30.11.1978
Neðri deild: 25. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst gera aths. við það sem fram kom hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni þegar hann greindi frá þeim fyrirvörum sem tveir hv. flm. hafa við flutning þessa máls. Hv. þm. Eiður Guðnason hefur fyrirvara um þrjá mánuði og sex, — hann vill halda sig við að biðlaunin verði aldrei lengur en í þrjá mánuði, — en hv. 11. landsk. þm. hefur aftur á móti fyrirvara um ákvæði um afturvirkni. Ég hygg að ég fari rétt með þessi atriði eftir því sem fram kom í þfkn.

Hjá báðum hv. þm., sem síðast töluðu, kemur fram grundvallarmisskilningur eða vanþekking á því, hvað biðlaun eru í raun og veru. Biðlaun eru ekki kaup. Biðlaun eru til þess greidd, að mönnum gefist kostur á því að fá sér aðra vinnu til þess að framfleyta sér og sínum á. hefla er eðli biðlauna. Og ég vil aðeins spyrja þá að því, hvort þeir hafi kynnt sér hvernig þessum málum er háttað almennt hjá launþegum þessarar þjóðar og einnig kynnt sér hvað barátta verkalýðshreyfingarinnar almennt snýst um í þessu sambandi.

Það er talað um og þess getið, að hér sé enn á ný háð hetjuleg kjarabarátta þm. Ég bendi þá á það, að fyrir skemmstu var hún háð með þeim hætti að ætla að afhenda öll völd frá Alþ. til embættismanna í þessu skyni, sem hefði augljóslega — útreiknuð í lágmarki — hækkað kjör þm. um 65 þús. kr. á mánuði. En hér er einvörðungu verið af hálfu hins háa Alþingis að aðlaga sig þeim aðstæðum sem eru í þjóðfélaginu og embættismenn og starfsmenn ríkisins njóta í þessu efni og sjálfsagt að alþm. njóti einnig.

Það er talað um að ástæðulaust sé að gera upp á milli þm., hafa það misjafnt eftir starfsárafjölda hvort menn njóta þriggja eða sex mánaða biðlauna. Það er auðskilið eins og málið er hugsað, að þarna hlýtur að mega skilja á milli, þótt ekki sé beinlínis hægt að benda á hvar séu sanngjörnust greinaskilin. Auðvitað er sá þm., sem hefur setið t. a. m. 20 ár á Alþ., við skulum segja frá fertugu til sextugs, í engu álíka fær um að útvega sér aðra vinnu og sá ungi maður sem aðeins hefur setið í fjögur ár, frá fertugu til 44 ára aldurs, enda ekki glatað sambandi sinn við fyrra starf sitt eða starfsgrein í eins miklum mæli og ætla mætti að hinn mundi gera. Að sjálfsögðu er þetta svo, enda geta menn rannsakað það sjálfir, að á þessu er gerður munur og hefur verið gerður frá upphafi eftir starfsárafjölda. Við erum ekki að uppgötva neitt nýtt hérna. Hér erum við að færa okkur til þess horfs sem hefur almennt gilt og telja má sjálfsögð mannréttindi.

En að því er varðar enn fremur afturvirkni þessara laga vil ég geta þess, sem flestum hv. þm. hlýtur að vera kunnugt um að afturvirkni í kjarasamningum er mjög algeng, og einnig þegar samið hefur verið um kjarabætur, sem lög hafa lotið að, þá eru þess mýmörg dæmi. Þegar svo aftur á móti að því kemur að það á að rukka peninga af fólki með lögum, þá má miskunnarlaust beita afturvirkni, en ef slíkt ætti kannske að bæta mönnum að einhverju leyti upp, eins og lagt er til með þessu móti, þá á það að vera bannað. Menn verða að hafa eitthvert samræmi í málflutningi sínum að þessu leyti. Álögur voru lagðar á þjóðina nú nýverið með afturvirkni brbl. En þegar hér á að sýna þm., sem hættu störfum eftir 20 eða jafnvel fleiri ára starfstíma hér, sanngirni með því að beita afturvirkni að þessu leyti, þá á það að vera óheimilt og óeðlilegt. Ég held að mótmæli gegn þessu stafi af vanþekkingu, nema það kunni að vera sú dæmalausa hræsni sem menn eru farnir að tíðka, að því er manni sýnist í von um atkv., að geta gert sig góða í augum kjósenda með þessu háttalagi. (Gripið fram í.) Svo er aftur á móti hægt að taka dæmi af þessu, sem er auðvitað út í bláinn. Við verðum einhvers staðar að taka ákvörðun um þetta. En betra er seint en aldrei. Eins og ég segi hefur oft og tíðum verið samið um afturvirkni í kjarasamningum þegar eitthvert kjaramál hefur náðst fram. En þau ákvæði hafa ekki endilega falið í sér, að það ætti að bæta kjör Jóns heitins Baldvinssonar, þó að hann hafi einhvern tíma verið forseti ASÍ. Svona dæmi, sem eiga að gilda sem einhver rök, eru auðvitað út í bláinn. En betra er seint en aldrei. Ég segi ekki að þeir þm., sem hættu 1959, 1949 eða 1937, hafi ekki átt þetta skilið. En við vorum ekki komnir lengra á veg í þessu þjóðfélagi í sanngirni okkar í launum og biðlaunagreiðslum en þessi dæmi sanna.

Það var nefnt hér og þess látið getið af hv. 7. þm. Reykv., en ekki gerði hann það samt að till. sinni, að þm. hefðu ekki átt að þiggja laun fyrr en þeir hófu starf hér 10. okt. Ég er þessu alveg andvígur. Það er þó áreiðanlega meiri sanngirni í því, að þeir tækju ekki laun fyrr, heldur en að skilja þá eftir biðlaunalausa sem hættu á þingi. En það er auðvitað ekkert vit í þessu. Ég tala nú ekki um að oftast nær fylgja stjórnarskipti nýjum kosningum. Og þá vitum við að allur fjöldi þm. og jafnvel allir eru í enn meira starfi en e.t.v. nokkru sinni fyrr eða síðar í sambandi við stjórnarmyndunartilraunir. Ég trúi ekki öðru en t.a.m. hv. 7. þm. Reykv. hafi haft eitthvert starf með höndum í sumar varðandi stjórnarmyndun, enda þótt þess sjáist ekki stað nú í stjórnarframkvæmdinni að vísu. En að hann hafi ekkert starf lagt af mörkum eða reynt að koma sínum málum að, því skal ég aldrei trúa, og fyrir það á hann auðvitað að fá greidd laun.

En þá kastaði tólfunum þegar hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson taldi að það væri helst hægt að hugsa sér biðlaun til þm. ef kjörtímabilið væri stytt úr fjórum árum, ef það yrði nú kosið eftir ár, þá væri þetta kannske eðlilegt. Þetta er alveg þveröfugt við allar mínar hugmyndir í þessu efni. Ef svo skyldi ske, að kjörtímabilið yrði aðeins eitt ár, þá er þetta það lítil röskun á högum manna varðandi fyrri störf eða tengsl þeirra við það sem þeir áður höfðu með höndum, að þeim mun minni ástæða er til þess að greiða biðlaun. Ég held að allt stafi þetta af því, að menn hafa ekkert velt því fyrir sér hvert eðli biðlauna er.

Þess var getið, að við lifðum á erfiðum tímum — það er nú ekki að vísu í fyrsta skipti — og þeir voru taldir viðkvæmir sérstaklega nú. En ég nenni ekki heldur að ansa slíku hræsnistali. Ef þetta er sanngjarnt og rétt, sem við nú erum að leggja til hér, þá er alltaf réttur tími til að framkvæma það.