29.11.1978
Neðri deild: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tek undir tal hv. síðasta ræðumanns um þetta boltaspil.

Ástæðan fyrir því að ég stend hér upp aftur í þessu máli er einfaldlega sú vorkunnsemi sem vaknar í brjósti mínu þegar ég sé hvernig Alþfl.-menn berjast um í þeim böndum sem þeir virðast hafa verið hnýttir í. Hv. 7. þm. Reykv. talar um það í hvert skipti sem hann kemur upp í ræðustól, hvað valkostirnir séu vondir, þegar hann þurfti að gera upp hug sinn um hvorn eigi að velja: annars vegar að 14% verðbólgustig rúm fari út í verðlagið og hins vegar þetta bölvaða frv. sem hann þarf að samþykkja og er búinn að lýsa stuðningi sínum við.

En það barst í tal út frá þeim umr., sem innan ríkisstj. áttu sér stað og innan stjórnarflokkanna, að Alþfl. hefði haft ákveðnar hugmyndir um aðrar lausnir, sem er þá þriðji valkosturinn. Þær lausnir, eftir því sem ég best veit, voru að setja þak á laun, setja þak á vísitölu, gera ráðstafanir til langs tíma og kannske eitthvað fleira. Ég vil ítreka það úr þessum ræðustól, að ég skora á Alþfl. að leggja fram þennan þriðja valkost og hugmyndir sínar í frv.-formi og láta reyna á það, hvort það er meirihlutastuðningur við þær hugmyndir, sem þeir kæmu þá fram með á hv. Alþ., og vita hvort það er ekki hægt að leysa þá undan þessum kvöðum að velja á milli tveggja svona slæmra úrræða. Mér er spurn og væri gott að fá svar við þeirri spurningu: Hvað neyðir Alþfl.-menn til að hlýða þessu kalli og samþykkja aðgerðir sem þeir sjálfir eru sannfærðir um að koma illa niður á þjóðinni? Ég verð að taka undir það með hv. 1. þm. Vestf., að það er engin furða þó að trúir og tryggir Alþfl.-menn séu farnir að læðast með veggjum. Það kemur engum á óvart, ef þessu heldur áfram.

Hv. 7. þm. Reykv. talar um kosningaglamur Alþb. Guð almáttugur, hann mætti líta sér nær, varðandi vandræðabarnið í aftursætinu. Þvílíkar umr. á stjórnarheimilinu! En það er þeirra mál. En ég ætla að biðja ykkur stjórnarþingmenn góðir: Í guðanna bænum hættið að rífast. Ég skal segja ykkur, af hverju ég fer fram á það í einlægni, og beini þeirri ósk minni ekki síður til ráðh. eftir þær umr. sem hér fóru fram — að vísu í fjarveru hæstv. forsrh. — á milli ráðh. utan dagskrár. Ég geri það einfaldlega vegna þess, að ég held að það sé slæmt fyrir Sjálfstfl. ef þið talið ykkur upp í stjórnarslit áður en þjóðin gerir sér ljóst að vinstri flokkarnir geta ekki stjórnað landinu og að eina úrræðið er að Sjálfstfl. nái hreinu meirihlutafylgi í næstu kosningum, sem hljóta að vera skammt undan ef þessu rifrildi milli stjórnarliða er haldið áfram miklu lengur. Meira ætla ég ekki að segja. En ég ætla að ítreka, ef það hefur farið fram hjá einhverjum: Hættið að rífast og sitjið svolítið lengur við stjórnartaumana.