30.11.1978
Efri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir eindregnum stuðningi við túlkun hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar á því, hvernig með þetta mál eigi að fara. Mér var reyndar fullkunnugt um áður að hann mundi fara með málið á þennan hátt í fullu samræmi við þau þingsköp sem gildandi eru. Það var m.a. í krafti þess sem ég lýsti furðu minni á málflutningi hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur. Ég hélt að hún hefði aflað sér upplýsinga um það, hvernig hæstv. forseti mundi fara með þetta mál.

Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, að störf deildarinnar hafi tafist að einhverju leyti vegna þessa. Það hefur verið felld niður dagskrá í framhaldi af þessu á einum fundi. Síðan hefur ekki verið nema einn fundur í deildinni, og það hefur verið venja þér á þingi, að þann dag, sem útvarpsumr. eru úr þingstofnun, þá sé ekki annar almennur fundur í þeirri þingstofnun og svo var hér í gær. Það voru útvarpsumr. í Ed., og þá er venja hér í þinginu að ekki séu almenn þingstörf þann dag. Ég held því að þdm. geti á engan hátt kvartað yfir því, að þetta hafi tafið störf deildarinnar.

Vegna ummæla hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur um þingsköp vil ég nú mælast til þess, fyrst hún er svona önnum kafin við mikil ferðalög til útlanda vegna skyldustarfa sinna, að hún rifji þá upp í þeim ferðalögum þann texta sem í þingsköpum er, svo að það þurfi ekki aftur að koma til túlkunarmismunar á milli hennar og hæstv. forseta, Þorv. Garðars Kristjánssonar, sem er fyllilega og í alla staði rétt.

En það kann að vera að ástæðan fyrir því, að við hér í Ed. erum svona rólegir í málinu, sé sú, að hv. þm. þessarar deildar, sem nú sitja sem stuðningsmenn ríkisstj., hafi haft aðra reynslu af forsetastörfum í þessari deild en hv. þm. Nd. höfðu á síðasta kjörtímabili af forsetastörfum í þeirri deild.