30.11.1978
Efri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja eins og er, að mér þótti fsp. hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur ekki óeðlileg. Það var tæpast hægt að búast við því, að hún hefði af því ljósar spurnir hvað gerst hefði innan stjórnarflokkanna í þessu máli.

Ég tek undir það hól sem hv, þm. Ólafur Ragnar Grímsson bar á hv, þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, settan forseta deildarinnar. Við, sem vorum í stjórnarandstöðu síðasta kjörtímabil, höfðum sérstaklega góða reynslu af forsetastörfum hans. Hann sýndi það í hvívetna í raun, að hann skildi starfsreglur þingræðisins, kom fram af hlutlægni, mikilli kurteisi og sýndi í hvívetna mikla verkstjórnarkunnáttu hér í deildinni. Svo sem kunnugt er, og þarf ekki um það að orðlengja, er starf þessa háttsetta embættismanns, aðalforseta Ed., í þágu Alþingis, en ekki ríkisstj.

Það er að vísu gert ráð fyrir því í þingsköpum. ef forseti forfallast eða segir af sér, að annar sé kjörinn í hans stað. En það er ekki sagt að það eigi að gera strax. Um þessi mál þarf að fjalla og þau þarf að íhuga. Það er ávallt gott að gefa sér tíma til umhugsunar ef menn ætla sér að komast að réttri niðurstöðu. Svo sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason gat um áðan, stendur þetta mál fyrst og fremst upp á Alþfl. vegna hefðar um tilhögun þessara mála í samsteypustjórnum. Það er Alþfl. sem hér missti mann fyrir börð. Hann hefur ekki enn þá kallað „maður fyrir börð“. Við skulum ætla að það verði gert, og ég efast ekkert um að þetta mál verður til lykta leitt á eðlilegan hátt.

Það er að vísu ekki alveg rétt, sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason gaf í skyn, að deildin hljóti að samþykkja afsögn forseta. Hún hlýtur náttúrlega að vega og meta hans rök, og það mál hlýtur að koma til umr, hér í deildinni. En það er engin ástæða til að ætla að þetta mál verði ekki leitt til lykta á eðlilegan hátt. Ég er sannfærður um að deildin er mjög vel starfhæf enda þótt það dragist fram á mánudag, eins og forseti hefur boðað, og vænti þess, að ákvörðun hv. þm., hæstv. forseta Braga Sigurjónssonar, muni ekki torvelda störf deildarinnar í vetur.