29.11.1978
Efri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég held, að hæstv. forsrh. hefði heldur átt að huga að hringsnúningi sínum í afstöðu til efnahagsmálanna heldur en að víkja að Sjálfstfl. með þeim hætti sem hann gerði áðan. Sannleikurinn er sá, að Sjálfstfl. sér slíka meinbugi á því frv., sem hér er til umr., að honum þykir fara best á því að stjórnarsinnar beri einir ábyrgð á slíkri lagasetningu sem hér er lögð til.

Hæstv. forsrh. sagði að frv. það, sem við ræðum hér, miði fyrst og fremst að lausn þess efnahagsvanda sem fyrirsjáanlegur væri 1. des. n.k. Hann sagði enn fremur að líta bæri á þetta frv. sem lið í þeirri viðleitni ríkisstj. að ná fram varanlegum breytingum í efnahagsmálum sem komi til framkvæmda þegar á árinu 1979.

Við skulum athuga frv. lítillega í ljósi þessara fullyrðinga hæstv. forsrh.

Kjarna þessa frv. er að finna í því ákvæði þess, að á tímabilinu 1. des. n.k. til 28. febrúar 1979 skuli greiða verðbætur á laun skv. verðbótavísitölu 151 stig. Hvað þýðir þetta? Það á að skerða verðbætur á laun sem nemur 8 vísitölustigum. Ef ekkert væri að gert hækkaði verðbótavísitalan frá og með 1. des. n.k. úr 145 stigum í 159 stig eða sem nemur 14 stigum. Þessum 14 stigum er skipt þannig, að 8 stigum á að fórna til baráttu gegn verðbólgunni, en 6 stigum á að fórna á altari slagorðanna um samningana í gildi. Það er ekki spurt um það, hvort atvinnuvegirnir þoli nú kauphækkanir, þótt nú sé svo að þeim sorfið að við stöðvun liggi, með þeim afleiðingum fyrir launþega og þjóðarbúið í heild sem blasa við þeim sem sjá vilja. Því er engu skeytt, þó fyrir liggi yfirlýsingar af hálfu atvinnuveganna, studdar óyggjandi staðreyndum, að nú sé ekki tími til kauphækkana. Ekkert er atvinnuvegunum ætlað á móti til að standa undir auknum kostnaði. Ekkert er þeim ætlað nema auknar skattbyrðar.

En hvað um 8 vísitölustigin sem á að fórna til baráttu gegn verðbólgunni. Það kemur í ljós af málflutningi ríkisstj. að engu á að fórna. Frv. gerir ráð fyrir aðgerðum sem ætlað er að koma á móti þessum 8 stigum sem á að skerða verðbótavísitöluna um. Gert er ráð fyrir að auka niðurgreiðslur vöruverðs frá því sem þær eru í nóvember 1978 sem svarar 3%, af verðbótavísitölu þeirri sem gildir fram að 1. des. 1978.

Í rauninni er þetta engin leið af tveimur ástæðum. Annars vegar eru niðurgreiðslur á vöruverði þegar orðnar svo miklar að það skekkir alla verðmyndun í þjóðfélaginu og þar er ekki á bætandi. Hins vegar verða auknar niðurgreiðslur ekki framkvæmdar nema með mjög auknum greiðsluhalla á ríkissjóði eða aukinni skattheimtu og á hvorugt er bætandi af augljósum ástæðum.

Þá gerir frv. ráð fyrir að ríkisstj. beiti sér fyrir aðgerðum og lagasetningu til ýmissa félagslegra umbóta sem metnar eru til kjarabóta sem 3% af verðbótavísitölu þeirri sem gildir fram til 1. des. 1978. Hverjar þessar félagslegu umbætur eru segir lítið. En hverjar sem þær kunna að verða munu þær kosta fé sem rennur út í verðlagið og eykur, þegar til lengdar lætur, þar með á verðbólguna á hliðstæðan hátt og samsvarandi kauphækkun mundi gera, svo ekki sé nú minnst á þau vinnubrögð sem hér á að innleiða með því að reikna alþýðu manna til kauphækkunar almenn umbótamál og framkvæmdir í landinn.

Athygli vekur og að efnahagsráðstafanir skv. þessu frv. eru að því leyti harðari en í febrúarlögunum. að ekki er gert ráð fyrir láglaunauppbót eins og þá.

Þá er hækkun bóta almannatrygginga ekki í samræmi við verðbólguaukninguna, því að þessir aðilar munn ekki nema að mjög takmörkuðu leyti njóta þeirra félagslegu umbóta sem látið er í veðri vaka að verði gerðar.

Í rauninni er það svo, að ríkisstj. segir með þessu frv. við launþega: Við tökum af launum ykkar 8 vísitölustig. En verið óhræddir, við gefum ykkur þetta til baka í auknum niðurgreiðslum á vöruverði, lækkuðum sköflum og félagslegum framförum. — En ef staðið verður við þetta verða ekki einungis launþegar jafnsettir og ef þeir hefðu haldið sínum 8 verðbótavísitölustigum. heldur verða áhrifin af þessu öllu naumast engin til að stuðla að minnkun verðbólgunnar.

Við skulum gera ráð fyrir að stuðningsmenn ríkisstj. trúi á aðgerðirnar til að vega upp á móti 8 vísitölustigunum. En þá geta þeir ekki trúað á lækningamátt þessara aðgerða á verðbólguna, enda sagði einn stuðningsmanna ríkisstj. við 1. umr. um frv. í Nd., að frv. tryggði a.m.k. 40%, verðbólgu á næsta ári. Það er því kaldhæðnislegt, að til þess að frv. þetta, ef að lögum verður, hafi tilætluð áhrif til lækkunar á verðbólgunni þarf ríkisstj. að svíkja þau loforð sem launþegum eru gefin. Og þá erum við komin að kjarna þessa máls.

Frv. það, sem hér er til umr., er loddaraleikur ríkisstjórnar sem er stefnulaus og sjálfri sér sundurþykk. Tilburðir hennar til lausnar aðsteðjandi vandamálum verða ekki annað en vanskapnaður sem ætlað er að halda saman stríðandi stjórnarflokkum, sem þó er vonlaust verk.

Þar sem þetta frv. er allsendis ófullnægjandi til að mæta vandanum nú 1. des., ræður af líkum að það hefur ekki mikla þýðingu til þess að koma fram varanlegum breytingum til bóta í efnahagsmálunum, svo sem hæstv. forsrh. talaði um í ræðu sinni áðan. En víkjum nokkru nánar að því máli.

Ef vel ætti að vera þyrfti að hefja það mál á þeim tíma þegar hæstv. forsrh. lagði gjörva hönd á plóginn í ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar í viðureigninni við verðbólguna. Það væri ánægjulegt að minnast hvernig þá miðaði í rétta átt í viðureigninni við verðbólguna þar til efnahagsaðgerðirnar í febrúar s.l. voru brotnar niður af misvitrum svokölluðum verkalýðsforingjum og með ólöglegum aðgerðum. Það væri ánægjulegt að minnast hæstv. forsrh. í sameiginlegri baráttu flokks hans og Sjálfstfl. við yfirborð, skrum og ábyrgðarleysi hinna svokölluðu verkalýðsflokka til að leysa verðbólgumálin. En þetta verður að bíða betri tíma. Það verður að horfast í augu við vandamál dagsins í dag, þegar hæstv. forsrh. hefur kastað fyrir róða stefnu sinni til lausnar verðbólguvandanum og er nú týndur og tröllum gefinn.

Hæstv. forsrh. talar um að nú sé mikill vandi á höndum í efnahagsmálum. Ég hef enga tilhneigingu til að draga úr því. Þvert á móti er það forsenda þess, að úr verði bætt, að gera sér grein fyrir vanda þeim sem við stöndum frammi fyrir. Og það verður ekki ráðist gegn þeim vanda nema hafa heildarstefnu sem miðar að því að ráða bót á verðbólgu og jafnvægisleysi þjóðarbúsins. Sú heildarstefna hlýtur að vera fólgin í margháttuðum aðgerðum. Þessar aðgerðir felast annars vegar í skammtímaráðstöfunum og hins vegar í langtímaráðstöfunum. Skammtímaráðstafanirnar eru ekki nema til að afstýra aðsteðjandi vanda og gefa svigrúm til frekari aðgerða. Langtímaráðstafanirnar lúta að þeim frumorsökum verðbólgunnar sem stjórnvöld hafa á valdi sínu að ráða bót á. Langtímaráðstafanir miða að því að ráðast að rótum vandans. Þær miða að kerfisbreytingu til að fjarlægja það sem vandanum veldur. En samt sem áður verður að vera samband milli þess, sem gert er tímabundið, og þess, sem varanlegra á að vera. Skammtímaráðstafanir verða því að vera liður í langtímaráðstöfunum. en til þess að svo megi verða þarf heildarstefna að vera til staðar. Ef það er ekki verða skammtímaráðstafanir ekki annað en kák, fálm út í loftið sem engan vanda leysir, en kallar óðar en varir á nýjar bráðabirgðaaðgerðir meðan stöðugt sígur á ógæfuhliðina.

Ríkisstj. hefur nú setið þrjá mánuði og við höfum nú fengið annan skammtinn af skammtímaráðstöfunum hennar. Fyrst var það 1. sept., nú er það 1. des. og næst verður það 1. mars.

Fyrsta aðgerð ríkisstj. var gengislækkunin í byrjun sept. s.l. Þegar gengislækkanir hafa verið gerðar hefur verið leitast við að gera svonefndar hliðarráðstafanir svo að gengislækkanirnar næðu þeim tilgangi sem bæta stöðu útflutningsatvinnuveganna og viðskiptastöðu landsins út á við. Þetta hefur verið gert með því að hafa hemil á kaupgjaldi, jafnframt því að sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar til að bæta hinum lægst launuðu það, og lögð hefur verið áhersla á greiðsluhallalausan ríkisbúskap til þess að koma í veg fyrir að með gengislækkun væri tjaldað til einnar nætur. Annað mál er það, að þetta hefur ekki alltaf tekist sem skyldi. Samt sem áður held ég að flestir viðurkenni með sjálfum sér að slíkar ráðstafanir þurfi að gera til að gengislækkun nái tilgangi sínum. En hvað sem öllu líður, þá er mest um vert að stefnt sé í rétta átt og öll viðleitni beinist að því að ná réttu marki, þótt leiðin kunni að reynast torsótt.

En núv. hæstv. ríkisstj. kastaði fram af sér beislinu og anaði í þveröfuga átt. Um leið og gengið var lækkað hækkaði hún kaupið nema hjá hinum lægst launuðu og efndi til stófellds greiðsluhalla á ríkisfjármálunum. Ég hygg að slíkar ráðstafanir fyrirfinnist hvergi í raunveruleikanum sem stjórnarstefna, en séu gott skóladæmi um verðbólguaukandi aðgerðir.

Þetta voru fyrstu spor hæstv. ríkisstj. í viðureigninni við verðbólguna. Nógir voru erfiðleikarnir fyrir en ríkisstj. byrjaði með því að auka stórum vandann og síðan átti að taka til við að leysa hann. Samfara þessu brá ríkisstj. á leik með kaupgjaldsvísitöluna, svo sem kunnugt er. Stundum hefur verið talað um fölsun vísitölunnar, en allt slíkt tal bliknar í samanburði við það sem nú gerðist. Verð á sumum vörutegundum var lækkað með niðurgreiðslum úr ríkissjóði og afnámi söluskatts. Þessi verðlækkun var látin koma á vörutegundir sem vega þungt í vísitölugrundvellinum og hafa jafnvel lítt verið til á markaðnum. Jafnframt var svo vörugjald hækkað á öðrum vörutegundum, svo sem vörum sem hingað til hafa þótt hinar mestu nauðsynjar fyrir heilbrigði og menningu þjóðarinnar. Ríkisstj. beit svo höfuðið af skömminni með því að ætla að afsaka launalækkun hinna lægst launuðu með þessum hráskinnaleik með vísitöluna.

En lengi býr að fyrstu gerð, enda er það, sem nú er að ske, meira og minna afleiðing þess sem gert var í byrjun september. Sést það best á því, hve verðhækkun varð nú miklu meiri en þá var gert ráð fyrir að yrði. Og áfram er haldið á sömu leið. Það sýnir frv. það sem hér er til umr. Það er hvorki til þess fallið að firra aðsteðjandi vanda nú 1. des. né er það í nokkrum tengslum við langtímaráðstafanir er miða að því að vega að rótum verðbólguvandans. Í stað þess gerir þetta frv. ráð fyrir auknum ríkisumsvifum og auknum ríkisafskiptum. Það þarf í stað þess að ráðast til atlögu við þann höfuðverðbólguvald sem þensla ríkisbáknsins er. Slíkar skammtímaráðstafanir er að mínu viti ekki raunhæft að tala um nema með því að ganga hreint til verks og lækka framlög ríkisins til allra málaflokka jafnt um ákveðið hlutfall, bæði rekstrarliði og framkvæmdaliði. Jafnframt því sem með þessu væri vandi ríkissjóðs leystur í bráð mundi þetta færa þjóðinni heim sanninn um það, að ríkisstj., hver sem hún væri, væri alvara í baráttunni gegn verðbólgunni. En í kjölfar slíkra og fleiri skammtímaráðstafana þarf að fylgja stefnumótun og framkvæmd langtímaaðgerða til gagngerrar kerfisbreytingar í ríkisbúskapnum í þeim tilgangi að minnka ríkisumsvifin, minnka ríkisreksturinn, fækka þeim verkefnum sem ríkinu eru fengin í hendur og jafnframt bæta þann rekstur og þjónustu sem ríkið á að hafa með höndum. En ríkisstj. sýnir enga tilburði í þessa átt.

Skammtímaráðstafanir ríkisstj. eru marklausar sem aðgerð til að ráða bót á verðbólguvandanum, hvort heldur það er gengislækkunin í haust, brbl. um kjaramál, fjárlagafrv. eða frv. það sem hér er til umr., en öll þessi mál liggja nú samtímis og óafgreidd fyrir Alþingi.

Rekst þar hvert á annars horn, sem sýnir best ráðleysi og stefnuleysi hæstv. ríkisstj.

Ríkisstj. hefur ekki getað mótað neina heildarstefnu í efnahagsmálunum og virðist engu nær því nú en þegar hún tók við völdum, nema síður sé. Eftir því sem lengra líður og meira aðkallandi hlýtur að vera að einhverri heildarstefnu sé fylgt verður augljósara, að stjórnarflokkarnir eru þess ekki umkomnir að móta neina raunhæfa stefnu til að mæta þeim vanda sem við er að fást.

Hæstv. forsrh. hefur látið þau orð falla, að nú eigi menn að láta sér nægja hin smáu skref í aðgerðunum gegn verðbólguvandanum. Það er grundvallarmisskilningur, að einhverjar smáskammtalækningar komi að haldi í viðureigninni við það ferlíki sem verðbólgan er nú orðin. Nú duga engar aðgerðir sem bera svipmót af því, að við stefndum að því að koma verðbólgunni — við skulum segja úr 10% niður í 7–8%. Það er auðvitað alveg gagnslaust að taka þannig á þeim vanda sem nú er við að glíma. Við erum ekki svo vel á vegi stödd að það dugi að miða ráðstafanir við það að lækka dýrtíðina um 2–3%. Við lífum í verðbólgu sem nú hefur náð 50%, og þegar svo er komið verður að beita miklu markvissari og stórtækari aðferðum en ef við byggjum við verðbólgu sem næmi um 10%.

Eitt af því, sem er grundvöllur þess að árangur náist í baráttunni gegn verðbólgunni, er að almenningur í landinu hafi þá skoðun, að raunverulega sé verið að gera eitthvað umtalsvert. Það verður ekki unnið á verðbólgunni nema með samstilltu átaki þjóðarinnar í heild. En til þess þarf forustu. Og núv. ríkisstj., sem er sjálfri sér sundurþykk, er ekki fær um að veita þá forustu. Það verður sögulegt hlutverk Sjálfstfl. að veita þá forustu.