30.11.1978
Efri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því að á dagskrá þessa fundar er frv. um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu sem fyrir liggur sérstök beiðni frá ríkisstj. um að verði afgreitt í dag. Ég vil því lýsa undrun minni á því, að hv. 3. landsk. þm., Ólafur Ragnar Grímsson, skuli koma upp í þennan ræðustól með dylgjur og rætnislegar aths. út af réttmætri og eðlilegri fsp. hv. 5. þm. Reykv., Ragnhildar Helgadóttur, og vil m.a. minna á í því sambandi, að störf þessarar d. hafa orðið fyrir verulegum truflunum vegna þessa forsetamáls. Þannig voru engir fundir haldnir um dagskrármál á venjulegum fundartíma deildarinnar s.l. mánudag og s.l. miðvikudag af þessum ástæðum og því fullkomlega eðlilegt að á eftir því sé rekið, að þetta mál verði afgreitt svo sem þingsköp mæla fyrir um.

Ef hv. stuðningsmenn þessarar ríkisstj. eru þess sinnis nú að hefja almennar stjórnmálaumr. af þessu tilefni, ef við eigum að fara að hefja deilur um það nú, hvort samkomulagið sé betra eða verra á þessum bæ eða hinum. þá skal ég lýsa því yfir strax, að ég er reiðubúinn til þess að taka þátt í þeim umr. af fullum krafti í umræðum utan dagskrár.