04.12.1978
Efri deild: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

Kosning forseta deildarinnar í stað Braga Sigurjónssonar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Grg. mín fyrir atkv. verður e.t.v. örlítið lengri vegna þeirra umr. sem fóru fram um þingsköp.

Þegar ég frétti það á skotspónum á mánudaginn fyrir viku, að hv. þm. Bragi Sigurjónsson ætlaði að segja af sér forsetaembætti hér í deildinni til þess að andmæla ríkisstjórnarstefnu í efnahagsmálum, þá vildi ég tæpast trúa því, að hann vildi tilgreina slík rök. Það var ætlan mín, að einhver hlyti að geta talið um fyrir honum. vegna þess að það var ljóst mál af hálfu hv. þm. deildarinnar að hann var hér kjörinn til starfa í þágu löggjafarvaldsins og engum kom til hugar að hér væri verið að kjósa annað en forseta deildarinnar og alls ekki neitt samstarfstákn Alþfl., Alþb. og Framsóknar. Og þótt með einhverjum hætti, svo sem verða má um hina bestu menn, hefði hlaupið í kökk hjá honum skilningur hans á tvíeinu hlutverki löggjafarvalds og framkvæmdavalds, e.t.v. með einhverjum óljósum þanka um 48. gr. stjórnarskrár þar sem kveðið er á um sjálfstæði þm. sem slíks, þá hlyti að vera hægt að koma því til leiðar að hann endurskoðaði afstöðu sína í þessu máli og hægt yrði að komast hjá því að minnka hann á nokkurn hátt í sambandi við afgreiðslu þessa máls og taka tillit til þess, að hann hefði tekið forsetakjör hér í deildinni af misskilningi. Þó fór það nú svo, að hann reis hér úr forsetastól og flutti persónulega yfirlýsingu varðandi afstöðu sína í stjórnmálum, — yfirlýsingu sem hefði átt að flytjast úr þeim ræðustóli er ég nú stend í, en eigi úr forsetastóli, þaðan sem stýra á störfum deildarinnar og kveða upp forsetaúrskurði.

Raunar er mér sæmst að játa það, að þar sem ég sá hann nú standa séð úr sæti mínu og bera hér við blakkan skjáinn með útsýnisklakkana sem hrönnuðust upp að baki hans og aðfarandi skammdegi, sem breiddi skikkju sína yfir gjörvilegar herðar og háls og hið hærumprýdda höfuð, þá fannst mér að hann hefði raunar átt að vera samstarfstákn þeirra stjórnarflokka sem hét því í kosningabaráttunni í sumar að reyna að leysa efnahagsvandræði þjóðarinnar á þann hátt, að ekki bitnaði æ á launafólki. Og svo kom rómurinn, og skýr og mildur og raunar til þess fallinn að mæla fram í hendingum þar sem hljómur orðanna er fremur til þess ætlaður að dýpka tilfinninguna, sem á bak við þau býr, heldur en til þess að orðin sjálf hafi skynsamlega merkingu. „Og þó er engin eftirsjá með þér,“ kvað skáldið. „Allt orðið hjóm sem var og það sem er. Af fótum rykið þurrkar þú og fer.“

Það er eins og Prédikarinn segir, svo maður vitni í hann enn einu sinni, að hvað eina hefur sinn tíma og hér er ekki tími til þess að þakka hv. þm. svo sem vert væri dýrlegan kveðskap hans. Hér gefst ekki heldur tími til þess að skilgreina þá pólitísku hugsun sem liggur á bak við hjá okkur báðum, því það að lofa, eins og við gerðum í sumar, hefur sinn tíma, og það að efna hefur sinn tíma og það að svíkja hefur sinn tíma og það að hefna hefur sinn tíma. En þar sem ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að forsetakjör hv. þm. Braga Sigurjónssonar í haust og það að hann skyldi taka því byggðist á misskilningi tvenns konar, bæði á stjórnskipunarlögum lýðveldisins og á hlutverki forseta, þá segi ég já.

Gengið var til forsetakosningar. Kosningu hlaut Þorvaldur Garðar Kristjánsson, 5. þm. Vestf., með 16 atkv., einn seðill var auður.