04.12.1978
Neðri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

99. mál, söluskattur

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Söluskattur mun fyrst hafa verið lagður á 1947, en það er ekki fyrr en hann er búinn að vera 28 ár í gildi að í einu skattumdæmi á landinu er lagður söluskattur á rekavið og vinnslu úr rekavið og þá 4 ár aftur í tímann, fyrir árin 1970 til 1974.

Með þessu frv. er lagt til að undanskilja söluskatti alfarið rekavið og vinnslu á rekavið, sem er unnin af eigendum eða rétthafa rekans, og enn fremur er lagt til í ákvæði til bráðabirgða, að fjmrh. sé heimilt að endurgreiða álagðan söluskatt árin 1975 til 1978, að báðum árum meðtöldum, á unnin rekavið til eiganda eða rétthafa rekans ef hann færir sönnur á að kaupandi hafi ekki greitt söluskatt.

Eins og fram kemur í grg. með þessu frv. er hér um að ræða vinnu sem unnin er við erfið skilyrði. Væri síst minni ástæða til þess að undanþiggja hana alfarið söluskatti en byggingarvinnu á byggingarstað eða aðra mannvirkjagerð. Sömuleiðis er ekki söluskattsskylda á seldu heyi eða öðru því sem bændur vinna og selja. Þess vegna er í samræmi við þetta að fella niður söluskatt af þessari vöru og vinnslu.

Skattumdæmi tekur sig til allt í einu, eftir að söluskattur hefur verið í gildi í 28 ár, og reiknar söluskatt af þessari framleiðslu og stenst það vafalaust lögum samkv. En þetta frv. er flutt til þess að taka af allan vafa og undanskilja þessa starfsemi söluskatti. Sífellt er minna unnið úr rekavið og af færri mönnum en áður. Er sjálfsagt að mínum dómi að undanþiggja þessa starfsemi söluskattskyldu og á þann hátt að nýta það efni, sem rekur á fjörur, og spara gjaldeyri fyrir þjóðfélagið. Því tel ég eðlilegt að þetta sé alfarið undanskilið söluskatti eins og það hefur verið í reynd með þessari einn undantekningu.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.