04.12.1978
Efri deild: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

Kosning forseta deildarinnar í stað Braga Sigurjónssonar

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég skil það svo, að greidd verði hér atkv. um það, hvort kjósa skuli forseta deildarinnar. Ég tel eðlilegt að atkv. verði greidd um það með eðlilegum hætti og við nafnakall. Ég tel ekki að það sé í sjálfu sér neitt við það að athuga, að málið sé afgreitt með þeim hætti og að deildin taki afstöðu til þess, hvort hún veiti forseta sínum lausn með þessum hætti. Ég er einn hinna mörgu sem telja að forseta vorum hafi orðið á mikil mistök þegar hann blandaði saman forsetastörfum sínum annars vegar og hins vegar pólitískum atburði hér í þinginu. Ég tel að ef hann hefði óskað eftir því að leggja niður störf af einhverjum persónulegum ástæðum, þá hefði enginn þdm. haft neitt við það að athuga, en að fara að nota forsetastarf sitt í pólitískum tilgangi er frá mínu sjónarmiði séð misnotkun á trúnaðarstarfi og hlutur sem forseti deildar eða Sþ. má aldrei láta henda sig.

Ég tel að það sé vissulega erfitt að ætla að neyða nokkurn mann til að vera í forsetastól. Ég treysti mér því ekki til þess að greiða atkv. gegn því að ný kosning fari fram. En með hliðsjón af framansögðu tel ég eðlilegt fyrir mitt leyti að taka ekki þátt í atkvgr.