29.11.1978
Efri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur óskað eftir þessum umr. um efnahagsfrv. ríkisstj. Við höfum nú hlýtt á Þorvald Garðar Kristjánsson, helsta talsmann Sjálfstfl. hér í Ed., gera grein fyrir afstöðu flokksins til frv. Og hver er svo afstaða Sjálfstfl.? Er hann samþykkur þessum aðgerðum eða er hann andvígur þeim?

Mörgum vefst líklega tunga um tönn að svara þessari spurningu eftir að hafa hlýtt á Þorvald Garðar Kristjánsson. En svarið er að hann er hvorugt. Flokkurinn er hvorki með né á móti. Nær allir þm. flokksins í Nd. sátu hjá við afgreiðslu málsins. Og það sem meira er, ekki einn einasti þm. Sjálfstfl, hefur séð sóma sinn í því að flytja brtt. við frv. eða aðra sjálfstæða till. hér á Alþ. um aðgerðir gegn verðbólguvandanum. Þeir hamast nógu ákaft gegn ríkisstj. og hneggja hátt í ræðu og riti, en taka þó enga afstöðu til málsins, ekki frekar en stóðhross á fjöllum. hvorki með né á móti.

Þetta eru þó mennirnir sem bera fulla ábyrgð á því, hvernig komið er í íslenskum efnahagsmálum, því enginn getur neitað því, að núverandi ástand í efnahagsmálum er arfur frá fyrri stjórn. Þegar hægri stjórnin fór frá völdum voru hjól atvinnulífsins að stöðvast um land allt. Frystihúsin höfðu ákveðið að hætta rekstri um sinn og almennt atvinnuleysi var yfirvofandi í flestum landshlutum. Frystiiðnaðurinn var gerður út á Verðjöfnunarsjóð sem síðan tæmdist í júlíbyrjun, fáeinum dögum eftir kosningar. Einkennileg tilviljun það, — eða hitt þó heldur. Skútan hélst á floti rétt fram yfir kosningar. Síðan maraði hún í hálfu kafi.

Annað var eftir þessu. Flest stærstu þjónustufyrirtæki ríkisins í algerum þrotum: Rafmagnsveitur ríkisins, Póstur og sími, ríkisspítalarnir. Ekkert þessara fyrirtækja vantaði minna en milljarð í kassann til að endar næðu saman þegar hægri stjórnin fór frá. Og verðbólgan í algeru hámarki, rúmlega 50%.

Þannig var viðskilnaður fráfarandi stjórnar, og þess vegna erti aukaskattarnir, sem á voru lagðir í haust, almennt kallaðir viðskilnaðarskattar.

Þegar arfur fráfarandi stjórnar berst í tal vantar ekki að talsmenn Sjálfstfl. setji upp englasvip. Þetta er ekki okkur að kenna, segja þeir. Þetta er allt verkalýðshreyfingunni að kenna. Það er baráttan gegn febrúarlögunum sem komið hefur öllu á annan endann. Það eru aðgerðir launafólks, útflutningsbann og ólöglegar aðgerðir sem eiga sök á þessum vanda. — Skyldu ekki flestir hafa heyrt þennan málflutning sem endalaust er þulinn í áróðri Sjálfstfl. seinustu mánuði, stundum kryddaður með hæfilegu nöldri um Guðmund J. og aðra verkalýðsforustumenn Alþb.?

Hvað er nú hæft í þessu? Jú, fram á seinasta dag fyrri stjórnar voru þau lög og tilskipanir í fullu gildi sem stjórnin hafði sjálf sett, m.a. um kjaramál og verðlagsmál. Verkalýðshreyfingunni tókst ekki á s.l. vetri að brjóta niður kaupránslögin frá því í febrúar, eins og reyndar Þorvaldur Garðar Kristjánsson fullyrti áðan. Ríkisstj. hafði öruggan þingmeirihl. allan s.l. vetur og fullkomna aðstöðu til að móta þá stefnu og taka þær ákvarðanir sem hún vildi, allt þar til hún féll í kosningum á miðju sumri. Ríkisstj. gat því engum öðrum kennt um en sjálfri sér að allt var komið í kaldakol þegar hún fór frá. Hún einblíndi á launakjörin og sá engin önnur úrræði en lækka laun hins vinnandi manns. Íhaldsúrræði hennar urðu til einskis og henni mistókst með öllu að tryggja rekstur atvinnuveganna og vinna bug á verðbólgunni. Þess vegna fór hún frá, og söknuðu hennar fáir.

Við Alþb.-menn gerum okkur fullkomlega grein fyrir því, að ekki er minnsta von til þess, að unnt verði að brjótast út úr efnahagsöngþveiti líðandi stundar í einu vetfangi. Undirstraumur 50% verðbólgu, sem hvarvetna gerir vart við sig í þáttum efnahagslífsins, er áfram mjög þungur, og enginn lætur sér til hugar koma að hann verði stöðvaður með fáeinum pennastrikum. Þar er tregðulögmál að verki.

Efnahagsaðgerðir ríkisstj., sem hún verður fyrst um sinn að grípa til aftur og aftur á fárra mánaða fresti, stefna að því marki að ná niður verðbólgunni í nokkrum áföngum, úr 50% verðbólgustigi og niður undir 30% í lok næsta árs.

Nokkrir þm. Alþfl., sem hvað harðast börðust gegn því að mynduð yrði vinstri stjórn, hafa hamast gegn aðgerðum ríkisstj. í ræðu og riti og kallað þær bráðabirgðaúrræði, sem lítinn vanda leysi. Þetta kemur engum á óvart. Málflutningur þessara manna hefur löngum verið nokkuð samhljóða áróðri sjálfstæðismanna. En hver eru þeirra úrræði? Hvað hefðu þeir vil ja að gert yrði í staðinn fyrir aðgerðir ríkisstj.?

Áróður þessara manna gengur einfaldlega út á það, að verðbótavísitölu eigi að taka úr sambandi og í mesta lagi eigi að leyfa 3–4% launahækkun á hverju þriggja mánaða tímabili, jafnvel þótt almennar verðhækkanir nemi 10–12%. Þeir vilja sem sagt lögbjóða sjálfvirka kjaraskerðingu, sem mundi lækka launin hlutfallslega um 5–6% , jafnvel 8%, á hverju þriggja mánaða tímabili, eða í hvert sinn sem vísitala væri reiknað út. Um nokkurt skeið tókst þessum mönnum jafnvel að gera þessar fráleitu hugmyndir að tillögum Alþfl. Eftir að þeim var hafnað láta þeir öllum illum látum. Einn þeirra segir jafnvel af sér forsetastörfum, sem koma þó stjórnarstefnunni ekkert við og hann var kjörinn til að gegna á þessu þingi alveg óháð því hvaða ríkisstj. yrði við völd. Slíkur er ákafinn að koma fram stórfelldri kjaraskerðingu sem fyrst og fremst hefði bitnað á lágtekjumönnum og fólki með meðaltekjur.

Hvaða trygging er svo fyrir því, að 15–20% kjaraskerðing sé það lausnarorð sem öllu mundi breyta. Í fyrstu skýrslu vísitölunefndar, sem dreift hefur verið á borð þm., má á bls. 76 finna spá Þjóðhagsstofnunar um áhrif efnahagsaðgerða nú í nóvemberlok á verðlag og kaupgjald t. mars n.k. Í þessari spá er áætlað að verði 7% launahækkun nú um næstu mánaðamót, þ.e.a.s. 1% meira en áformað er skv. aðgerðum ríkisstj., muni launahækkanir hinn 1. mars n.k. að öðru óbreyttu og með óbreyttu vísitölukerfi nema 8.5%. Sé hins vegar launahækkunin nú ákveðin aðeins 3% er launahækkunin 1. mars n.k. talin verða tæp 8%. Munurinn á 7% og 3% launahækkun um næstu mánaðamót veldur sem sagt engum teljandi mun á launahækkunum þegar 1. mars rennur upp. Munurinn þá, miðað við þessar ólíku forsendur, verður aðeins 0.6%.

Ekki vil ég þreyta hlustendur með miklum talnalestri, en þessar tölur ættu að sýna mönnum svart á hvítu hversu óralangt er frá því, að unnt sé að ná skjótum árangri í viðureigninni við verðbólguna með því einu að banna eða takmarka verðbætur á laun. Jafnvel þótt engin minnsta launahækkun ætti sér stað 1. des. n.k. er samt sem áður fyrirsjáanlegt að framfærsluvísitala mundi hækka a.m.k. um 6–7% 1. mars n.k. og síðan aftur um a.m.k. 5% í júní á næsta ári. Þá væri orðin um 25% kjaraskerðing í landinu á hálfu ári og þolinmæði launafólks áreiðanlega löngu þrotin.

Þeir þm. Alþfl., sem reyna að slá sig til riddara á kostnað samstarfsflokka sinna með yfirborðslegum orðavaðli um varanlega lausn í viðureigninni við verðbólguna, vita það sjálfir fullvel, að lausnarorð þeirra, botnlaus kjaraskerðing á fáum mánuðum er gaspur út í loftið sem aðeins gerir illt verra. Vandamálin eru þess eðlis, að þau verða ekki leyst með neinum töfrabrögðum og enn síður með styrjöld við verkalýðshreyfinguna.

Holskeflur verðbólgunnar ganga yfir íslenskt efnahagslíf með jöfnu millibili, og þeim verður að mæta með úrræðum sem auðvitað má kalla bráðabirgðaúrræði ef menn vilja, þ.e.a.s. endurtekin óhjákvæmileg úrræði sem auðvelda okkur hægt og þétt og í mörgum áföngum að komast á sléttari sjó. Þetta er eina leiðin út úr vandanum og hana verður að fara í fullkomnu samráði við fjölmennustu stéttasamtök landsmanna.

Fyrstu aðgerðir ríkisstj., daginn sem hún kom til valda, hafa þegar gert mikið gagn. Nú um þessi mánaðamót er önnur lotan, þegar mæta þarf 14% hækkun verðbótavísitölu með aðgerðum sem takmarka launahækkanir við 6% án þess að byrðin sé einhliða lögð á fólk með lágar tekjur. Hluta vandans er mætt með auknum niðurgreiðslum sem kostaðar eru með sköttum á háar tekjur og miklar eignir. Að hluta er vandanum mætt með lækkun skatta af almennum launatekjum og að hluta með margvíslegum félagslegum úrbótum.

Í kjölfar þessara aðgerða fylgja ráðstafanir í fjárfestingarmálum með hóflegum samdrætti í framkvæmdum, bæði einkaaðila og hins opinbera, og með skipulagsbreytingum sem miða að heildarstjórn fjárfestingarmála.

Fjórða viðfangsefni ríkisstj. í efnahagsmálum á næstu mánuðum verða vísitölumálin, endurskoðun verðbótavísitölu. Enginn skyldi þó halda að útlit sé fyrir samkomulag um vísitölukerfi sem feli í sér sjálfkrafa kjaraskerðingu á þriggja mánaða fresti. Það er kominn tími til að menn vakni upp frá slíkum draumum og geri sér ljóst að þvílík áform eru óráðshjal. Hitt er allt annað mál, að verbótum á laun má auðvitað haga með ýmsum hætti. Með skynsamlegra kerfi er vel hugsanlegt að hægt sé að komast hjá því, að sveiflur á vöruverði erlendis magnist upp fyrir áhrif vísitölukerfisins og verði margfalt stærri hér á landi en í nálægum löndum af völdum víxlverkana í íslensku efnahagskerfi. Að sjálfsögðu er það rökleysa, að mikill meiri hl. landsmanna fái stórfellda launahækkun ef innflutt olía hækkar verulega í verði á erlendum mörkuðum. Hins vegar verður þá að taka með í reikninginn, að erlendar verðhækkanir ná oftast bæði til innflutnings og útflutnings. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í vísitölunefnd hafa lýst sig reiðubúna til að athuga nánar um breytingar á verðbótavísitölu m.a. í þessa átt. En ég legg á það áherslu, að breytingar á vísitöluviðmiðun launa, sem gerðar eru í andstöðu við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar, geta engum tilgangi þjónað öðrum en þeim að sprengja samstarf stjórnarflokkanna og eyðileggja þann árangur sem þegar hefur náðst í efnahagsmálum á síðustu mánuðum.

Talsmenn Sjálfstfl. halda því óspart fram, að efnahagsaðgerðir ríkisstj. feli í sér hliðstæða kjaraskerðingu og áformuð var á s.l. vetri. Vel kann að vera að þeir blekki sauðtryggustu fylgismenn sína með slíku tali. Öðrum dylst áreiðanlega ekki að þessar aðgerðir eru gjörólíkar. Febrúarlögin alræmdu voru hins vegar nauðalík þeim tillögum sem Alþfl. lagði fram og Alþb. hafnaði í seinustu viku, að því leyti til, að í febrúarlögunum var einnig sjálfvirk kjaraskerðing innbyggð í verðbótavísitölu.

Viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar hafa jafnframt orðið með gjörólíkum hætti. í ályktun 13. þings Landssambands vörubifreiðastjóra, sem þingaði um síðustu helgi, var beinlínis lýst yfir stuðningi við fyrirhugaðar efnahagsráðstafanir ríkisstj. um leið og lögð var á það áhersla, að félagsleg réttindamál, sem tengjast þessum ráðstöfunum, yrðu lögfest á næstu vikum. Sambandsstjórn Verkamannasambands Íslands hélt einnig fund um síðustu helgi og lýsti beinlínis yfir stuðningi við efnahagsráðstafanir ríkisstj. og bauð fram liðsinni Verkamannasambandsins til að árangur megi nást í baráttunni við verðbólguna. Á báðum þessum fundum var það viðurkennt, að úrbætur í skattamálum og félagsmálum gætu og ættu að koma í staðinn fyrir fulla krónutöluhækkun launa, eins og nú stæðu sakir. Verkalýðshreyfingin hefur reynslu fyrir því, að ýmis mikilsverð réttindamál fást alls ekki fram nema í samstarfi við vinsamlega ríkisstj.

Hér skulu nefnd nokkur mál sem ákvörðun verður tekin um á næstu vikum í samráði við stéttasamtök alþýðu.

Lögum um uppsagnarfrest verkafólks og launaða slysa- og veikindadaga hefur ekki verið breytt síðan þau voru sett í tíð vinstri stjórnar veturinn 1958. Verkalýðshreyfingin metur það mjög mikils, að verulegar endurbætur fáist á þessum lögum.

Lög um hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eru langt á eftir tímanum og brýn þörf á miklum fjárveitingum til að verja menn gegn heilsutjóni eða slysum á vinnustað.

Jafnrétti allra kvenna til fæðingarorlofs er mál sem búið er að þvælast fyrir stjórnvöldum óafgreitt um árabil. Núverandi skipan þessara mála er að sliga Atvinnuleysistryggingasjóð, svo að sjóðurinn er engan veginn fær um að gegna hlutverki sínu ef á reynir. Það er mikið hagsmunamál fyrir verkalýðshreyfinguna að koma þessu máli loksins á hreint, og þá er það ekki síður stórmál fyrir þær mörgu konur sem hingað til hafa ekki átt rétt til fæðingarorlofs, m.a. bændakonur.

Hvað almennt orlof snertir er einnig um talsverða mismunun að ræða. Vegna verðbólgunnar eru menn mjög misjafnlega settir eftir því hvort menn eru fastráðnir á mánaðarkaupi eða lausráðnir og fá orlofsfé. Orlofsfé er á lágum vöxtum og rýrnar verulega á fáum mánuðum, nema það sé ávaxtað með eðlilegum hætti. Þetta er einmitt eitt af mörgum hagsmunamálum verkalýðshreyfingarinnar sem nú fæst fram.

Eins er það stórkostlegt kjara- og réttindamál fyrir tugþúsundir manna, að bæði hjóna geti unnið utan heimilis, a.m.k. að hluta til, og börnin geti átt athvarf í leikskóla hluta úr degi. Nú hefur verið ákveðið í tengslum við þessar aðgerðir, að tvöfalda framlag ríkisins á næsta ári til byggingar dagvistarstofnana.

Efling fræðslustarfs á vegum samtaka launafólks er eitt af mörgu sem gengið hefur allt of hægt og á því sviði erum við nú langt á eftir nálægum þjóðum. En einnig í þessu máli er nú lag sem ber að nota.

Réttindamál opinberra starfsmanna verða sérstaklega tekin til athugunar, bæði atvinnuleysistryggingamál og húsnæðismál, og sama gildir einnig um málefni leigjenda, lífeyrismál almennt svo og framkvæmd á forfallaþjónustu í þágu bænda.

Auk þessa tel ég afar mikilvægt að tekjutrygging aldraðra og öryrkja verður nú hækkuð meira en nemur almennri launahækkun eða um 9%.

Ég vil einnig skýra hér frá því, að ákveðið hefur verið að aldraðir og öryrkjar, sem búa einir í íbúð og njóta fullrar tekjutryggingar, fái ókeypis afnot af síma að því marki sem fastagjald gerir ráð fyrir. Þessi hlunnindi ná að vísu ekki til aldraðra og öryrkja almennt, heldur einungis til þeirra sem búa einir í íbúð og eru verst settir fjárhagslega, þ.e.a.s. lifa á fullri tekjutryggingu. Þetta er mikilvægt öryggismál sem sennilega snertir 3000–4000 manns.

Öll þessi félagslegu réttindamál verða nánar útfærð á næstu vikum í samráði við heildarsamtök launamanna, sjómanna og bænda.

Ég er sannfærður um að yfirgnæfandi meiri hl. fólksins í landinu hefur fullan skilning á aðgerðum ríkisstj. og viðurkennir, að lífskjörin mótast ekki einungis af krónutölu útborgaðra launa, heldur engu síður af samneyslu fólksins og félagslegum réttindum. Á hinn bóginn grunar mig einnig að fólk hafi hæfilega samúð með hinum ólánssömu þm. Sjálfstfl. sem vita varla sitt rjúkandi ráð í þessum umr., nýbúnir að sigla þjóðarskútunni í strand og geta nú engan veginn gert upp við sig í hvorn fótinn þeir eiga að stíga og hvort þeir ætla að vera með eða á móti þessum aðgerðum ríkisstj. Eða skyldi vera til sá maður utan þings sem biður um forustu Geirs Hallgrímssonar og Sjálfstfl. til lausnar á aðsteðjandi vanda? Ef hann er einhvers staðar til nefnir hann það tæpast upphátt.

Fólkið í landinu hefur almennt öðlast von um að þessari nýju vinstri stjórn takist þrátt fyrir allt að sigla skútunni milli skers og báru og andæfa hægt og þétt út á lygnari sjó. Það finnur að verkalýðshreyfingin stendur með þessari stjórn og lítur óhýru auga á endurteknar tilraunir hægri aflanna til að sprengja það samstarf í loft upp. Aðgerðir þessa frv. eru aðeins liður í margþættum ráðstöfunum, eins og ég hef þegar rakið. Vissulega þarf meira til ef verulegur árangur á að nást. Stórfelldar umbætur í skattamálum og árangursrík herferð til að tryggja skil á sköttum, ásamt verulegum samdrætti í yfirbyggingu og eyðslukerfi þjóðfélagsins, eru lykilatriði í viðfangsefnum þessarar stjórnar. Raunverulegar kerfisbreytingar verða að fylgja í kjölfarið. Þá fyrst er þess að vænta að veruleg umskipti verði.

Ég þakka þeim sem hlýddu.