29.11.1978
Neðri deild: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Eftir að hv. 7. þm. Reykv. hefur lýst því yfir, að frv, það, sem hér er til afgreiðslu, sé stórpólitískt glapræði, muni leiða okkur áfram út í enn frekari ógöngur og við séum að lögfesta 40–50% verðbólgu með þeim hætti, þá verður hann að hafa mig afsakaðan þó að ég undrist ofurlítið að hann skuli eftir sem áður ætla að greiða þessu frv. atkv., vegna þess að hann getur ekki sýnt mér fram á það, að þetta yrði ekki að lögum þótt hann fengi til þess leyfi að sitja hjá við afgreiðsluna og allir þeir af hv. Alþfl.-mönnum sem hafa tekið til máls um það efni. Þannig er nú þetta.

En kannske er þetta vegna þess að ég er ekki eins samviskuliðugur og hv. þm. virðist vera. Hann dæmir Sjálfstfl. af fyrir eitt atriði sem hann þykist festa hendur á, raunvexti. Á þetta hefur ekkert reynt. Ég býst við því, að Sjálfstfl. hafi verið sá flokkur undanfarin 4 ár, sem hafi barist einarðlega fyrir framgangi slíkrar stefnu. En það er þýðingarlaust að ganga beint framan að mér og spyrja: Hvernig ætlar þú að greiða atkv. frv. sem ég hef flutt um þetta efni? — án þess að gera mér grein fyrir því, hvernig það sé framkvæmanlegt. Ég held að raunvaxtastefnan sé ekki framkvæmanleg nema okkur takist að lækka verðbólguna verulega. Ég er þessarar skoðunar og byggi hana á kunnugleikum mínum af íslensku efnahagslífi.

Ég nenni ekki og hirði ekki að svara fullyrðingum um að ég hafi ráðið neikvæðum vöxtum hjá Framkvæmdastofnun ríkisins og Byggðasjóði. Það getur hv. þm. Vilmundur Gylfason leitað sér upplýsinga um hjá formanni Alþfl., hæstv. utanrrh. sem hefur setið allan tímann í aðalstjórn Framkvæmdastofnunarinnar og getur borið vitni um hvernig tillögur „kommissaranna“ hafa gengið fram, sem þeir hafa flutt æ ofan í æ um að hækka vexti til þess að varðveita betur ráðstöfunarfé Byggðasjóðs. Ég nenni ekki að elta ólar við þessar fullyrðingar hans.

En hvar sem borið er niður í málflutningi, þá kemur í ljós að hv. 7. þm. Reykv. og hv. 11. landsk. þm. t.a.m. hafa ekkert séð við þetta frv. annað en það mundi leiða okkur í enn meiri ógöngur en orðið er, — ekkert annað hafa þeir séð. Og hvernig þeir hafa vikið sér að guðföður ríkisstj., hv. 1. þm. Austurl., er með ólíkindum. Þá greinir gersamlega á um öll meginatriði í stjórnarstefnunni. Það liggur alveg ljóst fyrir af málflutningnum. Þó var það sérkennilegt við ræðu hv. 1. þm. Austurl. í gær, að hann vildi fá svör við því hjá Alþfl., í hverju þá greindi á, og bað nú alla krata að koma til og sýna sér það. Það væri þá ekki nema kannske í einhverjum upphrópunum um heildstæða stefnu í efnahagsmálum, sem hann sagði að þeir gætu ekki einu sinni gert grein fyrir, hvað þá meir.

Þegar ég hugsa til hlutverks hv. 1. þm. Austurl. í ríkisstj. 1971–1974 og eins hlutverks hans í þessari ríkisstj., þá dettur mér ævinlega í hug mölur í fataskáp. Það er vegna þess að ég fæ ekki betur séð en viðbrögð hans við ýmsu af því, sem loforð hafa verið gefin um á fundum með hv. kjósendum fyrir kosningar og í stjórnarmyndunum, — þau klæði, sem hæstv. ríkisstj. kastar á sig hverju sinni, komi hann til með að éta upp með afstöðu sinni til ýmissa mikilsverðustu málaflokkanna. Þetta ætla hv. Alþfl.-menn að láta sér lynda.

Ég skil fullvel málflutning hv. þm. Vilmundar Gylfasonar. Ég skil hann fullvel, ef hann gæti fært mér heim sönnur um að atkv. hans sé alveg nauðsynlegt til þess að koma þessum lögum fram. Það getur hann að vísu ekki, og fyrst svo er ekki, þá er það í meira lagi sveigjanleg samviska sem rekur hann til þess arna.

En það, sem við erum í raun og veru fullvissaðir um í allri þessari málafærslu, er það, að Alþfl. hefur ekki ráðið nokkrum sköpuðum hrærandi hlut um stjórnarstefnuna fram til þessa dags, — alls engu. Það verður ekki lesið annað út úr orðum þeirra Alþfl.-manna. Það kemur í ljós, að ekkert af höfuðstefnuskráratriðum þeirra hefur náð fram að ganga. Þetta er höfuðatriði málsins.

Auðvitað læt ég mér í léttu rúmi liggja með hvaða hætti hv. þm. Vilmundur Gylfason stendur að lokaafgreiðslu þessa máls, þótt það sé með algerum ólíkindum. Og ég minnist þess ekki að hafa staðið neinn þm. að því í jafngallharðri andstöðu við mál að fylgja samt því að það verði að lögum. En höfuðatriðið er sem sagt þetta, að engir höfuðþættir í stefnu Alþfl. hafa náð fram að ganga í þessu stjórnarsamstarfi. (Gripið fram í.) Enda þótt svo sé er ekki að sjá neitt fararsnið á þessum hv. þm. þótt þeir séu, eins og þeir lýsa sjálfir, svínbeygðir með þessum hætti.

Varðandi utanríkismálin, eins og hv. þm. skaut hér fram í, þá er svo sem ekkert sérstakt af þeim að segja annað en það, að það er sú stefna sem Sjálfstfl. barði með illu inn í Alþfl. á sínum tíma og Alþfl-menn hafa ekki getað losað sig við síðan. Og þó að ég vilji að vísu ekki vitna til fjarstaddra manna. þá hygg ég að þá barsmíð ætti hv. 7. þm. Reykv. að þekkja alveg sérstaklega af innanhúsástæðum, vil ég nefna það, án þess að fara frekar út í þá sálma, þannig að við sjálfstæðismenn eigum allar þakkir skildar fyrir skynsamlega stefnu Alþfl. í utanríkismálum í bráð og lengd. Þannig er nú þetta, svo að það er engin ástæða fyrir mig að lengja orðræður mínar hér þess vegna.

Herra forseti. Ég fellst á það að vera stuttorður. En ég vík því til hæstv. forseta að biðja hann að gá að því hjá sér og sínu liði, hvort það vilji ekki góðfúslega fallast á að hraðað verði málsmeðferðinni svo að ljúka megi málinu í tæka tíð, en gefa ekki stöðugt upp boltann sem stjórnarandstöðumenn sjá sig til knúna að grípa við.