30.11.1978
Neðri deild: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

70. mál, veðdeild Búnaðarbanka Íslands

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. fram yfir það sem hv. frsm. gat um. Þetta er frv. til l. um veðdeild Búnaðarbanka Íslands og flutt af landbn. Nd.

Lengi voru í gildi lög nr. 115 frá 1941 um Búnaðarbanka Íslands. Þau voru felld úr gildi með lögum sem samþ. voru á Alþ. 6. maí 1976 — nema III. kafli laganna, sem fjallaði um veðdeild bankans. Þá eru, eins og frsm. gat um, í gildi ný lög um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Það er því full þörf á flutningi þessa frv. sem leysir nú af hólmi III. kalla hinna gömlu laga frá 1941, eins og ég gat um.

Það er rétt hjá hv. frsm., að meginbreytingarnar á þessum lögum felast í 1. og 2. grm, sem ég ætla ekki að skýra nánar, en hinar greinarnar, þ.e.a.s. 3.– 18. gr., fjalla nánast um almennar reglur um veðdeild, sem þurfa og verða að vera í lögum, en eru aðeins endurskoðaðar með tilliti til breyttra tíma og færðar til nútímamáls, ef svo má segja. Þá eru í frv. ýmsar skýringar á heimildum veðdeildarinnar og skilyrði fyrir lánveitingum.

Ég held að ég þurfi naumast að segja um þetta fleiri orð, en vil lýsa fyllsta stuðningi mínum við þetta frv. og minna á, að það er nauðsynlegt og raunar alveg óhjákvæmilegt að það nái fram að ganga.