30.11.1978
Efri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að sjá hv. 5. þm. Reykv. hér í deildinni í dag. Hv. 5. þm. Reykv. hefur ekki sést mikið á fundum þessarar deildar. Það er vissulega athyglisvert, að það skuli vera hennar fyrsta verk að fara að skipta sér af störfum deildarinnar á þann hátt sem hún gerir. Það rifjar upp fyrir manni nafngift sem hv. samflokksmaður þessa þm. hafði af öðru tilefni gefið 5. þm. Reykv., sem alþjóð er kunnugt og birtist í ágætri grein í Morgunblaðinu.

Af hálfu okkar Alþb.-manna vil ég að það komi hér skýrt fram, að við treystum hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni mjög vel til að stýra fundum þessarar deildar á meðan aðrar ákvarðanir hafa ekki verið teknar.

Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson hefur sýnt það í störfum sínum hér í þessari deild og reyndar áður fyrr einnig, að hann er traustur og hollur þingræðissinni og rækir forsetaskyldur sínar mjög vel og samkv. allri sanngirni. Við höfum ekkert um störf hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar að kvarta. Forsetastörf hans þurfa ekki á neinn hátt að standa í vegi fyrir eðlilegum störfum þingsins.

Sú ræða, sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir flutti hér áðan, stafar e.t.v. af innanflokksátökum í Sjálfstfl. sem hún er að koma á framværi hér á þennan hátt undir því yfirskini að vera að gera aths. við störf deildarinnar. Deildin hefur forseta, meira að segja tvo forseta. Fyrsti forseti deildarinnar nú er Þorv. Garðar Kristjánsson, og við berum fullt traust til þess að hann geti stýrt fundum deildarinnar þar til annað verður ákveðið.