30.11.1978
Neðri deild: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

70. mál, veðdeild Búnaðarbanka Íslands

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Með bréfi, sem er dags. 12. maí 1976, skipaði þáv. landbrh. nefnd til að endurskoða lög nr. 45 frá 16. maí 1971. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, III. kafla, laga nr. 115 frá 7. nóv. 1941, um veðdeild Búnaðarbankans, og lög nr. 68 frá 30. apríl 1973, um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Í nefndinni áttu sæti Stefán Pálsson framkvæmdastjóri Stofnlánadeildin landbúnaðarins, sem var jafnframt formaður nefndarinnar, Jón Helgason alþm., Pálmi Jónsson alþm., Helgi F. Seljan alþm.. Friðjón Þórðarson alþm., Eiríkur Guðnason deildarstjóri hjá Seðlabanka Íslands og Stefán Valgeirsson alþm. Nefndin skilaði af sér með bréfi til landbrh. 28. febr. 1978, þar sem gerð var grein fyrir frv. um breyt. á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins ásamt grg. Hluti af þeim breytingum gekk fram á síðasta Alþingi sem lög. Þá samdi nefndin síðar frv. að lögum fyrir veðdeild Búnaðarbanka Íslands ásamt grg.

Þetta frv. er sem sagt það frv. sem þessi nefnd sendi landbrh. Hæstv. núv. landbrh. skrifaði landbn. Nd. bréf og óskaði eftir því, að nefndin flytti frv. Var það samþ., en allir nm. áskilja sér þó rétt til að standa að breytingum á frv.

Með frv. þessu er gert ráð fyrir að III. kafli laga nr. 115 frá 7. nóv. 1941, um veðdeild Búnaðarbanka Íslands, falli niður. Gert er ráð fyrir að heimildir veðdeildarinnar til útlána verði óbreyttar, en frv. felur í sér breytingar á tekjustofnum deildarinnar auk þess sem felld eru niður ákvæði sem ekki hafa þýðingu lengur, heldur snerta sögulegan aðdraganda deildarinnar.

Fjárhag veðdeildar var svo komið í árslok 1977, að hann var öfugur höfuðstóll sem nam um 29 millj. kr. Miðað við núverandi skuldbindingar deildarinnar og óbreytta tekjustofna hefur verið áætlað að í árslok 1985 yrði tapið komið í 361 millj., en þá hafa óhagstæðustu lán veðdeildar verið greidd upp og frekari halli ekki fyrirsjáanlegur. Þessu til viðbótar hefur verið áætlað að greiðsluhalli deildarinnar vegna lánstímamunar tekinna og veittra lána yrði tæplega 300 millj. kr. á næstu 8 árum.

Í 2. gr. frv., sem felur í sér meginbreytinguna frá núgildandi lögum. er lagt til að rekstrarhallinn verði borinn af ríkissjóði og Stofnlánadeild landbúnaðarins, en hins vegar er gert ráð fyrir að Búnaðarbankinn brúi lánstímamuninn með lánum til veðdeildarinnar. Í fjárlögum eru veðdeildinni ætlaðar 11.4 millj. og hefur sú upphæð staðið í stað s.l. þrjú ár. Í frv. er lagt til að ríkissjóður leggi fram 25 millj. kr. árlega, sem yrði svipað að verðgildi og þegar núv. fjárveiting var síðast hækkuð. Ljóst er að veðdeildin mun ekki hafa neitt fjármagn til nýrra útlána, enda er gert ráð fyrir í tillögum um breytingu á lögum. sem nú eru orðnar lög um Stofnlánadeild landbúnaðarins, að jarðakaupalánin verði framvegis veitt úr Stofnlánadeild, eftir að þau lög náðu gildi. Er gert ráð fyrir að fyrsta lánveitingin verði nú í næsta mánuði.

Aðrar greinar þurfa ekki skýringa við. Efnislega eru þær svipaðar og þær sem eru í núgildandi lögum.

Í sambandi við þetta mál má geta þess, að síðan þessir útreikningar voru gerðir hafa t.d. varðandi þau lán, sem veðdeildin hefur tekið á undanförnum árum, orðið meiri breytingar á vísitöluákvæðum. Gengislán, sem hvíla á deildinni, eru um 50 millj., og önnur lán hafa hækkað um 3% miðað við það sem var þegar þetta frv. og þessi grg. var samin.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að ræða þessi mál frekar, en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og landbn.