútur hér í ræðustól meðan var verið að kalla á viðkomandi ráðh. og það kannske út af smámálum. En hér er ekki um neitt smámál að ræða sem þessi hæstv. forsrh. sér ekki sóma sinn að vera viðstaddur þegar er rætt.

Hann sagði í gærkvöld, að mér er sagt, að honum hafi fundist ég vera mjög ánægður í ræðustól og líka á eftir. Það er alveg rétt hjá honum, ég var ánægður, og ég er ánægður með að vera ekki bendlaður við frv. eins og þetta sem og aðrar aðgerðir þeirrar ríkisstj. sem nú situr. Hins vegar er ég ekki ánægður með það sem verið er að knýja fram og hve hart þjóðin er leikin af því ráðleysi sem núv. ríkisstj. hefur sett sér að stefnumiði að hafa í öllu og helst ekki að segja hug sinn í nokkru máli, en flytja aðeins úrræði sem eiga að duga nokkrar vikur í einu og kveða hálfkveðna vísu.

Táknrænt fyrir þessa ríkisstj. og þann meiri hl., sem mælir með samþykkt þessa frv. í fjh.- og viðskn., er nál. sjálft. Það er tæpar þrjár línur: „Meiri hl. fjh.- og viðskn. mælir með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að gera nánari grein fyrir afstöðu sinni í umr.“ Svo koma þessi indælu nöfn þarna undir. Þetta er allt nál. Þetta er allt sem fulltrúar þriggja flokka, stjórnarflokkanna, hafa að segja um þetta mál. Það er enginn rökstuðningur fyrir neinu, það eru engar skýringar gefnar, hvorki á einu né öðru. Ástæðan fyrir því er sú, að þeir fimm sálufélagar, sem skrifa undir þetta nál., koma sér ekki saman um neina skýringu, því að þar er hver höndin upp á móti annarri og hnakkrifist frá morgni til kvölds þegar þessir karlar hittast til að ræða það sem þeir hafa tekið að sér að gera, að stjórna landinu. Þetta er skýringin á þessu ómerkilega nál., sem þeir forvígismenn ríkisstjórnarflokkanna, Lúðvík Jósepsson og Vilmundur Gylfason, hafa komið sér saman um að hafa með þessum hætti. Ég er hræddur um að það hefði einhvern tíma sungið í 1. þm. Austurl. ef slíkur málatilbúnaður hefði verið viðhafður af öðrum flokkum.a.m.k. á meðan síðasta ríkisstj. sat að völdum stóð ekki á karli að hafa skoðun á hverju máli og tæta niður allt sem gert var, en nú þorir hann í hvoruga löppina að stíga.

Núv. ríkisstj. ætlar að auka enn niðurgreiðslur á vöruverði. Ég spurði um það í fyrradag, hvernig niðurgreiðslum á vöruverði yrði háttað nú 1. des. Forsrh., maðurinn sem segir, að það sé happadrýgst að taka stutt skref, sagði að það lægi ekkert fyrir um það enn þá. Nú er 29. nóv. í dag og vinnudegi er bráðum að ljúka, og það væri fróðlegt að fá að vita, fyrst forsrh. er ekki við, hvort guðfaðirinn geti eitthvað frætt þdm. um hvort þessar ákvarðanir liggi fyrir. Ég er ekki að spyrja ráðh. sem hafa bílstjórann í aftursætinu sem stýrir ferðinni, ræður gírnum og bensíngjöfinni, því að þeir vita sennilega lítið um það. Það er þá helst guðfaðirinn, sem getur einhverju svarað í þessum efnum, eða ráðsmaður hans, sem er nú fjarverandi.

Það væri líka fróðlegt að fá að vita hvernig á að framkvæma það fyrirheit sem er í fjárlagafrv. og var lengi kennt við fjmrh., sem hefur nú yfirgefið landið af eðlilegum ástæðum, hvernig á að framkvæma lækkun á niðurgreiðslum í byrjun næsta árs um hvorki meira né minna en 2800 millj. kr., eins og segir í aths. við fjárlagafrv. sem lagt var fram fyrstu dagana í nóv. Nú er lagt til að hækka niðurgreiðslurnar samkv. þessum skapnaði sem á að fara að ganga frá hér í þessari deild, en í fjárlagafrv. segir að strax eftir áramót eða snemma á árinu 1979 eigi að lækka niðurgreiðslurnar um 2800 millj. Það skilur enginn hvert á að fara og hvað á að gera.

Í aths. með frv., sem hér liggur fyrir, segir að ríkisstj. muni m.a. beita sér fyrir eftirgreindum aðgerðum, og síðan kemur: „Stefnt verði að því í samráði við aðila vinnumarkaðarins að verðlags- og peningalaunahækkanir 1. mars 1979 verði ekki meiri en 5%.“ Á annað kauprán að fara fram þá og fá þakkarbréf frá formanni Verkamannasambandsins eða jafnvel fleirum fyrir það kauprán? Á samhliða því að hækka niðurgreiðslur um 3800 millj. kr.? Er til of mikils ætlast að ráðsmaðurinn svari þessu eða yfirmaður ríkisstj.? (Gripið fram í.) Nei, það er ekki búið að svara neinu af þessu, vegna þess að þið vitið ekki neitt hvert þið eruð að fara, hafið ekki hugmynd um það enn. Þess vegna þurfið þið að svara því, hvað á að gera og hvernig þið ætlið að hækka niðurgreiðslur núna í des., lækka þær aftur í byrjun næsta árs um 2800 millj., á sama tíma sem þið farið fram á kauprán 1. mars. Þetta er ekki skiljanlegt frekar en margt annað í efnahagsmálum Alþb. Það er sannleikur málsins, að þegar vinstri stjórn hefur verið við völd er leikinn skollaleikur með vísitöluna meira en nokkru sinni áður. Alltaf á dögum vinstri stjórnar er hann leikinn, og allir vita hver er höfuðreiknimeistarinn í þeim skollaleik, enda berst Alþb. gegn því að gera nokkrar breytingar á vísitölugrundvellinum, sem er þó höfuðmarkmið til að komast hjá þeim skollaleik sem verið er að leika. Og verkalýðsleiðtogar Alþb. taka sannarlega þátt í þessum skollaleik með vísitöluna. Þeirra aðalkeppikefli er að borga niður þær vörur sem eru í vísitölunni, en svo mun ríkisstj. aftur stuðla að því að stórhækka ýmsar aðrar vörur sem teljast til útgjalda hvers heimilis í landinu. Það skiptir ekki máli, um það er aldrei rætt. Kannske hafa forvígismenn verkalýðshreyfingarinnar úr röðum Alþb. ákveðið að verkalýðurinn eigi að hætta að þvo sér. Ekki bendir verðlag á hreinlætisvörum og öðru slíku til þess, að verkamenn finni ekki fyrir þeim ógnarhækkunum sem verða á öllum slíkum vörum. En á það er ekki minnst.

Einkavinur forsrh., sem talaði hér í gærkvöld, er nú horfinn sporlaust af þingi. Ég trúi því ekki að sá þm., sem hann var hér fyrir í veikindaforföllum, hafi verið svo harður að taka sæti á þingi hér í dag, að þessi ágæti forvígismaður verkalýðssamtakanna hafi ekki mátt veita aðstoð til síðustu stundar hér í d. að greiða þessum skapnaði atkv. En kannske hefur honum fundist skárra að vera heldur í dag á „alþingi götunnar“ en hér í alþingishúsinu, enda er hann hagvanari þar.

Þegar við lítum á fjárlagafrv., lítum á þá hálfkveðnu vísu sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þá óskiljanlegu hluti marga sem hér er verið að tæpa á, þá er þó eitt vist, og það er að það vantar alveg tvímælalaust á annan tug milljarða í dæmið til þess að endar nái saman í fjárlagafrv. Þetta vita allir, og það hefði ekki verið til of mikils ætlast af ríkisstj. að láta liggja fyrir grg. um það, hvernig hún ætlaði, jafnhliða því að leggja þetta frv. fram, að afgreiða fjárlög hallalaust eins og a.m.k. einn flokkur í ríkisstj. hefur lýst yfir að hann hygðist gera, Framsfl. Ég held að Alþfl. hafi tekið undir það. Annars fer maður nú að hætta að muna hvað Alþfl, segir í dag og hvað hann segir á morgun, því að svo sveiflukenndur er málflutningur þess flokks, eins og greinilega kom fram í ræðu oddvita Alþfl, og nm. í fjh.- og viðskn. Hann byrjaði á því að lýsa andstöðu við frv. þetta og hellti úr skálum reiði sinnar yfir þá vondu menn, sem hann og flokkur hans væru í samvinnu við í ríkisstj., sem væru alltaf að kúga Alþfl. og plaga frá morgni til kvölds, og síðan endaði hann ræðuna á því að með tilliti til þess, sem hann hefði áður sagt, mundi hann styðja þetta frv. Nú er líka svo komið, að kratar víðs vegar um land eru farnir að ganga með veggjum, sem eðlilegt er, því að þeir hafa sómatilfinningu þó að sumir aðrir hafi hana ekki.

Þegar við lítum yfir það sem gerst hefur á þessu ári og hvernig viðnámi gegn verðbólgu hefur verið tekið og þá sérstaklega af verkalýðsleiðtogum Alþb., sem hafa barið niður allar tilraunir til þess að ná verðbólgunni niður, hafa staðið fyrir skemmdarstarfsemi í þjóðfélaginu hvað eftir annað, skaðað þjóðarheildina með framferði sínu, þá verður ekki hægt að segja annað en að nú í nóvemberlok sé heldur farið að lækka risið á körlum, þegar þeir eru farnir að senda frí sér skriflegt þakkarávarp fyrir kauprán og þá sérstaklega af þeim sem lægst launin hafa. Þessu hlýtur að verða tekið með miklum þökkum af verkamönnum og öðrum almenningi í landinu. Ætli það væri ekki annað ástandið í dag í baráttunni við verðbólguna ef þessir menn og sá flokkur, sem þeir eru að þjóna, en ekki verkalýðshreyfingunni, hefðu tekið upp virka baráttu fyrir því að draga úr verðbólguvandanum og hraða verðbólgunnar? Þá væru ekki eins harðar og erfiðar ráðstafanir sem menn þyrftu að taka á sig.

Ég kom í ræðu minni hér í fyrrakvöld inn á ástand og horfur í aðalatvinnuvegum þjóðarinnar, og ég lét þá í ljós áhyggjur mínar yfir því, hvernig eigi að ná öllu þessu fjármagni af atvinnurekstrinum til að halda áfram á þessari sömu braut. Ég held að stuttu skrefin, sem forsrh. telur að sé mjög mikilvægt að taka, muni ekki endast til þess að hafa neitt við dýrtíðinni. Ég held að það þurfi að taka myndarlegri skref en hann lýsti þegar hann fylgdi þessu frv. úr hlaði. En þetta er mál ríkisstj. Hvort sem stuðningsflokkum hennar þykir ljúft eða leitt að fylgja þessu máli, þá er þetta sú leið sem ríkisstj. hefur valið. Það er þessi leið, sem hún hefur valið, og verður ekki til þess að draga úr verðbólgunni, en stefnir hiklaust á þá braut, að samdráttur verður í atvinnurekstri í landinu stórlega og það sem ég óttast mest, að atvinnuleysi fari vaxandi þegar líður á veturinn.