04.12.1978
Neðri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

92. mál, almannatryggingar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fram um breyt. á 1. nr. 67/1971, um almannatryggingar, og flutt er af meiri hl. hv. heilbr.- og trn. Nd., miðar að því að greiða ferðastyrki til psoriasissjúklinga, sem nauðsynlega þurfa að mati sérfræðinga að njóta loftslagsmeðferðar, sem komi í stað sjúkrahúsvistar.

Psoriasis- og exemsjúklingar eru fjölmargir hér á landi, eða milli 4 og 5 þús., en flestir þeirra eru þó haldnir sjúkdómnum á fremur lágu stigi. Samt sem áður er hluti þeirra, eða 60–70 manns, haldnir húðsjúkdómnum psoriasis á svo háu stigi að þeir þurfa á að halda stöðugri meðferð á sjúkrahúsi. Ekki er vitað af hverju þessi sjúkdómur stafar, og enn hefur ekki fundist nein varanleg lækning við honum, en venjulega þjáist fólk af þessum sjúkdómi allt sitt líf.

Fyrir psoriasissjúklinga hefur það reynst ótrúlega mikil lækning, bæði andlega og líkamlega, að breyta um loftslag, sérstaklega að njóta sólar og sjóbaða, og telja læknar það eitt af því besta sem hægt sé að gera fyrir þá, telja slíka ferð jafnvel betri en þá meðferð sem þeir hljóta á sjúkrahúsi. Þar þurfa þeir að gangast undir tjörumeðferð, sem er óþægileg aðgerð og gefur ekki eins varanlegan bata og ef þeir geta notið sólar og sjóbaða.

Þeir sjúklingar, sem eru með þennan sjúkdóm á háu stigi, standa mjög höllum fæti fjárhagslega, því að sjúkdómurinn veldur verulega skertri starfsorku. Gefur því auga leið að þeim er illmögulegt að fara í slíka lækningameðferð til sólarlanda nema fjárhagsleg aðstoð komi til. Á hinum Norðurlöndunum hefur aukist verulega skilningur á nauðsyn þess hjá hinu opinbera að greiða fyrir slíkum lækningaferðum psoriasissjúklinga og hafa verið samþ. lög þar að lútandi í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Sænsku og norsku psoriasissamtökin hafa einnig leigt stofnun sem annast meðferð slíkra sjúklinga. Nefnist stöð þessi Panorama og er í Puerto del Cammen, en þangað hafa verið ráðnir sænskir og norskir hjúkrunarfræðingar. Psoriasissamtök í öðrum löndum hafa einnig lagt mikið kapp á að koma sjúklingum sínum .í þennan stað og er nú verið að byggja við stöðina.

Bæði læknum og sjúklingum kemur saman um að best sé fyrir psoriasissjúklinga að njóta þessarar loftslagsmeðferðar að vetrarlagi, því að á þeim tíma herjar sjúkdómurinn mest á fórnarlömb sín, og fyrir psoriasissjúklinga á Íslandi ætti það ekki síður að vera nauðsyn þar sem okkar stuttu og sólarlitlu sumur gefa þessum sjúklingum lítil tækifæri á nauðsynlegri sólarmeðferð hér á landi.

Í sambandi psoriasis- og exemsjúklinga hér á landi eru 600 manns, en talið er að milli 60 og 70 þeirra séu haldnir þeim sjúkdómi á svo háu stigi að þeir þurfi að verareglulega í meðferð á húðsjúkdómadeild Landsspítalans. Þessir sjúklingar þurfa að dvelja þar 3–5 vikur í einu og sumir dvelja þar oftar en einu sinni á ári. Daggjald á sjúkrahúsi fyrir þessa sjúklinga er um 30–35 þús. kr. á dag. Má því ætla að hér sé ekki um minni kostnað vegna sjúkrahúsvistar þeirra að ræða en 70–100 millj. kr. á ári.

Samtök psoriasis- og exemsjúklinga hafa lengi barist fyrir því, að þessum sjúklingum yrði veittur ferðastyrkur til lækningaferða til sólarlanda, sem þá leiddi til þess að þeir þyrftu ekki að leggjast inn á sjúkrahús í meðferð.

Gert er ráð fyrir í þessu frv., að tryggingaráð setji nánari reglur um úthlutun styrkja, upphæð ferðastyrks og fjölda styrkþega, auk þess sem styrkirnir væru aðeins fyrir þá, sem annars þyrftu að leggjast inn á sjúkrahús, og samráð haft um það við húðsjúkdómalækna.

Leitað hefur verið álits og umsagnar Félags ísl. húðlækna á umræddri meðferð og mæla þeir eindregið með henni og telja ósennilegt að nokkur þyrfti að fara oftar en einu sinni á ári. Félag húðlækna hefur einnig staðfest, að hér sé aðeins um 60–70 manns að ræða sem árlega þyrftu að njóta þessarar fyrirgreiðslu, og bendir jafnframt á að sú meðferð, sem psoriasissjúklingar fá á sjúkrahúsi, komi ekki að sama gagni fyrir þá og dvöl í sólarlöndum. Auk þess benda þeir á að þetta mundi létta verulega á starfsemi húðlækningadeildarinnar og yrði þá mögulegt að taka inn sjúklinga með aðra húðsjúkdóma en psoriasis, en þeir hafa hingað til oft setið á hakanum. Ekki er ráð fyrir gert með þessu frv., að greiddur verði allur kostnaður sem af slíkri ferð leiddi, heldur yrði aðeins sú aðstoð veitt sem tryggði að sjúklingum þessum yrði gert kleift að fara slíka ferð, t.d. með því að greidd væru ca. 50% af ferðakostnaði, eða um 150 þús. kr. fyrir hvern sjúkling á ári á núgildandi verðlagi. Er þarna því um að ræða kostnað sem nemur um 10–11 millj. kr. ári, en eins og áður er getið er sjúkrahúsvist þessara sjúklinga margfalt dýrari. Hér yrði því um sparnað að ræða sem nemur tugum millj, á ári, auk þess sem loftslagsmeðferð hlýtur að hafa bæði andlega og líkamlega betri áhrif á psoriasissjúklinga en óþægileg mánaðarmeðferð á sjúkrahúsi.

Herra forseti. Eins og áður sagði stendur meiri hl. hv. heilbr.- og trn. Nd. að þessu frv. Hann væntir að því verði vel tekið af hv. þdm. og því verði síðan að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr og hv. heilbr.- og trn.