29.11.1978
Efri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Með sanni má segja að viðburðarríkir dagar séu nú á Alþingi Íslendinga. Lagt var fram frv. um 8% kauprán, svo notað sé það fleyga orð, og milljónatuga skattaálögur á þegnana eru boðaðar beint og óbeint. Deildarforseti, elsti og reyndasti þm. Alþfl., segir af sér forsetastörfum m.a. með þessum orðum. „Ég harma að stundarhagir flokka séu af flokksforingjum bornir meir fyrir brjósti en alþjóðarheill. Ég vil ekki vera sameiningartákn slíks leiks og slíkra vinnubragða“. Og foringi yngstu mannanna í Alþýðuflokknum tætir frv. ríkisstj. niður lið fyrir lið, en greiðir því síðan atkv, sitt, og svo er um fleiri eins og hlustendur hafa heyrt hér í kvöld.

Alþb.-menn skamma utanrrh. ríkisstj. sinnar blóðugum skömmum og hann svarar fullum hálsi, svo að samstarfsmönnunum megi ljóst vera að það er hann sem valdið hefur og geti á eindæmi sitt beðið Bandaríkjamenn að þyrma Suðurnesjamönnum þótt ný lög þeirra kveði á um fækkun manna í opinberri þjónustu. Minnir það raunar nokkuð á þegar önnur vinstri stjórn nældi sér í gjafapeninga úr sérstökum öryggissjóði Bandaríkjanna.

Og forsrh., höfuð stjórnarinnar, tekur hvern þm. stjórnarflokkanna af öðrum á kné sér og lemur óvægilega á milli þess sem hann bregður sér í ham landsföður og bendir mönnum af visku sinni á að stökkva ekki yfir læk sem sé svo breiður að maður nái ekki yfir á bakkann hinum megin.

En enginn er nú verri þótt hann vökni, stendur einhvers staðar. Hitt getur verið skaðsamlegra, að ætla í mörgum stökkum yfir hyldjúpa gjá, jafnvel botnlausa, en það er sú íþrótt sem nú skal stunda undir stjórn landsföðurins. Fyrsta tilhlaup var eins og kunnugt er tekið 1. sept. Nú reyna stjórnarherrarnir á ný að hefja sig til flugs. Því næst á að stökkva 1. mars og síðan á 3 mánaða fresti. Þó er boðað að þau stökkin megi verða öllu styttri en hin fyrri, kannske svona 4–6 stig hvert. Samt gerir enginn ráð fyrir að verðbólgan verði á næsta ári minni en 30–40%,.

Þetta er hryggileg mynd, en því miður sönn. Samstarfsmenn í ríkisstj. reyna hver að niðurlægja annan. Hver sem sjá vill hlýtur að sjá þau óhugnanlegu hjaðningarvíg sem vegin eru um þessar mundir, þar sem málefni víkja fyrir hatri og hefndarþorsta. Þegar þannig er umhorfs í okkar litla þjóðfélagi er eðlilegt að ugg setji að mönnum. Ég er ekki boðberi þess, við erum það ekki sjálfstæðismenn, að á úlfúðinni sé alið. Þvert á móti er nú tímabært að menn leitist við að slíðra sverðin og reyni sameiginlega að bjarga því á næstu mánuðum og missirum sem bjargað verður.

Við sjálfstæðismenn töldum sjálfsagt og eðlilegt að ný ríkisstj. fengi svigrúm til að gera grein fyrir stefnu sinni og áformum. Við verðum því ekki sakaðir um óheiðarlega stjórnarandstöðu eða tilraunir til að torvelda stjórnarstörf. Hitt er svo annað mál, að væntanlega hefur nú runnið upp fyrir landslýð, hverjir það eru, sem úrræði hafa haft, og hverjir hinir úrræðalausu eru. Vík ég að því nokkrum orðum.

Um það verður ekki deilt, að upphaf óðaverðbólgunnar er að rekja til vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar á árunum 1971–1974, en þegar sú stjórn hrökklaðist frá hafði verðbólgan náð 54%. Þótt við ramman reip væri að draga tókst stjórn Geirs Hallgrímssonar að lækka verðbólguna um helming, en með sólstöðusamningunum 1977 voru knúðar fram kauphækkanir, sem sýnt var að efnahagslífið gat ekki undir staðið. Ríkisstj. stakk þó við fótum, fyrst með aðgerðum í des. á s.l. ári, þá með febrúarlögunum svonefndu og raunar ýmsum aðgerðum öðrum. Fyrrv. stjórnarandstöðuflokkar brutu þessar aðgerðir illu heilli á bak aftur og unnu mikla kosningasigra undir kjörorðinu: „samningana í gildi“. Ef rétt kjörin ríkisstj. hefði ráðið og lög Alþingis verið virt væru kjör manna nú betri en þau eru, verðbólgudraugurinn væri á undanhaldi og tugmilljarða álögur á landslýðinn hefðu aldrei séð dagsins ljós. Þetta eru staðreyndir sem fram hjá verður ekki gengið og blasa raunar við hverju mannsbarni.

Auðvitað má segja að ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar hafi á síðasta starfsári sínu mistekist að kljást við verðbólguna, þótt réttara væri að segja að henni hafi ekki tekist að halda í skefjum þeim óheillaöflum sem vísvitandi unnu að því að grafa undan efnahag landsins og lýðræðislegum stjórnarháttum.

En hvað sem um þetta verður sagt, þá var síðasta ríkisstj. merk fyrir margra hluta sakir. Stærstu sigrar í landhelgismálum voru unnir undir ótrauðri forustu Sjálfstfl., og enn er stefnt fram í hafréttarmálunum. Stefna Sjálfstfl. í öryggis- og varnarmálum sigraði svo rækilega að við stjórnarmyndun nú var því beinlínis lýst yfir, að utanríkisstefnan yrði óbreytt, gagnstætt því sem áður hefur verið þegar vinstri stjórnir hafa verið myndaðar. Þetta verður aldrei talinn lítill árangur. Gagnmerka löggjöf skildi þessi ríkisstj. eftir. Merk skattalög voru samþ. á s.l. vori, sem nú er raunar verið að eyðileggja. Löggjöf um verðlagsmál og samkeppnishömlur var einnig afgreidd, en þar er gert ráð fyrir að svipaður háttur verði á verðlagningu hér á landi og í öðrum lýðfrjálsum löndum og leysi af hólmi það fáránlega verðlagningakerfi, sem við höfum í áratugi búið við og meir hefur skaðað þjóðina en flest annað. Gildistöku þessara laga hefur að vísu verið frestað, en þau þeir ekki felld úr gildi. Og samhliða er boðað að ganga enn lengra á braut verðlagsvitleysunnar en verið hefur.

Hin merkustu hlutafélagalög voru samþ. með 60–70 brtt. frá þingnefndum Alþingis. Þar er að finna ákvæði sem gjörbreyta munu aðild almennings að hlutafélagarekstri og stórefla íslenskt atvinnulíf ef rétt er að staðið. Stóru hlutafélögin verða þá opin almenningshlutafélög og réttur hluthafanna til áhrifa og eðlilegrar arðtöku tryggður kannske betur en í nokkru þjóðríki öðru.

Sjálfstæðismenn hafa haft forustu um gjörbyltingu í fjármálakerfi landbúnaðarins, þannig að bændur sjálfir fái til umráða þá fjármuni sem þeim eru ætlaðir, og sjálfstæðismenn hafa bent á nauðsyn sparnaðar í fjármálakerfinu og einföldunar á því bákni, því kerfi sem allt er að sliga.

Síðast, en ekki síst er rétt að minna á það, að í marga áratugi hefur þeirri kröfu verið haldið á lofti, að kjör láglaunastétta yrðu bætt án þess að allir aðrir fylgdu í kjölfarið. Þetta hefur aldrei tekist fyrr en á liðnu vori. Og hverjum tókst það? Geir Hallgrímssyni og ríkisstj, hans. Allir vita svo hverjum tókst að brjóta réttlætið á bak aftur í þessu efni.

Þegar litið er á þá fáu málaflokka, sem hér hefur verið á drepið, sést að víða var vel unnið til að tryggja hagsmuni landsins út á við og auka lýðfrelsi og réttlæti inn á við. Það var því sannarlega góður grunnur til að byggja á ef landsmenn hefðu verið svo gæfusamir að fá trausta og heiðarlega ríkisstj. í stað þess óskapnaðar sem Íslendingar nú því miður sjá framan í og m.a. hefur verið lýst hér í kvöld af þm. Alþfl.

En víkjum þá nokkrum orðum að þessari nýju andstæðu heilbrigðs lýðræðislegs stjórnarfars. Hún birtist einmitt í máli því sem hér er nú til umr. Ríkisstj. þóttist ætla að hafa náið samráð við aðila vinnumarkaðarins, eins og það var nefnt, og hefur sjálfsagt ætlað að sýna fram á með þeim hætti, að hún væri sérstök stjórn fólksins. Á fundum fjh.- og viðskn. hefur verið upplýst, að þetta loforð var svo til alfarið svikið eins og annað. Hins vegar er ljóst að náið samstarf hefur verið á milli forustu Framsfl. og áhrifamestu aflanna í kommúnistaflokknum, því að stefnan er mörkuð eftir kennslubókum í sósíalisma, kommúnisma og stefið er þetta, rauði þráðurinn þessi: Fjármunina burt frá fólkinu, burt frá einstaklingunum. Lægri laun, meiri ríkisafskipti, meiri svokallaðar félagslegar umbætur og yfirstjórn sjálfkjörinnar forustu lítillar klíku í launþegasamtökum í nánu samstarfi við vinstri sinnaða ríkisstj. — Og stjórn Verkamannasambandsins lýsir því yfir, að hún vilji veita ríkisstj. starfsfrið til að svipta fólkið fjárráðum og færa féð til opinberra og hálfopinberra stofnana sem að sjálfsögðu eiga að vera á valdi svokallaðra vinstri afla. Og valdinn ber að þjappa saman, taka það frá fólkinu og færa til foringjanna. Sósíalismi skal það vera, líklega seigdrepandi sósíalismi.

Kannske er það þetta sem forsrh. átti við þegar hann ræddi um lækinn sinn og sagði að verið gæti að við yrðum á næstunni að láta okkur nægja hin smáu skrefin. En skrefin held ég að séu nú nokkuð stór. Við erum á hraðri leið til sósíalisma og til versnandi lífskjara. Þessu til viðbótar á svo að skattleggja atvinnureksturinn, m.a. með veltusköflum, til þess að honum reynist enn torveldra að greiða sæmileg laun, þetta auðvitað vilji sérhver vinnuveitandi fremur greiða starfsfólki sínu góð laun en stórfé í hítina — eða þá þau 2% sem forsrh. hér skýrði frá að atvinnurekendur ættu að bera vegna skertra verðlagsákvæða.

Og loks á svo að taka endanlega úr sambandi öll lögmál frjáls markaðsbúskapar með enn verri og vitlausari miðstýringu fjármálakerfisins en við höfum nokkru sinni áður kynnst og með því að herða enn verðlagningarákvæði, þannig að útséð sé um að heilbrigð verslun geti þróast og innkaup verði því sem allra óhagstæðust.

Þetta er í stórum dráttum sú mynd sem við blasir ef umbúðunum er svipt af: Kauprán og óðaverðbólga. Stórfelldir fjármagnsflutningar frá fólkinu og atvinnuvegunum yfir til ríkisins og hálfopinberra sósíalískra stofnana sem upp eiga að rísa eins og gorkúlur. Valdið frá fólkinu, fjárráð þess minni, vér skipuleggjum.

„Það var útbreiðslufundur við eldinn niðri,“ segir Davíð. Já, þeir hafa verið margir fundirnir niðri við eldinn að undanförnu. Boðskapurinn hefur nú verið birtur.

„Og boðskapur þessi var borinn þjóðum

af blíðum sveinum og hjartagóðum,

en vafinn alls konar veiðitáli,

vífilengjum og rósamáli.“

En þessu ástandi, sem ég var að drepa hér á, lýsir raunar annar maður miklu kröftuglegri orðum en ég. Formaður þingflokks Alþfl. segir í sumar um tillögur Alþb. við stjórnarmyndun, þær till., sem nú er verið að framkvæma, og afleiðingar þeirra, orðrétt, með leyfi forseta:

„Innan skamms yrði allur atvinnurekstur landsmanna kominn á ríkisjötuna. Honum væri haldið gangandi með styrkjum og uppbótum af almannafé sem pólitísk ráð og kommissaríöt ráðstöfuðu. Menn geta gert sér í hugarlund þá pólitísku og fjármálalegu spillingu sem fylgdi í kjölfarið þegar búið væri að tuttugufalda kommissarastéttina, sem gengi með skattpeninga almennings í öðrum rassvasanum og flokksfélagatalið í hinum og stokkaði svo hvort tveggja rækilega saman í spilaborg burðarása atvinnulífsins. Aðeins eitt ríki vestan járntjalds hefur horfið að þessu uppbótakerfi kommissariata á undanförnum árum, Kúba.“

Og hann heldur áfram: „Máltækið „lík börn leika best“ á við um efnahagsmál eins og annað. Kúbumenn komust fljótt á snoðir um hversu erfitt var að halda uppi viðskiptum við vestræn lönd, sem byggðu á allt öðrum lögmálum efnahagslífs, og á aðeins þrem árum neyddust Kúbumenn til að snúa sér með viðskipti sín til þeirra landa sem við svipuð efnahagskerfi bjuggu, austantjaldslandanna.“

Þetta voru ekki mín orð, heldur orð formanns þingflokks Alþfl., eins aðilans að ríkisstjórnarbandalaginu. En hvað er þá til ráða? Eru allir úrræðalausir? Svo dökkleitt er nú ástandið sem betur fer ekki. Við vitum að ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar var vel á veg komin í glímu við verðbólgu og hafði gert margháttaðar ráðstafanir á sviði löggjafarmála til að treysta grundvöll hagsældarþjóðfélags frjálsra einstaklinga. Sjálfsagt má fara svipað að og hún gerði, þótt ég neiti því ekki, að ég telji heppilegra að reyna að taka ærlegt tilhlaup og stökkva yfir lækinn, svo að enn sé notuð samlíking hæstv. forsrh. Ég held að það séu engin algild hagfræðilögmál sem segja að 50% verðbólgu þurfi endilega að kveða niður í mörgum áföngum. né heldur hafa verið færð að því rök, að sársaukameira væri að stökkva yfir gjána.

Auðvitað þyrfti góðan undirbúning ef svipaður uppskurður yrði framkvæmdur og gert var árið 1960 með þeim ágætum að sjöundi áratugurinn var mesta blómaskeið í íslenskum efnahagsmálum. þrátt fyrir margháttaða erfiðleika sem utan að steðjuðu, enda tókst þá að halda bæði framsókn og kommum utan stjórnar á annan áratug og er það kannske helsta skýringin á því, hve vel var gert þá í okkar stjórnmálum. En á áttunda áratugnum hefur verið uggvænlegasta verðbólguskeið sem um getur.

Eins og að líkum lætur hefur á vegum Sjálfstfl. á undanförnum mánuðum verið unnið að ítarlegri stefnumörkun í efnahagsmálum. og strax við stjórnarmyndunarviðræðurnar í sumar kunngerði forusta Sjálfstfl. leiðtogum annarra flokka ýmis atriði í þessari stefnumörkun sem auðvitað gengur þvert á aðgerða- og úrræðaleysi núv. stjórnarflokka.

Miklar umr. hafa að vonum farið fram um vaxtamál í sambandi við efnahagsvandann og talað hefur verið um raunvexti. Mér hefur fundist þessi umr. að vissu leyti raunaleg, einmitt vegna þess að hún hefur tíðum byggst á tví- eða þrístökkskenningum hæstv. forsrh. Ólafs Jóhannessonar sem áður voru nefndar. Ég held að við verðum að horfast í augu við það, að fjármálakerfið er hrunið og verðtryggingu fjárskuldbindinga verður að taka upp, því að um vexti geturekki verið að ræða meðan fjármunir þeir, sem menn eiga í lánastofnunum, minnka. Það stríðir meira að segja gegn máltilfinningu, hvað þá réttri hugsun.

Ég hef bent á það strax á liðnu sumri, hve fáránlegt væri að útflutningsatvinnuvegir endurgreiddu ekki lánsfé það, sem þeir fá til rekstrar, í þeirri sömu mynt sem þeir selja vöruna í, þ.e.a.s. erlendri mynt. Þeir væru þá sama sem að selja hvern fiskkassa þegar hann væri kominn inn í geymsluna. En þótt þeir gerðu þetta, fengju gengistryggða peninga, þyrfti ekki að taka erlend lán þeim til handa, því að leyfa ætti Íslendingum að leggja fé sitt inn á gengisreikninga, þannig að þeir yrðu til ráðstöfunar fyrir atvinnuvegina. Að sjálfsögðu yrði samtímis að breyta skammtímaskuldum í löng lán ef verðtrygging fjárskuldbindinga yrði almenn. En því miður er samt hætt við að þetta eitt sér kæmi ekki að tilætluðum notum og mundi lítt stoða þegar efnahagsstefna að öðru leyti er í brotum — og raunar flest gert öfugt við það sem gera ætti, eins og t.d. að þrengja að versluninni og hækka þannig vöruverð í stað að heimila innflutningsversluninni að taka erlend vörukaupalán, á eigin ábyrgð að sjálfsögðu, og jafnframt að veita einhvern gjaldfrest á tollum, afnema ákvæði um prósentuálagningu og koma á raunverulegri samkeppni þar sem vöruframboð væri mikið og verslunaraðilar yrðu að selja.

Ljóst er af þeim fáu dráttum, sem hér hafa verið dregnir upp, að skörp skil eru á milli efnahagsstefnu Sjálfstfl. annars vegar og Framsfl. og kommúnista hins vegar, en á milli þeirra virðist hnífurinn ekki ganga um þessar mundir. Ekki er á mínu færi að leggja dóm á efnahagsstefnu Alþfl. Þeir segjast, Alþfl.-menn, fylgja allt annarri stefnu en þeir greiða atkv. með og standa að framkvæmd á. Vonandi segja þeir satt, þótt þeir geri nú rangt, því að svo sannarlega veitir ekki af að sem allra flestir geri sér rétta grein fyrir vandanum og þeim viðbrögðum sem nauðsynleg eru.

Já, það eru skörp skil í íslenskum stjórnmálum og þau hljóta enn að skerpast innan tíðar. Það eru miklir erfiðleikar fram undan og rétt að hver og einn, hvar í flokki sem hann stendur, búi sig undir þá. Sjálfstfl. mun að sjálfsögðu ekkert það aðhafast sem aukið getur á vandann, en stjórnarandstaðan hlýtur að harðna þegar ljóst er orðið að ríkisstj. stígur hvert óheillaskrefið af öðru og eykur með hverri aðgerðinni af annarri á rangsleitni og ofstjórnaræði.

En við Íslendingar byggjum bæði besta og fegursta land í heimi. Við eigum ótæmandi auðsuppsprettur og manndómur er enn þá til. Þess vegna er öll svartsýni, vol og víl ástæðulaust. Svo er það hitt, að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Kannske verður ólánsferill núv. ríkisstj. til þess að meiri hl. landsmanna, e.t.v. mikill meiri hl., geri sér grein fyrir því, að gjörbreyta verður um stefnu og starfshætti á stjórnarheimilinu. Þá hefur stjórnin ekki til einskis setið. Þá mun sjálfstæðisstefnan ná að ríkja, stefna frelsis og framfara.