30.11.1978
Neðri deild: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

70. mál, veðdeild Búnaðarbanka Íslands

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Um mál það, sem hér liggur fyrir, hef ég engu við það að bæta sem hv. frsm. og aðrir hafa sagt. Þetta er fylgifrv. frv. til l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins sem varð að lögum á síðasta þingi. Eðlilegt þótti hins vegar að landbn. flytti þetta frv.

Út af ummælum síðasta hv. ræðumanns vil ég taka það fram, að ég hef að sjálfsögðu ekkert við það að athuga að grundvöllur málsins verði skoðaður að nýju, því að nokkuð er liðið síðan málið var undirbúið af þeirri nefnd sem frá því gekk.

Varðandi fsp. hans um jarðakaupalánin vil ég segja þetta: Eins og ég hygg að ég hafi upplýst hér, þegar þetta var rætt áður, tókst að útvega lánsfé frá Framkvæmdastofnun ríkisins til þessa lánaflokks. Það fjármagn er allt gengistryggt. Aldrei hefur tíðkast og þykir ófært að lána til jarðakaupa gengistryggt fé. Því gekkst stjórn Stofnlánadeildarinnar fyrir samkomulagi við Lífeyrissjóð bænda um lán til viðbótar þessu fjármagni, 50 millj, kr., sem er með venjulegum fasteignalánavöxtum. Jafnframt, eftir að hafa rætt það mál í ríkisstj., hét ég Stofnlánadeild landbúnaðarins því að gangast fyrir að styrkur yrði veittur til þessa lánaflokks á næsta ári, 50 millj, kr. Ég mun eftir helgina leggja fram frv. til l. um endurskoðun á ráðstöfun á styrkjum til jarðræktar, þannig að þar verði opnað nokkru meira en nú er og m.a. heimilað að ráðstafa slíku fé að einhverju leyti til þess að tryggja tekjur bænda í þeim erfiðleikum sem fram undan eru á þessu sviði. Mér er ljóst, að fyrst og fremst eru það frumbýlingar sem eiga í erfiðleikum. Það kemur glöggt fram í athugun, sem farið hefur fram á lausaskuldum bænda. Mér sýnist því að allvel athuguðu máli eðlilegt að einmitt þessi þáttur landbúnaðarstarfseminnar, ef ég má nefna það svo, verði að einhverju leyti styrktur. En um þetta mun að sjálfsögðu verða ítarlegar rætt þegar það frv, kemur hér fram.

Ég hef síðan fengið frá Stofnlánadeild landbúnaðarins tillögur um lánakjör á þeim grundvelli, að 120 millj. — hygg ég — verði gengistryggt fé, 50 millj. fjármagn frá Lífeyrissjóði bænda með fasteignalánavöxtum og 50 millj. styrkur sem komi á næsta ári. Þetta hefur verið lagt fram í ríkisstj. Óskað var eftir því, að þessi lánaflokkur yrði framreiknaður þannig að menn sæju hvernig þetta mundi þróast miðað við þau lánakjör sem Stofnlánadeildin leggur til. Þá reikninga hef ég ekki fengið í hendurnar, en geri ráð fyrir að málið verði afgreitt á ríkisstjórnarfundi n.k. þriðjudag.